Stjórnlagaþing til frambúðar?
eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason
Hugmyndin um stjórnlagaþing er stórkostleg. Á ögurstundu í sögu íslensku þjóðarinnar, í kjölfar efnahagslegs, stjórnmálalegs og félagslegs Hruns, var ákveðið að fara nýja leið. Alþingi afsalaði sér stjórnarskrárgefandi valdi sínu að svo miklu leyti sem núgildandi stjórnarskrá leyfir.
Samkvæmt stjórnarskránni er það sameiginlegt hlutverk þings og þjóðar að breyta grundvallarlögunum. Tvö þing samþykkja hverja breytingu og á milli er þjóðin spurð álits í alþingiskosningum.
Í kjölfar Hrunsins var hugsað hærra og boðuð heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Jafnvel var opnað fyrir þann möguleika að ný stjórnarskrá yrði sett, að byrjað væri upp á nýtt, að nýtt lýðveldi yrði stofnað, Nýtt Ísland.
Alþingi afklæddist við þetta tækifæri hluta valds síns og ákvað að framselja það til þjóðarinnar. Að aflokinni undirbúningsvinnu sem meðal annars væri í höndum 1000 manna þjóðfundar skyldi sérstakt þjóðkjörið þing, stjórnlagaþing, semja nýtt frumvarp til stjórnarskrár er síðan færi rétta boðleið um hendur Alþingis til þjóðarinnar.
Auðvitað má segja að Aþingi hafi tögl og hagldir þegar um endurskoðun stjórnarskrárinnar er að ræða, nú eins og alltaf. Framhjá því verður ekki komist. Ákvæði stjórnarskrárinnar um endurskoðun hennar verður ekki felld úr gildi með einu pennastriki, jafnvel ekki einum lögum. Óhjákvæmilega hefur Alþingi þó bundið hendur sínar bæði pólitískt og siðferðilega. Alþingi sem vill eiga von um að endurheimta glatað traust getur ekki bylt eða stungið undir stól því frumvarpi sem frá stjórnlagaþinginu kemur eins og til þess var stofnað og við þær aðstæður sem ríkja í íslensku samfélagi nú um stundir.
Hitt er stærri spurning hvernig tryggja má þjóðinni beinni og breiðari aðkomu að stjórnarskrárgerð í framtíðinni. Það er áhugaverð spurning hvort ákvæði eigi að vera í nýrri stjórnarskrá um að kalla megi til stjórnlagaþings eða kalla eigi til slíks þings ekki einu sinni heldur annað tveggja reglulega — t.d. á 50 ára fresti — eða við sérstakar aðstæður — t.d. þegar ákveðin prósenttala þjóðarinnar óskar þess eða þegar Alþingi telur slíks þurfa. Alþingi gæti eftir sem áður hlutast til um smærri endurskoðanir eða breytingar á stjórnarskránni þess á milli.
Þá þarf að huga að því hvernig farið skuli með frumvörp slíks þings. Verði það að stjórnarskrárbundinni samkomu ættu frumvörp þess að fara beint til atkvæðagreiðslu þjóðarinnar án viðkomu hjá Alþingi. Einhverjum kann að finnast sú skipan losaraleg. Ef til vill finnst einhverjum að þannig gæti skort aðkomu sérfræðinga að mikilvægasta málefni þjóðarinnar. Mergurinn málsins er að þá sérfræðinga er alls ekkert frekar að finna á Alþingi. Á þennan hátt mætti byggja upp spennandi samspil Alþingis og stjórnlagaþings sem bæði störfuðu í umboði þjóðarinnar að sama markmiði, þ.e. að marka henni meginstefnu.