Helstu rannsóknasvið:
Nútímabókmenntir og bókmenntasaga
Söguleg og fræðileg könnun á straumum og stefnum í bókmenntum Vesturlanda og þeim grundvallarhugtökum sem notuð eru í þeirri umræðu, einkum módernisma, raunsæi, framúrstefnu og póstmódernisma. Jafnframt rannsóknir á samsetningu bókmenntasögunnar eins og hún birtist annarsvegar í bókmenntalífinu og hinsvegar í þeirri rituðu bókmenntasögu sem fræðimenn setja saman. Þar skiptir samspil þjóðlegra og alþjóðlegra þátta miklu máli sem og vægi einstakra bókmenntategunda, þýðinga og annarra viðtökuforma, hefðarvelda („kanóna“) og heimsbókmenntahugtaksins.
Hræringar og höfundar í breskum, norður-amerískum og íslenskum bókmenntum og bókmenntum þýskrar tungu, einkum á 19.-21. öld. Til dæmis má nefna Edgar Allan Poe, Virginiu Woolf, James Joyce, Ernest Hemingway, Toni Morrison, Franz Kafka, Bertolt Brecht, Stefan Zweig, Günter Grass, Thor Vilhjálmsson, Svövu Jakobsdóttur, Þorstein frá Hamri, Matthías Johannessen, Guðberg Bergsson, Jakobínu Sigurðardóttur, Gyrði Elíasson og Sjón, að ógleymdum þýðingum Helga Hálfdanarsonar. Megináherslan var lengi vel á sagnaskáldskap en ljóðlistin hefur sótt á með árunum.
Þýðingafræði
Rannsóknir á þýðingum frá ýmsum sjónarhornum. Könnun á sögu þýðinga og þýðingaumræðu á Vesturlöndum, athugun á þýðingarferlinu sjálfu, þýðingum einstakra verka (einkum bókmenntaverka), stöðu þýðinga í bókmenntasögunni og menningarkerfinu, meðal annars með rannsóknum á þýðingum einstakra erlendra höfunda á íslensku og öðrum ummerkjum um stöðu þeirra og viðtökur í íslensku bókmenntalífi. Þýðingafræðin skarast hér iðulega við almenna menningarfræði sem og rannsóknir á menningarheimum tungumála og innbyrðis samskiptum þeirra. Þýðingar varða miklu fyrir tungumál fámennra þjóða og málstefnu þeirra.
Bókmenntafræði og menningarfræði
Einkum bókmenntakenningar á 20.-21. öld. Meðal helstu viðfangsefna eru hræringar í formalisma, strúktúralisma, marxisma, femínisma, táknfræði, póststrúktúralisma og viðtökufræðum. Þáttur eftirlendufræða og menningarfræða hefur verið áberandi í rannsóknum á síðari árum. Rannsóknarafurðir á þessu sviði hafa til þessa einkum birst í verkum sem falla undir rannsóknir á sviði nútímabókmennta og þýðinga, en athuganir hafa einnig teygst yfir á svið eyjafræða, auk þess sem áhersla hefur verið lögð á framsetningu og mótun staða í bókmenntum og öðrum menningarafurðum.