- Inngangur
Hinn 5. mars sl. hélt ég fyrirlestur á ráðstefnu um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Samningurinn er yfirleitt nefndur Istanbúl samningurinn og er frá 2011. Ráðstefnan var haldin á vegum lagadeildar Universidade Lusófona í Lissabon í Portúgal. Háskóli þessi er stærsti einkaháskólinn þar í landi stofnaður 1987 er samvinnuverkefni svonefndra „lusófon“ landa (Grupo Lusófona). Ríkjahópi þessum heyra til Portúgal, Brasilía, Grænhöfðaeyjar, Angóla, Guinea-Bissau og Mozambique, en löndin eiga það sameiginlegt að portúgalska er þar aðaltungumál eða annað opinbert tungumál íbúa (adoptive language). Lusófón er hliðstætt því að tala um að lönd séu anglófón þar sem enska hefur þessa stöðu og frankófón þar sem franska ræður ríkjum. Þetta eru meðal arfleiðar nýlendustefnu Evrópuríkja á 18. og 19. öld, og raunar fram á þá tuttugustu.
Fyrirlestur minn fjallaði um þýðingu Istanbúl-samningsins fyrir dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins (MDE). Ísland er aðili að þessu samningi (ísl. þýðing: Istanbúl-samningurinn.pdf). Staða Istanbúl-samningsins í dómaframkvæmd MDE hefur talsverða þýðingu fyrir innleiðingu samningsins í landsrétt samningsríkjanna og fyrir innlenda dómstóla, en samningurinn, sem gerður var á vettvangi Evrópuráðsins, er víðtækasti alþjóðlegi sáttmálinn sem tekur á ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (ofbeldi í nánum samböndum). Er hann meðal annars rót ákvæða íslensku hegningarlaganna um heimisofbeldi eða ofbeldi í nánum samböndum, sbr. einkum ákvæði 218. gr. a-c.
- Istanbúl-samningurinn og kvenréttindabarátta
Í inngangsorðum samningsins eru ýmsar áhugaverðar yfirlýsingar sem sýna tengsl samningsins við kvenréttindabaráttu. Þar segir meðal annars að samningsaðilar geri sér grein fyrir að ofbeldi gegn konum sé birtingarform sögulegs ójafnvægis í valdahlutföllum milli kvenna og karla sem leitt hafi til drottnunar karla yfir og mismununar gagnvart konum og komi í veg fyrir fullan framgang þeirra. Þá segir að samningsaðilar viðurkenni að ofbeldi gegn konum sé í eðli sínu kynbundið ofbeldi og eitt helsta félagslega tækið til að neyða konur til að skipa lægri sess í samfélaginu en karlar. Jafnframt segir að samningsaðilar geri sér grein fyrir og telji mikið áhyggjuefni að konur og stúlkur verði oft fyrir alvarlegu ofbeldi, svo sem heimilisofbeldi, kynferðislegri áreitni, nauðgun, þvingun í hjónaband, glæpum sem kenndir eru við svokallaðan „heiður“ og limlestingu kynfæra sem sé alvarlegt brot á mannréttindum kvenna og stúlkna og komi í veg fyrir að jafnrétti kvenna og karla nái fram að ganga.
Þótt tekið sé fram í inngangi samningsins að konur geti líka beitt ofbeldi er ljóst að markmið hans er fyrst og fremst að taka á ofbeldi karla gegn konum. Þá er áhugavert að samningurinn er meðal annars, svo sem kemur fram í inngangi hans, reistur á forsendum sem fela í sér skírskotun til feminískra félagslegra kenninga, sem ég leyfi mér að efast um að full fræðileg samstaða sé um, svo sem um að ofbeldi gegn konum sé félagslegt tæki, í höndum karlamanna og ætla verði að notað sé til að neyða konur til að skipa lægri sess í samfélaginu. Hvað sem því líður vangaveltum fræðilegt réttmæti þessara kenninga fer ekki á milli mála að Istanbul-samningurinn er innlegg í kvenréttindabaráttu með því að hann bersýnilega gengur út frá að konur séu þolendur en miklu síður karlar þótt samningurinn eigi vissulega líka við um ofbeldi kvenna gagnvart körlum, sem oftast er þá andlegt eins og rannsóknir vitna um.
- Helstu skyldur ríkja samkvæmt Istanbúl samningnum
Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. Istanbúl-samningsins segir kemur fram ein grundvallarregla samningsins sé horft á þýðingu hans fyrir skýringu of framkvæmd MSE. Segir þar að samningsaðilar skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að að koma í veg fyrir og rannsaka heimilisofbeldi, refsa gerendum og bæta fyrir ofbeldisbrot sem falla undir gildissvið samningsins. Þá er í 6. gr. samningsins ákvæði sem ber yfirskriftina „kynjuð stefna“ en þar segir að samningsaðilar skuldbindi sig til að gæta kynjasjónarmiða við framkvæmd og mat á áhrifum ákvæða samningsins og til að stuðla að og framfylgja með virkum hætti jafnréttisstefnu kvenna og karla og valdeflingu kvenna.
Þegar bakgrunnur Istanbúl -samningsins er skoðaður kemur ljós að hann tók í ríkum mæli mið af MSE og dómaframkvæmd MDE áður fyrir 2011. Þarf því ekki að koma á óvart að í dómum MDE um heimilisofbeldi er í ríkum mæli vísað til Istanbúl-samningsins til að skilgreina skyldur samkvæmt MSE.
Í 1. grein MSE er kveðið á um að samningsaðilar skuli tryggja öllum innan lögsögu þeirra þau réttindi og frelsi sem skilgreint er í I. kafla þessa samnings. Þetta er almennt skilið þannig að það nái til tvenns konar skuldbindinga. Í fyrsta lagi þess sem nefnt er neikvæðar skyldur sem lýst er yfir að brjóta ekki í bága við réttindi sem vernduð eru samkvæmt efnisákvæðum samningsins. Á hinn bóginn talað um jákvæðar skyldur til að sjá til þess að réttindin séu tryggð þeim sem eru innan lögsögu samningsríkja. Nánar tiltekið krefst hún þess að ríkin taki til ráðstafana til að tryggja að borgararnir njóti þeirra réttinda sem sáttmálinn kveður á um. Það er einmitt um þessar jákvæðu skyldur sem Istanbúl-samningurinn fjallar um.
Skyldur ríka samkvæmt Istanbúl-samningnum eru margvíslegar og ekki tóm til að gera grein fyrir því öllu hér. Taka þær til skyldna ríkja til að setja sér heildaráætlun og samræmda stefnu í málaflokknum, áætlunin og framkvæmd hennar sé fjármögnuð, skýr sé hvaða stofnanir beri ábyrgð á því. Þá er ákvæði um skyldur ríkja til að taka til almennra fyrirbyggjandi ráðstafana með vitundarvakningu um heimilisofbeldi, fræðslu, þjálfun sérfræðinga, upplýsingaöflun og almenna stuðningsþjónustu við þolendur, hjálparsímalínur o.s.frv. Það eru þó ákvæðin í VI. kafla Istanbúl-samningsins sem skipta mestu máli fyrir innhald fyrirlesturs míns. Þessi ákvæði fjalla um skyldur lögreglu eða annar yfirvalda til aðgerða þegar þeim berst vitneskja um heimilisofbeldi eða grunsemdir um þar um. Nánar er þar fjallað um rannsókn brota, saksókn, réttarfarsreglur og verndarráðstafanir. aðeins meira um þetta. í þessum skyldum felst að
- MDE og heimilisofbeldi
Í fyrirlestrinum fjallaði ég talsvert um dóm yfirdeildar MDE í máli Kurt gegn Austurríki frá júní 2021 þar sem rætt er um réttinn til lífsins og heimilisofbeldi og jákvæðar skyldur, sem svo eru nefndar, samkvæmt honum.
Kærandi er austurrísk kona, fædd árið 1978. Hún gekk í hjónaband 2003 og eignaðist með manni sínum tvö börn fædd 2004 2005. Í júlí 2010 hafði hún samband við lögreglu og tilkynnti að eiginmaður hennar hefði lagt á hana hendur. Í kjölfarið var sett nálgunarbann á eiginmanninn og var honum gert að halda sig frá heimili fjölskyldunnar og foreldrum konunnar í 14 daga, auk þess sem hann var kærður fyrir líkmasárás. Eiginmaðurinn var síðan í janúar 2011 sakfelldur fyrir líkamsárás og alvarlegar hótanir og dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Í maí 2012 lagði kærandi inn beiðni um skilnað. Sama dag kærði hún eiginmann sinn til lögreglu fyrir nauðgun hótanir. Var eiginmaðurinn færður í yfirheyrslu og úrskurðaður í nálgunarbann að nýju í tvær vikur. Við yfirheyrslu greindu börn mannsins einnig frá ofbeldi af hendi föður. Var hann sakaður um vanrækslu gagnvart þeim og illa meðferð. Í maí kom eiginmaðurinn í skóla A og tspurði kennara hvort hann mætti ræða við son sinn í einrúmi þar sem hann hygðist gefa honum peninga. Kennarinn, sem ekki vissi ekkert um málefni fjölskyldunnar og veitti honum heimild til þess að tala við drenginn. Þegar drengurinn koma ekki til baka í skólastofuna hóf kennarinn að leita að honum og fann hann að lokum í kjallara skólans. Hann hafði þá verið skotinn í höfðuð og hlaut hann bana af skömmu síðar. Systir hans hafði orðið vitni að atburðinum en var ómeidd. Konan höfðaði skaðabótmála gegn yfirvöldum vegna vanrækslu þeirra á að grípa til nægjanlegra ráðstafana til að vernda hana og börnin gagnvart ofbeldi eiginmannsins. Einkum bar hún fyrir sig að yfirvöld hefðu ekki gert nóg til að halda eiginmanninum frá fjölskyldunni, t.d. með í að halda honum í gæslu (varðhaldi) og saksóknari hefð i vitað að hætta hefði stafað að manninum. Ekki var fallist á kröfur kæranda fyrir dómstólum í Austurríki. Fyrir MDE hélt kærandi því fram að yfirvöld hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt 2., 3. og 8. gr. MSE sinni til að vernda hana og börn hennar gegn ofbeldi eiginmannsins. Vísaði hún til þess að hún hefði sérstaklega upplýst lögreglu um að hún óttaðist um líf barna sinna.
Í dómi MDE er lögð áhersla á að ríkjum beri rík skylda til að vernda einstaklinga gagnvart ofbeldi með vísan til þeirra jákvæðu skyldna sem kveðið er á um í 2. gr. MSE (rétturinn til lífsins). Einkum er lögð áhersla á yfirvöldum beri skylda til að bregðast skjótt við um leið og ásakanir um heimilisofbeldi komi upp sem er í fullu samræmi við skyldur samkvæmt Istanbúl-samningnum. Yfirvöldum bæri, í samræmi við þann samning, að eiga frumkvæði að því meta sjálfstætt hvort þolendum stafaði bráð og raunverulega hætta af ofbeldishegðun eiginmannsins í þessu tilfelli. Við það mat skipti einkum máli hvort ofbeldi hefði verið ítrekað og viðvarandi. Þá er lögð áhersla á að mikilvægt væri að starfsmenn yfirvalda sem ætti í samskiptum við þolendur heimilisofbeldis hlyti reglulega þjálfun og fræðslu með að markmiði að átta sig á hegðunarmynstri gerenda heimilisofbeldis. Með því móti væri unnt að tryggja að mat á hættu sem kynni að vera til staðar, bregðast við með viðeigandi hætti og tryggja í tíma vernd þolenda. Ef yfirvöld mætu að hættan væri bráð og raunveruleg bæri þeim skylda til að grípa til aðgerða, sem fæli í sér nægjanleg og fullnægjandi viðbrögð við hættunni, þ.m.t. með sviptingu frelsis eiginmannsins ef annað dygði ekki. Eftir ítarlegan rökstuðning mat dómstólsins var að stjórnvöld hefðu á nægilegan hátt fullnægt skyldum sínum sýnt þá sérstöku kostgæfni sem nauðsynleg er. Í fyrsta lagi hefðu yfirvöld framkvæmt sjálfstætt og fullnægjanlegt áhættumat eins og Istanbúl samningurinn mælir fyrir um. Lögreglan hefði ekki einungis reitt sig á frásögn kæranda um atburði heldur aflað annarra sönnunargagna, tekið myndir og látið framkvæma læknisrannsókn. Þá hefði verið kannað hvort skotvopn væru skráð á eiginmann brota þola. Enn taldi dómurinn að með því að fara ekki fram á gæsluvarðhald yfir eiginmanninum hefði ríkið ekki vanrækt skyldur sínar, einkum með hliðsjón af skilyrðum landsréttar og 5. gr. sáttmálans. Með vísan til þessara atriða var ekki talið að brotið hefði verið gegn efnisþætti 2. gr. sáttmálans. Minnihluti dómenda, sjö dómarar af sautján, töldu aftur á móti að um hefði verið að ræða brot á 2. gr. MSE. Þótt MDE hefði komist að þeirri niðurstöðu að 2. gr. MSE hefði ekki verið brotin er dómurinn býsna gott dæmi um hvernig skyldur ríkja samkvæmt MSE um heimilisofbeldi eru leiddar með skýrum hætti af Istanbúl-samningnum. Það er er ekki nýtt að MDE vísi til Istanbúl-samningsins. Með þessum dómi er þó orðiðn skýrari en áður að jákvæðar skyldur ríkja í tengslum við ofbeldi gagnvart konum, heimilisofbeldi og ofbeldi í nánaum samböndum ráðast í raun af þeim skyldum sem Istanbúl -samningurinn gerir áður fyrir. MDE festir þessa aðferðafræði í sessi með þessum stefnumarkandi dómi og afmarkar hana með afgerandi hætti.
- Lokaorð
Meginatriðið í innleggi mínu á ráðstefnunni var að af beitingu MDE á Istanbúl-samningsins við skýringu þeirra skylda sem felast í MSE leiðir til þess að slagkraftur Istanbúl-samningsins í alþjóðlegu samhengi verður mun meiri en annars myndi vera. Málið, og önnur mál sem vísað er til í umræddum dómi, sýnir að Istanbúl-samningurinn gegnir lykilhlutverki við að skilgreina frekar réttindi einstaklinga samkvæmt MSE, einkum kvenna og barna, að því er varðar vernd gegn heimilisofbeldi sem og jákvæðar skyldur ríkja í þessum efnum.
Þetta hefur talsverða þýðingu þar sem Istanbúl-samningurinn sjálfur kveður ekki á um neinar skýrar eða beinar heimildir til að framfylgja skyldum ríkja samkvæmt honum. Hann kveður að vísu á um eftirlitskerfi (Grevio) í 66. og 67. gr. Istanbúl-samningurinn, rétt eins og flestir alþjóðlegir sáttmálar, gerir ekki ráð fyrir sérlega virku kerfi til að knýja ríki til að fara að þeim skuldbindingum sem í honum felast.
Á hinn er bóginn er fullnustukerfið samkvæmt MSE tiltölulega áhrifaríkt miðað við aðra alþjóðlega mannréttindasamninga. Felst munurinn helst í því að gert er ráð fyrir MDE sem hafi síðasta orðið um túlkun MDE og heimild hans til að kveða upp bindandi dóma, sem og hlutverk ráðherranefndar Evrópuráðsins til að knýja ríki til að hlíta dómunum. Um þetta eru ákvæði í 46. gr. MSE.
Af þessu leiðir að ráðherranefnd þrýstir á ríki að greiða bætur í málum þar sem þær hafa dæmdar auk málskostnaðar. Þar að auki er leitast við knýja ríki á um að ráðast að rót vandans, svo sem ófullnægjandi löggjöf eða öðru regluverki, sem og kerfislægum vandamál við að framfylja reglum eða lögmætum ákvörðunum yfirvalda og bæt með því úr því sem betur má fara.
Ekki er þar með sagt að kerfið sem sett hefur verið á fót með MSE sé fullkomið og virki alltaf, en það gerir það í þó flestum tilfellum, sem gerir það fremur skilvirkt í samanburði við flesta alþjóðlega mannréttindasamninga, þar á meðal Istanbúl-samninginn. Með því að setja meginreglur Istanbúl-samningsins um frekari fínstillingu réttinda einstaklinga og skyldur ríkja á sviði heimilisofbeldis í forgrunninn, styrkir það umtalsvert beina þýðingu samningsins og hagnýtt gildi á í landsrétti aðildaríkja. Dómar MSE hafa þar áhrif á löggjöf, stjórnsýslu og dómaframkvæmd dómstóla heima fyrir og stuðla að því að markmiðum hans verði betur náð.
Höfundur er hæstaréttarlögmaður, deildarforseti og prófessor við lagadeild Háskólans á Akureyri