Foreldraútilokun og réttur til fjölskyldu

 

I

Stjórnarmenn í félaginu Foreldrajafnrétti  þau Sigga Sólan og Brjánn Jónsson, fóru þess á leit við mig að ég tæki þátt í ráðstefnu í Osló á vegum alþjóðsamtaka félaga um foreldrajafnrétti. Hópurinn sem stóð að ráðstefnunni kallar sig á ensku Parental Alienation Study Group (PASG https://www.pasg.info/ og hefur undanfarin ár reglulega haldið ráðstefnur af þessu tagi í Evrópu og Bandaríkjunum. Undirritaður var fenginn til að fjalla um dóma Mannréttindadómstóls Evrópu sem varða foreldraútilokun (e. parental alienation).

II

Í erindi mínu gerði ég grein fyrir því að í MSE felast tvenns konar skyldur. Annars vegar neikvæðar skyldur og hins vegar jákvæðar. Í neikvæðum skyldum felst að ríki á ekki að ganga á réttindi sem sáttmálinn verndar, nema það verði réttlætt með vísan til þeirra ákvæða sáttmálans sem heimila slíkar takmarkanir. Í jákvæðum skyldum felst að ríki þurfa að grípa til sérstakra úrræða til að tryggja réttindin sem sáttmálinn verndar. Til að skýra þetta frekar má nefna að 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem verndar friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Hluti af friðhelgi einkalífs eru til dæmis símtöl sem maður á við fjölskyldu eða vini. Neikvæð skylda ríkisins felur í sér að ríkið virði þann rétt og hleri ekki símtölin nema nauðsyn beri til, t.d. vegna rannsóknar á afbrotum og þá að undangengnum dómsúrskurði. Í ákvæðinu felst líka réttur til fjölskyldu, en margoft hefur verið dæmt að samband barns og foreldra teljist til fjölskyldutengsla sem ríkið ber ekki aðeins skylda til að rjúfa ekki, nema brýnar ástæður beri til, heldur líka til að grípa til aðgerða til að tryggja að barn og foreldri geti verið saman og myndað tengsl, nema það sé auðljóslega ekki í samræmi við hagsmuni barnsins. Hið síðara er einmitt það sem við köllum jákvæðar skyldu ríkisins sem felast í því að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að foreldri sem hefur umgengnisrétt við barn sitt fái notið hans í raun og að foreldri sem hefur barna hjá sér komist ekki upp með að útiloka á ólögmætan hátt slíka umgengni.

Framkvæmd MDE hefur að geyma dóma þar sem þessar skyldur eru áréttaðar. Um þessar dóma fjallaði ég í erindi mínu og þá aðallega um bindandi gildi þeirra og þá  þýðingu sem þeir hafa, ýmist fyrir aðila málsins og viðkomandi ríki, en einnig almennt séð sem fyrirmyndir fyrir samningsríkin um hvernig staðið skuli að málum sem varða foreldraútilokun.

III

Í 46. gr. MSE er fjallað um bindandi áhrif dóma Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) og fullnustu þeirra. Þar kemur fram í 1. mgr. að samningsaðilar heiti því að hlíta endanlegum dómi dómstólsins í hverju því máli sem þeir eru aðilar að. Þá segir í 2. mgr. að endanlegur dómur dómstólsins skuli fenginn ráðherranefnd Evrópuráðsins sem hafi umsjón með fullnustu hans. Ákvæði þessi gilda um um alla dóma MDE þar sem komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn rétti kæranda samkvæmt sáttmálanum. Í því felst að niðurstaða dómstólsins leggur á ríkið lagalega skyldu til að binda enda á brotið og bæta fyrir afleiðingar þess.

Þegar rætt er um fullnustu dóma er gjarnan greint á milli skyldna ríkja til að grípa til einstakra ráðstafana annars vegar og almennra ráðstafana hins vegar. Í tengslum við einstakar ráðstafanir er talað um restitutio in integrum, en með því er átt við að markmiðið er að koma kæranda, að því marki sem unnt er, í þá stöðu sem hann hefði verið hefði brotið ekki átt sér stað. Ef um foreldraútilokun er að ræða felst í þessu skylda ríkisins til að greiða dæmdar bætur og málskostnað. Þá felst í þessu að uppræta beri þær ólögmætu aðstæður sem leiddu til brostins, með öðrum orðum stöðva foreldraútilokunina.

Almennt hlíta ríki dómi með því að greiða kæranda bætur og málskostnað, þótt á því geti stundum geti verið misbrestur. Vissulega geta fjárhagslegar bætur verið betra en ekkert og geta skipt máli fyrir kæranda. En það segir sig sjálft að þær hrökkva í flestum tilfellum skammt til bæta fyrir þann mikla skaða sem foreldraútilokun til margra ára kann að hafa valdið barni og foreldri.

Að því er varðar skyldu til að binda enda á hið ólögmæta ástand vandast málið þegar um foreldraútilokun er að ræða. Iðulega hafa málin verið að velkjast fyrir yfirvöldum og dómstólum heimafyrir árum saman þar sem hvorki gengur né rekur, áður en þau fara til MDE. Þannig geta liðið mörg frá því að hindranir á umgengni hófust fyrst og þar til dómur gengur í MDE og í sumum tilvikum er börnin orðin lögráða þegar MDE kveður upp sinn dóm eða nálægt því svo sem var raunin í máli Pisica gegn Moldóvu frá 2020, en börnin sem um ræðir voru orðin 18 ára þegar dómur féll. Við þessar aðstæður er ekki lengur um að ræða að þvinga fram umgengni. Í svona tilfellum er hagnýtt gildi dóms frá MDE ekkert, þótt niðurstaðan kunni að einhverju marki að vera huggun harmi gegn fyrir kæranda og fela í sér einhvers konar uppreist fyrir hann. Dómurinn kemur allt of seint til að hafa að öðru leyti hagnýta þýðingu fyrir kæranda sjálfan.

IV

Í dómi getur falist skylda ríkis til að taka til almennra ráðstafana sem miða að því að koma í veg fyrir sambærileg brot í framtíðinni.  Í fyrsta lagi getur verið um ræða úrbætur innanlands til að uppræta þær aðstæður sem til grundvallar broti lágu. Þá getur þurft að gera lagabreytingar. Þetta getur verið ýmsum vandkvæðum bundið. Sum aðildarríki þverskallast við að grípa til almennra ráðstafna af pólitískum, menningarlegum eða lagalegum ástæðum. Þessi mótspyrna getur leitt til að tafa á að gerðar séu almennar ráðstafanir eða jafnvel að ríki hafni því að fara að dómi.

Innleiðing almennra aðgerða eða úrræða krefst oft víðtækra lagaumbóta eða breytinga á stjórnsýsluháttum eða starfsemi dómstóla, sem getur verið flókið og tímafrekt verkefni. Þetta er líklega vandamál í mörgum tilfellum um þar sem um foreldraútilokun er að ræða. Loks er það alltaf álitamál hvers konar ráðstafanir eru viðeigandi og réttlætanlegar til að þrýsta á foreldri að virða umgengnisrétt, þegar það er staðráðið í að gera það ekki. Er unnt að beita valdi og þá að hvaða marki? Getum við beitt valdi með atbeina lögreglu eða annars valdbærs aðila til taka barn af foreldri með aðfarargerð? Getum við beitt dagsektum gagnvart aðila sem kannski á fyrir við fjárhagsvandræði að stríða o.s.frv.? Má nefna að í 45. gr. barnalaganna íslensku er gert ráð fyrir þessum úrræðum, en í framkvæmd hefur reynst erfitt að framfylgja þeim og hafa þau í heild reynst harla haldlítil.

V

Á ráðstefnunni voru meðal annars kynntar rannsóknir á áhrifum foreldraútilokunar til skemmri og lengri tíma. Þá stigu fram í umræðum konur og karlar sem hafa verið beitt slíkri útilokun sem foreldri eða sem börn. Af þessu má ráða að foreldraútilokun og tengslarof sem af slíkri útilokun leiðir er mjög skaðleg og getur hugsanlega haft mjög neikvæð áhrif á alla þætti þroska og líðan barns. Hún er oft rót tilfinningalegs og sálræns skaða sem lýsir sér meðal annars í brenglaðri sýn á náin sambönd og traust, skertan félagslegan þroska sem aftur getur leitt af sér félagslega einangrun. Foreldraútlokun vekur einnig upp lagaleg og siðferðileg álitamál og getur haft áhrif frá einni kynslóð til annarrar  þar sem hegðun er endurtekin og fjölskyldutengsl rofna o.s.frv. Langtímaafleiðingar geta teygt sig inn í fullorðinsár og haft áhrif á geðheilsu og almenn lífsgæði viðkomandi.

Eitt af því sem vekur athygli í þessum dómum MDE er að hugtakið foreldraútilokun (parental alinenation) hefur þar öðlast ákveðinn sess. Nefna má dóm máli Pisica gegn Moldóvu, sem fyrr er nefndur, þar sem móðir hafði af föður verið útilokuð frá samneyti við börn sín, árum saman meðal annars vegna aðgerðarleysis yfirvalda við að framfylgja lögmætum ákvörðunum dómstóla um að koma samneyti á. Í dóminum er byggt á að börnin hefðu vegna aðgerðarleysis yfirvalda  til marga ára í raun verið haldið frá móður sinni og væru þjökuð af því sem í sérfræðiskýrslum var skilgreint sem „alienation syndrome“. Í dóminum er þetta úrræðaleysi yfirvalda í Moldóvu átalið og talið fel í sér brot á jákvæðum skyldum ríkisins til að grípa til aðgerða til að viðhalda tengslum barnanna við móður sína með því að tryggja lögmæta umgengni.

Dómurinn er nokkuð merkilegur fyrir þær sakir að hann byggir á því að „foreldraútilokun“ (parent/child alienantion) og afleiðingar hennar sé raunverulegt og alvarlegt vandamál. Hafa sumir viljað líta svo á að foreldraútilokun sé í eðli sínu ofbeldi (andlegt) af hálfu þess sem henni beitir. Hefur verið varpað fram hugmyndum um að skilgreina eigi þessa hegðun sem refsivert brot í hegningarlögum eða sérlögum. Þetta virðist svona við fyrstu sýn hafa talsvert til sín máls og í öllu falli, að ætla megi, út frá almennri skynsemi, að útilokun foreldris frá samskiptum við barn sitt hljóti alla jafnan að vera mjög skaðaleg fyrir barnið sem og hið útilokaða foreldri, sem þó hefur talið hæft til umgengni við barnið. Samt sem áður eru ýmsir, einkum sumir baráttuhópar fyrir hagsmunum kvenna, sem andmæla niðurstöðum vísinda og fræðimanna um eðli þessa hegðunar sem ofbeldishegðunar og skaðsemi hennar fyrir börn. Hafa sumir hópar femínista hafnað þessum kenningum sem reistum á gervivísindum. Horfa femínistar þá gjarnan á málið frá sjónarhóli móður sem útilokar föður til að vernda barnið fyrir ofbeldi af hans hendi, jafnvel þótt yfirvöld hafi komist að því að faðir sé talinn fullkomlega hæfur til að umgangast barnið og barninu stafi enginn hætta af honum, nema síður sé. Hvað sem líður slíkum viðhorfum eru þó flestir á þeirri skoðun að lítill vafi sé á foreldaraútilokun sé mjög skaðleg hegðun sem brýnt sé vegna hagsmuna barna og foreldra að uppræta og koma í veg fyrir eftir því sem kostur er.

 

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.