Á síðasta námsári mínu við MR, 1966-67, sá ég Erni Helgasyni eðlisfræðikennara oft bregða fyrir á göngum skólans. Ekki naut ég þó góðs af kennslu hans í það skiptið, en fljótlega fréttum við stærðfræðideildarnemar, að þar færi sprenglærður kjarneðlis-fræðingur, nýkominn frá námi í Kaupmannahöfn.
Eftir að ég var sjálfur orðinn kennari við MR, frétti ég jafnframt af áhuga Arnar á kennslumálum raunvísinda og mikilli vinnu hans við mótun námsefnis í eðlis- og efnafræði fyrir grunnskóla landsins. Í félagi við aðra samdi hann meðal annars víðlesnar kennslubækur í þessum greinum, ásamt kennsluleiðbeiningum.
Erni sjálfum kynntist ég ekki persónulega fyrr en hann var orðinn kennari við Háskóla Íslands. Á áttunda áratugnum var hann oft prófdómari í eðlisfræði við stúdentspróf í MR og ég man vel eftir viðræðum okkar um kosti og galla prófa og prófúrlausna. Þá, eins og ávallt síðar, þóttu mér viðhorf hans til nemenda einkennast af virðingu og raunsæi.
Mér eru einnig minnisstæðar einstaklega vingjarnlegar viðtökur hans, eftir að ég hóf störf við Raunvísindastofnun haustið 1982. Þótt við ættum tiltölulega lítil samskipti utan vinnu, einkenndist samband okkar sem vinnufélaga ávallt af gagnkvæmum skilningi og virðingu. Sérstaklega þótti mér vænt um stuðning hans við uppbyggingu rannsókna og kennslu í stjarnvísindum við Háskóla Íslands, málefni sem var mér mikið hjartans mál á níunda og tíunda áratugnum.
Örn var yfirvegaður og víðsýnn fræðimaður og þótt hann væri hógvær að eðlisfari, var hann úrræðagóður og fylginn sér, þegar á þurfti að halda. Hann var kraftmikill og hreinskiptinn og jafnframt gæddur skemmtilegum húmor, sem hann beitti ósjaldan í hópi samstarfsmanna. Vegna hæfileika sinna og mannkosta, var hann oft fenginn til að taka að sér stjórnunarstörf af ýmsu tagi, og þær voru ófáar stjórnirnar og nefndirnar, sem hann sat í um dagana, hvort heldur var fyrir Háskólann, Raunvísindastofnun, menntamálaráðu-neytið eða norrænar stofnanir.
Fyrir utan venjulega kennslu, var mikilvægasta framlag Arnar sem háskólakennara tvímælalaust uppbygging og skipulag verklega þáttarins í eðlisfræðinámskeiðum Raunvísindadeildar. Þar nutu hæfileikar hans sín einkar vel og enn þann dag í dag hvílir verklega kennslan á þeim grunni, sem hann lagði á sínum tíma.
Eftir miðjan áttunda áratuginn sneri Örn sér nær alfarið að rannsóknum á innri gerð efna með notkun svokallaðra Mössbauer-hrifa. Þar náði hann verulegum árangri, sem meðal annars má sjá af því, að öðrum vísindamönnum þótti fengur í að starfa með honum að slíkum verkefnum. Var þar bæði um innlenda og erlenda aðila að ræða. Mér er sjálfum minnisstæð einlæg gleði Arnar yfir nýjum og áhugaverðum mæliniðurstöðum og ekki var hjá því komist að hrífast af smitandi áhuga hans á fyrstu Mössbauer-rófunum, sem bárust frá reikistjörnunni Mars í janúar 2004.
Örn Helgason var farsæll vísindamaður og kennari, sem hafði nær undantekningarlaust góð og uppbyggileg áhrif á sér yngri samstarfsmenn. Jákvæð viðhorf hans og stuðningur við verkefni þeirra gat oft skipt sköpum, þegar á reyndi. - Ég kveð hann með þakklæti og söknuði.