Rannsóknaverkefni

Nýlega ritstýrði ég miklu rannsóknarriti um íslenskar bókmenntir (Íslenskar bókmenntir, saga og samhengi, 2021) sem sex sérfræðingar í bókmenntum settu saman. Ég hef tekið að mér ritstjórn íslensks efnis í Literary Encyclopedia.

Meðal annarra stóra greinasafna á vettvangi norrænna fræða sem ég hef nýlega ritstýrt eru Paranormal Encounters in Iceland og The Routledge Research Companion to Medieval Icelandic Sagas.

Rannsóknarverkefni mitt Tekist á við yfirnáttúruna á Íslandi á miðöldum var styrkt af Rannsóknamiðstöð Íslands. Ég stýrði þessu verkefni er samstarfsaðilar mínir voru Ásdís Egilsdóttir, Torfi H. Tulinius, Terry Gunnell og Stephen A. Mitchell. Auk þess tóku sex doktorsnemar og sex meistaranemar þátt í verkefninu. Verkefnið snerist um hvernig hið yfirnáttúrulega birtist og er skilgreint á miðöldum á Íslandi. Fengist er við birtingarmyndir þess í ýmsum miðaldatextum, s.s. Íslendingasögum, Sturlungu, biskupasögum, Snorra-Eddu, eddukvæðum og fornaldarsögum. Megináherslan í verkefninu er annars vegar á skilgreiningu og greiningu þess yfirnáttúrulega, hvaða hugtök voru notuð og hvað þau merkja. Hins vegar á reynslu einstaklinganna og aðgang þeirra að hinu annarlega og annarsheimslega. Athyglin beinist ekki síst að tungumálinu sjálfu og hugsuninni. Fengist var við ýmsar tegundir yfirnáttúru og yfirnáttúrulegrar reynslu (annarsheimsvættir, galdra, kraftaverk, drauma) í samhengi við kynferði, tímahugtakið og samfélagið. Bókin The Troll Inside You: Paranormal Activity in the Medieval North kom út hjá Punctum Books í Bandaríkjunum sumarið 2017, og enn eru greinar að birtast úr þessu verkefni.

Ég var aðili að Rannís-verkefninu Disability Before Disability sem Hanna Björg Sigurjónsdóttir var í forsvari fyrir og fékk öndvegisstyrk. Í mínum verkþætti verkstýrði ég tveimur nýdoktorum sem beina sjónum sínum að fötlun í íslenskum miðaldatextum. Enn eru greinar að koma út úr þessu verkefni.

Um rannsóknir mínar að öðru leyti má segja þetta:

Það efni sem mestur tími minn hefur farið í seinustu 15 árin eða svo eru líklega íslenskar konungasögur og hugmyndir Íslendinga um konungsvald. Um það efni hef ég ritað tvær bækur og fjölmargar greinar. Útgáfa mín og Þórðar Inga Guðjónssonar á Morkinskinnu í tveimur bindum fyrir Hið íslenzka fornritafélag kom út árið 2011. Þetta er mikið verk, næstlengsta rit sem komið hefur út í ritröðinni Íslenzk fornrit. Bók um Íslendingaþætti, einkum fræðilegar rannsóknir og skilgreiningar á þeim á 20. öld, í ritröðinni Studia Islandica kom út í júní 2014. A Sense of Belonging kom út í september 2014 í ritröðinni Viking Collection sem er gefin út í Odense. Að því loknu stefni ég að riti um íslenskar konungasögur, aðallega frásagnarlist þeirra og hugmyndir. Ekkert slíkt rit er til enda snerust konungasagnarannsóknir lengi um flókin textavensl sagnanna fremur en verkin sjálf.

Í framhaldi af þáttarannsóknum mínum hef ég talsvert velt fyrir mér fræðilegri nálgun við íslenskar miðaldabókmenntir og hefur sá þráður verið áberandi hjá mér seinustu ár. Liður í því rannsóknarverkefni mínu eru skrif mín um fræðilegar útgáfur 19. og 20. aldar.

Annað áberandi rannsóknarverkefni seinni ára er hið yfirnáttúrulega í íslenskum miðaldatextum sem áður var nefnt. Þessu tengdur er áhugi minn á jaðarfólki í íslenskum textum fyrri alda, s.s. gamalmennum, börnum, ungmennum, þrælum, útlendingum og fötluðum. Ég hef einkum fengist við mannsaldrana og hef birt ýmsar greinar um mynd barna, ungmenna og aldraðra í íslenskum heimildum. Fötlun hefur vakið áhuga minn vegna samvinnuverkefna við fötlunarfræði í Háskóla Íslands. Stefnt er að bók um þetta efni árið 2019.

Seinasta áratug tók ég þátt í miklu og langvinnu rannsóknarverkefni um fornaldarsögur Norðurlanda. Ásamt Annette Lassen og Agnetu Ney skipulagði ég þrjú málþingi um formgerð og hugmyndafræði fornaldarsagnanna, um goðsagnir og veruleika í þessum flokki sagna og nú seinast um uppruna og þróun fornaldarsagnanna. Miklum vafa er undirorpið hvort hægt sé að líta á fornaldarsögurnar sem bókmenntagrein eða undirgrein fornsagna og ég hef einnig tekið þátt í rökræðum um það efni. Þessu verkefni lauk árið 2012. Annað stórt samstarfsverkefni sem ég hef tekið þátt í seinni ár er Pre-Christian Religions of the North, sjö binda ritverk sem unnið er að af stórum hópi fræðimanna frá ýmsum löndum en á Íslandi tengjast verkefninu meðal annars Snorrastofa, Reykjavíkur-Akademían og Háskóli Íslands. Sex bindi eru þegar komin út.

Seinustu misserin hef ég nokkuð velt fyrir mér bókmenntalegum einkennum Íslendingasagna og annarra frásagnarheimilda sem sagnfræðirita. Ég birti allmargar greinar á prent um þetta efni 2014–16 þar sem beint er sjónum að einstökum ritum, atburðum, sögupersónum og viðhorfum fræðimanna til „sannleikans“ í sögunum seinustu aldirnar.

Ýmsar rannsóknir eru í farvatninu; þeirra er getið á ritaskránni þegar niðurstöður koma á prent.