Blaðamenn og siðareglur

Gaman var að fylgjast með samskiptum Stefáns Einars Stefánssonar þáttastjórnanda Spursmála við siðanefnd Blaðamannafélags Íslands (BÍ) undir lok síðasta árs. Nefndin taldi við hæfi að „rétta“ yfir honum vegna kvörtunar Salvarar Gullbrár Þórarinsdóttur sem var ósátt við tiltekin ummæli sem hann mun hafa viðhaft í Spursmálsþætti sem hann stjórnaði. Umkvörtunarefnið er frekar lítilsvert í þjóðfélagi sem byggir á tjáningarfrelsi og ekki ástæða til að segja frá því frekar. Var Stefán Einar enda hreinsaður af ávirðingum um að hafa með ummælum sínum brotið siðareglur BÍ, sbr. úrskurð nefndarinnar 12. des. sl. Áhugaverðari er ágreiningurinn um „lögsögu“ siðanefndar BÍ í málinu. Sjónarmið Stefáns Einars var að siðanefnd BÍ hefði ekkert yfir honum að segja frekar en Félag smábátaeigenda, enda væri hann ekki í BÍ frekar en hinu síðarnefnda félagi. Allt að einu taldi siðanefndin að hún gæti fjallað um málið efnislega. Ég ætla að ýmsum kunni að þykja það skrýtið að siðanefnd BÍ hafi tekið þessa afstöðu þótt Stefán Einar sé ekki í félaginu og hafi hunsað málsmeðferðina fyrir nefndinni. Lítum nánar á málið.

BÍ hefur samþykkt siðareglur sem fyrr segir og þar starfar siðanefnd. Í lögum BÍ segir um nefndina að hún taki til meðferðar að fella úrskurði í þeim málum, sem henni ber að fjalla um samkvæmt siðareglum félagsins. Aftur að siðareglunum, því í 13. gr. þeirra segir að hver sá sem telur að blaðamaður hafi brotið siðareglurnar og eigi hagsmuna að gæta,  geti kært ætlað brot til siðanefndar félagsins. Loks gilda sérstakar málsmeðferðarreglur um störf siðanefndar og meðferð kvartana og kemur þar meðal annars fram að þótt hvorki „kærandi“ né „kærði“ séu meðlimir í blaðamannafélaginu geti nefndin tekið mál til meðferðar. Í úrskurði nefndarinnar um mál Stefáns Einars segir meðal annars, í samræmi við ofangreint, að málsmeðferðarreglur taki skýrt fram að aðild að BÍ sé engin forsenda þess að siðanefnd úrskurði í málum sem þessum og um það séu ótal fordæmi í fyrri úrskurðum nefndarinnar. Þannig taldi nefndin augljóslega að hún gæti talað yfir hausamótunum á Stefáni Einari þótt hann hafi ekki verið meðlimur í félaginu.

Þegar allt þetta regluverk er lesið saman sýnist mega leiða af því að nefndin líti svo á að hver sá sem telur að blaða- eða fréttamaður, sem fullnægir skilyrðum til að vera í BÍ, hafi brotið gegn siðareglunum geti skotið málinu til nefndarinnar. Sem sagt nefndin taldi í samræmi við þetta að hún gæti fjallað efnislega um kvörtun Salvarar þótt Stefán Einar sé ekki félagsmaður í BÍ. Í úrskurði nefndarinn kemur fram að fyrir því séu ótal fordæmi að kveðnir hafi verið siðferðisdómar yfir utanfélagsmönnum ef þeir allt að einu fullnægja skilyrðum til að teljast frétta- eða blaðamenn að mati siðanefndarinnar. Þá kemur fram í sératkvæði Ásgeirs Þór Árnasonar lögmanns að fordæmi séu líka um hið gagnstæða, enda taldi hann að vísa ætti málinu frá án efnislegar úrlausnar. Sem er líka alveg skynsamleg afstaða því það er ákveðin skynsemi í því líka að siðnefnd BÍ haldi sig við félagsmenn en sé ekki jafnframt að atast í þeim sem standa utan félagsins.

Nú ætla ég svo sem ekki að taka afstöðu til þess hver sé rétt túlkun á málsmeðferðarreglum fyrir siðanefndinni að þessu leyti enda er það hennar mál og félagsins. Um er að ræða nefnd á vegum frjálsra félagasamtaka sem geta í sjálfu sér sett sér allar þær reglur sem þeim sýnist og stofnað siðanefnd til að semja álit um ætlaða siðferðilega bresti innan- sem utanfélagsmanna, svo lengi félagið eða nefndin aðhefst ekkert sem ekki samrýmist landslögum. Svo er mönnum líka alveg frjálst í lagalegum skilningi að hunsa nefndina með öllu, taka ekki þátt í málsmeðferðinni og taka síðan ekkert mark á áliti siðanefndarinnar ef þeim líst ekki á það.

Hitt er áhugaverðari spurning hvort Stefán Einar eða aðrir sem eru áþekkri stöðu séu ekki samt sem áður „bundnir“ af efnislega sambærilegum siðareglum og þeim sem BÍ hefur sett sér, þegar þeir gegna störfum sínum sem blaða, frétta- eða dagskrárgerðarmenn óháð því hvort þeir eru félagsmenn í BÍ eða Félagi smábátaeigenda. Ég ætla að flestir blaða- og fréttamenn hefðu tilhneigingu til að svara því játandi, svona almennt séð þótt þeir kunni eftir atvikum af hafa ólíka að sýn á hvernig þessar reglur skuli nákvæmlega túlka í einstökum tilfellum.

Málið er að siðareglur BÍ og siðareglur annarra áþekkra félag í öðrum löndum eru í stórum dráttum byggðar á alþjóðlega viðkenndum siðareglum blaða- og fréttamanna. Sem dæmi má nefna að Alþjóðasamtök blaðamanna hafa sínar siðareglur, Global Charter of Ethics for Journalists, sem byggðar eru á því sem ætla má að sé einhvers konar samnefnari fyrir heppilega eða æskilega framgöngu blaðamanna á heimsvísu. Ef siðareglur BÍ eru bornar saman við þessar siðareglur Alþjóðasamtaka blaðamanna kemur í ljós að þær eru í flestum mikilvægustu atriðum efnislega sambærilegar þótt framsetningin sé svolítið ólík. Þá þurfa blaða- og fréttamenn á Íslandi að hafa í huga lög um fjölmiðla nr. 38/201. Þar er að finna ýmsar lagalega bindandi reglur um réttindi og skyldur fjölmiðlaveitna sem lúta að ritstjórnarlegu sjálfstæði blaða- og fréttamanna, hlutlægni, vönduðum vinnubrögðum, persónuvernd o.s.frv. Fyrir mögulegt brot á þeim þurfa frétta- og blaðamenn og vinnuveitendur þeirra að svara að lögum óháð aðild að BÍ eða öðrum félögum. Og að sjálfsögðu allt að teknu tilliti til tjáningarfrelsis í lýðræðislegu samfélagi sem blaða- og fréttamönnum ber líka skylda til að standa vörð um.

Siðareglur BÍ, þótt vissulega séu mikilvægar,  eru sem sagt í aðalatriðum skráning á reglum sem heiðarlegir og grandvarir blaða- og fréttamenn telja sér (flestir) rétt og skylt að fylgja óháð félagsaðild eða annarri stöðu. Nokkuð sýnist ljóst að tilkall siðanefndar til að fjalla um siðferðilega framgöngu blaða- og blaðamanna, óháð aðild að félaginu, er sú hugmynd að þeir séu allir bundnir af siðareglunum að því marki sem siðareglur gata talist bindandi. Ég myndi halda að nánast allir frétta- og blaðamenn líti svo á að þeir séu bundnir af slíkum reglum og það eigi líka við Stefán Einar, þótt ég auðvitað viti það ekki fyrir víst. Breytir þar engu þótt hann virðist ekki hafa mikið álit á BÍ og starfsemi þess félags. Af þessu leiðir að blaða- eða fréttamenn geta trauðla hunsað slíkar almennar siðareglur þótt þeir að kjósi að standa utan félaga blaðamanna. Hitt er líka um leið réttur Stefáns Einars að gera nákvæmlega ekki neitt með BÍ og álit siðanefndar félagsins frekar en álit Félags smábátaeigenda, ef út í það er farið. Það eitt og sér gefur mér ekki tilefni til að líta svo á að hann telji sig ekki þurfa að fara að almennum viðurkenndum siðferðilegum viðmiðunum sem eiga við um störf hans. Það sem ég hef séð til hans í Spursmálum, sem er afbragð annarra þátta af því tagi hér á landi, gefur mér heldur ekkert tilefni til að álykta að hann sé ekki einmitt fullkomlega meðvitaður um þetta. Breytir því ekki þótt hann sé viðmælendum sínum stundum óþægur ljár í þúfu. Er það ekki einmitt mikilvægur eiginleiki góðra frétta- og blaðamanna?

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og prófessor við lagadeild HA

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.