Tónar útlaganna

 

Tonar utlaganna _Kapa v01 (002)

Meðal þeirra bóka sem mér áskotnuðust um síðustu jól er Tónar útlaganna sem ber undirtitilinn: Þrír landflótta tónslistarmenn sem mótuðu íslenskt menningarlíf. Höfundur bókarinnar er Árni Heimir Ingólfsson. Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út.

Ég játa að ég er ekki sérfræðingur í músík. Þótt ég eigi það til glamra svolítið gítarinn þá er það sjaldan nú í seinni tíð og þá aðallega þegar aðrir heyra ekki til. Var aldrei góður spilari, en hef mátt reyna að lengi getur vont versnað. Það breytir því auðvitað ekki að ég hlusta mikið á tónlist eins og margir og er að kalla alæta í þeim efnum, þótt klassíkin hafi nokkuð lengi verið í fyrsta sæti. Þessi áhugi minn á klassískri tónlist og almennri sögu, þ.m.t. menningarsögu, hefur laðað mig að þeim bókum sem Árni Heimir hefur áður skrifað. Þannig las ég af miklum áhuga bók hans um Jón Leifs, Líf í tónum sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita 2009 og einnig Saga tónlistarinnarTónlist á Vesturlöndum frá miðöldum til nútímans sem hlaut sömu tilnefningu 2016. Báðar þessar bækur er afbragð og sú síðari stórvirki og sérlega mikilvægt framlag til tónlistarmenningar á Íslandi. Eiginlega er sú seinni ein þessara bóka sem maður les ekki bara í eitt skipti fyrir öll, heldur hefur innan seilingar til upprifjunar og glöggvunar þegar einstök tónskáld og verk þeirra bera á góma, a.m.k. fyrir leikmenn eins og mig. Árni Heimir er einnig kunnur fyrir rannsóknir sínar á íslenskri tónlistarsögu frá miðöldum fram á 20. öldina sem getið hafa af sér fjölda greina og fyrirlestra, en einnig bækur og geislaplötur sem hlotið hafa tilnefningar og verðlaun. Svo er skylt að bæta því við að ég hafði ávallt mikla ánægju af að hlusta á kynningar Árna Heimis fyrir tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands áður en þeir hófust og juku til muna jákvæða upplifun mína af tónleikunum vegna þeirrar innsýnar sem hann gaf í einstök verk sem á dagskrá voru. Nýjast bók Árna Heimis, sem ég lauk nýlega við að lesa, er Tónar útlaganna sem fyrr er nefnd.

Í bókinni fjallar Árni Heimir um lífshlaup þriggja tónlistarmanna sem settu sterkan svip á tónlistarlíf á Íslandi á síðustu öld, en þeir voru  Victor Urbancic (1903–1958), Róbert Abraham Ottósson (1912–1974) og Heinz Edelstein (1902–1959). Þeir áttu það sameiginlegt að hafa flúið heimalönd sín land eftir að nasistar komust til valda í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar. Allir voru þeir ríkulega menntaðir í tónlistarfræðum og hljóðfæraleik frá fremstu tónmenntastofnunum Evrópu á þeim tíma og flúðu úr störfum frá miklum menningarborgum. Þannig var Urbancic í Vínarborg þegar hann varða að flýja ásamt fjölskyldu sinni þar sem eiginkona hans, Melitta, var af gyðingaættum, Róbert frá Berlín og Edelstein frá Freiburg, en þeir síðarnefndu voru báðir af gyðingaættum. Þótt þeir hafi allir gert ráð fyrir að snúa aftur til sína heima þegar nasistafárið gengi yfir urðu örlög þeirra allra að ílengjast á Íslandi og verja þar lunganum úr starfsævinni.

Mér fannst bókin áhugaverð strax þegar hún kom út því nöfn tveggja þeirra, þ.e. Victors Urbancic og Róberts Abrahams Ottóssonar hafa glumið í eyrum mér á Gömlu gufunni frá því ég man eftir mér þar sem þeir spiluðu, útsettu, stjórnuðu eða komu með einum eða öðrum hætti að stórum hluta þeirrar íslensku tónlistar sem spiluð var þar á bæ og raunar heyrast nöfn þeirra ennþá þegar við á og rykið dustað af gömlum upptökum.

Fyrir þessum mönnum lá að eiga stóran hlut í að móta íslenskt tónlistarlíf á næstu áratugina eftir að þeir komu til landsins. Er rakin æska þeirra í Austurríki og Þýskalandi, fjölskyldur hagir menntun og fyrstu störf og síðan ferill þeirra á Íslandi og hin fjölbreytilegu störf og verkefni sem þeir sinntu. Af bakgrunnir þeirra verður að ætla að þessum vel menntuðum tónlistarmönnum hafi fundist aðstæður á Íslandi til háleitrar tónlistariðkunar frumstæðar og örlög sín grimm að þurfa að sættast á að setjast að á þessari afskekktu köldu eyju í norðanverðu Atlantshafi. Allt er þó afstætt í henni veröld því segja má að þeir hafi þrátt fyrir allt átt því láni (í óláni) að fagna að fá þó landvist á Íslandi á viðsjárverðum tímum og aðstæður til að starfa að list sinni þótt frumstæðar væru. Þetta er áréttað í bókinni og nýttu þeir sér þetta allir vel og stjórnuðu ýmsum kórum um lengri eða skemmri tíma, höfðu frumkvæði að og stóðu fyrir flutningi stórra kóra og hljómsveitarverka frá Evrópu sem aldrei höfðu verið flutt á Íslandi, stjórnuðu hljómsveitum (m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands), stunduðu kennslu fyrir skemmra og lengra komna, sömdu tónlist, útsettu aðra og spiluðu sem og iðkuðu fræðistörf á sviði tónmennta. Þetta er rakið af mikilli nákvæmni og natni í bók Árna Heimis. Þá er fjallað um hvernig þeim hafi verið tekið á Íslandi og þeim andbyr sem þeir máttu þola sem „útlendingar“, þótt reyndar þeim virðist hafa verið vel tekið og jafnvel fagnað af þorra þeirra sem létu sig tónlistarlíf í landinu nokkru varða. Enginn sem les bókina getur velskt í vafa um að þeir allir, hver með sínu hætti, stuðluðu að stórstígum framförum í íslensku tónlistarlífi. Hvað sem líður upphaflegum hugmyndum þeirra um hvað biði þeirra á Íslandi má vel reikna með að þeir hafi áttað sig að hér á landi gætu þeir þrátt fyrir allt látið til sín taka og gert gagn. Vaflaust hafa þeir í anda þessa sinnt margvíslegum verkefnum (giggum) sem þeir hefðu talið sér lítt samboðin heimaborg sinni.

Sumt af því þeir tóku sér fyrir hendur varpar ljósi á viðhorf þeirra. Má þar nefna að rakið er í bókinni (bls. 161-163), að Róbert Abraham tók að sér að stýra Karlakór iðnaðarmanna, sem svo var nefndur, en þennan kór höfðu nokkrir nemar við Iðnskólann í Reykjavík stofnað haustið 1932 og hafði starfað undir stjórn Páls Halldórssonar. Ekki þótti þessi kór í fremstu röð sönghópa bæjarins, eða þar til Róbert Abraham tók við stjórninni. Mun Róbert ekki hafa látið við það sitja að flytja smálög heldur stór og metnaðarfull verk eins og Altrapsódíu eftir Johannes Brahms og fangakórinn úr Fidelio eftir Beethoven. Þá bauð kórinn upp á all mikilfenglega dagskrá á tónleikum í Gamla bíói 1947 þar sem var að finna kantötu Sibeliusar Uppruni eldsins og upphaf oratíunnar Ödipius konungur eftir Igor Starvinskíj, en það mun vera í fyrsta sinn sem flutt var tónlist eftir Stravinskíj á tónleikum á Íslandi. Segir höfundur bókarinnar að þurft hafi bæði hæfileika og bjartsýni til að láta sér detta í hug að lítt músíkmenntaðir trésmiðir, rafvirkjar og pípulagningamenn gætu flutt svona verk eins og það síðastnefnda sem geri feikilegar kröfur til söngvara og sé ákaflega flókið í hryn og hljómum. Og svo var enginn hljóðritun til fyrir meðlimi kórsins að hlusta á það, svona sér til frekari glöggvunar á því sem ætlast var til af þeim. Þá er ástæða til að nefna störf Heinz Edelstein að tónlistarmenn íslenskra barna á vettvangi Íslenska Barnamúsíkskólans. Ýmsir sem síðar létu að sér kveða í íslensku tónlistarlífi stigu þar sín fyrstu skref á tónlistabrautinni.

Meginmál bókarinnar sem, prýdd er fjölda mynda, er ríflega 270 blaðsíður, en þar á eftir fylgja um 80 blaðsíður með tilvísunum og skrá yfir heimildir, en þar er um að ræða óprentaðar heimildir á söfnum innanlands sem erlendis, skjöl í einkaeigu hljóðupptökur, viðtöl, tövluskeyti, námsritgerðir, vefefni og prentaðar heimildir, greinar og fréttir í dagblöðum, tímaritum,  prentaðar bækur og greinar í fræðitímaritum. Ber allur texti bókarinnar og meðferð heimilda með sér að höfundur hefur vandað mjög til verka á allan hátt. Bók þessi er sérlega fróðleg aflestrar og áhugaverð fyrir alla þá sem láti sig varða íslenskt tónlistarlíf og sögu þess, en til þessarar sögu lögðu þessir þrír menn sem hún fjallar drjúgjan skerf hver með sínum hætti.

Í bókinn er rakið að þótt þessum mönnum hafi verið veitt landvist á Íslandi og tækifæri til að starfa að fagi sínu, hafi mörgum öðru vel menntuðu einstaklingum af á ýmsum sviðum af gyðinglegum uppruna verið synjað um landvist þótt á flótta væri undan ofsóknum nasista. Sumir þeirra fengu vist í öðrum löndum, an aðrir enduðu síðar líf sitt í vinnu- eða útrýmingarbúðum nasista. Má vel velta fyrir sér hvers Íslendingar kunna að hafa farið á mis vegna þessara afstöðu íslenskra valdhafa á sínum tíma. Þá sögu hafa aðrir fjallað um og er hún á köflum hörmuleg. Er þetta rætt í síðasta kafla bókarinnar sem ber yfirskriftina Sögur, líf og von og vísar hann þar til ýmissa heimilda þar sem um þetta efni hefur fjallað.

Í lok bókarinnar eru settar fram hugleiðingar um hin jákvæðu áhrif sem þessir tónlistarmenn höfðu á íslenskar tónmenntir og gagnlegt sé að hafa þetta í huga þegar rætt sé um málefni innflytjenda í stærra samhengi og þau jákvæðu áhrif sem þeir geti haft fyrir land og þjóð.  Þótt ekki leyni sér að höfundur telji að þeir menn sem bókin fjallar um hafi lyft tónlistamenningu Íslendinga á hærra plan en hún hafði áður verið stígur hann varlega til jaðrar í að draga af þessu almennar ályktanir, enda hafi þeir allir verið hámenntaðir tónlistarmenn frá tónlistarháskólum í fremstu röð.

Sem sagt, ég mæli með þessari vönduðu bók fyrir allt fróðleiksfúst áhugafólk um tónlist, tónlistarmenn og tónmenntir á Íslandi.

Höfundur er prófessor við lagadeild HA og  hæstaréttarlögmaður

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.