Auðlindirnar og stjórnarskráin
eftir Hjalta Hugason 7132 og Arnfríði Guðmundsdóttir 8023
Það er margt sem gerir fólk að þjóð umfram sameiginlega stjórnarskrá, lög og réttarreglur. Okkur Íslendingum er tamt að benda á sameiginlega tungu og sögu. Margir bæta við sameiginlegri trú. Á 21. öld má reikna með að svörin breytist. Stöðugt fleiri bætast í okkar raðir sem eiga annað móðurmál, aðra sögu og aðra trú. Við verðum að búa okkur undir að hér verði fjölmenningarlegt samfélag á borð við það sem gerist í grannlöndum okkar. Ef okkur auðnast að taka vel á móti þeim sem hingað kjósa að flytjast mun fjölbreytileikinn auðga samfélag okkar. Fjölmenning er því ögrun en ekki ógn.
Eitt munum við þó alltaf eiga sameiginlegt sem hér búum. Það er landið með auðlindum þess til lands og sjávar. Landið er ekki eign sem við megum ráðskast með út frá eigin skammtímahagsmunum, eftir því hvernig árar hverju sinni. Okkur er skylt að líta á landið sem ættarauð sem við höfum tekið í arf frá gengnum kynslóðum og ber að skila til óalinna í betra ástandi en við tókum við því. Þess vegna ber okkur að standa vörð um náttúru landsins, sporna við uppblæstri og draga úr útblæstri. Umhverfispólitík er þegar orðið málefni 21. aldarinnar og verður það í ríkari mæli eftir því sem árin líða. Hún snertir bæði líf okkar og framtíð í landinu og í heiminum.
Ísland er þó ríkt af auðlindum sem okkur ber að nýta til að leggja grunn að „gróandi þjóðlífi“. Þetta verðum við að gera með langtímasjónarmið í huga og umfram allt að gera heildstæðar rammaáætlanir um auðlindanýtinguna til langs tíma. Þar verður í ríkum mæli að ganga út frá sjálfbærni. Sjálfbærni er ekki slagorð heldur lykill að framtíðinni. Samkvæmt Brundtlandsskýrslunni frá 1987 (bls. 54) er sjálfbærni: „Mannleg starfsemi sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“
Þegar þessa hefur verið gætt verður að taka næsta skref. Það felst í því að ákveða hvernig auðlindirnar verða nýttar í þágu þjóðarinnar sjálfrar og þjóðarinnar allrar. Eignarhald á þeim verður að vera í höndum þjóðarinnar á óyggjandi hátt. Ekki ætti að vera heimilt að framselja nýtingu þeirra í annarra hendur lengur en nemur einni kynslóð og þá gegn raunhæfu gjaldi og búa verður svo um hnúta að meirihluti arðs haldist í landinu, t.d. í formi mannvirkja. Þá ætti að nýta auðlindirnar þannig að sem flest framtíðarstörf verði hér innanlands. Í stjórnarskrá verður að setja ramma sem tryggja auðlinfanýtingu af þessu tagi.
Þegar hugsað er til framtíðar þarf að hugsa opið og hugsa stórt. Því skiptir miklu að litið sé á náttúrugæði í víðasta skilningi sem auðlindir. í dag vitum við ekki hvað telst auðlind á morgun. Það höfum við best séð á því endurmati sem nú örlar sem betur fer á hvað ósnortin víðerni landsins snertir.