Grímur og þjóðernið

Út er komin hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi ritgerðasafnið Feiknstafir: Ráðgátan Grímur Thomsen í ritstjórn Sveins Yngva Egilssonar og Þóris Óskarssonar. Þar birtast 14 fræðilegar greinar eftir 13 höfunda þar sem fjallað er um ævi, ritstörf og skoðanir Gríms Thomsens frá ýmsum hliðum. Mín grein, Grímur og þjóðernið, fjallar um þjóðernisstefnu Gríms þar sem ég set hana í samhengi við norrænan skandínavisma og stjórnmálabaráttu Jóns Sigurðssonar. Niðurstaða mín er sú að þrálátur orðrómur um óþjóðhollustu Gríms sé á misskilningi byggður því skoðanir hans á stöðu Íslands innan danska ríkisins og sambandinu við konung voru mjög keimlíkar þeim sem birtast í ritgerðum Jóns Sigurðssonar um þessi efni. Grímur var aftur á móti ósammála Jóni um aðferðir því að hann vildi leysa deilurnar í sátt við dönsk stjórnvöld frekar en að standa í eilífum þrætum.