Siðferði stjórnlagaþings
eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason
Lokaundirbúningur að stjórnlagaþingi 2011 er hafinn. Um 500 einstaklingar hafa svarað kalli, gefið kost á sér til þess mikilvæga hlutverks að semja tillögu að nýrri eða endurskoðaðri stjórnarskrá sem Alþingi og þjóðin mun síðan taka afstöðu til. Á þessum stóra og fjölskrúðuga hópi frambjóðenda — þar á meðal okkar sem þetta ritum — liggur sú skylda að gefa tóninn fyrir þann anda og það siðferði sem móta mun stjórnlagaþingið og tillögur þess. Sá andi mun sem sé ekki mótast einvörðungu á þinginu sjálfu heldur þegar í aðdragandanum, kosningunum og þó einkum og sér í lagi kosningaundirbúningnum.
Í kjöri til stjórnlagaþings stendur valið á milli einstaklinga. Þær kosningar sem fram undan eru eiga því á hættu að falla í það far sem mótast hefur í prófkjörum stjórnmálaflokkanna, sem náðu hápunkti fyrir Alþingiskosningarnar árið 2007. Ef til vill hafa veikleikar lýðræðisins ekki opinberast skýrar í annan tíma. Með tilstyrk peningaafla var baráttan stunduð fremur í formi auglýsinga en gagnrýninnar og upplýsandi umræðu. Spyrja má hvar lýðræðislegum kosningum sleppir og hvar uppboðsmarkaður tekur við þar sem sæti á lista vinnst í krafti peninga en ekki málstaðar.
Illu heilli hefur verið opnað fyrir kosningaundirbúning af þessu tagi fyrir stjórnlagaþingið með því að nefna tvær miljónir króna sem æskilegt hámark fyrir það fé er einstakir frambjóðendur mega verja til kynningar fyrir kosningarnar. Einhver kann að segja að miðað við verð á auglýsingamarkaði sé þetta þak hóflegt eða jafnvel lágt. En er það raunverulega svo? Er tryggt að í hópi frambjóðenda sé ekki að finna fólk sem farið hefur illa út úr Hruninu, fólk sem misst hefur störf sín eða stendur af öðrum ástæðum höllum fæti fjárhagslega? Er ljóst að tveggja milljón króna mörkin skerði ekki jafnræði þeirra gagnvart þeim sem haldið hafa eignum og störfum? Eiga þeir frambjóðendur sem haldið hafa fjárhagslegum styrk nú að bjóða þeim sem standa höllum fæti upp í dans upp á tvær milljónir?
Hvers konar kosningaundirbúnings væntir þjóðin af þeim sem sækjast eftir því að taka þátt í að móta henni grundvallarlög til frambúðar? Væntir hún kosningaundirbúnings með prófkjörsstíl eða lágstemmdari undirbúnings þar sem málefni fá að ráða för og kynning fer fyrst og fremst fram sameiginlega, með efni sem kjörstjórn dreifir inn á heimili landsins og tryggir jafna stöðu allra 500 frambjóðendanna?