Í minningu Stevens Weinberg (1933 - 2021)

Þær fréttir hafa borist frá Texas, að bandaríski eðlisfræðingurinn Steven Weinberg sé látinn, 88 ára að aldri.

Steven Weinberg í blóma lífsins. Myndin er tekin árið 1979, um það leyti sem hann hlaut Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði ásamt þeim S. L. Glashow og A. Salam fyrir kenningu sem sameinar veiku víxlverkunina og rafsegulfræðina (sjá einnig hér).

Ég þekkti Weinberg ekki persónulega, og í þau örfáu skipti sem við sóttum sömu fjölmennu ráðstefnurnar, gafst mér ekki tækifæri til að ná tali af honum. Reyndar var til athugunar að bjóða þessum merka eðlisfræðingi til landsins árið 1998, í tilefni af útgáfu íslensku þýðingarinnar á alþýðuritinu, Ár var alda. Af ástæðum, sem ekki verða tíundaðar hér, varð því miður lítið úr þeim fyrirætlunum.

Þrátt fyrir þetta, hef ég sett saman stutta persónulega færslu til minningar um Weinberg, og þá fyrst og fremst í þækklætisskyni fyrir þá ómældu ánægju og innblástur sem hann hefur veitt mér með ritum sínum í gegnum tíðina. Ég held ég geti fullyrt, að í því efni komist fáir höfundar með tærnar, þar sem hann hefur hælana.

Fyrir utan tímamótarannsóknir í öreindafræði, skammtasviðsfræði og heimsfræði og útgáfu vandaðra yfirlitsrita á þeim sviðum, sendi Weinberg frá sér fjölda alþýðlegra ritsmíða um eðlisfræði og heimsfræði sem og sögu, heimspeki og félagsfræði raunvísinda. Hann var einnig eindreginn andstæðingur allra trúarbragða og lá ekki á þeim skoðunum sínum. Oftar en ekki, kom útgáfa þessara alþýðurita af stað einkar fróðlegum umræðum og fjörugum skoðanaskiptum í erlendum blöðum og tímaritum.

Ég kynntist fyrst verkum Weinbergs í meistaranámi mínu við Wisconsin-háskóla á árunum 1973-74. Aðalkennari minn þar var eðlisfræðingurinn Leonard Parker, sem lokið hafði doktorsnámi hjá S. Coleman í Harvard á svipuðum tíma og Weinberg hóf þar störf. Parker kenndi mér þó ekki skammtafræðina (sem ég hafði reyndar ekki neinn sérstakan áhuga á), heldur var ég svo lánsamur að fá að taka hjá honum lesnámskeið í almennu afstæðiskenningunni, þar sem við fórum saman í gegnum í hina frábæru kennslubók Weinbergs, Gravitation and Cosmology, sem þá var nýkomin út.

Forsíðan á Gravitation and Cosmology frá 1972, bók Weinbergs um þyngdarfræði Einsteins og afstæðilega stjarneðlisfræði og heimsfræði.

Verkið heillaði mig strax upp úr skónum og hið nú snjáða eintak mitt af bókinni hefur verið fastur fylginautur alla tíð síðan. Námsefnið og ýmsar viðbætur og sögur Parkers urðu og til þess, að ég fór að fylgjast nánar með Weinberg og fréttum af vísindaafrekum hans og skoðunum.

Sumarið 1977 var ég staddur á ráðstefnu í Cambridge í Englandi, þegar ég frétti að út væri komin bókin The First Three Minutes eftir Weinberg, og að hún væri þegar farin að slá í gegn. Ég var því fljótur að útvega mér eintak og las það í einum rykk þá um nóttina. Þótt ég hefði áður haft veður af flestu, sem þar var tekið til umfjöllunar, er óhætt að segja, að við lesturinn hafi opnast fyrir mér nýr heimur; heimsmynd sem á undraverðan hátt sameinaði hina agnarsmáu veröld öreindanna og risavettvang vetrarbrautanna. Ég var ekki alveg einn á báti, hvað þetta varðar, því fjöldi stjarneðlisfræðinga af minni kynslóð hefur sagt frá svipaðri reynslu.

Forsíðan á bókinni The First Three Minutes eftir Weinberg frá 1977.

Þessi ánægjulega upplifun gerði það að verkum, að um það bil tuttugu árum síðar tók ég að mér, ásamt öðrum, að undirbúa íslenska útgáfu af þessu alþýðuriti Weinbergs. Ég var þá prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands og alveg við það að verða ráðsettur. Þrátt fyrir miklar annir við rannsóknir og kennslu, tókst mér að finna tíma til að aðstoða Guðmund Arnlaugsson við þýðinguna og jafnframt að skrifa inngang að verkinu.

Ár var alda, íslenska þýðingin á The First Three Minutes, kom út sem lærdómsrit Bókmenntafélagsins árið 1998.

Eitt af því, sem vakti sérstaka athygli mína árið 1977, var umfjöllun Weinbergs um örbylgjukliðinn. Útlistun hans á fyrirbærinu var að sjálfsögðu skýr og auðskilin, en það var fyrst og fremst sagan að baki, sem mér fannst áhugaverð. Eftir því sem ég best veit, var það Weinberg sem fyrstur kannaði þá sögu og vakti athygli á henni í bók sinni (í þriðja kafla). Margir telja, að þetta hafi meðal annars orðið til þess að þeir A. A. Penzias og R. W. Wilson fengu Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1978 fyrir uppgötvun sína á kliðnum.

Ég er ekki viss, en þegar ég lít til baka, finnst mér eins og það hafi verið þessi sögukafli Weinbergs, sem fyrst vakti áhuga minn á vísindasögu. Ef svo er, á hann þakkir skildar, því fátt hefur mér fundist skemmtilegra á eftirlaunaárum en margvíslegt grúsk í vísindasögu, íslenskri sem erlendri. Sjálfur skrifaði Weinberg margt og mikið um sögu raunvísinda, meðal annars bókina To Explain the World: The Discovery of Modern Science, bráðskemmtilegt verk, sem margir vísindasagnfræðingar og vísindaheimspekingar hafa látið fara óþarflega mikið í taugarnar á sér.

Í  lokin vil ég mæla með stuttum en hnitmiðuðum ráðum, sem Weinberg gaf doktorsnemum við McGill-háskóla í Kanada árið 2003 og birti síðan í tímaritinu Nature: Four golden lessons. Þau eiga ekki síður erindi til margra, sem eldri eru.

Megi þessi mikli menningarjöfur hvíla í friði.

 

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://einar.hi.is/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Tuttugasta og fyrsta öldin, Tuttugasta öldin. Bókamerkja beinan tengil.