Rétturinn til fundafriðar

Talsvert hefur verið rætt um frægan fund (eða ekki-fund) í Háskóla Íslands 6. ágúst sl. þar sem prófessor Gil Epstein frá Ísrael hafði verið fenginn sem fræðimaður til að halda erindi á sérsviði sínu.

Fundurinn leystist upp vegna mikils ónæðis frá fundamönnum sem litu á fundinn sem tækifæri fyrir sig til að mótmæla framferði Ísraelsmanna á Gaza. Undirritaður var ekki á fundinum, en hefur tvisvar á löngum fundaferli sínum orðið vitni af svipuðu, en þó þannig að einstaka illa séðir ræðumenn urðu á brott að hverfa til koma á friði á fundi sem síðan var fram haldið.

Áður en ég ræði þetta mál út frá sjónarhóli mannréttinda er rétt að geta þess að í 122. gr. almennra hegningarlaga segir að hver, sem hindrar, að löglegur mannfundur sé haldinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, eða fangelsi allt að 2 árum, ef miklar sakir eru, einkum ef ofríki eða ógnun í framferði hefur verið viðhaft. Síðan segir í 2. mgr. sömu greinar að raski nokkur fundarfriði á lögboðnum samkomum um opinber málefni með háreysti eða uppivöðslu, þá varði það sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.

Ég er ekki með allar staðreyndir á hreinu um fund þann sem hér um ræðir. Get þó sagt að ef framferði mótmælenda fellur undir „háreysti“, eða „uppivöðslu“, og jafnvel  „ofríki eða ógnun“ og málefnið sem til umræðu var opinbert og fundurinn löglegur þá var væntanlega um að ræða refsivert athæfi af hálfu þeirra sem mótmæltu og hindruðu að fundurinn færi farm. Sá kostur er því fyrir hendi fyrir skipuleggjendur eða aðra (til dæmis rektor HÍ) að kæra framferðið til lögreglu með saksókn og sakfellingu mótmælenda fyrir hegningarlagabrot að markmiði. Svo gæti lögregla auðvitað ákveðið að hefja rannsókn málsins að eigin frumkvæði. Ekki vil ég spá neinu um hvernig slíku máli kynni að vinda fram ef á það yrði látið reyna. Þetta er sem sagt hin refsiréttarlega hlið málsins.

Ef við skoðum málið frá mannréttindasjónarmiði snýst það um málfrelsi og fundarfrelsi, nánar tiltekið réttindi sem mælt er fyrir um í 10. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hægt er að nálgast þetta frá mismunandi  sjónarhornum en eitt þeirra er að spyrja hvort í málfrelsi og rétti manns til að mótmæla felist réttur hans til að meina öðrum manni með hávaða og gauragangi að taka til máls á fundi sem honum hefur verið boðið til og eyðileggja með því fundinn?

Ef þetta er metið á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu og dómaframkvæmdar mannréttindadómstóls Evrópu þá er bæði stutta og langa svarið  eftirfarandi: Í rétti manns til að mótmæla felst ekki réttur til að eyðileggja löglega fundi annarra. Um þetta vitna margir dómar MDE. Þeir ganga út á að ríkinu beri einmitt skylda til að tryggja að menn geti haldið löglega fundi sína í friði fyrir fólki sem er ósátt við ræðumenn sem þar eru á mælendaskrá eða af öðrum ástæðum.  Ef ríkið, nánar tiltekið þau yfirvöld sem málið varðar hverju sinni, rísa ekki undir þeirri skyldu sinni að tryggja mönnum rétt til að halda löglegan fund sinn í friði fyrir háreysti og uppivöðslu annarra sem vilja eyðileggja hann, þá verður að telja sterkar líkur á að ríkið hafi brotið gegn jákvæðum skyldum sínum samkvæmt 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ef horft er á málið frá íslensku sjónarhorni tekur þessi skylda íslenska ríkisins til að vernda með þessum hætti málfrelsi til allra þeirra einstaklinga sem eru innan lögsögu íslenska ríkisins óháð þjóðerni þeirra eða uppruna að öðru leyti.

Að lokum. Pistilinn ber ekki með nokkrum hætti að skilja sem stuðning höfundar við þann hrylling sem Ísraelsher nú stendur fyrir á Gaza.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og prófessor í lögfræði við HA.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.