Ástráður Eysteinsson er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

Hann hefur starfað við Háskóla Íslands um árabil, fyrst sem stundakennari í almennri bókmenntafræði og ensku, síðan sem lektor og dósent í almennri bókmenntafræði og frá 1994 sem prófessor. Hann hefur verið gestaprófessor við erlenda háskóla og verið virkur í alþjóðlegri rannsóknasamvinnu, auk þess að hafa sinnt margskonar stjórnunarstörfum við Háskóla Íslands. Hann var forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands frá tilurð þess á haustmisseri 2008 til ársloka 2015.

Ástráður lauk BA-prófi í þýsku og ensku frá Háskóla Íslands 1979. Hann lagði stund á bókmenntafræði („samanburðarbókmenntir“ – „Comparative Literature“ – með þýðingafræði sem eitt helsta áherslusviðið) við University of Warwick á Englandi 1979-1980 og brautskráðist með MA-próf þaðan 1981. Á árunum 1980-1982 var hann í doktorsnámi í þýskum, enskum og norrænum fræðum við Kölnarháskóla í Vestur-Þýskalandi, en fluttist til Bandaríkjanna árið 1982 og stundaði doktorsnám í bókmenntafræði (ásamt þýðingafræði) við University of Iowa næstu árin, auk þess að kenna við skólann. Hann lauk doktorsprófi þaðan árið 1987.

Á námsárum sínum erlendis birti Ástráður fræðigreinar í íslenskum tímaritum og vann jafnframt að bókmenntaþýðingum á íslensku. Þeim hefur hann sinnt allar götur síðan og m.a. þýtt drjúgan hluta af höfundarverki Franz Kafka í samstarfi við Eystein Þorvaldsson.

Niðurstöður rannsókna sinna hefur Ástráður ýmist birt á íslensku eða ensku, en auk þess hefur hann sinnt fræðilegri ritstjórn, bæði heima og erlendis.

Á þessum vef má finna yfirlit um rannsóknir og ritstörf Ástráðs, birt fræðirit hans og þýðingar, auk kennslu og stjórnunar sem hann hefur annast.