Í bókinni Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 er fjallað um fullveldishugmyndina bæði á alþjóðavísu og í íslenskum stjórnmálum og hvernig fullveldisréttinum hefur verið beitt á Íslandi á 20. öld. Í bókinni eru 10 greinar eftir 13 höfunda, lögfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga, sem skoða fullveldið frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum. Hvaða hugmyndir hafa Íslendingar gert sér um fullveldi? Hvaða áhrif hefur það haft á íslenskt samfélag og samskipti þess við önnur ríki? Getur Ísland haldið fullveldi sínu í hnattvæddum heimi? Ritstjóri bókarinnar er Guðmundur Jónsson og auk hans er ritnefndin skipuð þeim Guðmundi Hálfdanarsyni, Ragnhildi Helgadóttur og Þorsteini Magnússyni.
Guðmundur Jónsson skrifar grein í bókina sem nefnist "Fullveldið í reynd á bernskuskeiði íslenska ríkisins 1918-1940".