Tvær víddir 62. gr. stjórnarskrárinnar

Árni Daníelsson, 15. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Í 62. gr. stjórnarskrárinnar er að finna svokallaða kirkjuskipan landsins. Þar segir:

Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.

Fyrri liðurinn er óbreyttur frá 1874 og byggir á fyrirmynd úr dönsku stjórnarskránni frá 1849. Um miðja 19. öld var þetta frjálslynt og framsækið ákvæði sem greindi kirkjuna frá ríkinu og boðaði að þjóðin skyldi öðlast aukin áhrif í kirkjunni. Með þessu ákvæði tók því að örla á lýðræði í söfnuðunum.

Seinni liðurinn er viðbót frá 1914 sem ætlað var að gera kirkjuskipanina straumlínulagaðri. Ekki átti að þurfa þingrof, kosningar og staðfestingu nýs þings til að breyta kirkjuskipaninni eða fella hana úr gildi. Um 1920 var bætt við ákvæði sem nú er að finna í 79. gr. stjórnarskrárinnar og kveðið á um að yrðu slík lög sett skyldi bera þau undir þjóðaratkvæði.

Í 62 gr. stjórnarskrárinnar er ekki kveðið á um að íslenska ríkið sé lútherskt. Þvert á móti hurfu stjórnarskrárnar 1849 og 1874 frá slíku ákvæði enda mundi það ekki samræmast hugmyndum um nútímalegt lýðræðis- og fjölhyggjusamfélag.

Í 62. gr. stjórnarskrárinnar er heldur ekki kveðið á um að ríkisvaldið skuli styðja og vernda evangelíska kirkju vegna þess að hún er lúthersk. Það væri mismunun.
Í 62. gr. stjórnarkrárinnar er aðeins kveðið á um að ríkisvaldið skuli styðja og vernda lúthersku kirkjuna að „því leyti“ sem hún er þjóðkirkja, það er kirkja þjóðarinnar eða yfirgnæfandi meirihluta hennar.

Hér er með öðrum orðum sagt að ríkisvaldið skuli styðja og vernda þá kirkju sem meirihluti þjóðarinnar kýs að tilheyra. Þetta er jákvæð mismunun sem oftast er rökstudd með yfirburðastærð kirkjunnar, langri sögu hennar með þjóðinni og fjölþættum félags- og menningarlegum hlutverkum sem þessi stóra kirkja gegnir og önnur trúfélög hafa ekki gengið inn í í sama mæli og hún. Eitt af þeim hlutverkum er að þjóna öllum sem til þjóðkirkjunnar leita í gleði eða þraut, koma til móts við alla af virðingu, einlægni og kærleika, án þess að spyrja um kirkjuaðild eða trúarsannfæringu.

Á stjórnlagaþingi þarf að ræða framtíð 62. greinarinnar í óbreyttri eða breyttri mynd — eða niðurfellingu hennar. Þá þarf að hafa í huga að hún hefur tvær víddir: Önnur lýtur að trúarpólitík og lögformlegri stöðu evangelísk-lúthersku meirihlutakirkjunnar. Hin er aftur á móti huglægari og lýtur að þjóðgildunum.

Hugsanlega fer afstaða margra til framtíðar 62. gr. eftir því um hvora vídd hennar er að ræða. Greinina þarf því að brjóta til mergjar, umorða og hugsanlega flytja framar eða aftar eftir atvikum. Svo er stóra spurningin hvort markmiðum hennar á 21. öldinni verði betur náð með allt öðrum hætti. — Það bíður til annars pistils að svara henni.