Ég hitti Þorstein Inga í fyrsta sinn haustið 1982, þegar við hófum báðir störf sem sérfræðingar við eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar, hann í þéttefnisfræði, ég í stjarneðlisfræði. Húsnæðisskortur olli því að við þurftum í fyrstu að deila skrifstofu, fyrirkomulag sem gerði öll okkar samskipti auðveldari en ella. Fljótlega kom því í ljós, að þrátt fyrir mismunandi bakgrunn og gjörólík rannsóknarverkefni áttum við ýmislegt sameiginlegt. Þar má meðal annars nefna mikinn metnað fyrir hönd eðlisfræði á Íslandi og einlægan áhuga á frekari uppbyggingu rannsókna á því sviði við Háskólann. Þar vorum við reyndar ekki einir á báti, því við Raunvísindastofnun starfaði þá einvalalið fræðimanna með svipaðar hugsjónir.
Þorsteinn var ekki aðeins þéttur á velli, vænghaf hans á andlega sviðinu var óvenju mikið. Hugmyndir um áhugaverð viðfangsefni, fræðileg sem hagnýt, streymdu frá honum í sífellu og þegar tækifæri gafst fylgdi hann þeim eftir af dugnaði og þrautseigju. Hann var einlægur og vingjarnlegur í allri framkomu og hjálpsamur með afbrigðum. Þá var hann einstaklega trúr vinum sínum, eins og ég fékk að kynnast í langvinnri baráttu fyrir uppbyggingu rannsókna og kennslu í stjarnvísindum við Háskóla Íslands.
Því miður fækkaði tækifærunum til skemmtilegra hugarflugsfunda smám saman, einkum eftir að Þorsteinn tók þá ákvörðun að helga sig algjörlega hagnýttum rannsóknum og stjórnunarstörfum. Ég fylgdist þó náið með ferli hans og það gladdi mig ávallt, þegar honum tókst vel upp í störfum sínum.
Þorsteinn var einn áhrifamesti fulltrúi hagnýttra vísinda hér á landi og eftir hann liggur mikið og merkilegt starf á sviði nýsköpunar. Það mun án efa halda minningu hans á lofti um ókomin ár.
Myndir og minningabrot
Fréttabréf Eðlisfræðifélags Íslands kom út í tíu ár, frá 1982 til 1991. Í því birtust margar fróðlegar og skemmtilegar greinar, sem í dag hafa verulega sögulega þýðingu. Þorsteinn ritstýrði öllum árgöngunum, nema þeim fyrsta, af mikilli festu. Þegar hann hætti sem ritstjóri, treysti enginn eðlisfræðingur sér til að taka við starfinu. Samfélag íslenskra eðlisfræðinga hefur því verið án fréttabréfs síðan.
Myndin sýnir Þorstein og samstarfsmann hans við eðlisfræðistofu, Hans Kr. Guðmundsson eðlisfræðing, taka á móti kúti með fljótandi helíni sumarið 1984. Helínið kom alla leið frá rannsóknarstofnuninni í Risø í Danmörku og var ætlað til lághitamælinga í þéttefnisfræði við Raunvísindastofnun. Myndin er tekin úr ritinu Í hlutarins eðli: Afmælisrit til heiðurs Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor, sem kom út árið 1987 og Þorsteinn ritstýrði.
Hér sést Þorsteinn setja fimmtu ráðstefnu Eðlisfræðifélags Íslands í Munaðarnesi í lok september 1990. Hann var þá formaður félagsins. Mynd: Vésteinn Rúni Eiríksson.
Ólympíuleikarnir í eðlisfræði voru haldnir í Reykjavík sumarið 1998. Hver einasti eðlisfræðingur og eðlisfræðinemi á landinu kom að undirbúningi og/eða framkvæmd keppninnar, með einum eða öðrum hætti. Þessi minnisstæði atburður þótti takast með miklum ágætum og vera landi og þjóð til sóma. Það var ekki síst að þakka framkvæmdastjórn keppninnar undir öruggri stjórn Þorsteins Inga Sigfússonar. Höfundur hins fallega einkennismerkis keppninnar er grafíski hönnuðurinn Stefán Einarsson.
Árið 2007 komst Þorsteinn í heimsfréttirnar, þegar hann hlaut alþjóðleg verðlaun í orkuverkfræði (Global Energy Prize) fyrir framlag sitt til vetnismála. Ári síðar gaf hann svo út mikla bók um efnið, Planet Hydrogen: the Taming of the Proton, sem jafnframt kom út á íslensku undir heitinu Dögun vetnisaldar: Róteindin tamin.
Þegar Þorsteinn varð sextugur, árið 2014, heiðruðu samstarfsmenn hans á sviði nýsköpunar afmælisbarnið með veglegu ritgerðasafni.
Um Einar H. Guðmundsson
Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://einar.hi.is/