Hinseginfræðsla og baráttan um barnssálina

 

Í þessum pistli er fjallað um hinseginfræðslu í grunnskólum landsins, en hún  mælist mjög illa fyrir hjá mörgum foreldrum. Þetta er mér tilefni til að ræða aðeins um 2. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Þar segir meðal annars að hið opinbera skuli í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra. Í pistlinum eru rakin ýmis sjónarmið sem koma til skoðunar þegar metið er hvaða þýðingu þetta hefur varðandi hinseginfræðslu og hvort og að hvaða marki foreldar eigi rétt á, í samræmi við 2. gr. 1. viðauka MSE, að tillit sé tekið til trúar- og heimspekilegrar sannfæringar þeirra við skipulag og framkvæmd þessarar fræðslu. Ég vil taka fram að persónulega ég set mig alls ekki upp á móti þessari fræðslu, en reyndar á ég ekki lengur börn í grunnskóla. Margir foreldrar, sem eiga börn í grunnskóla, hafa á hinn bóginn aðra sannfæringu og spurningin er þá hvort sanngjarnt sé og réttmætt að taka tillit til sannfæringar þeirra við framsetningu og skipulag fræðslunnar?

I

Nokkur umræða er um þessar mundir um hinseginfræðslu í skólum. Nú hef ég ekki nákvæmar upplýsingar um inntak þessarar fræðslu, en margir sem tjá sig, þar með taldir foreldrar, telja hana óviðeigandi og margir þeirra eru raunar mjög reiðir og ósáttir ef marka má harkalegar athugasemdir á samfélagsmiðlum. Talsvert hefur einnig verið rætt um ritið Kyn, kynlíf og allt hitt eftir Cory Silverberg og Fionu Smyth í þessu sambandi sem Menntamálastofnun gaf út fyrr á þessu ári, en netútgáfu þess má sjá hér og kennsluleiðbeiningar hér. Margir hafa einnig orðið til að býsnast yfir þessu riti og þeim boðskap sem það flytur.

Mér er samt ekki ljóst hvort og að hve miklu leyti bókin er notuð við hinseginfræðslu og/eða almenna kynfræðslu í skólum, en nokkur óreiða er í fréttaflutningi af þessum málum og skortur á hlutlausri umfjöllun blaða- og fréttamanna um málið sem ekki er lituð af þeirra eigin persónulegu viðhorfum. Mitt í þessari umræðu flytja nokkrir þingmenn frumvarp til breytinga á lögum um grunnskóla um að efla kristinfræðikennslu í grunnskólum landsins, sjá hér. Um að ræða frumvarp sem er endurflutt en kom fyrst fram fyrir þremur árum en náði þá ekki fram að ganga. Fyrir þá sem fylgjast með úr fjarska birtist þetta uppátæki þingmannanna sem einhvers konar mótvægi við hinseginfræðslu, svona rétt eins og hinseginfræðsla og kristinfræðikennsla séu andstæður, sem varla er rétt. Baráttan um barnssálina milli stjórnmálamanna, hinsegin fólks og foreldra er því snörp þessa dagana. Við lestur frétta, og vegna þeirrar hvössu umræðu sem á sér stað á samfélagsmiðlum um þessi mál, var mér hugsað til MSE, einkum 2. gr. 1. viðauka um rétt til menntunar. Í greininni segir þetta:

Engum manni skal synjað um rétt til menntunar. Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.

Íslenska þýðingin er ekki nákvæm því í enska og franska texta sáttmálans, sem eru opinber tungumál hans, er ekki talað um “trúar- og lífsskoðanir” foreldranna heldur “religious and philosophical convictions”  og “convictions religieuses et philosophiques”. Þannig vísa frumtextarnir til sannfæringar foreldranna ekki skoðana. Þetta skiptir máli því í fræðum um sáttmálann er byggt á að skoðun og sannfæring séu ekki hið sama og munurinn á merkingu orðanna hafi þýðingu fyrir túlkun ákvæðisins.

II

Tilvitnað ákvæði inniheldur tvær reglur. Sú fyrri tryggir rétt einstaklinga til menntunar en hin síðari mælir fyrir um skyldu ríkisins til að virða rétt foreldranna til að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúarlega og heimspekilega sannfæringu þeirra.

Réttur einstaklinga til menntunar sem tekur að meginstefnu til allra skólastiga, þótt hann fjalli fyrst og fremst um grunnmenntun barna, er ekki án takmarkana. Fjölmargir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) fjalla um þetta, en þeir varða meðal annars inntökuskilyrði í skóla, inntökupróf, fjöldatakmarkanir (numerus clausus), skólagjöld, þjóðerni, kynþátt, lágmarksaldur, rétt fatlaðra til menntunar, rétt fanga og jafnræði til náms. Um þessi atriði er ekki fjallað í þessum pistli. Athyglinni er aftur á móti beint að skyldu ríkisins (sveitarfélaga) við skipan menntunar og skólastarfs fyrir börn, til að virða rétt foreldra til að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúarlega og heimspekilega sannfæringu þeirra.

III

Þessa er að geta áður en lengra er haldið að í 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Í 2. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla segir að hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, sé  að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Þá kemur fram að starfshættir skóla skuli mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Enn segir að grunnskóli skuli stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Loks kemur fram að grunnskóli skuli stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda.

Hvorki í íslensku stjórnaskránni né grunnskólalögum er tekið fram að virða skuli rétt foreldra til að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúarlega eða heimspekilega sannfæringu þeirra. Á hinn bóginn er fyrrnefnt ákvæði MSE lögfest hér á landi og er skylda ríkisins til að virða rétt foreldra að þessu leyti þar með bundin í lög. Skoðum þetta nánar.

IV

Að því er varðar orðið sannfæring (conviction) kemur fram í dómum að það merki ekki það sama og skoðun eða hugmyndir (opinions/ideas). Sannfæring vísi til viðhorfa eða afstöðu foreldra sem talin verða heildstæð, einlæg, alvarleg og mikilvæg fyrir viðkomandi. Þannig er ekki nægilegt að foreldrar hafi einhverja almenna  skoðun til að skyldan til að taka tillit til hennar við fræðslu barna þeirra verði virk. Óhagfellt væri fyrir skólastarf ef kennarar þyrftu að taka tillit til hvers kyns sérvisku og mismunandi vel ígrundaðra skoðana eða hleypidóma einstakra foreldra. Dæmi um sannfæringu sem talin hefur verið hafa nægilegan slagkraft að þessu leyti er andstaða við líkamleg agaviðurlög í skólum en þau voru lengi tíðkuð í skólastarfi, einkum í Bretlandi og þóttu langt fram á síðari hluta 20. aldar eðlileg og sjálfsögð í skólastarfi þar í landi. Um þetta vitnar t.d. dómur í máli Campbell ofl. gegn Bretlandi (1982), málsgrein 36). Í þessu felst að ríkinu (skólayfirvöldum) er ekki skylt að taka tillit til hvers kyns skoðana foreldra á þeirri fræðslu sem veitt er í opinberum skólum. Þannig verða foreldrar sem eru eldheitir kommúnistar að una því að börn þeirra séu frædd um markaðshyggju, enda sé það gert á forsendum fræðslu og menntunar, ekki boðunar eða innrætingar.

V

Reynt hefur á umrætt ákvæði 2. gr. 1. viðauka við MSE í dómum við aðallega tvenns konar aðstæður, þ.e. annars vegar trúarbragðafræðslu og hins vegar kynfræðslu. Í þessum tilfellum hefur reynt á hvort foreldrar eigi rétt til þess að börn þeirra séu undanþegin því að sækja kennslustundir vegna þess að það sem þar fer fram fari gegn trúarlegri- eða heimspekilegri sannfæringu foreldaranna. Þetta eru nokkrir dómar og ákvarðanir, en eingöngu tveir verða raktir.

Í málinu Folgerø o.fl. gegn Noregi (2007) kvörtuðu foreldrar undan því að börn þeirra gætu ekki fengið undanþágu frá kennslu í fagi sem kennt var við kristinfræðslu með innsýn í trúar­brögð og lífsskoðanir. Markmið þessa fags var að fræða börn um Biblíuna og kristindóm sem menningararfleifð, evangelíska-lúterska trú (ríkistrú Noregs sem 86% landsmanna aðhyllast), önnur kristin trúarbrögð, önnur trúarbrögð og kenningar í sið­fræði og heimspeki. Samkvæmt eldri skipan gátu foreldrar sótt um að börn þeirra yrðu undan­þeg­in kennslu í sérstöku fagi um kristinfræði. Samkvæmt hinni nýju skipan var einungis unnt að fá undanþágu frá kennslu í ákveðnum hlutum hinnar nýju námsgreinar. Kærendur héldu því fram að með því að synja börnum þeirra um fulla undanþágu frá þátttöku í námsgreininni gætu þeir ekki tryggt börnum sínum menntun í samræmi við trú sína og samvisku og með því væri brotið meðal annars gegn 9. gr. MSE um hugsana-, samvisku- og trúfrelsi og 2. gr. 1. viðauka. Dómstóllinn féllst á að með umræddri námsgrein væri leitast við að tryggja opið og heildstætt skólaumhverfi, óháð bakgrunni nemenda, trú, þjóðerni og fleiri þáttum. Þetta var talið samræmast meginreglum um hlutlægni og fjölhyggju sem fælist í 2. gr. 1. viðauka MSE. Aftur á móti væri ljóst að yfir­gnæf­andi áhersla væri lögð á kristindóm. Var þetta talið benda til þess að munur milli kennslu í kristindómi annars vegar og öðrum trúarbrögðum hins vegar varðaði ekki aðeins umfang eða fyrirferð kristninnar í umræddri námsgrein annars vegar og annarra trúarbragða og lífsskoðana hins vegar heldur einnig eðli hennar. Þegar til þess munar væri litið væri óljóst með hvaða hætti fræðslan ætti að efla með fullnægjandi hætti skilning, virðingu eða samræður milli einstaklinga af mismunandi trú og lífsskoðunum. Dómurinn lagði áherslu á að upplýsingar um samvisku og trú einstaklinga lytu að innilegustu þáttum einkalífs þeirra og að hætta væri á að foreldrum fyndust þeir knúnir til að upplýsa skólayfirvöld um innilegust þætti trúar sinnar, samvisku og einkalífs. Þrátt fyrir lofsverðan tilgang námsgreinar sem um var deilt væri ekki tryggt með fullnægjandi hætti að upplýsingum og þekkingu væri komið á framfæri á hlutlausan og gagnrýninn hátt sem virti sjónarmið fjölhyggju. Með því að hafna beiðnum foreldra um fulla undanþágu frá námsgreininni væri brotið gegn 2. gr. 1. viðauka MSE. Þess er að geta dómurinn var kveðinn upp í Yfirdeild dómstólsins þar sem sitja 17 dómarar, en 8 dómarar voru ósammála þessari niðurstöðu. Fordæmisgildi dómsins er því veikt og hefur hann frá því hann var kveðinn upp verið umdeildur. En dómur er þetta nú samt.

Í Dojan o.fl. gegn Þýskalandi  (2011) voru kærendur strangtrúaðir meðlimir í söfnuði baptista í Þýskalandi og áttu börn sem sóttu opinberan grunnskóla. Hluti af námskrá á fjórða ári voru tímar í kynfræðslu. Skólinn ákvað á árinu 2006 að standa fyrir einskonar reglulegum vinnustofum með nemendum til að auka meðvitund þeirra um hættu á kynferðislegri misnotkun barna. Þá mótaðist sú hefð að skólinn skipulagði kjötkveðjuhátíð árlega (carnival) með trúarlegu ívafi, en þeim nemendum sem ekki vildu sækja það gefinn kostur á sundkennslu eða þátttöku í öðrum íþróttum. Kærendur vildu ekki að börn þeirra tækju þátt í neinu af þessu eða einhverjum hluta og komu í veg fyrir það. Þeir voru sektaðir fyrir tiltækið.

Fyrir MDE báru foreldarnir fyrir sig 2. gr. 1 viðauka MSE, enda töldu þeir þessa fræðslu andstæða trúarlegri og/eða heimspekilegri sannfæringu sinni. Í dóminum kemur fram að ákvæði um skyldu ríkis til að virða trúarlega- og heimspekilega sannfæringu við menntun barna þeirra stefni að því að tryggja fjölhyggju sem nauðsynleg væri í lýðræðissamfélagi. Í ákvæðinu fælist skylda ríkisins til að virða trúarlega og heimspekilega sannfæringu foreldra í hinu opinbera skólakerfi. Á hinn bóginn væri samsetning námskrár í skólum á valdi ríkisins og munur kynni að vera þar á frá einu landi til annars. Raunin væri sú að ýmsar námsgreinar í grunnskólum hefðu skýrar tengingar við kenningar í heimspeki eða eftir atvikum við trúarbrögð. Meginskylda ríkisins samkvæmt 2. gr. 1. viðauka væri að sú að fræðslan sem boðið væri upp á væri í anda fjölhyggju og væri hlutlaus og gagnrýnin og tæki tillit til ólíkra skoðana og sjónarhorna þar sem það ætti við. Forðast skyldi innrætingu barna sem sanngjarnt  væri að líta á sem andstæða trúar- og heimspekilegri sannfæringu foreldra þeirra.

Að því varðar kynfræðsluna sérstaklega mat dómstóllinn það svo að kennslan sem í boði var fælist í að fræða börnin um barneignir, getnaðarvarnir, þungun og barnsfæðingar og gengið væri út frá bestu vísindalegri þekkingu sem völ væri á hverju sinni. Þá væri hluti fræðslunnar til þess ætlaður að vekja vitund barnanna um kynferðisofbeldi gagnvart börnum og væri þannig í samræmi við þá fjölhyggju og hlutlægni sem 2. gr. 1. viðauka MSE gerði kröfu um. Að því er varðaði umrætt „karnival“ þá gætu foreldrar valið að börn þeirra sæktu aðra fræðslu, skemmtun eða þjálfun. Með þessu hefði ríkið ekki farið út fyrir það svigrúm sem það hefði til að ákveða innihald fræðslunnar, enda væri hún sett fram á hlutlausan og gagnrýninn hátt. Kærunni var vísað frá og var að öðru leyti ekki tekin til efnismeðferðar.

VI

Erfitt er að máta þessa dóma við hinseginfræðslu þá sem fram fer í grunnskólum. Á vefsíðu Samtakanna 78 kemur fram að samtökin hafi gert samninga við fjórtán sveitarfélög sem ganga út á fræðslu til grunnskólanemenda, starfsfólks leik- og grunnskóla, bæjarskrifstofa og annarra sem sinna þjónustu við íbúa. Um inntak þessarar fræðslu segir meðal annars að á yngsta stigi sé farið yfir ólík fjölskylduform og kyntjáningu. Sum börn eigi mömmu og pabba, önnur tvær mömmur eða tvo pabba, sum alast upp á tveimur heimilum, hjá einstæðum foreldrum, frændum og frænkum, stjúpforeldrum, öfum og ömmum. Allar fjölskyldur séu jafngildar. Þá kemur fram að þegar rætt sé um kyntjáningu við yngstu börnin sé útgangspunkturinn að mannflóran sé fjölbreytt. Sumt fólk vilji vera í kjól og sumt í buxum. Sumt fólk elski svartan lit, en annað bleikan. Börnum sé kennt að sama hvernig það klæðir sig eða hvernig fjölskyldan þess er, þá séu þau ekki minna virði en annað fólk og eigi skilið virðingu og kærleika.

Á miðstigi fari fram fyrsta kynning á grunnhugtökum hinseginfræða, þ.e. kynhneigð, kynvitund og kyneinkennum. Fólk upplifi kyn sitt á fjölbreyttan hátt og laðist að öðru fólki á mismunandi hátt. Eðlilegt sé að fara fram og til baka, skipta um skoðun og að enginn þurfi að festast í kössum eða skilgreiningum. Allir hafi leyfi og frelsi til að þroskast og þróast á sinn hátt. Inntak fræðslunnar á unglingastigi sé svipað en farið dýpra í grunnhugtök, fjallað um fordóma, mikilvægi þess að koma út og sýna öðru fólki virðingu. Á öllum stigum sé lögð áhersla á samræður við nemendur um málefnið.

Í þessari almennu lýsingu á inntaki og markmiðum fræðslunnar sé ég persónulega ekki neitt sem ég sé ástæðu til að vera mótfallinn. Á hinn bóginn, ef meta á hvort foreldrar, sem hugsa ekki eins og ég, eigi samkvæmt sáttmálanum sanngjarna kröfu eða rétt til þess að börn þeirra séu undanþegin þessari fræðslu, þar sem hún kunni að stríða gegn trúarlegri- eða heimspekilegri sannfæringu þeirra, þarf meiri upplýsingar um inntak hennar og hvernig framsetningu hennar er háttað. Meta þarf hvort hún feli í sér almenna hlutlausa fræðslu eða boðun eða innrætingu ákveðinnar afstöðu til hinsegin málefna, sem eftir atvikum gæti verið umdeild og viðkvæm fyrir foreldra einstakra barna af trúarlegum eða siðferðilegum ástæðum. Ekki er líklegt til árangurs í baráttu við fordóma að afgreiða allar einlægar efasemdir foreldra um inntak fræðslunnar sem birtingarmynd fordóma þeirra og haturs í garð hinsegin fólks. Þá þarf að meta hvort gætt sé hlutleysis og þess að ólík sjónarmið komi fram um einstök umdeild atriði þar sem það á við. Þá myndi MDE eflaust líta til þess hverjir annast fræðsluna og hvort þeir sem það gera leitist við eða geti tryggt, hlutlausa framsetningu frá siðferðilegu og trúarlegu sjónarmiði svo sem kostur er. Þetta allt verður trauðla metið nema á grundvelli nákvæmra upplýsinga til foreldra um inntak fræðslunnar svo þeir hafi réttar forsendur til að meta hvort hún fari gegn einlægri og mikilvægri trúar- eða siðferðissannfæringu þeirra sem rétt sé og sanngjarnt að taka tillit til vegna ákvæðis 2. gr. 1. viðauka við MSE.

Eins og hinseginfræðslunni er lýst á heimasíðu samtakanna 78 er verður ekki annað ráðið en að um sé að ræða almenna fræðslu sem ætlað er að miða að opinni umræðu um hinsegin málefni sem sé fallin til þess að auka skilning barnanna á mannréttindum og fjölbreytileika mannlífsins og með því eyða fordómum í garð þeirra sem hinsegin eru. Það skal fúslega játað að þetta eru ekki alls kostar skýrar niðurstöður hjá mér, enda er það ekki markmiðið með pistlinum. Vonandi eru lesendur þó einhvers fróðari um þau sjónarmið sem þarf að huga að við mat á því hvort réttmætt tillit sé tekið til trúar- og heimspekilegrar sannfæringar foreldra í hinseginfræðslu í grunnskólum eins og 2. gr. 1. viðauka við MSE gerir kröfu um.

Posted in Juris Prudentia

Guðlast, Kóranbrennur og tjáningarfrelsi

Í pistlinum er rætt um Kóranbrennur sem form tjáningar út frá ákvæði 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. Raktir eru dómar Mannréttindadómstóls Evrópu sem sýna að trúarlegar tilfinningar einstaklinga eða hópa njóta verndar samkvæmt 9. gr. sáttmálans gagnvart því sem telja má óverðskuldaðar og móðgandi árásir á trúarsannfæringu þeirra og tjáningu sem talin er fela í sér hvatningu til að umbera ekki tiltekin trúarbrögð. Takmörkun slíkrar tjáningar geti því verið réttmæt með vísan til 2. mgr. 10. gr. MSE vegna réttinda hinna trúuðu. Þetta gefur tilefni til að spyrja hvort setja megi Kóranbrennum, sem aðferð til að tjá skoðun sína á íslam, skorður á þeim grundvelli að þær feli í sér grófa og óverðskuldaða árás á trúartilfinningar múslima eða hvatningu til að umbera ekki íslam og múslima. Rök eru færð fyrir því, með vísan til dómaframkvæmdar MDE, að skorður (refsingar) við Kóranbrennum sem form tjáningar yrðu taldar heimilar. Líklegt er að við mat á þessu myndi MDE horfa til þess að tjáningu með þessum hætti er trauðla unnt að líta á sem framlag til heilbrigðra skoðanaskipta um mikilvæg samfélagsleg málefni. Fremur yrði litið á Kóranbrennur sem vitnisburð um mikla óbeit (jafnvel hatur) á íslam og múslimum og meðvitaða hvatningu til umbera hvorugt. Um væri að ræða tilefnislausa árás á islam og trúarsannfæringu múslima sem væri til þess fallin að særa trúartilfinningar þeirra, móðga þá og stuða án þess að þjónaði að öðru leyti uppbyggilegum tilgangi í lýðræðislegu samfélagi.

I.

Fréttir berast þessa dagana, aðallega frá Svíþjóð og Danmörku, þar sem  Kóranbrennur koma við sögu. Í þessum pistli er litið framhjá því að brennur og íkveikjur á almannafæri, hvort heldur lagður er eldur að bókum eða öðru, geta valdið almannahættu og falið í sér hegningarlagabrot á grundvelli ákvæða um brennu, sbr. 1. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga. Eingöngu er fjallað um það þegar trúarleg rit, sem mörgum eru helg, eru brennd, sem form tjáningar út frá meginreglum um tjáningarfrelsi í 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) og hvort sáttmálinn verndar slíka tjáningu.

Yfirvöldum í Svíþjóð og Danmörku er vandi á höndum um viðbrögð, enda má segja að með því að brenna eintak af Kórnaninum til að tjá vanþóknun sína á innihaldi ritsins, sé tjáning sem í grunninn nýtur verndar ákvæða um tjáningarfrelsi í stjórnarskrám þessara ríkja og MSE. Í Svíþjóð virðist þetta sjónarmið hafa orðið ofaná. Á hinn bóginn vitna bókabrennur, hvort sem það eru trúarrit eða annars konar rit, um mikla óbeit og algjöran skort á umburðarlyndi þeirra sem fyrir slíkum brennum standa gagnvart innihaldi ritanna sem brennd eru. Þegar um trúarrit er að ræða má gera má ráð fyrir að slík tjáning sé til þess fallin að  særa trúartilfinningar sanntrúaðra múslima og móðga þá, en í því felst einmitt guðlast í lagalegum skilningi. Þess utan hafa Kóranbrennur valdið mikilli spennu í  þessum löndum og yfirvöld telja sig merkja vaxandi hryðjuverkaógn og þar með ógn við allsherjarreglu og öryggi borgara sinna. Þá hafa Kóranbrennurnar valdið miklum vandræðum í samskiptum Svíþjóðar og Danmerkur við íslömsk ríki og diplómatísk samskipti við einstök ríki eru í uppnámi. Af þessu geta hlotist margs konar vandræði og hættur. Hefur þetta leitt til þess að yfirvöld í Danmörku og Svíþjóð hafa íhugað löggjöf sem reisir skorður við tjáningu sem felst í að brenna helg trúarrit til að tjá skömm sína á þeim, þótt lagaákvæði um guðlast hafi annars verið afnumin í þessum löndum, eins og á Íslandi. Um slík áform eru eðlilega mjög skiptar skoðanir út frá meginreglum um frelsi borgaranna til að tjá sig á hvern þann hátt sem þeir kjósa. Í þessum pistli geri ég að umtalsefni það sem kalla má „vernd trúartilfinninga“ sem er þekkt stef í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE). Þessu tengt er álitamálið um hvort refsingar fyrir guðlast (blasphemy) sem svo er nefnt, geti samrýmst MSE.

II.

Í 1. mgr. 9. gr. MSE segir meðal annars að sérhver einstaklingur eigi rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst meðal annars frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi. Þá segir í  2. mgr. 9. gr.  að frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skuli einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi. Tjáningarfrelsið er verndað í 10. gr. Þar segir meðal annars í 1. mgr. að einstaklingur eigi rétt til tjáningarfrelsis. Skuli sá réttur einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Þá kemur meðal annars fram í 2. mgr. að þar sem af réttindum þessum leiði skyldur og ábyrgð sé heimilt að þau séu háð þeim formreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum.

Af þessu ákvæði sýnist blasa við að mögulegt er að rökstyðja með ýmsum hætti takmarkanir á tjáningu þar sem fólk tjáir óbeit sína á innihaldi Kóranins og íslam með því að brenna af honum eintök á almannafæri. Rökin geta verið meðal annars að slík takmörkun sé í þágu þjóðaröryggis og almannaheilla, eða í því skyni að firra glundroða og glæpum. Svo er spurning hvort unnt sé að takmarka slíka tjáningu til verndar réttindum annarra, svo sem vegna trúartilfinninga múslima. Spurninguna má orða svo hvort réttmætt sé að takmarka tjáningu sem túlka má sem óverðskuldaða eða tilefnislausa árás á trú annarra og trúartilfinningar og þar með trúfrelsi þeirra. Um þetta hefur verið fjallað í dómum MDE.

III.

Þekktastur er dómurinn í máli Otto-Preminger Institute gegn Austurríki frá 1994. Málið varðaði bann við opinberri sýningu kvikmyndarinnar Das Liebeskonzil eftir leikstjórann Werner Schroeter í Týrol héraðinu í Austurríki. Myndin sækir innblástur í satíru eftir leikskáldið Oskar Panizza, en höfundur hennar mátti 1895 þola dóm fyrir guðlast fyrir leikverkið. Kvikmyndin er um þessi réttarhöld með tilvísunum í leikrit Panizza. Í kvikmyndinni birtist himnafaðirinn sem elliært gamalmenni sem skiptist á kossum við þann Gamla í Niðurkoti (Kölska) sem hann telur til vina sinna. Önnur atriði í myndinni sýna kynferðislega spennu milli Maríu meyjar og Kölska. Þá birtist Jesú Kristur þar sem andlegur eftirbátur, sem meðal annars freistar þess að kreista og kyssa brjóst móður sinnar. Öll hefur hin heilaga þrenning miklar mætur á árakorninu.

Áður en myndin var sýnd opinberlega bárust spurnir af innihaldi hennar og var lagt á hana hald og hún gerð upptæk. Þar með var komið í veg fyrir opinbera sýningu hennar. Framleiðandi myndarinnar, taldi að aðgerðir yfirvalda hefðu falið í sér brot á 1. mgr. 10. gr. MSE um tjáningarfrelsi. Um væri að ræða listræna tjáningu sem nyti ríkrar verndar. Tjáningarfrelsið verndaði tjáningu sem væri stuðandi og óþægileg fyrir yfirvöld og einstaklinga. MDE komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið brotið gegn tjáningarfrelsi kæranda. Í forsendum dómsins segir meðal annars, að ekki verði horft framhjá því að yfirgnæfandi meirihluti íbúa í Týról væri rómversk-kaþólskrar trúar. Með aðgerðum sínum stefndu yfirvöld að því að skapa frið um trú og trúariðkun í héraðinu og koma í veg fyrir að trúaðir einstaklingar teldu að sér vegið með árásum á trú þeirra og sannfæringu á óverðskuldaðan og móðgandi hátt. Segir jafnframt að það sé fyrst og fremst hlutverk yfirvalda í ríki að meta þörf fyrir slíkar aðgerðir og þau hefðu ekki farið út fyrir það svigrúm sem þau hafi í þessum efnum. Sem sagt, ekki var fallist á að brotið hefði verið á tjáningarfrelsi kæranda. Í niðurstöðunni felst að trúarlegar tilfinningar einstaklinga njóta samkvæmt 9. gr. MSE verndar gagnvart óverðskulduðum og móðgandi árásum á trúarsannfæringu þeirra. Skorður við sýningu myndarinnar væru réttmætar á grundvelli 2. mgr. 10. gr. sem heimilar meðal annars takmarkanir á tjáningu vegna réttinda annarra. Dómur þessi hefur alla tíð sætt gagnrýni talsmanna tjáningarfrelsis og margir telja hann beinlínis rangan. Nokkuð er til í því að minni hyggju, en hann er nú samt staðreynd.

IV

Á árinu 2018 kvað MDE annan dóm sem túlka má svo að MDE haldi sig við fordæmið sem gefið var með dóminum í Otto-Preminger málinu. Hér ræðir um dóm í máli E.S. gegn Austurríki. Í þetta sinn snerist málið ekki um trúarlegar tilfinningar rómversk-kaþólskra heldur múslima. Atvik voru þau að kærandi stóð fyrir röð fyrirlestra í Vínarborg um íslam í höfuðstöðvum Frelsisflokksins, sem er hægrisinnaður íhaldsflokkur. Í einum fyrirlestranna, sem voru öllum opnir, ræddi hún um hjónaband Múhameðs spámanns með sex ára stúlku og þau hafi haft samræði þegar hún var níu ára. Velti kærandi upp þeirri spurning hvort ekki væri rétt að kalla þetta barnaníð (pedófilía)? Sakamáladómstóll í Vínarborg sakfelldi kæranda fyrir guðlast í febrúar 2011 og kærandi talin hafa með þessum ummælum vanvirt kennisetningar íslams. Var kæranda gert að að greiða sekt og málskostnað.

Fyrir MDE byggði kærandi á því brotið hefði verið gegn tjáningarfrelsi hennar samkvæmt 10. gr. MSE. Í dómi MDE kemur fram að þeir sem kjósi að rækja trú sína í krafti trúfrelsis samkvæmt 9. gr. MSE þurfi að vera undir það búnir að sæta gagnrýni af hálfu annarra sem ekki deildu með þeim trúarskoðunum. Þó væri heimilt að takmarka slíka tjáningu fari hún yfir mörk gagnrýni og feli í sér hvatningu til að umbera ekki trúarbrögð eða fylgjendur þeirra. Heimilt væri, innan hóflegra marka, að takmarka tjáningu sem bæri með sér algjöran skort á umburðarlyndi gagnvart tilteknum trúarbrögðum eða fylgjendum þeirra. Dómstóllinn lagði áherslu á að ummæli kæranda snertu mikilvægt málefni og gætu mögulega haft neikvæðar afleiðingar, allt eftir því hvar, hvenær og í hvaða samhengi þau væru höfð í frammi. Dómurinn tók jafnframt fram að aðildarríkin hefðu mikið svigrúm til mats í málum sem þessum þar sem þau væru í betri stöðu til að meta hvaða ummæli væru líkleg til þess að valda ólgu og ógna trúfrelsi í viðkomandi ríki. Dómurinn taldi að ummælin hafi ekki verið sett fram á þann hátt að þau væru liður í uppbyggilegri þjóðfélagsumræðu heldur væru til þess fallin að vera túlkuð af almenningi, og þá sérstaklega múslimasamfélaginu, sem árás á Múhameð spámann og falið í sér þá ályktun að hann væri ekki verður þeirra tilbeiðslu sem við hann væri tengd. Dómstóllinn tók undir þá niðurstöðu að kærandi hafi sett fram staðhæfingar sínar gegn betri vitund og þær væru til þess fallnar að ala á vanþóknun annarra á íslam. MDE féllst á að dómstólar í Austurríki hefðu gætt jafnvægis milli tjáningarfrelsis kæranda og réttarins til verndar á trúfrelsinu skv. 9. gr. sáttmálans og gætt meðalhófs við ákvörðun refsingar. Af þessum dómi, líkt og hinum fyrrnefnda, má draga þá ályktun að ríkjum sáttmálans sé heimilt að setja skorður við tjáningu sem túlka má sem árás á trúartilfinningar manna eða felur í sér hvatningu til að umbera ekki trúarbrögð eða fylgjendur þeirra.

V.

Til að varpa ljósi á mörk milli tjáningar sem sáttmálinn verndar og þeirrar sem reisa má skorður við má einnig geta dóms í máli Rabczewska gegn Pólandi frá september 2022. MDE. Kærandi í málinu er vinsæl poppsöngkona í Póllandi. Í viðtali sem tekið var við hana og birt opinberlega, lét hún ýmis ummæli falla um Biblíuna og þá sem festu hana í letur.  Meðal þess sem hún lét út úr sér var að þeir hefðu verið „ruglaðir af drykkju og grasreykingum“. Fyrir þessi ummæli var hún sakfelld á grundvelli ákvæða um guðlast í pólskum hegningarlögum fyrir að særa trúartilfinningar  kristinna manna. Um hefði verið að ræða móðgandi árás á trú þeirra og takmörkun á slíkri tjáningu væri réttmæt með vísan til 2. mgr. 10. gr. MSE. Fyrir MDE hélt kærandi því fram að sakfellingin færi gegn ákvæði 1. mgr. 10. gr. MSE um tjáningarfrelsi. Í þessu tilfelli fellst MDE á rök kæranda. Í forsendum fyrir þeirri niðurstöðu kemur fram að pólskir dómstólar hefðu ekki nægilega vegið og metið þá ólíku hagsmuni sem um ræðir og þá alveg sérstaklega hefði ekki verið metið hvort ummælin, sem voru hvatvís, kæruleysisleg og léttvæg, hefðu í raun verið til þess fallin að ala á hatri eða trufla með öðrum hætti frið og trúarlegt umburðarlyndi í Pólandi og hafa þannig skaðlegar afleiðingar í för með sér. Var talið að pólska ríkið hefði ekki nægilega rökstutt að takmörkunin hefði verið nauðsynleg vegna réttinda trúaðra á grundvelli 9. gr. MSE.

Fleiri dóma má nefna sem snerta á þessu álitaefni, svo sem  Wingrove gegn UK frá 1996. Í þessu máli var fjallað um videómyndband sem tekið var úr dreifingu þar sem innihald þess var talið fela í sér guðlast. Í því sést meðal annars nunna, heilög Teresa, hafandi í frammi erótíska tilburði við Krist á krossinum. Talið var að skorður við dreifingu myndbandsins væru samrýmanlegar 2. mgr. 10. gr. MSE og fælu ekki sér brot á sáttmálanum. Hér má sjá hluta úr þessu myndbandi.  Í İ.A. gegn Tyrklandi frá 2005 taldi MDE að trynesk yfirvöld hefðu ekki brotið gegn tjáningarfrelsi kæranda með því refsa honum fyrir að gefa út skáldsöguna Yasak Tümceler” (“The forbidden phrases”) eftir rithöfundinn Abdullah Rıza Ergüven þar sem innihald þess hefði að geyma tilefnislausa og móðgandi árás á trúarsetningar íslam og færi gegn tyrkneskum lögum um guðlast. Loks má nefna Tagiyev and Huseynov gegn Azerbaijan frá 2019, en þar var fallist á að brotið hefði verið gegn tjáningarfrelsi kærenda vegna dóms sem þeir höfðu mátt þola fyrir gagnrýni sína á  að íslam og ýmsa túarleiðtoga í Tyrklandi.

VI.

Dómarnir sem nefndir hafa verið sýna að trúarlegar tilfinningar einstaklinga eða hópa njóta tiltekinnar verndar samkvæmt 9. gr. MSE gagnvart því sem telja má særandi  og móðgandi árásir á trúarsannfæringu þeirra og gagnvart tjáningu sem talin verður ala á óbeit gagnvart tilteknum trúarbrögðum og fela í sér hvatningu til að umbera þau ekki. Takmarkanir eru taldar helgast af brýnni samfélagslegri nauðsyn og því réttmæt á grundvelli 2. mgr. 10. gr. MSE. Tjáningin þarf einnig að hafa til að bera ákveðin alvöruþunga og vera til þess fallin að ala á óbeit eða hatri á viðkomandi trúarbrögðum og þeim sem þau aðhyllast. Sem sagt þetta er staðan samkvæmt dómaframkvæmd  MDE og vert að hafa í huga að margir lögspekingar hafa miklar efasemdir um þessa dóma, sem og um það hvort dómstóllinn er alveg samkvæmur sjálfum sér í þessum málum. Taka má undir ýmislegt í þeirri gagnrýni.

Þetta leiðir okkur aftur að Kóranbrennum og gefur tilefni til að spyrja hvort setja megi slíkum brennum, sem form tjáningar, skorður á þeim grundvelli að þær feli í sér  særandi árás á trúartilfinningar múslima eða hvatningu til að umbera ekki íslam og múslima. Út frá þremur þessara dóma sem nefndir voru virðist blasa við að skorður við Kóranbrennum, jafnvel með refsingum, yrðu, út frá þessum sjónarmiðum, taldar heimilar samkvæmt 2. mgr. 10. gr. MSE. Mér finnst líklegt að við mat á þessu myndi MDE horfa til þess að tjáning með þessum hætti er tæpast unnt að líta á sem framlag til heilbrigðra skoðanaskipta um mikilvæg samfélagsleg málefni. Fremur yrði litið á Kóranbrennur sem vitnisburð um mikla óbeit (jafnvel hatur) á íslam og múslimum og meðvitaða hvatningu til umbera hvorugt. Um væri að ræða grófa árás á íslam og trúarsannfæringu múslima sem væri til þess fallin að særa trúartilfinningar þeirra, móðga þá og stuða án þess að tjáningin þjónaði að öðru leyti uppbyggilegum tilgangi í lýðræðislegu samfélagi.

Posted in Juris Prudentia

Um tengsl þjóðaréttar og landsréttar

Í þessum pistli ræði ég nokkur atriði sem varða tengsl þjóðaréttar og landsréttar. Gerð er grein fyrir meginreglum eða kenningunum sem kenndar hafa verið eineðli og tvíeðli um þessi tengsl og þeim lagarökum og pólitísku meginsjónarmiðum sem þær eru reistar á. Ekki er hér tekin afstaða til þeirra að öðru leyti en því að þær lýsa tæpast með fullnægjandi hætti raunverulegum tengslum þjóðaréttar og landsréttar í einstökum ríkjum. Til þess eru þau of fjölþætt og flókin, þótt kenningarnar  séu annars gagnlegar til að glöggva sig á þeim álitaefnum sem vakna um þetta málefni. Áhugavert er að afstaða manna til þessara meginreglna eða kenninga mótast að hluta til af afstöðu þeirra til mikilvægis alþjóðlegra samskipta og hvort og að hvaða marki æskilegt sé að alþjóðlegar stofnanir fái valdheimildir sem bindandi eru fyrir ríki. Aðalatriðið í þessu sambandi er þó sú staðreynd að hinn almenni þjóðrétturinn hefur ekki að geyma reglur um hvaða stöðu þjóðréttarreglur skuli hafa að landsrétti ríkja og hvernig þeim beri að fullnægja þeim skuldbindingum sem í þeim felast. Þetta merkir að hvert ríki, í skjóli fullveldisréttinda sinna, eins og þau eru skilgreind og afmörkuð á hverjum tíma, setur sjálft reglur um með hvaða hætti reglurnar fá gildi í landsrétti, þar sem ríkið hefur skuldbundið sig til þess að veita þeim slíkt gildi. Sú aðferð við innleiðingu EES-reglna sem valin var á Íslandi er því samkvæmt ákvörðun og á ábyrgð Íslendinga sjálfra. Þeir geta valið hverja þá leið, að breyttri eða óbreyttri stjórnarskrá, að þessu markmiði sem þeim sjálfir ákveða svo lengi sem reglunum er tryggð sú staða að landsrétti sem skuldbindingarnar sem þeir hafa tekið á sig samkvæmt EES-samningnum gera ráð fyrir.

I.

Í upphafi umfjöllunar sinnar í bókinni Almenn lögfræði, sem telja má meðal grundvallarrita í íslenskri lögfræði, skiptir Ármann Snævarr undirgreinum hennar í tvo höfuðstofna, þ.e. þjóðarétt og landsrétt. Þetta er lýsandi fyrir hefðbundin sjónarmið í norrænum, og þ.m.t. íslenskum rétti, um stöðu þjóðaréttar. Litið er á þjóðarétt sem sjálfstætt safn réttarreglna sem standi utan við landsrétt ríkja, en það er einmitt kjarni kenningarinnar (eða meginreglunnar) um tvíeðli þjóðaréttar og landsréttar. Þó er það svo, að í mun fleiri ríkjum er litið svo á að þjóðréttarreglur, í samningum sem ríki hefur undirgengist, séu eða eigi að vera hluti landsréttarins og gangi jafnvel framar reglum hans ef þær rekast á. Í þessu sambandi er talað um eineðli þjóðaréttar og landsréttar. Þessar kenningar eða meginreglur lýsa, eins og fyrr segir, tveimur meginviðhorfum til stöðu þjóðaréttar gagnvart landsrétti. Umdeilanlegt er þó hversu vel þær lýsa í reynd stöðu þjóðaréttar og áhrifum hans á landsréttinn í einstökum löndum.

II.

Í 27. gr. Vínarsamnings um milliríkjasamninga segir að ríki geti ekki borið fyrir sig landsrétt til að víkja sér undan skyldum samkvæmt þjóðréttarsamningi. Að öðru leyti hefur þjóðaréttur ekki að geyma reglur um stöðu þjóðréttarreglna í landsrétti. Gerir þjóðaréttur þar með ekki upp á milli mismunandi kenninga og meginreglna um það efni, svo sem þeirra kenninga um eineðli og tvíeðli sem nefndar voru.

Því er stundum haldið fram að notkun hugtakanna „tvíeðli“ og „eineðli“ sé úrelt þar sem hún lýsi ekki raunverulegum tengslum þjóðaréttar og landsréttar. Fitzmaurice á Englandi, einn þekktasti lögspekingur þar í land á 20. öld, hélt því meðal annars fram að skoðanaskipti um eineðli og tvíeðli væru úr tengslum við veruleikann, væru yfirborðsleg og vörðuðu í raun ekki kjarna málsins. Gagnrýni þessi snýst um að eineðli, með meginreglu um sjálfkrafa gildi þjóðaréttar í landsrétti, og tvíeðli, með meginreglu um umbreytingu þjóðaréttar í landsrétt, gefi ekki nægilegan gaum að þeim fjölþættu áhrifum sem þjóðaréttur hafi í reynd í landsrétti. Eins og dómaframkvæmd er háttað á hjá íslenskum dómstólum er ljóst að talsvert er til í þessu.

III.

Hér að framan er ýmist talað um kenningar eða meginreglur um eineðli og tvíeðli. Ástæðan er að lýsa má eineðli og tvíeðli frá að minnsta kosti tveimur ólíkum sjónarhornum.

Hið fyrra er sögulegt eða heimspekilegt. Frá þessu sjónarhorni er kenningum um eineðli og tvíeðli lýst út frá hugmyndum um eðli og uppruna reglna þjóðaréttar annars vegar og landsréttar hins vegar. Tíðast eru eineðlishugmyndir nú á tímum raktar til austurríska heimspekingins Hans Kelsen, eins og þær birtast í riti hans um hina hreinu kenningu um lögin (Die Reine Rechtslehre) sem fyrst kom út 1934 og síðar í Principles of General Theory of Law and State, upphaflega gefin út á ensku 1945. Í þessum kenningum, og öðrum verkum Kelsen, eru landsréttur og þjóðaréttur sprottin af sömu rót og mynda eitt lagakerfi. Eineðlishugmyndir eru einnig að nokkru byggðar á hugmyndum náttúruréttar um algildar meginreglur, sem reistar eru á siðferðilegum grundvelli þar sem meginmarkmið laga er velferð einstaklinga og vernd mannréttinda. Þeir sem tilheyra þessum hópi telja að bindandi þjóðréttarreglur séu besta leiðin til að ná þessum markmiðum. Á hinn bóginn sé of mikil áhersla á alþjóðlegt kerfi sem byggist á fullvalda og sjálfstæðum ríkjum, þar sem hvert ríki setji sér lög á eigin forsendum, til þess fallin að hindra að þessum markmiðum verði náð.

Frá sögulegu og heimspekilegu sjónarmiði er tvíeðliskenningin oft rakin til þýska fræðimannsins Heinrich Triepel, einkum til rits hans Völkerrecht und Landesrecht frá 1899 sem byggir á ólíku eðli þjóðaréttar og landsréttar, þar sem þjóðaréttur verður til og gildir í samskiptum ríkja meðan landsréttur er af innlendri rót og gildir um samskipti einstaklinga innbyrðis og við ríkisvaldið. Má ætla að þaðan hafi kenningin ratað í norræna lögfræði, þar með talda íslenska lögfræði.

Hið síðara er að líta á eineðli og tvíeðli sem meginreglur sem leiða af tilteknum stjórnskipunar- og stefnumiðum í stjórnmálum. Gildi meginreglnanna eru þá metið út frá þeirri þýðingu sem þær hafa til að styðja við slík stefnumið. Sameiginlegt einkenni eineðliskenninga út frá þessu sjónarmiði er viss tortryggni gagnvart hugmyndum um alvald ríkisins með kröfu um fullveldi í bakgrunni. Þessi tortryggni, sem hefur þróast á 20. öld, meðal annars vegna uppgangs Nazismans í Þýsklandi á fjórða áratug aldarinnar og hrikalegra afleiðingar hans, birtist í vantrausti á að ríki eigi að geta í skjóli sjálfsákvörðunarréttar síns og fullveldis aðhafst eins og þeim sýnist gagnvart eigin borgurum án þjóðréttarlegra afleiðinga og um leið vísað á bug ætluðum afskiptum innanlandsmálum, þar með talið  mannréttindabrotum. Þetta hefur ýtt undir hugmyndir um gildi grundvallarreglna sem standa ríkisvaldi ofar sem ríkjum beri að virða. Vegna tengsla milli áherslu á fullveldi ríkja að því er varðar lagasetningu og tvíeðliskenninga hafa áhangendur þessara hugmynda haft tilhneigingu til að hafna tvíeðli og leggja þess í stað áherslu á eineðli. Þeir eru oftar en ekki alþjóðasinnar sem tala fyrir stjórnmálakenningum og stjórnskipan sem byggir á þeirri siðferðilegu afstöðu, að setja beri þjóðarétt ofar rétti ríkja með áherslu á mannréttindi og velferð einstaklinga að höfuðmarkmiði. Áhersla á eineðli verður þannig hluti af róttækri sýn sem leggur áherslu á að einstaklingar hafi ekki aðeins réttindi sem reist séu á alþjóðlegum reglum heldur beri ríkjum einnig skylda til að framfylgja þeim hvað sem fullveldi þeirra líður.

Meginreglan um tvíeðli er byggð á stefnumiðum með áherslu á fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt ríkja, réttarríkið og þrískiptingu ríkisvalds, einkum aðskilnað löggjafar- og framkvæmdarvalds, sem og áherslu á lýðræðisleg ferli og þróun. Litið er svo á að innanlandsréttur eigi ekki breytast vegna atburða á alþjóðavettvangi sem innlendur löggjafi hafi engin umráð yfir. Annað atriði varðar þrískiptingu ríkisvalds í ríkjum þar sem gerð þjóðaréttarsamninga og fullgilding er í höndum þjóðhöfðingja sem handhafa framkvæmdarvalds, eins og á Ísland, sbr. 21. gr. stjskr. Þar sem þetta fyrirkomulag gildir eigi út frá sjónamiðum um lýðræði að gera ráð fyrir aðkomu löggjafans til að gefa reglunum gildi að landsrétti. Frekari rök fyrir tvíeðlinu sem stjórnskipulegri meginreglu eru sótt í hugmyndina um réttarríkið og kröfur um að skýrt sé hvað séu gildandi lög og hvað ekki og þar með hvort tiltekin þjóðréttarregla er hluti landsréttar, enda er því er haldið fram að í mörgum ríkjum sem fylgja eineðli séu viðmið um hvenær þjóðréttarreglur fá gildi að landsrétti ekki alltaf ljós.  Tvíeðlisreglan á þannig að hluta til rót sína að rekja til “pólitískrar” andstöðu við að fallast á að reglum þjóðaréttar, jafnvel á sviði mannréttinda, verði veitt sjálfkrafa gildi að landsrétti án þess að þær hafi áður verið leiddar í lög á stjórnskipulegan hátt. Þeir sem aðhyllast tvíeðli á þessum forsendum hafa tilhneigingu til að vera tortryggnir gagnvart þjóðréttarskuldbindingum og alþjóðavæðingu.

IV.

Hér hefur verið lýst meginkenningum og þeim kröfum sem leiða af hvorri kenningu eða meginreglu fyrir sig. Í reynd er það samt svo að reglur sem gilda um samband þjóðaréttar og landsréttar í einstökum ríkjum falla í fæstum tilvikum fullkomlega að þessum kenningum. Engu að síður er gagnlegt að skoða reglur ríkja um þetta efni í ljósi þessara kenninga eða meginreglna um samband þjóðaréttar og landsréttar, enda eru slíkar reglur landsréttar oft leiddar af þessum kenningum. Þannig má halda því fram að í sumum löndum sé fylgt meginreglunni um eineðli en í öðrum sé fylgt meginreglunni um tvíeðli. Bent hefur verið á Sviss sem dæmi um ríki þar sem meginreglunni um eineðli er fylgt eftir af hvað mestri einurð, en Bretland er tekið sem dæmi um ríki sem heldur hvað fastast í regluna um tvíeðli.

Nefna má nokkur atriði sem telja má sameiginleg þeim ríkjum þar sem reglan um eineðli er talin gilda. Í henni felst venjulega að litið er svo á að þjóðréttarvenjur, sem hafa að geyma hinar sígildu meginreglur þjóðaréttar, séu hluti landsréttarins og gangi framar öðrum reglum hans. Þá felst almennt í reglunni um eineðli að þjóðréttarsamningur, án þess að vera sérstaklega lögfestur, geti orðið (eða verði) hluti af landsrétti ríkis um leið og hann er orðinn bindandi að þjóðarétti fyrir ríkið, samkvæmt þeim reglum sem gilda í löggjöf þess. Sérstök ákvæði í stjórnarskrá mæla þá oft einnig fyrir um sérstaka stöðu þjóðréttarsamninga að landsrétti. Samt er það svo að þótt gengið sé út frá reglum um að þjóðréttarreglur skuli verða hluti landsréttar gerist það ekki alltaf sjálfkrafa, heldur þarf oft samkvæmt slíkum stjórnarskrárákvæðum sérstaka lagasetningu eða atbeina löggjafans við fullgildingu, einkum þegar þjóðréttarsamningur er talinn hafa mikla þýðingu eða hafa að geyma ákvæði sem stangast á við lög landsins. Í þeim tilfellum þar sem slíkrar lagasetningar er ekki þörf er stundum talað um samninga sem hægt er að beita sjálfkrafa (e. self-executing). Þótt kenningin um eineðli birtist í stjórnarskrám ríkja í mismunandi myndum er þó þrennt sem telja má sameiginlegt. Í fyrsta lagi má nefna að þótt stjórnarskrár ríkja geri yfirleitt þá kröfu að löggjafinn hafi samþykkt þjóðréttarsamning, eru gerðar frá þessu undantekningar varðandi vissar tegundir samninga eða við ákveðnar aðstæður. Fer það meðal annars eftir mati á mikilvægi þjóðréttarsamninga. Í öðru lagi er gerður greinarmunur á samningum eftir eðli þeirra og efni. Litið er svo á að sumir samningar séu þannig að þeim verði beitt sjálfkrafa (e. self-executing), en í öðrum tilvikum er gert ráð fyrir að löggjöf þurfi að koma til áður en litið er svo á að samningur hafi fengið eða geti fengið fullt gildi að landsrétti. Í þriðja lagi er oft litið svo á að samningar, sem beitt verður sjálfkrafa, séu æðri lögum og gangi framar annarri löggjöf landsréttar, hvort sem hún var þegar fyrir hendi eða er síðar til komin. Mikilvægt er að hafa í huga að hér hefur aðeins verið lýst megineinkennum, en reglur í ríkjum sem kenna sig við meginregluna um eineðli eru nokkuð mismunandi.

Samkvæmt meginreglunni um tvíeðli þjóðaréttar og landsréttar er miðað við að þjóðréttarreglur hafi ekki gildi að landsrétti nema sérstök lög hafi verið sett sem veiti þeim gildi. Staða þjóðréttarreglna ákvarðist þar með ekki beint af sérstöku stjórnarskrárákvæði um það efni, heldur sé komin undir sérstakri ákvörðun löggjafans hverju sinni um hvort ástæða þyki til að lögfesta tiltekinn samning, að hvað marki og með hvaða hætti. Er þá talað um að ákvæði þjóðréttarsamnings séu tekin upp, leidd í eða felld inn í landsréttinn (e. incorporated). Ein afleiðing þessarar reglu er sú að dómstólum, stjórnvöldum og borgurum ber að fara að landslögum, þótt þau kunni að vera andstæð ákvæði í þjóðréttarsamningi sem ekki hefur verið lögfestur eða tekinn í landsrétt með öðrum hætti. Einnig leiðir af þessu að þótt reglur þjóðaréttar séu teknar í landsrétt, kemur það í hlut stofnana í hlutaðeigandi ríki, hvort sem það er löggjafinn, stjórnsýslan eða dómstólar, að kveða nánar á um stöðu slíkra reglna gagnvart öðrum reglum landsréttar sem kunna að vera andstæðar þeim. Þessi regla er í samræmi við að framkvæmdarvaldshafar skuli hafa vald til að binda ríkið við þjóðréttarsamninga án fyrirfram samþykkis þingsins og ennfremur að aðeins löggjafinn geti sett lög sem hafi gildi að landsrétti. Samandregið eru eftirtalin atriði sameiginleg ríkjum sem byggja á meginreglunni um tvíeðli: (a) þjóðaréttur og landsréttur eru tvö sjálfstæð fyrirbæri, (b) þjóðaréttarreglur fá ekki gildi að landsrétti nema þær hafi verið lögfestar eða leiddar í landsrétt með öðrum hætti, (c) einstaklingar geta ekki byggt réttindi á þjóðréttareglu fyrr en það hefur verið gert og (d) þar sem árekstur verður milli innlendra réttarheimilda og ólögfestrar þjóðréttarreglu, víkur þjóðréttarreglan.

V.

Frekari rök hafa verið sett fram fyrir hvorri kenningunni um sig. Þannig hefur því stundum haldið fram að kenningin um tvíeðli þjóðaréttar og landsréttar sé í betra samræmi við þrískiptingu ríkisvaldsins. Þessi athugasemd á að sjálfsögðu vel við í þeim löndum þar sem stofnun þjóðréttarskuldbindinga er í höndum framkvæmdarvaldshafa, eins og t.d. á Íslandi. Þetta fer þó eftir því hvernig reglum um stofnun þjóðréttarskuldbindinga er hagað og hvort og þá að hvaða marki löggjafinn kemur að því ferli. Einnig má benda á þau rök að tvíeðliskenningin geti hentað betur hagsmunum smærri ríkja og að þjóðréttarskuldbindingum verði ekki því sem næst sjálfkrafa veitt lagagildi að landsrétti þar sem stærri þjóðir hafa að jafnaði meiri áhrifamátt á sviði þjóðaréttar og þar með um efni þjóðréttarreglna. Aftur veltur gildi þessarar röksemdar á þeim aðferðum sem viðhafðar eru við fullgildingu þjóðréttarsamnings. Ennfremur mælir gegn þessu að það hentar að jafnaði betur smærri ríkjum að binda samskipti þjóða í þjóðréttarreglur og vísa til lagaskuldbindinga í samskiptum við stærri og öflugri ríki máli sínu til framdráttar. Með því er dregið úr svigrúmi hinna síðarnefndu til að neyta yfirburða sinna, þótt auðvitað sé ekki á vísan að róa í þeim efnum. Loks er því haldið fram að ekki sé sanngjarnt gagnvart einstaklingum, sem í raun reiði sig á landsrétt, að láta tiltekna réttarstöðu ráðast af þjóðarétti ef þessi tvö réttarkerfi rekast á. Aftur verður því svarað til að margar þjóðréttarreglur miða einmitt að því að treysta réttarstöðu einstaklinga og lögaðila. Reynslan sýnir að þjóðaréttur getur verið til þess fallinn að vernda einstaklinga og lögaðila gegn athöfnum eigin ríkis. Fer gildi þessarar röksemdar því eftir efni þeirrar þjóðréttarreglu sem um er að ræða hverju sinni og hvort samningur mælir fyrir um sameiginlegar stofnanir fyrir einstaklinga að leita réttar síns. Þá er bent á að samkvæmt meginreglunni um tvíeðli sé réttarstaðan skýrari en í löndum þar sem meginreglan um eineðli er lögð til grundvallar. Með því að gera kröfu um sérstaka lögleiðingu sé skýrara hver staða samnings er að landsrétti. Löggjafinn hefur þá eftir sömu reglum og gildir um almenna lagasetningu tekið af skarið um hvort og að hvaða marki samningur skuli hafa gildi að lögum og þar með hvort og að hvaða marki byggt verði á alþjóðasamningum fyrir stjórnvöldum og dómstólum landsins.

VI

Sé tekið mið af fullveldisumræðunni á Íslandi, í tengslum við til dæmis EES-samninginn, þá skal bent á að flest ríki heimsins ganga út frá eineðliskenningunni þótt með mismunandi hætti sé. Samt er ekki dregið í efa að þau séu fullvalda. Önnur ganga út frá tvíeðliskenningunni meðal annars til að verja fullveldi sitt. Sýnir þetta að tengsl milli fullveldis annars vegar og kenninga um tvíðeli og eineðli hins vegar eru í besta falli óljós.  Aðalatriðið í þessu sambandi er þó sú staðreynd að hinn almenni þjóðaréttur sjálfur hefur ekki að geyma reglur um hvaða stöðu þjóðréttarreglur skuli hafa að landsrétti ríkja og hvernig ríki beri að fullnægja þeim skuldbindingum sem í þeim felast. Þetta merkir að hvert ríki, í skjóli fullveldisréttinda sinna, eins og þau eru skilgreind og afmörkuð á hverjum tíma, setur sjálft reglur um með hvaða hætti reglurnar fá gildi í landsrétti, þar sem ríkið hefur skuldbundið sig til þess að veita þeim slíkt gildi. Sú aðferð við innleiðingu EES-reglna sem valin var á Íslandi er því samkvæmt ákvörðun og á ábyrgð Íslendinga sjálfra. Þeir geta valið hverja þá leið, að breyttri eða óbreyttri stjórnarskrá, að þessu markmiði sem þeim sjálfir ákveða svo lengi sem reglunum er tryggð sú staða að landsrétti sem skuldbindingarnar samkvæmt EES-samningnum gera ráð fyrir.

Posted in Juris Prudentia

Fjallið tók joðsótt og fæddist lítil mús: Bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Landsdómsmálið

I

Fyrir síðustu jól kom út bókin Landsdómsmálið. Stjórnmálarefjar og lagaklækir. Útgefandi er Almenna bókafélagið (2022). Höfundur hennar er Hannes Hólmsteinn Gissurarson fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði við HÍ. Landsdómsmálið er einstakt í íslenskri stjórnmála- og réttarsögu, en því lauk með dómi Landsdóms 23. apríl 2012. Mér finnst ólíklegt að komist verði hjá þeim dómi sögunnar að málarekstur þessi á hendur Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi verið óráð og sneypuför hin mesta af hálfu þeirra sem fyrir honum stóðu og hönnuðu. Undarlegt má heita að þess hafi ekki verið freistað fyrr en nú að gera þessu merka máli skil á bók.

II

Hannes Hólmsteinn er kunnur flestum þeim sem fylgjast með þjóðmálum á Ísland. Við vitum fyrir hvað hann stendur í pólitík, enda hefur hann aldrei farið leynt með það. Við vitum líka að hann er óvæginn og harðsnúinn í pólitískum rökræðum og erfiður við að eiga enda með afbrigðum vel lesinn, fróður og minnugur. Við vitum líka að hann er hægri maður á hinu pólitíska litrófi og setur frelsi manna til orða og athafna og einkaframtakið ofar öðrum gildum. Hann er og eindreginn sjálfstæðismaður. Þetta vissi ég auðvitað allt saman þegar ég las bókina. Kom mér því ekki á óvart að bókin ber þessa merki. Nú mætti ætla að ég teldi þetta galla á henni frá sjónarhóli fræðimannsins. Þó tel ég ekki svo vera enda Landsdómsmálið í eðli sínu stórpólitískt. Verður það ekki gert upp nema öll sjónarmið komi fram, hvort sem þau koma frá hægri kantinum eða þeim vinstri. Áhugavert væri frá fræðilegu sjónarmiði að fá aðra bók um þetta einstaka mál með hressilegri vinstri slagsíðu. Ég mun örugglega lesa hana líka.

III

Þótt ég geri mér fulla grein fyrir að þessi einstaki málarekstur hafi valdið þeim sem í hlut áttu miklu hugarangri vil ég segja, áður en lengra er haldið, að lesi maður bókina í hæfilegri pólitískri fjarlægð, með fullri vitund um sjónarhorn höfundar og hafi ekki úr hófi viðkvæmt vinstra hjarta né mislíki þeim mun meira við Sjálfstæðisflokkinn, eins og margir eiga til, að hún er stórskemmtileg aflestrar. Já, hún er eiginlega bara spennandi og reyfarakennd á köflum og lipurlega og vel skrifuð. Það er ekki oft sem maður getur sagt þetta um bækur um stjórnmál og lögfræði. Um hinar síðarnefndu einkanlega hef ég mátt reyna á eigin skinni að algengast er að þær séu frekar leiðinlegar, líka þær sem ég hef skrifað sjálfur, þótt þær geti annars verið merkar og gagnlegar við lagakennslu og lögfræðistörf. Rifjast þá upp fyrir mér að Halldór Laxness sagði um hinn kunna og merka lögfræðing og réttarsögufræðing Ólaf Lárusson að hann hafi verið skemmtilegur maður þótt bækur hans um lögfræðileg efni bæru þess ekki merki.

IV

Svo sem kunnugt er snerist landsdómsmálið um ákæru Alþingis á hendur fyrrverandi forsætiráðherra Geir Haarde vegna ætlaðra athafna eða eftir atvikum athafnaleysis hans í aðdraganda fjármálahrunsins 2008. Aðdragandi ákærunnar er í stuttu máli þessi. Um haustið 2008, þegar fjármálahrunið skall á, varð mikil ólga í íslensku samfélagi og vantraust í garð stjórnvalda og stofnana samfélagsins útbreitt. Krafa um afsögn ríkisstjórnar Geirs Haarde, sem mynduð var af Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, var hávær. Ríkisstjórnin hrökklaðist að lokum frá völdum þegar Samfylkingin sleit stjórnarsamstarfinu í janúar 2009. Í kjölfarið var mynduð minnihlutastjórn Samfylkingar og  VG með stuðningi Framsóknarflokksins og settist Jóhanna Sigurðardóttir í stól forsætisráðherra. Í alþingiskosningunum vorið 2009 jókst fylgi Samfylkingar og VG og mynduðu þessir flokkar meirihlutastjórn að loknum kosningum með Jóhönnu í forsæti. Það var einmitt í tíð þessarar ríkisstjórnar sem Alþingi lagði upp í sinn mikla landsdómsleiðangur.

Þá er þess að geta að um haustið 2008 hafði Alþingi skipað rannsóknarnefnd Alþingis, undir formennsku Páls Hreinssonar þáverandi hæstaréttardómara, en með honum sátu í nefndinni Tryggvi Gunnarsson þáverandi umboðsmaður Alþingis og Sigríður Benediktsdóttir kennari í hagfræði við Yale háskóla í Bandaríkjunum. Tilgangur nefndarinnar var að rannsaka aðdraganda og orsakir hrunsins og semja skýrslu þar um. Skýrslan var birt 12. apríl 2010 eða nokkru síðar en lagt var upp með í upphafi. Alþingi skipaði í kjölfarið níu manna nefnd þingmanna undir formennsku Atla Gíslasonar (VG) til að fjalla um skýrsluna. Lauk því starfi með því að þingmannanefndin lagði til, eftir nokkuð fum og fát, að fjórir fyrrum ráðherrar yrðu ákærðir fyrir Landsdómi fyrir ætluð brot í störfum sínum sem ráðherrar, nánar tiltekið Geir Haarde forsætisráðherra, Árna Mathiesen fjármálaráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og loks Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra. Svo sem kunnugt er endaði þetta með því eftir atkvæðagreiðsluna í þinginu að aðeins Geir Haarde stóð eftir sem ákærður. Var hann því einn dreginn fyrir Landsdóm. Allt er þetta nákvæmlega rakið í bókinni og hvernig einstakir þingmenn höguðu atkvæði sínu. Lyktaði þessi atkvæðagreiðsla öll fremur af pólitískum sjónarmiðum fremur en refsiréttarlegum. Sumir þeirra sem greiddu atkvæði með ákæru hafa viðurkennt mistök sín síðar, en ekki allir, eins og rakið er í lok bókarinnar. Það er önnur saga.

Ákæran var í tveimur liðum, en sá fyrri skiptist í fimm undirliði. Fyrir Landsdómi var tveimur af þessum undirliðum í 1. lið ákærunnar vísað frá dómi, sem vitnar um að þeir hafi verið þannig úr garði gerðir að ekki var talið unnt að leggja á þá efnisdóm. Og það þótt fremstu sérfræðingar þjóðarinnar á sviði refsiréttar hafi komið að smíði þeirra sem ráðgjafar eins og rakið er í bókinni.  Þá var Geir sýknaður af þremur undirliðum í 1. lið. Geir var á hinn bóginn sakfelldur samkvæmt 2. lið ákærunnar, en sá liður laut að því hann hefði brotið gegn 17. gr. stjórnarskrárinnar fyrir að halda ekki ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Niðurstaða Landsdóms um þetta var þó ekki einróma því að henni stóðu níu dómarar, en sex voru á móti og töldu að sýkna bæri. Þess má geta að áliti margra lögfræðinga, þar með talið undirritaðs, er að niðurstaða meirihlutans sé byggð á hæpinni, ef ekki rangri, túlkun á umræddu ákvæði stjórnarskrárinnar. Rökstuðningur minnihlutans ber einnig þar vitni um. Hannes Hólmsteinn bætir í þau rök með sannfærandi hætti. Þá er þess að geta að Geir var ekki gerð refsing og sakarkostnaður lagður á ríkissjóð. Eftirtekjan af þessum einstaka málarekstri Alþingis á hendur Geir Haarde var því harla rýr svo vægt sé til orða tekið. Mér þykir ekki ólíklegt í framtíðinni muni margir líta á þessa vegferð sem blett á stjórnmála- og réttarsögu Íslendinga.

V

Framgreindri atburðarás er lýst í talsverðum smáatriðum í bókinni. Höfundur telur að allt ferlið hafi verið meingallað. Þannig rökstyður hann að ýmsir vankantar hafi verið á skipan rannsóknarnefndarinnar sem samdi skýrsluna sem þingnefndin lagði til grundvallar niðurstöðu sinni. Einkum dregur hann í efa hæfi Sigríðar Benediktsdóttur vegna ummæla sem hún hafði frammi í bandarísku skólablaði, Yale Daily News, í mars 2009, þar sem hún rakti fjármálahrunið til öfgafullrar græðgi og glæfralegs andvaraleysis þeirra stofnana sem áttu að hafa eftirlit. Höfundur bókarinnar færir fyrir því gild lögfræðileg rök að Sigríður hafi í raun verið vanhæf til áframhaldandi setu í nefndinni vegna þessara ummæla, sem aftur er til þess fallið að varpa rýrð á trúverðugleika skýrslunnar. Þá gefur Hannes Hólmsteinn lítið fyrir þá meginskýringu nefndarinnar að bankarnir hafi verið of stórir. Telur hann þetta nokkurs konar rökfræðilega tuggu (klifun/tautológíu). Bankar falli ekki vegna þess að þeir séu of stórir, heldur þurfi fleira að koma til, rétt eins og gler brotni ekki af því það sé brothætt. Stærð bankanna hafi verið nauðsynlegt skilyrði fyrir hruni þeirra, en ekki nægilegt. Hinn rétta skýring sé lausafjárþrurrð bankanna og Íslendingum hafi verið neitað um fyrirgreiðslu í þeim efnum sem aðrir bankar hafi fengið. Skýrslan, þar sem engin lögbrot hafi fundist þrátt fyrir mikla leit, hafi verið lögð til grundvallar ákvörðun Alþingis um að ákæra Geir án þess að nokkur sakamálarannsókn hafi farið fram. Um hafi verið að ræða ákvörðun sem ekki hafi verið tekin á refsiréttarlegum forsendum, heldur hreinum pólitískum. Réttarhöldin hafi í raun verið pólitísk!

Áfram heldur höfundur bókarinnar og rekur ýmsa meinbugi sem hann telur að hafi verið á skipan Landsdóms og samsetningu. Þannig telur hann að Eiríkur Tómasson hafi verið vanhæfur til að sitja í dóminum af ýmsum ástæðum m.a. vegna þess að hann hafi átt hlutabréf í bönkum, sem urðu verðlaus í bankahruninu. Þá hafi hann birt grein á netinu, sem hafi horfið fljótlega þaðan, þar sem hann mun hafa rakið að bankahrunið væri að rekja til þess, að ráðherrar hefðu misbeitt valdi. Enn nefnir höfundur að Eiríkur kunni að hafa verið argur út í Geir þar sem sá síðarnefndi sem settur dómsmálaráðherra 2004 hafi gengið fram hjá honum við val á hæstaréttardómara. Þá telur hann að tveir aðrir dómendur í Landsdómi, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson hafi að öllum líkindum verið vanhæfir þar sem þeir hafi tapað stórfé í hlutabréfum og peningamarkaðssjóðum í bankahruninu. Ekki er hér tekin afstaða til þessara röksemda höfundar frá lagalegu sjónarmiði, en fyrir afstöðu sinni færir hann mjög frambærileg rök. Ýmsar fleiri athugasemdir eru gerðar við samsetningu og skipan Landsdóms sem ekki verða raktar hér.

Þá fjallar höfundur um að rannsókn og skýrsla rannsóknarnefndar hafi ekki verið jafngildi sakamálarannsóknar og skýrslan því ekki haft sönnunargildi í sakamálinu á hendur Geir. Engin slík rannsókn hefði farið fram þótt þingmannanefndin hefði haft heimild til að gera sjálfstæða rannsókn, eins og nauðsynlegt hefði verið. Geir hafi ekki notið réttar sem sakaður maður við rannsókn málsins og ákvörðun um ákæru eins og venjulegir sakborningar njóti í sakamáli. Rekur hann margvíslega annmarka sem hann telur að hafi verið á vinnubrögðum þingnefndarinnar, Alþingis og saksóknara. Hér aftur verður ekki tekin afstaða til þessa, en rök höfundar eru á ýmsan hátt sannfærandi og umhugsunarverð.

Í bókinni kemur einnig fram að Geir kærði niðurstöðu Landsréttar til Mannréttindadómstóls Evrópu en þar var íslenska ríkið sýknað af kröfum Geirs um viðurkenningu á því að brotið hefði verið á honum réttur til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 6. gr. sáttmálans sem og brotið gegn 7. gr. hans vegna þess að 17. gr. stjórnskrárinnar hafi ekki verið viðhlítandi refsiheimild eða eftir atvikum hafi túlkun hennar verið röng hjá meirihluta Landsdóms. Höfundur bókarinnar gerir ýmsar athugasemdir við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins. Ég ætla ekki að fara nánar út það hér enda er það of langt mál og snúið. Vil þó vekja athygli á því að eftir að Landsdómur hafði vísað frá tveimur ákæruliðum og sýknað af þremur var í rauninni lítið eða ekkert eftir af málinu fyrir dómendur í Strassborg að fjalla um. Í því sambandi er vert nefna, sem höfundur kemur raunar inn á að Mannréttindadómstóllinn er ekki áfrýjunardómstóll og getur ekki, í samræmi við nálægðarregluna og regluna um svigrúm til mats, endurskoðað túlkun innlendra dómstóla á lögum, heldur eingöngu svarað þeirri spurningu hvort lög eins og þau eru túlkuð og þeim beitt í einstökum málum feli í sér brot á sáttmálanum.

VI

Áhugavert er í meira lagi að Mannréttindadómstólinn segir á einum stað í dóminum að ferlið sem leiddi til ákærunnar á hendur kæranda, hafi ekki verið gerræðislegt, þegar til alls er litið né heldur pólitísk að því marki, að sanngirni réttarhaldsins hafi verið skert. Höfundur bókarinnar bendir á þetta og telur þetta fráleitt. Nokkuð er til í því.

Sumir kynnu að freistast til að líta svo á að niðurstaða Mannréttindadómstólsins feli í sér eins konar syndakvittun fyrir íslenska ríkið. Það væri misráðið, enda helgast niðurstaðan fyrst og fremst af því hvernig dómstóllinn beitir valdi sínu í ljósi nálægðarreglunnar (subsidiarity) og reglunnar um svigrúm til mats (margin of appreciation). Staðreyndin er sú að aðildarríkin fara mjög mismunandi leiðir í því að koma fram ráðherraábyrgð (impeachment procedure) og hefur dómstólinn farið varleg í að taka fram fyrir hendur aðildarríkja í þeim efnum, enda mótast reglur um þetta af ríkum pólitískum og sögulegum hefðum sem geta verið mjög mismunandi frá einu ríki til annars.

Hvað sem þessu líður er niðurstaða höfundar bókarinnar alveg skýr um að atkvæðagreiðslan á Alþingi um ákæru á hendur Geir hafi verið af hreinum pólitískum toga og réttarhöldin í þeim skilningi pólitísk. Eftir lestur bókarinnar er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þessari. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að mikilvægustu ákæruliðunum var ýmist vísað frá eða Geir sýknaður af þeim. Þannig má segja að Landsdómur hafi í öllum mikilvægustu atriðum hrundið ákærunni, þótt hnýtt hafi verið í ákærða með ýmsum hætti í rökstuðningi fyrir sýknu. Eftir stóð sakfelling fyrir atriði sem telja má minniháttar í heildarsamhenginu, auk þess sem sú sakfelling stendur á mjög veikum grunni. Í það minnst á við hér að fjallið tók joðsótt og fæddist lítil mús.

Ég get ekki annað en mælt með þessari bók fyrir alla áhugamenn um stjórnmál, stjórnmálasögu og lögfræði. Hún er mikilvægt innlegg í umræðu um þetta einstaka dómsmál og uppgjör þess.

Í bókinni fylgir ítarleg heimildaskrá og listi yfir viðmælendur og ljóst að höfundur hefur leitað víða fanga. Þá er í upphafi bókarinnar ítarlegt efnisyfilit og útdráttur í tölusettum liðum en allt þetta, auk nafnaskrár í lokin, auðveldar mjög lesturinn og notkun ritsins fyrir þá sem vilja glöggva sig á einstökum atriðum.

Posted in Juris Prudentia

Þankar um fullveldi Íslands í samstarfi Evrópuríkja

I

Höfundur ritaði á árinu 2018 grein um fullveldi Íslands í samstarfi Evrópuríkja, sem er prentuð í ritinu. Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 (Sögufélag 2018). Ritstjóri bókarinnar er Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði. Í tilefni af umræðu um bókun 35 við EES-samninginn set ég hér inn þennan pistil sem hefur að geyma meginatriði þess sem fram kemur í samantekt og lokaorðum greinarinnar, þótt hún varði annars ekki umrædda bókun sérstaklega að öðru leyti.

Í greininni er rakið að í samningaviðræðunum um EES-samninginn hafi verið lögð mikil áhersla á að hálfu EFTA-ríkjanna, ekki síst Noregs og Íslands, að samningurinn skerti ekki sjálfstæði þeirra eða fullveldi. Gerð er grein fyrir þeim áhrifum sem þetta viðhorf hafði á lagalega gerð EES-samningsins. Aðdragandinn ber þess skýr merki að þess var freistað, meðal annars í skjóli tveggja stoða kerfis samningsins, að tryggja ESB/EES-reglum stöðu í landsrétti EFTA-ríkjanna sem er í aðalatriðum sambærileg stöðu þeirra í aðildarríkjum ESB, án þess að þeim væri gert að lúta yfirþjóðlegu valdi í andstöðu við fullveldisréttindi þeirra.

Höfundur telur að þetta hafi tekist og samningurinn tryggi de jure fullveldi landsins. Á hinn bóginn er lítil sátt um það innanlands hvort þetta fyrirkomulag sé í raun sæmandi fullvalda ríki de facto í pólitískum eða sögulegum skilningi. Rökin lúta að því að EFTA-ríkin eigi ekki beina aðild að þeim stofnunum bandalagsins sem koma að undirbúningi og setningu nýrrar löggjafar á sviðum EES-samningsins og hafi lítil eða engin áhrif á efni löggjafar sem íslenska ríkið er þjóðréttarlega skuldbundið til að fella í landsrétt sinn.

II

Á árinu 1918 þýddi fullveldi í hugum Íslendinga að þeir færu sjálfir með æðsta vald í öllum sínum málum (innra fullveldi) og enn fremur að önnur ríki viðurkenndu fullveldi landsins og rétt þess til að ráða eigin málum (ytra fullveldi). Þessi tvö kjarnaatriði í skilningi manna á fullveldi á þessum tíma féll nokkuð vel að hinni lögfræðilegu (de jure) skilgreiningu sem jafnan hefur verið lögð til grundvallar við mat á stjórnskipulegu gildi EES-samningsins, jafnframt því má reikna með að í þessu hafi falist áskilnaður um fullveldi de facto. Höfundur heldur því fram, að svo miklu leyti sem litið er á fyrirkomulag við innleiðingu EES-gerða í íslenskan rétt, sem „fullveldisvandamál“, þá sé þar alfarið um að ræða innlendan pólitískan vanda, sem hafi ekkert að gera með ytra fullveldi Íslands í samfélagi þjóðanna og í samskiptum við önnur ríki. En fullveldið verður ekki eingöngu skilið sem lagalegt og stjórnmálafræðilegt hugtak heldur fólst einnig í því sú trú Íslendinga að þeim væri best treystandi til að stuðla að velferð þjóðarinnar og rækta íslenska menningu. Fullveldi er því í senn birtingarmynd almannavalds sem og hugmynda Íslendinga um hvernig því verður beitt í þágu Íslendinga.

III

Íslenska ríkið neytir fullveldisréttinda sinna meðal annars með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, þar með í samstarfi Evrópuríkja, af frjálsum vilja og samkvæmt eigin ákvörðun. Engin þvingun býr þar að baki frá öðrum ríkjum. Jafnframt má ætla að ákvörðunin um að taka þátt í samstarfinu hafi verið á því byggð hún væri í þágu hagsmuna íslenskra borgara. Þetta vill gleymast og ekki laust við að stjórnmálamenn á stundum noti áskilnað um fullveldi landsins til að ala á tortryggni gagnvart alþjóðlegu samstarfi og tala um skuldbindingar sem af því leiðir, einkum eins og þær birtast í EES-samningnum, eins og um sé að ræða óréttmætan yfirgang og afskipti erlends valds af innanlandsmálum Íslendinga. Litlu breytir þótt reglurnar í raun færi borgurunum, þ.m.t. launþegum, og íslenskum aðilum í atvinnurekstri, aðallega réttindi, þótt auðvitað fylgi því líka skyldur, eins og öllum réttindum. Orðræða af þessu tagi minnir mig stundum á söguna af Þorgeiri Hávarssyni þegar hann skreið upp úr tjörukagganum og Þórður jómsvíkingur strútharaldssonaskáld spurði hetjuna: „Hví ertu eigi geinginn við öðrum mönnum og ausinn vatni í tjöru stað?“ „Eg em íslenskur maður“, mælti Þorgeir Hávarsson “… og fýsir mig lítt að fara að siðum annarra manna“. (HKL Gerpla 25. kafli).

IV

Þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918 var hið ráðandi viðhorf að þjóðaréttur tæki til samskipta ríkja og borgarar einstakra ríkja gætu ekki reist réttindi á slíkum reglum, enda sjaldnast til þess fallnar. Þetta hefur breyst og þjóðréttarreglum er í vaxandi mæli ætlað að mæla fyrir um réttarstöðu einstaklinga og lögaðila. Alþjóðlegir mannréttindasáttmálar eru augljóst dæmi um þetta. Þá er EES-samningurinn dæmi um þetta enda snýst hann fyrst og síðast um réttindi og skyldur einstaklinga og aðila í atvinnurekstri á sameiginlegum markaði Evrópuríkja. Samskiptin á þeim markaði lúta reglum sem eiga sér rætur í samstarfi og samkomulagi þessara ríkja. Þetta má leggja þannig út að hið fullvalda ríki sé þannig í raun ekki eina uppspretta valdsins eins og hin hefðbundna fullveldishugmynd gerir ráð fyrir. Við þær aðstæður sýnist rökrétt að gera ráð fyrir alþjóðlegum stofnunum sem fá það hlutverk að standa vörð um réttindi sem einstaklingar og lögaðilar kunna að eiga óháð fullveldi ríkja. Vel má vera að þessi veruleiki þyki til þess fallin að grafa að undan valdi þjóðríkja (ríkisheilda) og mögulega samstöðu um þá þætti sem venjulega eru taldir tengja saman þjóðir. En veruleiki er þetta nú samt.

Rökstyðja má að skilningur ráðamanna á fullveldishugtakinu á hverjum tíma þurfi að uppfylla væntingar og kröfur borgaranna um velferð og vernd réttinda þeirra með aðild að þjóðréttarsáttmálum og alþjóðlegum stofnunum sem hafa vald til að taka bindandi ákvarðanir, ef því er að skipta. Frá sjónarhóli borgaranna, sem byggja rétt sinn, og jafnvel afkomu, á að EES-reglurnar virki, skiptir verulegu máli að þeir fái notið réttinda sinna samkvæmt EES-reglum og mega þá vangaveltur stjórnmálamanna, lögfræðinga, stjórnmálafræðinga og sagnfræðinga um fullveldi og fræðilega merkingu þess kannski einu gilda. Krafan um fullveldi íslenska ríkisins sé gerð til að standa vörð um að borgarar þess fái notið réttinda en standi því ekki í vegi.

V

Vel eru þekkt meðal Evrópuréttarfræðinga orð breska dómarans Lord Denning, sem sagði í einum dóma sinna að þegar að málefnum sem varða Evrópu kemur sé sáttmálinn (ESB) eins og aðfall sjávar. „Flóðið streymir um árósana og upp árnar og verður ekki stöðvað.“(Bulmer Ltd o.fl. gegn Bollinger, 1974). Með Brexit er ljóst að tiltölulega naumur meirihluti Breta gafst upp á að bera grjót í varnargarða „fullveldis“ Bretlands og ákvað að segja sig úr ESB. Afleiðingin var sú að afkoma og réttindi fjölmargra Breta, sem byggð var beint eða óbeint  á reglum hins sameiginlega markaðar var og er enn í uppnámi. Sýnir þetta að kröfur um fullveldi ríkisins þurfa ekki alltaf að falla vel að hagsmunum og réttindum stórs hluta borgara þess. Íslensk yfirvöld hafa ekki alltaf gætt að þessu þegar þau hafa á vettvangi alþjóðlegra stofnana borið fyrir sig fullveldisréttindi til að neita eigin borgurum um réttindi sem þeir eiga að njóta samkvæmt þjóðréttarreglum sem ríkið hefur undirgengist, þ.m.t. EES-reglum. Er líklegt að baráttumenn fyrir íslensku fullveldi árið 1918 hafi séð fyrir að áskilnaði um fullveldi yrði beitt með þeim hætti?

Posted in Juris Prudentia

Fullveldi og forgangur EES-reglna

I

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til breytinga á lögum nr. 2/1993 (EES-lögin). Lagt er til að eftirfarandi breyting verði gerð á 4. gr. laganna og hún verði svohljóðandi:

Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.

Í 3. gr. laganna er fyrir eftirfarandi regla:

Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

Ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir að þessari reglu í 3. gr. verði breytt enda er hún eðlileg og sjálfsögð og er í raun ekki annað en staðfesting á þeirri almennu og allt umlykjandi lögskýringarreglu að skýra beri íslensk lög til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins eftir því sem unnt er.

II

Regluna í 3. gr. er að rekja til bókunar 35 við EES-samninginn en hún varðar stöðu EES-reglna í íslenskum landsrétti. Efni hennar er að EFTA-ríkin (þar með talið Ísland) skuldbinda sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði sem tryggi að EES-reglur sem komnar eru til framkvæmda, gangi framar öðrum reglum landsréttar ef hinar síðarnefndu rekast á þær fyrrnefndu. Bókunin hefur að geyma þjóðréttarlega skuldbindingu sem Alþingi taldi sig á sínum tíma fullnægja með fyrrnefndri 3. gr. EES-laganna.

Ef orðalag reglunnar í 3. gr. er skoðað sést aftur á móti glöggt að bókunin er ekki efnislega tekin beint upp í íslensk lög heldur þess í stað sett lögskýringarregla sem gengur, samkvæmt orðum sínum, skemmra en skuldbindingin í bókuninni.

Höfundur þessa pistils skrifaði fyrir næstum 30 árum grein um EES-samninginn í Úlfljót, tímarit laganema við Háskóla Íslands, þar sem fjallað er meðal annars um 3. gr. EES-laganna. Niðurstaðan af þeirri athugun var í aðalatriðum sú að efast mætti um að reglan í 3. gr. væri til þess fallin að fullnægja skuldbindingunni í bókun 35. Þó var gerður sá fyrirvari í greininni að þetta færi eftir því hvernig dómstólar myndu í framtíðinni beita 3. gr. og hversu langt þeir væru tilbúnir til að ganga til að virða skuldbindingu íslenska ríkisins samkvæmt bókun 35 og veita EES-reglum forgang á grundvelli hennar þar sem það á við. Síðar hefur komið í ljós að 3. gr. EES-laganna, eins og íslenskir dómstólar beita henni, dugar ekki til að fullnægja bókuninni. Hefur íslenska ríkið af þessum sökum verið snuprað af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fyrir að sinna ekki skyldum sínum í þessu efni. Reynslan hefur því sýnt að efasemdir höfundar fyrir næstum 30 árum um að 3. gr. dygði til að fullnægja skuldbindingum Íslands voru ekki ástæðulausar og reyndar í ljós komið að hún gerir það hreint ekki.

III

Rök fyrir þeirri leið sem Alþingi valdi á sínum tíma vörðuðu með sínum hætti áhyggjur af fullveldisframsali í tengslum við lögfestingu samningsins og að vart hafi verið hægt, vegna stjórnarskrárinnar, að setja hreina og klára forgangsreglu og binda þannig hendur löggjafans í framtíðinni. Eins og fjallað er um í hinni gömlu grein undirritaðs má draga í efa að þetta hafi verið rétt forsenda þegar þessi lögskýringarregla var sett í lög, enda yrði forgangsreglan eingöngu sett í almenn lög sem Alþingi getur alltaf breytt ef svo ber undir. Með hreinni forgangsreglu hefur Alþingi þannig eingöngu bundið hendur handhafa framkvæmdarvalds og dómstóla innanlands, sem og einstaklinga og lögaðila, meðan lögin gilda eins og það gerir með setningu laga endranær. Alþingi getur aldrei bundið sig til frambúðar með setningu laga því að hlutverk þess samkvæmt stjórnarskránni er einmitt að setja ný lög og breyta eldri lögum ef svo ber undir. Engin lög sem Alþingi setur binda hendur þess til frambúðar. Ekki heldur þótt þau séu sett til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum.

Þá eru rök um að EES-reglum í almennum stjórnsýslufyrirmælum fái með slíkri reglu forgang fram yfir reglur í almennum lögum frá Alþingi einnig haldlaus, enda vísar niðurlag ákvæðisins í frumvarpinu til þess þegar ákvæði í almennum stjórnsýslufyrirmælum, sem leiðir af EES skuldbindingu, rekst á við annað ákvæði í almennum stjórnsýslufyrirmælum. Þess er einnig að geta að ákvörðun um að setja EES-reglu í almenn stjórnsýslufyrirmæli byggist alltaf á þeirri forsendu að fyrir því sé stoð í almennum lögum. Annars er hætta á að litið verði svo á að EES-reglan hafi ekki verið réttilega innleidd. Þetta álitamál má aukin heldur forðast með því einfaldlega að setja EES-reglu í almenn lög ef hætta þykir á að stjórnsýslufyrirmæli dugi ekki og EES-reglan virki ekki eins og skuldbinding íslenska ríkisins stendur til.

IV

Í frumvarpinu sem liggur fyrir Alþingi er stefnt að því lagfæra þennan ágalla á EES-lögunum í því skyni að fullnægja loks skuldbindingunni í bókun 35 og setja reglu sem tryggir skýrum og óskilyrtum lagaákvæðum, sem réttilega innleiða skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum, forgang fram yfir aðrar reglur íslensks réttar.

Þessi regla um forgang ESB/EES-reglna er grundvallarregla í rétti sambandsins og byggir á þeirri einföldu hugsun að forsenda fyrir sameiginlegum markaði á sviði vöruviðskipta, þjónustu, fjármagnsflutninga og vinnuafls sé að sömu reglur gildi alls staðar á honum. Hugmyndin er sú, svo skýrt sé með dæmi, að Hollendingur sem nýtir sér réttindi samkvæmt ESB og flytur til Spánar og stofnar þar fyrirtæki eigi að geta treyst því að reglur ESB gangi framar öðrum spænskum lögum rétt eins og Spánverji sem kemur sér fyrir í Hollandi í sömu erindigjörðum á að geta treyst á forgang þeirra í Hollandi. Meginatriði EES-samningsins er að Íslendingum eru tryggð þessi réttindi líka, eins og Ísland væri í ESB. Íslendingur sem flytur til Spánar á að geta treyst því að hann njóti réttinda samkvæmt ESB-reglum og mögulegar fullveldishugmyndir Spánverja standi því ekki í vegi. Á sama hátt á Spánverji sem til Íslands flytur að geta treyst því að fullveldisáhyggjur Íslendinga standi því ekki í vegi að hann njóti réttinda samkvæmt EES-reglum. Með EES-samningnum og bókun 35 gengust Íslendingar undir þá skuldbindingu að tryggja einmitt þetta.

Þrátt fyrir þessi augljósu sannindi er enn og aftur farin af stað umræðan um framsal lagasetningarvalds, yfirgang Evrópustofnana, lýðræðishalla, sjálfsákvörðunarrétt Íslendinga og fl. Höfum í huga í þessu sambandi að reglum EES er fyrst og fremst ætlað að veita einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri aðild að sameiginlegum markaði ESB og veita þeim þar með réttindi, en leggja einnig á þá skyldur í samræmi við kröfur hins sameiginlega markaðar. Ef mönnum er alvara með því að fyrirvarar Íslendinga um fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt standi því í vegi að einstaklingar og aðilar í atvinnurekstri á Íslandi fái að fullu notið réttinda sinna á sameiginlegum markaði ESB, sem Íslendingar sjálfir sóttu um að fá aðgang að án aðildar að sambandinu, er fullveldið þeim ekki það skjól sem það ætti að vera heldur stendur það beinlínis í vegi þess að þeir fái notið þessara réttinda sinna.

Posted in Juris Prudentia

Guðrún Eva Mínervudóttir – Útsýni (Bjartur 2022)

 

Reynsluheimur minn er sá að mér hentar skást að skrifa bóklega þanka um fræðirit, aðallega sagnfræði og lögfræði, en einnig að nokkru það sem kalla má heimildasögur, sögulegar skáldsögur eða sögur sem hafa skýra sögulega tilvísun til raunverulegs fólks og raunverulegra atburða. Ekki spillir fyrir ef í þeim er dass af heimspeki, pólitík og hagfræði. Ég hef þó lesið talsvert af skáldskap gegnum áratugina. Þannig les ég til dæmis allt eftir Gyrði Elíasson nema handritin sem hann er enn með í skúffunni hjá sér, enda kemst ég ekki í þau þar sem ég þekki manninn ekki neitt og veit ekki hvar hann á heima. Sagnaheimur hans höfðar sérlega mikið til mín. Ekki veit ég af hverju það er og hef ekki yfir að búa bókmenntafræðilegum orðaforða sem gerir mér kleift að skýra það á sannfærandi hátt. Kannski er það vegna þess að allir þessir introvertar og einfarar, sem Gyrðir töfrar fram í bókum sínum, höfða svona mikið til mín. Þrátt fyrir þessar takmarkanir mínar, og kannski vegna þeirra, ákvað ég, eftir að hafa ráfað einsamall langa stund milli drekkhlaðinna bókaborðanna í Pennanum í Kringlunni, að fara út fyrir þægindarammann, og spreyta mig aðeins á Guðrúnu Evu Mínervudóttur og bók hennar Útsýni.

Á kápu bókarinnar er saga Guðrúnar Evu Aðferðir til að lifa af ausin lofi af viðurkenndum og þekktum bókmenntadómendum, en svo vill til að þetta er eina bókin sem ég hef áður lesið eftir þennan höfund. Lofgjörðir af þessu tagi á bókarkápum hafa markaðsáhrif á mig og auka kauplöngun mína. Ég fell gjarnan fyrir svona auglýsingabrellum í bókamenntageiranum og hef oft setið uppi með bækur sem mér þóttu ekki rísa undir lofinu. Ég hef því oft verið gabbaður til að kaupa vondar bækur, svo það sé nú sagt. Í þessu tilfelli, vil ég trúa, að meira máli hafi skipt að mér fannst Aðferðir til að lifa af áhugaverð og mér lék forvitni á að kynnast höfundinum betur. Þori varla að segja það, en hún minnti mig á Gyrði.

Sagan er um unga konu Sigurlilju de Waal, sem er svo hávaxin og mjó að hún gæti málað „skipsmöstur að innan“. Sigurlilja er svolítið á skjön í lífinu, að áliti móður hennar. Höfundur áréttar þessa sérstöðu sögupersónu sinnar með ýmsum hætti. Hún á hollenskan föður sem hefur lítið af henni að segja. Hún passar ekki í bílsæti og flugvélar og ekki inn í læknavísindin, já eiginlega ekki inn í heiminn.  Á dimmu vetrarkvöldi í Hafnarfirði sér hún ljósboga á himni, eins konar geimskip, líður út af og er vakin upp og fylgt heim af ókunnugum manni, sem kemur ekki frekar við sögu. Ef ég skil rétt er hún eftir þetta þeim hæfileika búin að sjá veruleikann með augum annarra í bókstaflegri merkingu. Þetta gengur eiginlega svolítið lengra því hún nánast klæðir sig húð annarra og er um tíma það fólk hvers augum hún sér heiminn með, að öðru leyti en því að hún getur ekki tekið líf þeirra yfir og stýrt því hvað það tekur sér fyrir hendur.  Reynsla, hugsanir og kenndir þessa fólks verða hennar eigin á þennan passífa hátt. En hún er sérlega hávaxin og þannig er útsýni hennar meira en okkar hinna sem eru svona rétt í meðallagi og svo ég tali nú ekki um þá sem lágvaxnari eru. Nú veit ég að margir sem ég þekki lesa ekki undir nokkrum kringumstæðum bækur sem fjalla um geimverur, handanveruleika og önnur slík hindurvitni. Verð því að taka fram strax og þessi bók Guðrúnar Evu hefur, eftir mínum skilningi, ekkert sem slíkt að gera.

Ramminn sem höfundur mótar kringum þessa sérstæðu og margslungnu sögu er þó frekar einfaldur. Sagan hefst á að Sigurlilja (Lilja) tekur sér fyrir hendur, að ósk móður sinnar, ferðalag til Bakkafjarðar um sumarsólstöður til að ganga frá dánarbúi eftir aldraða frænku þeirra mæðgna, Teresu. Á þessu ferðalagi hittir hún fjölda fólks. Þessi einfaldi söguþráður heldur sögunni saman og skapar henni ramma, en innan hans er heill heimur og miklu stærri tímarammi en þarf til að leysa þetta tiltekna verkefni af hendi. Ég ætla ekki að spilla lestrinum fyrir mögulegum lesendum með því að rekja söguþráðinn hér nánar.

Á ferðalaginu kynnist lesandinn fjölda fólks; sögupersónunni sjálfri, Teresu frænku, nágrönnum og kunningjum hennar á Bakkafirði, öllu því fólki sem hún tekur sér bólfestu í til að sjá heiminn í gegnum og ýmsu öðru fólki sem staldrað hefur við í lífi hennar, svo sem skólafélögum, vinnufélögum og „vinum“, því óljóst er hvort hún getur átt vini yfirhöfuð.  Þannig eru innan þessa ramma margar smásögur þar sem þessar persónur birtast, segja sína sögu og hverfa svo. Þarna er meira að segja glæpasaga. Þannig stendur aðalpersónan í miðju þessu persónugalleríi og setur sig í spor alls þessa fólks og hlustar á sögur þeirra. Þar stendur Sigurlilja utan við sjálfa sig, ef svo má segja og upplýsir lítið um sig, áform sín, langanir og þrár ef einhverjar eru. Lestur bókarinnar er afar sérstakt ferðalag sem höfundurinn býður lesandanum með sér í. Endir sögunnar er einnig sérstæður, svona í samhengi sögunnar‚ ef svo má segja, því skýringar á þessum hæfileikum Sigurlilju eru jarðbundnari en maður kynni að ætla. Segi ekki meira um það. Þetta skýrist síðari hluta bókarinnar.

Hver er lærdómurinn? Nú verður líklega hver og einn lesandi að ráða í það eftir sínum skilningi, eins og á við um allar góðar skáldsögur. Mér virðist ýmislegt koma til greina þótt ekki sé tryggt að höfundurinn myndi fallast á neitt af því, enda hef ég ekki þann hæfileika að sjá söguna með augum höfundarins sjálfs. Ég les bara textann eins og hann liggur fyrir út frá mínu afgirta sjónarhorni. Í öllu falli minnir sagan á að við erum í raun alltaf lokuð af við eigið sjónarhorn. Allir eiga sér sína sögu og allar eru þessar sögur áhugaverðar og verðugar. Sumar þeirra kunna að þykja hversdagslegar á ytra borði, en aðrar eru dramatískar og tilfinningaþrungnar. Góður er sá eiginleiki að geta sett sig í spor annarra og freista þess að horfa á heiminn frá annarra sjónarhóli og leggja sig fram um að skilja þannig afstöðu þeirra og sérstöðu betur. Hvert og eitt líf er þess verðugt að því sé lifað og það er sérstakt og frásagnarvert.  En þessi eiginleiki að sjá heiminn sífellt með augum annarra er þó ekki heppilegur að öllu leyti því hann kann að leiði til þess að maður setji eigið sjálf til hliðar. Með því að lifa lífi annarra setur maður sitt eigið til hliðar. Það er einmitt það sem aðalpersónan gerir lengst af, hún dregur sig í hlé, hefur engin plön fyrir sig eða metnað sér til handa og er fjarlæg og einræn. Hún lifir í fjölskrúðugu lífi annarra. Eins og Guðrún Eva segir, Sigurlilja vistar sínar „sjálfur“ í símann sinn, en þær hverfa síðan þegar líftíma hans lýkur, svona eins og hann er gerður til. Sigurlilja skilur sjálfa sig eftir á ferð sinni um líf, huga, afstöðu og sjónarhorn annarra. Svo taka hlutirnir á sig aðra mynd þegar maður hefur ekki lengur þá sérstöðu að vera hlutlaus og velviljaður áhorfandi og verða þess í stað ábyrgur fyrir sjálfum sér og öðrum. Sagan er vissulega margræð og unnt að leggja út frá henni á mismunandi vegu. Líklegt er að einstaka lesendur geri einmitt það, hver og einn út frá sínu afmarkaða  sjónarhorni.

Mér hugnast stílinn á bókinni sérleg vel. Um leið og hann er einfaldur, tær og blátt áfram er hann fullur af næmni og skáldlegri andagift og léttri kímni þegar það á við. Og svo er hann alveg laus við þreytandi orðskrúð, óðamæli og tilgerðarlega upphafningu sem einkennir suma höfunda.

Vel gerð og áhugaverð skáldsaga sem skrifuð er af ríku innsæi og næmni.

 

Tugthúsið – Haukur Már Helgason (Mál og menning – 2022)

 

I

Lestur bókarinnar tengist áhuga mínum á íslenskri réttarsögu. Raunar skrifaði ég fyrir margt löngu ritgerð til embættisprófs í lögfræði um áhrif Upplýsingarinnar á íslenska refsilöggjöf og sakamálaréttarfar. Upp úr henni vann ég síðar samnefndan kafla í ritið Upplýsingin á Íslandi (1990) í ritstjórn Inga Sigurðssonar prófessors emeritus í sagnfræði, hvers ég naut leiðsagnar um lendur upplýsingarinnar á Íslandi undir lok BA náms í sagnfræði. Sögutími bókar Hauks Más er einmitt þegar hugmyndir upplýsingamanna um þessi efni eru festast í sessi Evrópu, eða frá því um 1750 til 1840. Efni bókarinnar er mér því skylt.

Afbrot og refsingar á Íslandi á 18. öld er endurtekið stef í íslenskum bókmenntum. Fyrst er nefnd Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness. Sú saga er að sönnu stórbrotin og marglaga, en för Jóns Hreggviðssonar um svipugöng íslensks og dansks réttarkerfis, sem hófst á fyrsta áratug aldarinnar, liggur í gegnum hana alla. Hér má og nefna Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson en bakgrunnur hennar eru morðin á Sjöundá á Rauðasandi 1802. Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson kemur mér einnig hug þótt sú saga gerist síðar. Þá eru mörgum kunnar bækur Björns Th. Björnssonar Haustskip (1975), sem er saga um örlög Íslendinga sem fluttir voru í þrælakistur Kaupmannahafnar á árunum 1745-1763 og Falsarinn um Þorvald Þorvaldsson frá Skógum í Þelamörk, sem falsaði peningaseðil og var dæmdur til dauða. Fleira mætti telja þótt ekki verði gert hér. Má því segja að Haukur Már ráðist ekki á garðinn þar sem lægstur þar sem bók hans skapar hugrenningartengsl við stórvirki í íslenskri bókmenntasögu.

II

Hugmyndir upplýsingamanna eiga rætur í heimspekikenningum um náttúrurétt og náttúruleg réttindi manna sem ríkisvaldið geti ekki af þeim tekið. Rökrétt var að menn veltu fyrir sér hvaðan ríkisvaldinu kæmu heimildir til að beita fólk refsingum og hvort því valdi væru settar skorður. Þetta væri unnt að gera með ýmsum hætti. Ein leiðin væri að þrengja hugtakið afbrot og fækka þannig heimildum til að refsa fólki, svo sem fyrir ætluð brot sem varða trúarviðhorf þess, samvisku, skoðanir og tjáningu þeirra, sem og siðferðilegri breytni. Þannig mætti fella ýmis konar háttsemi sem áður var talið til afbrota utan þess hugtaks. Þá voru mótaðar ýmsar grundvallarreglur refsiréttar, svo sem að heimildir ríkisvaldsins til að refsa fólki styddust við lagaheimild sem mætti ekki vera afturvirk og sjálfstæðir dómstólar gerðu mönnum refsingu. Loks mótuðust hugmyndir um að refsing skyldi hæfa glæpnum og refsivist skyldi beitt í auknum mæli. Loks skyldu lagðar af ýmsar líkamlegar refsingar, svo sem hýðingar, aflimanir og aðrar limlestingar á fólki fyrir litlar eða engar sakir, svo ekki sé nú talað um dauðarefsingar. Þess í stað var talað fyrir refsivist og vinnu fanga í bland við betrun þeirra til gera þá að gildum samfélagsþegnum. Þetta hefur í framkvæmd gengið upp og niður, svo sem menn þekkja. Upplýstar hugmyndir um glæpi og refsingar náðu skjótri útbreiðslu. Raunar eru þær margar nú á dögum svo fastar í sessi að segja má að þær séu hluti af réttarvitund þorra manna, a.m.k. í Evrópu.

Hugmyndir þessar náðu til Danmerkur eins og annarra ríkja í Evrópu, þótt þær bærust til Íslands seint og illa og eiginlega ekki að marki fyrr en Magnús Stephensen dómstjóri kom með þær í farteski sínu frá námsvist í Kaupmannahöfn og tók sæti í hinum nýja Landsyfirrétti sem stofnaður var árið 1800. Fremstur í flokki þeirra sem höfðu kynnt sér þessar hugmyndir var einmitt Henrik Stampe en hann var helsti ráðunautur stjórnarinnar í Kaupmannahöfn til ársins 1784, en hann kemur við sögu í bók Hauks Más. Á eftir honum kom svo Christian Colbiørnsen. Hlutverk þeirra var meðal annars að vera stjórninni til ráðuneytis um refsirétt og meðferð sakamála. Ekki þarf að rýna lengi í verk þeirra til að átta sig á að þeir þekktu til hugmynda upplýsingarmanna um glæpi og refsingar. Lögðu þeir sig nokkuð fram við að innræta íslenskum lagamönnum þessar hugmyndir með óljósum árangri

III

Fyrir meðal annars áhrif Upplýsingarinnar urðu þær breytingar á refsirétti í Danmörku og þar með á Íslandi, að heimildum til að dæma menn í refsivist (þrælkun) fjölgaði. Föngum á Íslandi sem þurfti að senda utan til afplánunar fjölgaði þar með því ekkert tugthús var á Íslandi til að hýsa allt þetta fólk. Meðfram þessu varð talsverður straumur Íslendinga í þrælakistur Kaupmannahafnar og lýsir Björn Th. Björnsson þessu í heimildasögu sinni Haustskip, sem fyrr er nefnd. Kostnaður við upphald fanga meðan ferðar var beðið, því þær voru strjálar, lagðist á sýslumenn þeim til örgustu mæðu.

Þótt umræður um mögulegt tugthús á Íslandi hefðu hafist nokkru fyrr var það vissulega fyrir bænaskrá íslenskra sýslumanna frá 1757 að skriður komst á málið eins og fram kemur í bók Hauks Más. Í bænaskránni, sem send var konungi á hátindi Upplýsingarinnar í Evrópu, er meðal annars biðlað til konungs um að rýmka heimildir til að taka sakamenn af lífi. Þá þyrftu sýslumenn ekki að halda þeim uppi þar til þeir yrðu sendir þrælkunar hjá kónginum. Ódýrara og skilvirkara væri fyrir alla sem ættu hagsmuna að gæta, annarra en sakamannanna sjálfra, að lífláta þá strax. Ekki bætti úr skák, frá sjónarhóli stjórnarinnar í Kaupmannhöfn, að kaupmenn fóru um þessar mundir að heimta gjald fyrir flutning fanga til Danmerkur.

Í bók Hauks Más kemur fram að áðurnefndur Henrik Stampe fékk bænaskrána til umsagnar. Samdi hann ítarlega skýrslu um þessa illræmdu bænskrá og er að sjá að honum hafi verið nokkuð brugðið. Eitt af því sem hann mælti með sem lausn var að reisa hegningarhús á Íslandi. Með því skyldu í einu höggi slegnar þrjár flugur, spara sýslumönnum uppihald dæmdra manna og stjórninni kostnað af flutningi þeirra í þrælakistur sínar. Enn mætti nýta vinnuaflið við þrælakjör á Íslandi svo sem Skúli Magnússon innréttingamaður og fleiri höfðu hug á. Þannig má segja að upplýsing og peningar hafi ráðið mestu um að húsið var reist, þótt í ljós komi, þegar saga þessi er rannsökuð, að hugsjónirnar virðast hafa vikið undra skjótt fyrir sjónarmiðum um kostnaðarhagkvæmni og þrefi um hvernig reksturinn skyldi fjármagnaður. Er þess þá að geta að afrakstur af vinnu fanga innan og utan Múrsins, sem húsið var kallað, hrökk lengst af skammt þótt ekkert væri kaupið (utan brauð- eða brennivínskammta um tíma) og annar kostur oftast rýr, nema þegar mikið lá við að þeir fengu þá næringu sem dygði til að þeir nýttust til vinnu. Þá er líka ljóst að margir sem störfuðu í húsinu og höfðu þar öll ráð í hendi sér hirtu lítt um upplýstar refsikenningar og óvíst hvort þeir höfðu yfirhöfuð frétt af þeim. Þessa ber merki doktorsritgerð Björn Þórðarsonar um Refsivist á Íslandi 1761-1925, en saga hússins er þar kortlögð af mikilli natni og fjármálin áberandi leiðarstef.

IV

Í bók sinni tekur höfundurinn Haukur Már sér fyrir hendur að segja sögu hegningarhússins frá nýju sjónarhorni samanborið við aðra á undan honum sem hafa nálgast efnið frá víðara fræðilegu sjónarhorni. Þetta gerir hann með því að beina athyglinni að lífinu í húsinu og lífi og örlögum þeirra er þar voru vistaðir eða störfuðu þar hverju sinni. Ég tel að framlag Hauks Más til þessarar sögu sé mikilsvert og mikil viðbót við það sem áður hefur verið skrifað um þessi efni. Kafar hann býsna djúpt í þessa sögu og dregur á afar sannfærandi hátt upp mynd af lífi fanganna í húsinu sem er nöturlegri en mig hafði órað fyrir. Taldi ég mig þó fyrir lestur bókarinnar hafa vitað ýmislegt misjafnt um þessa stofnun. Verður til að mynda ekki betur séð en að vinnu fanga innan og  utan Múrsins sé að sönnu best lýst sem þrælahaldi, meðal annars við að bera grjót í nýja dómkirkju í Reykjavík. Þá var meðferð fanga, líkamlegar refsingar og agaviðurlög sem þeir voru beittir, sem og aðstæður og sá kostur sem þeim bauðst mótaður af fullkomnu skeytingarleysi um hag þeirra, harðneskju og grimmd sem leiddi fjölda þeirra til örkumlunar og dauða eins og skýrt er af bók Hauks Más. Í bókinni birtist þessi saga sem ljótur blettur á íslenskri réttarsögu og voru þar þó fyrir margir stórir blettir og ljótir.

VI

Höfundur hefur unnið mikla heimildavinnu, með því að skoða frumheimildir, svo sem löggjöf, bréfaskriftir ýmis konar milli embættismanna, opinberar skýrslur, dómsskjöl o.fl. og næsta líklega einnig fræðileg skrif um efnið. Bók Hauks Más er þó ekki fræðirit því þótt mikið sé um almennar frásagnir af heimildunum eða efni úr þeim í bókinni eru vísanir til þeirra með þeim hætti að ekki er unnt, eða að minnst kosti mjög fyrirhafnarsamt, að staðreyna hvort rétt sé eftir haft. Skáldaleyfi höfundar auðvelda það ekki heldur. Ég tek fram að ég efast þó ekkert um að rétt sé eftir haft þar sem það á við.

Á bakhlið kápu bókarinnar segir að um skáldsögu sé að ræða. Frásögnin og framvinda sögunnar er þannig að fangar og starfsmenn líða fyrir sjónir lesanda eins og skuggamyndir fremur en ljóslifandi persónur og skil aðal- eða aukapersóna eru óglögg. Fangarnir birtast þar hver á fætur öðrum flestir hoknir af fátækt, striti, vesöld, harðræði og bugaðir af ofbeldi og óréttlæti þessa heims. Þar birtast og ráðsmenn, tugtmeistarar og aðrir sem störfuðu í þessu húsi, sem og embættismenn, háir sem lágir, sem flestir létu sér þessa illu meðferð og þetta mikla óréttlæti sig í fáu varða. Erindi þeirra sem tóku málstað fanganna og óskuðu úrbóta voru afgreidd af æðstu embættismönnum sem stagl og leiðindi. Svo er þar sagt frá fálkaföngurum, landmælingamönnum, stjörnuskoðunarmönnum sem sem koma við sögu hússins. Persónugalleríið í bókinni er afar stórt og fjölbreytt. Í bókinni eru þannig í raun margar smærri sögur sem þó gætu margar hver um sig verið uppistaða í sjálfstæðar sögur. Vegna aðferðar höfundar við að koma allri þessari sögu á framfæri er verður stundum illa fest hönd á einstökum persónum og vafalaust væri áhugavert að kynnast mörgum þeim betur og fá að vita meira um lífshlaup þeirra og örlög. Í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni stakk höfundurinn sjálfur upp á að um sögulega skáldsögu eða heimildasögu kynni að vera að ræða, en var þó, ef ég skil rétt, ekki alveg viss hvernig flokka bæri. Skiptir slík flokkun reyndar litlu máli, því bókin er að sönnu snjöll og mikilsverð eins og hún er og best að lesendur nálgist hana þeirri forsendu og velji henni sjálfir stað í bókahillunni að lestri loknum.

Þá aðeins um málfar og stíl. Í því efni verð ég að játa að mér fannst textinn á stundum seigur undir tönn, einkum við upphaf lestursins. Helgast þetta af því að víða eru setningar langar og bútaðar niður með aukasetningum og innskotssetningum sem hver um sig inniheldur sjálfstæð efnisatriði þótt þau séu um leið tengd. Þess er og að geta að í bókinni er fjallað um tímabil Íslandssögunnar sem orðað hefur verið við „íslenskunnar trufl og rammskældan böguskap, sem af dönskunni stendur“. Ætla verður að stíllinn mótist af hendi höfundar á köflum, næsta örugglega meðvitað, af grúski hans í heimildunum og þannig hinum málfarslega tíðaranda, sem og einnig þeim stíl sem vænta mætti í skýrslu sögumannsins Páls Holt. Oftast er höfundur á léttari spretti og textinn líður fram heiður, tær og bráðsnjall.

VI

Undir lokin varpar skýrsluhöfundurinn og sögumaðurinn Páll Holt því fram að forvitnilegt sé, hafandi í huga þessa ömurlegu fortíð hússins „að ríkisstjórnir velji sér þetta samhengi og störfum sínum og hitt hvaða áhrif það hefur á þéttbýli að verða til í kringum tugthús í þeirri nálægð við óslitnar refsingar og með þann aðgang að vinnuafli fanga sem á dönsku hétu þrælar.“ Nú get ég ekki svarað þessari spurningu Páls Holts (höfundar), að öðru leyti en að rifja upp að Hæstiréttur Íslands var beinlínis í tughúsinu við Skólavörðustíg á sínum fyrstu starfsárum. Í því fólst ákveðin tegund af íslenskri skilvirkni með því leiða mátti sakamenn, þegar eftir upplestur dómsorðs, niður á næstu hæð til að hefja þar afplánun. Vil einnig benda á að stjórnskipunardómstóll Suður-Afríku í Jóhannesarborg, sem settur var á fót eftir afnám aðskilnaðarstefnunnar þar í landi, er í endurgerðu húsi á rústum eins illræmdasta fangelsis landsins. Þar dvöldu þúsundir fanga um lengri eða skemmri tíma og týndu lífinu vegna hörmulegra aðstæðna og illrar meðferðar. Þar í landi hefur þessi staðreynd þá táknrænu merkingu, að bygging þar sem réttindi manna voru áður fótum troðin skuli eftirleiðis vera varðstöð um þau. Á Íslandi hafa menn líklega lítið velt fyrir sér slíkum táknmerkingum og eins líklega valið þetta hús til að hýsa æðstu stjórn landsins vegna kostnaðarhagræðis, rétt eins og þegar tekin var ákvörðun um byggingu þess á sínum tíma. Auðvitað er við hæfi að fyrir utan þetta fyrrum illræmda tugthús standi minnismerki um allt það skuggsækna fátæka almúgafólk sem týndi þar lífi sínu.

Afar áhugaverður lestur sem ég mæli óhikað með.

 

Millibilsmaður - Skáldsaga eftir Hermann Stefánsson (Sæmundur 2022)

Millibilsmaður - Skáldsaga eftir Hermann Stefánsson (Sæmundur 2022)

Jólabókavertíðin 2022 er hafin. Skemmtilegur tími og eitt það besta við jólin á Íslandi ef út í það er farið. Nú ætla ég að taka upp á því að setja inn á vefinn hjá mér, í sérstaka möppu, þanka um þær bækur sem ég kemst yfir að lesa á þessari vertíð. Þar sem starf mitt felst í lestri dómskjala lungann úr deginum, er því þreki sem eftir er til bóklesturs takmörk sett, svo ég á ekki von á að pistlarnir verði margir eða tíðir.

Fyrsta „jólabókin“ sem ég las þetta árið er skáldsaga Hermanns Stefánssonar - „Millibilsmaður“ sem Bókaútgáfan Sæmundur gefur út.

Fremst í bókinni tekur höfundur fram að texti hennar sé skáldskapur, en líkindi við veruleikann, raunverulegt fólk og viðburði séu þó ekki tilviljun. Þá segir höfundur að hið ótrúverðugasta í bókinni sé einmitt það sem byggt sé á heimildum, prentuðum sem óprentuðum. Þetta er einkenni höfundar þar sem hið líklega er einmitt ólíklegast og hið ólíklega líklegast. Sagan er tileinkuð minningu hjónanna Guðmundar Hannessonar læknis og skipulagsfrömuðar (1866-1946) og Karólínu Margrétar Sigríðar Ísleifsdóttur Breiðfjörð (1871-1927), langafa og langömmu höfundar. Þau hjónin eru meðal höfuðpersóna sögunnar, og heita þar Jannes Guðmundur Jannesson og Mekkín Karolína Sigríður Ísólfsdóttir Breiðfjörð. Líkindi eru með nöfnum þeirra persóna sem bera uppi söguna og þess raunverulega fólks sem þær eru sóttar í. Tekur höfundur fram að hann hafi sérstaklega lagt sig fram við að gæta ósamræmis í nafngiftum og rithætti, í takti við tíðarandann.

Sögusviðið er fyrst og fremst Reykjavík á fyrsta áratug síðustu aldar. Doktor Jannes og Mekkín eru flutt til Reykjavíkur frá Akureyri. Í Reykjavík breiðist spíritisminn út eins og faraldur og um þetta leyti er Tilraunafélagið stofnað, sem beitti sér meðal annars fyrir því að sanna með vísindalegum aðferðum að framhaldslíf væri staðreynd og vel mætti halda uppi samræðum við framliðna með aðstoð millibilsmanna, þótt ýmsir efuðust mjög, meðal annarra doktor Jannes. Um leið var félagið starfsvettvangur fyrir þekktasta miðil þessa tíma Indriða Indriðason sem í sögunni heitir Tindri Jónsson ættaður úr Saurbæjarsveit í Dalasýslu. Þótti hann búa yfir meiri dulrænum hæfileikum en títt var um aðra menn.

Að starfi Tilraunafélagsins komu margir af betri borgurunum í höfuðstaðnum (heiti þeirra í sögunni í sviga fyrir aftan). Þannig var helsti forkólfur þess Einar Hjörleifsson Kvaran, rithöfundur og ritstjóri (Einar J. Kvaran), Björn Jónsson ristjóri Íslafoldar og síðar ráðherra Íslands 1909-1911 (Björn Hrafndal Jónsson), séra Haraldur Nielsson prófessor (Húnbogi Nielsson). Ýmsum fleiri andans mönnum bregður fyrir í sögunni sem ekki verða nefndir. Svo dúkkuðu nokkrir framliðnir upp á fundum félagsins eins og vænta mátti og tóku virkan þátt í fundarstörfum, svo sem fundargerð félagsins, sem rakin er í sögunni vitnar um, þar sem fært er til bókar að fram hafi komið á fundinum meðal annarra fjölnismaðurinn Konráð Gíslason sem hvarf annars á vit ferða sinn um 15 árum áður og stjórnaði nú fundum að handan. Þar flutti og Hallgrímur Pétursson sálm. Svo var það einn framliðinn sem hafði ekki tíma til að staldra lengi við á fundi félagsins þar sem hann þyrfti að ræða við Sókrates. Margt annað framliðið fólk kemur fyrir í sögunni sem ekki er fært að gera hér frekari skil. Á æðstu stöðum í stjórnkerfinu ræða menn möguleika á því að Ísland geti verið í framlínu á heimsvísu í spíritisma og liður í því gæti verið mannkynbótastefna til rækta miðilshæfileika með þjóðinni, svo sem með því að leiða helstu kvenkosti landsins undir Tindra Jónsson millibilsmann, sem víðkunnur var fyrir dulræna hæfileika sína.

Í hinu stærra samhengi hlutanna er í sögunni af gáska og húmor tekist á við stórar tilvistarspurningar um tengsl trúar, dulspeki og vísinda, þar sem doktor Jannes rannsakar rannsóknir Tilraunafélagsins á framhaldslífinu og leitast til þrautar við að finna svar við þeirri spurningu hvort Tindri Jónsson sé í raun og veru sá millibilsmaður sem hann segist vera og þau skilaboð sem hann flutti frá framliðnum ekta eða fals. Ekki verður sagt frá því hér hvernig til tókst um þessar rannsóknir Jannesar, en leyfi mér þó að upplýsa, ef rétt er skilið, að undir lokin er Jannes farinn að daðra við þá hugmynd að kannski geti hann verið viðstaddur sína eigin jarðarför og jafnvel flutt þar líkræðu sjálfur með aðstoð millibilsmanns.

Skáldsaga Hermanns Stefánssonar - "Millibilsmaður" - er stórskemmileg og margt er þar kostulegt að finna og drepfyndið, þótt hinar stærri tilvistarspurningar séu ekki langt undan. Sagan er skrifuð af miklu stílfengi og unnendur íslenskunnar verða ekki sviknir, en slíkar skáldsögur hafa verið of fáar hin síðustu ár. Ég mæli með þessari bók.

Slaufun og tjáningarfrelsi

Við getum aldrei verið viss um að skoðun, sem við viljum kveða niður, sé röng. Og jafnvel þótt við værum viss, væri bannsetning mesta böl.  - John Stuart Mill, Frelsið, bls. 55 

I

Nokkuð er rætt um slaufunarmenningu (cancel culture) þessi dægrin. Í pistli sem ég birti á vefnum hjá mér í janúar síðastliðnum var sett fram sú skoðun að ágreiningur um réttmæti slaufunar sé siðferðilegur ekki lagalegur [Saklaus uns sekt er sönnuð]. Slaufun (útskúfun, útilokun), sem félagslegt viðbragð eða taumhald, fari ekki gegn lögum, þótt deila megi um siðferðilegt réttmæti hennar í einstökum tilfellum. Hér ætla ég að ræða aðeins um slaufun og tjáningarfrelsið.

Ein birtingarmynd slaufurnar er að unna einstaklingum, og þá helst einstaklingum sem fyrir eru kunnir eða frægir, ekki vettvangs til að tjá sig. Fyrir þessu eru einkum tvær ástæður. Sú fyrri að maður hafi gert eitthvað það af sér að margir telja hann ekki þess verðan að hlustað sé á hann undir nokkrum kringumstæðum og hann eigi ekki að fá vettvang til að tjá sig, a.m.k. ekki opinberlega. Og ef hann er horfinn á vit feðra sinna, að bækur hans séu brenndar, tekin niður minnismerki sem honum hafa verið reist o.fl. Gildir þá einu hversu lærður hann er eða var eða hvort ætlaðar skoðanir hans eru réttar eða rangar. Ekki skal hlustað á það sem hann hefur fram að færa og helst hindra, ef unnt er, að hann tjái sig opinberlega. Líklega er þetta að einhverju marki réttmætt, einkum þegar gjörðir manna eru stórlega siðferðilega ámælisverðar eða viðkomandi hefur orðið uppvís af glæp sem svívirðilegur telst á almennan mælikvarða, og þá alveg sérstaklega þegar slíkar ávirðingar hafa verið sannaðar á viðkomandi eftir reglum réttarríkisins.

Hin ástæðan er að viðkomandi hafi einfaldlega orð á sér fyrir, hjá háværum og fyrirferðamiklum hópum, að hafa ranga og jafnvel hættulega skoðun, þótt hann hafi annars ekkert af sér gert eða sé líklegur til þess, annað en að tjá þessa röngu og válegu  skoðun sína. Skoðun hans er álitin svo vitlaus að betra sé fyrir heilbrigt og gott samfélag að hún heyrist hvergi og spilli ekki huga og hönd þeirra sem hafa hin réttu gildi og réttu skoðun. Skiptir þá engu máli hvort viðkomandi hafi mögulega verið gerð upp þessi skoðun eða hafi kannski, ef á hann er vandlega hlustað, aðra skoðun en gert var ráð fyrir að hann hefði. Einstaklingur með ætlaða ranga skoðun er kveðinn í kútinn með því að gera að honum hróp og köll og að lokum er honum slaufað fremur en að rökræða við hann. Þegar svo er komið fyrir þeim er fyrir verður þá stoðar almennt ekkert fyrir hann að freista þess að rökstyðja sína skoðun betur, útskýra hana eða jafnvel útskýra að hann hafi ekki alveg þá skoðun sem honum er ætluð eða hann hafi jafnvel skipt um skoðun og sé nú í raun með rétta skoðun.

Ég þykist merkja í almennri umræðu vaxandi áhuga margra á að kveða í kútinn fólk með ætlaðar rangar skoðanir. Þetta er réttlætt meðal annars með því að skoðunin sé ekki bara röng heldur líka hættuleg og til þess eins fallin að rugla fólk í ríminu og leiða það af braut réttrar skoðunar og breytni. Stundum er það gert með því að kalla hina röngu skoðun hatursorðræðu, jafnvel þegar það hugtak á ekki við. Um þetta skrifaði ég pistil í apríl sl. (Hvað er hatursorðræða?) Þótt það sé ekki lögbrot að leggja ekki við hlustir þegar maður með ætlaða ranga skoðun tjáir sig og hrópa að honum ókvæðisorð fremur en að rökræða við hann og slaufa honum síðan fyrir fullt og fast, má spyrja hvort það sé gott fyrir tjáningarfrelsið og heilbrigð skoðanaskipti í lýðræðislegu samfélagi? Hið augljósa svar er að svo er ekki.

II.

Ágætt er að minna á Frelsið eftir John Stuart Mill þegar rætt er um tjáningarfrelsið og mikilvægi þess (ísl. þýðing Þorsteins Gylfasonar 1970). Í öðrum kafla bókarinnar er fjallað um hugsunar- og málfrelsi. Mill segir meðal annars að eina leiðin til að nálgast að marki alhliða skilning á einhverju efni sé að leggja eyrun við því, sem fólk með ýmsar skoðanir hefur um það að segja, og kynna sér öll viðhorf hinna ólíkustu manngerða. Enn segir, að enginn vitur maður hafi nokkru sinni aflað sér þekkingar með öðru móti en þessu, og það sé heldur ekki eðli mannlegrar skynsemi að afla sér þekkingar með neinum öðrum hætti.

Kenningar Mill um mikilvægi málfrelsis eru hornsteinn hugmynda um tjáningarfrelsið eins þær birtast í alþjóðlegum mannréttindasamningum og stjórnarskrám ríkja. Raunar eru þær grundvöllur lýðræðislegra og frjálslyndra stjórnarhátta nú á dögum, ef út í það er farið. Þessi hugsun birtist í vel þekktum dómi mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Handyside gegn Bretlandi frá 1976. Þar segir í málgrein 57 (hér):

Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðislegs samfélags og eitt af skilyrðum fyrir framþróun þess, sem og þess að hver og einn einstaklingur geti þroskast. Að teknu tilliti til 2. mgr. 10. gr. sáttmálans [sem mælir fyrir um heimilar takmarkanir], á tjáningarfrelsið ekki eingöngu við um upplýsingar og hugmyndir sem mönnum falla í geð eða þær sem telja má meinlausar eða þýðingarlitlar heldur einnig um þær sem móðga, hneyksla eða fara fyrir brjóstið á handhöfum ríkisvalds eða einhverjum hluta borgaranna. Þetta leiðir af kröfum fjölhyggju, umburðarlyndis og víðsýni sem einkennir lýðræðislegt samfélag.

Þessi orð MDE hafa verið endurtekin í tugum dóma um tjáningarfrelsið síðan þau féllu fyrst.

III

Ákall um slaufun eða útilokun einstaklinga tengist oftar en ekki skoðunum þeirra á umræðu um kynferðisofbeldi eða áreiti, ætluðum fordómum þeirra gagnvart hinsegin fólki og fólki af öðrum kynþáttum eða þjóðerni, og eftir atvikum ætlaðri karlrembu viðkomandi eða kvenfyrirlitningar. Er sá hinn sami þá gjarnan sakaður um hatursorðræðu, sem er hugtak sem tilhneiging er til að ofnota, eins og fyrr er getið. Þá er sótt að fólki sem leyfir sér að viðra efasemdir um hamfarahlýnun og þörf fyrir víðtækar frelsisskerðingar í sóttvarnarskyni, svo eitthvað fleira sé nefnt.

Stundum er ákall um slaufun einstaklings reist á langsóttum og djörfum ályktunum af einstökum ummælum viðkomandi og ógætilegu eða ónákvæmu orðalagi í hita augnabliksins, sem of oft er gróflega slitið úr samhengi við málflutning hans að öðru leyti. Svo er stundum bara um misheppnaðan brandara ræða. Mönnum er síðan á grundvelli slíkra ályktana gerðar upp skoðanir, hugsanir og tilfinningar sem þeir sjálfir kannast ekkert við að bera í brjósti. Og ef þessar ætluðu skoðanir, hugsanir og tilfinningar manns eru ekki réttar er kallað eftir að viðkomandi verði slaufað.

Slaufun einstaklings við aðstæður sem hér um ræðir er ekki brot á rétti hans samkvæmt stjórnarskrá eða mannréttindasáttmálum til að tjá sig. Þannig er ekkert ólögmætt við að einstaklingar í sínum félagslegu samskiptum slaufi hver öðrum í þeim skilningi sem hér er fjallað um. Þeir eru ekki skyldir til að hlusta hver á annan, þótt hugmyndir um almenna kurteisi, háttvísi og umburðarlyndi, kunni að mæla með því að við séum duglegri við að hlusta hvort á annað, svona almennt séð.

IV

Þá um hlutverk fjölmiðla í þessu sambandi, einkum ríkisrekinna og þeirra sem þiggja styrki af opinberu fé til starfsemi sinnar. Tilvist ríkisrekinna fjölmiðla, sem og rök fyrir stuðningi við einkarekna miðla, er reist á þörf fyrir öfluga og fjölbreytta fjölmiðla í lýðræðislegu samfélagi, enda er rökræða um hugmyndir og stefnumið kjarni lýðræðisins. Þetta er einmitt hugsunin að baki ákvæðum fjölmiðlalaga  nr. 38/2011, eins og þeim var breytt með lögum nr. 58/2021, sem mæla fyrir um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Þar kemur fram að styðja skuli við og efla útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni með því að veita einkareknum fjölmiðlum rekstrarstuðning, sbr. 62. gr. d. Í greinargerð segir ennfremur að tilgangurinn með stuðningi við einkarekna fjölmiðla sé beinlínis að efla lýðræðið í landinu með fréttaflutningi og upplýstri umræðu. Í anda Mill verður að halda því til haga að engin umræða getur með góðu móti talist upplýst án þess að fólk með ólíkar skoðanir fá að kveða sér hljóðs í henni þegar það á við.

Í lokin er vert að hafa í huga að ein afleiðing slaufunarmenningar er að ýmsir veigra sér við að tjá skoðanir sínar opinberlega af ótta við að kalla yfir sig fúkyrði og slaufun. Má þó alveg gera ráð fyrir að margt í þessum skoðunum, og þá einkum í rökunum fyrir þeim, væri gagnlegt að heyra í umræðu sem gerir kröfu til þess að teljast upplýst. Svo eru sumir (kannski ekki margir!) sem eru opnir fyrir því að skipta um skoðun ef rökin fyrir nýrri skoðun eru betri en rökin fyrir þeirri gömlu. Þá eru hinir sem geta með upplýstri umræðu sótt sér efnivið til að styrkja rökin fyrir þeim skoðunum sem þeir höfðu fyrir. Það má lengi bæta rök fyrir skoðun sinni með því að taka afstöðu til mögulegra röksemda gegn henni. En þá er líka nauðsynlegt að hlusta á gagnrökin ef þau eiga að gagnast manni enda aldrei að vita nema sá er tjáir sig viti eitthvað sem maður veit ekki sjálfur. Þetta er galdurinn við upplýsta umræðu þar sem tjáning ólíkra skoðana fær rými, líka þær sem móðga, hneyksla eða fara fyrir brjóstið á handhöfum ríkisvalds eða einhverjum hluta samborgaranna. Í þessu felst fjölhyggjan, umburðarlyndið og víðsýnin sem lýðræðislegt samfélag þrífst illa án.

Posted in Juris Prudentia