Jafnréttið og stjórnarskráin

Árni Daníelsson, 19. November 2010

eftir Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugason

Það er margt sem við tökum sem sjálfgefnu i samfélagi okkar. Þó að við tökum það sem sjálfgefnu í dag að konur hafi kosningarétt til Alþingis, hafa þær aðeins notið hans í tæpa öld. Við lítum einnig á það sem sjálfsagðan hlut að allir hafi aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu og almannatryggingum og svo mætti lengi telja. Það gleymist stundum að það eru ekki nema rétt 100 ár síðan lög um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta voru samþykkt á Alþingi. Þangað til gátu konur t.d. lært til læknis eða prests en höfðu samt ekki rétt til að gegna þessum opinberu embættum.

Fyrstu lögin um jafnrétti kvenna og karla voru samþykkt á Alþingi árið 1976. Síðan þá hefur margt breyst í íslensku samfélagi og jafnréttislögin hafa verið endurskoðuð með reglulegu millibili, nú síðast árið 2008. Nú þykir flestum sjálfsagt að konur gegni sömu embættum og karlar og konur eru meirihluti þeirra sem stunda háskólanám hér á landi. En þrátt fyrir að ýmislegt sé í höfn þá er vissulega ennþá margt eftir. Ennþá er talsvert langt í land þar til konur njóta jafnra launa og karlar og kynbundið ofbeldi er enn þann dag í dag stórt vandamál í íslensku samfélagi. Tvö stór mál sem íslenskar konur settu á oddinn á kvennafrídaginn í október s.l.

Víða út í heimi er litið svo á að Ísland sé fyrirmynd allra annarra landa þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Vissulega er það að mörgu leyti rétt, en það segir kannski meira um stöðu kvenna almennt úti í hinum stóra heimi, en ástandið hér. Við megum nefnilega ekki sætta okkur við neitt annað en algjört jafnrétti og að því hljótum við að stefna.

Fyrirmyndir skipta miklu máli þegar við hugum að því hvernig við getum náð markmiði okkar um algjört jafnrétti kynjanna. Þannig hafa konur eins og Vigdís Finnbogadóttir haft gífurleg áhrif og einfaldlega breytt hugmyndum fólks um hæfni kvenna til þess að gegna dæmigerðum „karlastörfum“. En það þarf meira til en góðar fyrirmyndir. Við þurfum sanngjarnan lagaramma, sem stendur vörð um velferð kvenna jafnt sem karla. Og við þurfum að tryggja grundvallarjafnrétti kynjanna í íslenskri stjórnarskrá.

Á síðustu árum hefur mikið verið rætt um útvíkkað jafnréttishugtak, sem vísar ekki bara til jafnréttis kvenna og karla. Oft hefur sú umræða orðið til þess að kynjajafnréttið fellur í skuggann. Það er óásættanlegt. Jafnréttisumræðan í stærra samhengi má aldrei verða á kostnað umræðunnar um jafnrétti kvenna og karla. Kynjajafnréttið varðar jú alla hópa, líka fatlaða, samkynhneigða, innflytjendur og svo framvegis. Fyrst og síðast skal það áréttað að jafnrétti kynjanna er ekkert náttúrulögmál. Það er heldur ekkert sem gerist bara með tímanum. Konur hafa hingað til þurft að sækja öll sín réttindi og oft hefur það krafist mikillar baráttu. Það er kominn tími til að breyta því. Jafnréttismál eru sameiginleg hagsmunamál beggja kynja, því það hlýtur að vera hagur okkar allra að dætur okkar og synir eigi sömu möguleika sem þátttakendur í íslensku samfélagi framtíðarinnar.