Maka fjölmiðlar krókinn á stjórnlagaþingi?

Árni Daníelsson, 15. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Frambjóðendum til stjórnlagaþings barst á dögunum póstur ofan úr Hádegismóum, síðan hafa fleiri fylgt í kjölfarið. Markaðsfulltrúi Morgunblaðsins sendi fyrstur tilboð þar sem segir að blaðið muni „að venju“ veita frambjóðendum 40 % aflátt á öllum auglýsingum en kannanir sýni að með auglýsingum á þess vegum sé mögulegt að ná til 90 % þjóðarinnar. Síðan er boðið upp á val á milli fimm pakka. Kostar sá dýrasti eina milljón og sá ódýrasti einn tíunda af þeirri upphæð. Tilboð annarra eru með ýmsu móti allt eftir eðli miðilsins

Sem frambjóðendum ber okkur að sjálfsögðu að þakka þjónustu og afslátt. Hér fara hagsmunir frambjóðenda og fjölmiðla væntanlega saman. Þegar frambjóðendur eru á sjötta hundrað er auðvitað eftir heilmiklu að slægjast og líklegt að tilboðin afli miðlunum og eigendum þeirra töluverðra tekna.

Hér er þó maðkur í mysu. Með orðalagi sínu dró Mogginn stjórnlagaþingið nefnilega inn í far þar sem það á ekki heima. Það er engin venja að kjósa til stjórnlagaþings. Það kjör er einstakt í sinni röð. Til slíkrar samkomu hefur ekki verið kosið áður hér á landi.

Venjan sem blaðið vísar til er venja sem mótast hefur við prófkjör gömlu flokkanna fjögurra, hanaslagur um sætin á listunum, uppboðsmarkaður þar sem fjármunir ráða mestu um hver fær athyglina og oft því miður þingsætin. Niður í þetta fen vill Mogginn með tilboði sínu draga kosningarnar til stjórnlagaþings og þar með þingið sjálft. Viljum við það? Væntir þjóðin þess af okkur að við bítum á agnið? Við megum samkvæmt opinberum viðmiðum til dæmis kaupa tvo stóra pakka af mbl.is!

Með auglýsingum er hægðarleikur að ná til 90 % þjóðarinnar, en með hvað? Því er fljótsvarað: Áróður. Málstaður verður aftur á móti ekki kynntur í auglýsingu.

Auglýsing rúmar ekki heila hugsun þegar um stjórnlög er að ræða, hvað þá hugsjón.
Til að halla ekki réttu máli skal þess getið að margir miðlar ætla einnig að bjóða fram aðra þjónustu en seldar auglýsingar í tengslum við kjörið og fyrir það skal þakkað.