Sagnfræði í þáskildagatíð

Ein þeirra bóka sem kom upp úr jólapökkunum hjá mér var Churchill – Stjórnvitringurinn framsýni. Höfundur hennar er James C. Humes. Upphaflega kom þessi bók út 2012 en kom út nú fyrir jól í íslenskri þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Forlagið gefur út.

Höfundurinn bókarinnar var bandarískur lögfræðingur og rithöfundur. Hann var einn af ræðuskrifurum fyrir forseta Bandaríkjanna þá Dwight Eisenhowers, Gerald Ford, Ronald Reagan og George Bush eldri. Formáli að ritinu er eftir David Eisenhower sem fæddur er 1948 en hann var barnabarn Dwights D. Eisenhower forseta. Mun sumardvalarstaður forseta Bandaríkjanna Camp David vera nefndur eftir þessu barnabarni Eisenhowers.

Þegar Google er spurt um 10 mestu  stjórnmálaskörunga 20. aldar er Winston Churchill (1874-1965) yfirleitt á þeim listum sem koma fram í leitarniðustöðum. Þar er líka algengt að sjá Roosevelt Bandaríkjaforseta, blökkumannaleiðtogann Martin Luther King, Nelson Mandela forseta Suður Afríku, Mahatma Gandhi sjálfstæðishetju Indverja og helsta leiðtoga Tyrkja Mustafa Kemal Atatürk. Ýmsir fleiri birtast á þessum listum sem ekki verða nefndir hér. Ekki virðist mikill ágreiningur um að Churchill eigi heima á topp tíu listanum og ekki mun ég draga réttmæti þess í efa.

Bókin er ekki ævisaga Churchill en þær eru til all margar og mismunandi ítarlegar. Markmiðið þessari bók sýnist vera að teikna upp mynd af Churchill sem spámanni sem, með mikla söguþekkingu að vopni, sá lengra inn í framtíðina en aðrir stjórnmálaskörungar. Í bókinn er fjallað um mörg dæmi úr löngum  stjórnmálaferli Churchills um ríka spádómsgáfu hans.

Bókin hefst með frásögn af skólaritgerð sem Churchill skrifað vel fyrir aldamótin 1900 þar sem hann boðaði að brjótast myndi út heimstyrjöld sem myndi standa lengi og einkennast af skotgrafahernaði og hrikalegu mannfalli, meðan aðrir gerðu ráð fyrir skammvinnu stríði. Við vitum öll að þetta átti eftir að rætast. Síðasti spádómurinn sem höfundur bókarinnar telur að hafi ræst hafi komið fram í ræðu Churchills flutti í London 1957, stuttu eftir að Sovétmenn réðust inn í Ungverjaland. Þar boðaði hann að SÞ væru að breytast í gagnslaus samtök þar sem einræðisherrar hefðu yfirhöndina frjálsar þjóðir yrðu að leita leiða sín á milli til takast af skynsemi við úrlaunarefni heimsins. Hmm..?, jú en SÞ hafa aldrei hentað stórveldum sérstaklega vel hvort sem er og bera sjálf mesta ábyrgð á að draga úr þeim vígtennurnar. Þarna á milli rekur bókarhöfundur mörg dæmi um stjórnvisku Churchills og framsýni. Rakið að hann hafi séð fyrir sér ýmsar breytingar á hernaði, svo með skriðdrekum, flugvélum, kjarnorkuvopn o.s.frv. Þá er nefnt að Churchill var óþreytandi á 4. áratug síðustu aldar að benda á ógnir þær sem friði í Evrópu stafaði af  uppgangi Nasismans og Hitlers í Þýskalandi. Ekki væri hægt að friðmælast við slíkan manna og betur færi á að Bretland byggi sig undir átök. Allt þetta reyndist vera rétt hjá Churchill en leysir samt ekki úr þeirri spurningu hvort þetta hefði einhverju breytt um það sem á eftir kom og enn síður þá hvernig og hvort betra hefði verið. Mér virðast skilaboðin með bókinni, ef þau eru einhver önnur en að upphefja Churchill á kostnað samferðamanna hans, vera þau að hefðu menn verið duglegri að hlusta á hann hefði ýmislegt farið öðruvísi og þá væntanlega betur en það gerði í raun.

Sagnfræðingar hafa eðlilega stúderað Churchill frá mismunandi sjónarhornum og fáir draga í efa að þar hafi farið mikill stjórnmálaskörungur. Honum hefur líka verið fundið ýmislegt til foráttu, með réttu eða röngu, sem lítt eða ekki er rakið í bókinni. Þannig hafa viðhorf hans á köflum verið talin rasísk og að hann hafi réttlætt heimsvalda- og nýlendustefnu stefnu Breta með því að vísa til þess að þeir væru í fararbroddi kynþátta heimsins samkvæmt þróunarkenningu Darwins. Ekki kannski alveg með þessum orðum, en næstum því. Sumir segja hann hafa talað fyrir notkun eiturefnavopna, sérstaklega gagnvart því sem hann taldi vanþróaða (uncivilised) kynþætti. Þá hefur hann meðal annarra verið gerður ábyrgur fyrir hungursneyðinni í Bengal 1943 þar sem um á þriðju milljón manna urðu hungurmorða, sem hann sá þá augljóslega ekki fyrir, en deilt er um þátt hans í þessu.  Enn hafa menn lesið Gyðingahatur út úr ýmsu sem hann lét frá sér, sem óbeit og fordóma gagnvart Islam. Þá þykir mörgum sem hann hafi staðið illa að málum varðandi Írland og ýmis innanlandsmál í Bretlandi.

Eitt enn skal nefnt en það eru frægar yfirlýsingar Churchills um Gandhi, sem nú er af mörgum talinn einn merkasti stjórnmálamaður 20 aldarinnar. Þykja þær sumar lítt boðlegar og gegnsýrðar af kynþáttahyggju og fordómum með rætur í heimsvaldapólitík Breta á Victoríutímabilinu á 19. öld. Anthony Eden, síðar forsætisráðherra, sem var ungur og upprennandi í breska Íhaldsflokkum á fyrri hluta fjórða áratugar síðustu aldar vantreysti Churchill á þessum árum vegna tengsla þess síðarnefna við harðlínu hægri öfl í flokknum. Eden lét hafa eftir sér:  „Fólk spyr stundum hvers vegna í ósköpunum var ekki hlustað betur á Churchill þegar hann varaði við Hitler á síðari hluta fjórða áratugarins. Jú það var vegna þess að hann viðhafði alveg sama talsmáta um Gandhi á fyrri árum þessa sama áratugar.“ Þannig að já, ef Churchill hefði ekki áður verið búinn að tala svona illa um hálfnakið og horað "lágmennið" hann Mahatma Gandhi hefðu menn kannski hlustað betur á hann þegar hann hóf ræður sínar um Adolf Hitler! Og kannski hefði þá saga heimsins orðið önnur en hún varð og mögulega betri. Hver veit?

En já, vissulega var Churchill mikill leiðtogi sinnar þjóðar, sérstaklega á erfiðum tímum við upphaf síðari heimstyrjaldar þegar Þjóðverjar hófu árásir á Bretland og hvatti þjóð sína til dáða. Hann hafði og margháttuð áhrif á ganga heimsmála, einkum undir lok styrjaldarinnar. Hafa Bretar hampað Churchill verðskuldað sem einum sínum mesta stjórnmálaskörungi á 20 öld þótt þeir hafi sett hann af sem forsætiráðherra eftir þingkosningar 5. júlí 1945, strax í lok stríðsins, en þá hafði ekki verið kosið til þings þar í landi síðan 1935. Á hinn bóginn gengur upphafningin býsna langt í þessari bók Humes sem hér er til umræðu og Churchill birtist okkur sem nánast óskeikull skörungur sem sá allt miklu betur og lengra fram í tímann en aðrir. Týnd eru til valin dæmi þessu til stuðnings. Síðan er dregin upp sú mynd að ef menn hefðu verið duglegri að hlusta á Churchill hefði margt farið öðruvísi en það fór og  heimurinn líkast til annar og betri en hann er nú. Bókin er því að stórum hluta sagnfræði í þáskildagatíð sem gengur út á að skýra út fyrir lesandanum að hefðu hlutirnir verið á annan veg en þeir voru, hefðu þeir farið á allt annan hátt. Líklega er það alveg rétt, þótt við vitum í raun ekkert um hvort það hefði verið til hins betra eða verra. Þessi bók er tæplega mikið meira en samkvæmisleikur eins og sagnfræði í þáskildagatíð gjarnan er.

Bókin, sem samt er alveg áhugaverð aflestrar þar sem hún vísar til margra stærstu viðburða í stjórnmálasögu heimsins á 20. öld og veitir þannig tækifæri til að rifja þá upp og horfa á þá frá sjónarhóli Churchill, þ.e. nánar eins og höfundur bókarinnar sér það sjónarhorn fyrir sér. Hún er samt smá einkennileg og raunar að mestu gagnrýnislaus lofrulla um Churchill, sem ég er ekkert viss um að hann hefði verið eitthvað sérstaklega hrifinn af sjálfur.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.