Búrkur og mögulegt bann við þeim á almannafæri hefur verið til umræðu undanfarið. Sumpart minnir þessi umræða á lög um friðun héra nr. 23/1914, en þau voru felld úr gildi 75 árum eftir að þau voru sett. Ekki er vitað til þess að héri (lepus europaeus) hafi fundist í íslenskri náttúru á gildistíma laganna. Til að gæta sanngirni ber þó að geta þess að lögin voru upphaflega sett í ljósi áforma um að flytja inn héra og sleppa þeim lausum í íslenskri náttúru. Þau áform urðu ekki að veruleika. Umræðan um búrkur minnir á þetta því ekki er vitað til þess að konur klæddar í búrkur hafi sést mikið á almannafæri á Íslandi.
En svo sanngirni sé aftur til haga haldið má engu að síður segja að slíkt bann geti haft þau áhrif að fæla konur frá að láta sjá sig í slíkum fatnaði á almannafæri, enda myndu lög um bann við því væntanlega gera ráð fyrir að þeim yrði þá (hóflega) refsað. Þá gæti slíkt bann haft víðtækara gildi fyrir kvenfrelsisbaráttu, að svo miklu leyti sem slíkur klæðnaður er túlkaður sem merki um kúgun kvenna, en þau rök virðast af umræðunni vera þau helstu fyrir mögulegu banni.
Í þessum pistli er ekki tekin afstaða til þess hvort æskilegt sé að setja slíkt bann á Íslandi. Þess í stað er rifjaður upp dómur yfirdeildar mannréttindadómstóls Evrópu í máli SAS gegn Frakklandi frá 1. júlí 2014, en þar reyndi á hvort hvort lög þar í landi um bann við að hylja andlitið á almannafæri (loi n° 2010-1192, interdisant la dissimulation du visage dans l'espace public) stæðust ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Tíðum er vísað til þessara laga sem „búrkulaganna“ þótt þau hafi annars að geyma almennt bann við að hylja andlitið á almannafæri (og þar með aðrar tegundir fatnaðar múslimskra kvenna, sem og annan fatnað og útbúnað, sem hylur anditið með áþekkum hætti). Ástæðan er m.a. sú að greinargerðir með lögunum og umræður í franska þinginu sýna að búrkur og niqab voru mönnum ofarlega í huga þegar lögin voru sett.
Kærandi í málinu hélt því aðallega fram að bannið fæli í sér brot á 8., 9., 10. gr og 14. gr. sáttmálans, en þær fjalla um friðhelgi einkalífs, trúfrelsi, tjáningarfrelsi og bann við mismunun. Hún hélt því fram að notkun búrku eða annars áþekks fatnaðar væri í samræmi við trúarsannfæringu hennar, menningu og persónulega sannfæringu. Hún hélt því einnig fram að hún klæddist slíkum fatnaði að eigin vilja og frumkvæði. Stundum teldi hún það eiga við og stundum ekki. Hún vildi ráða þessu sjálf.
Franska ríkið tefldi aðallega fram tvenns konar rökum banninu til réttlætingar, þ.e. almannaöryggi og virðingu fyrir lágmarksgildum í opnu lýðræðislegu samfélagi (respect for the minimum set of values of an open democratic society). Dómstólinn hafnaði rökum sem lutu að almannaöryggi, enda gengi almennt bann lengra en þörf væri á til að ná því markmiði (meðalhófsregla), þar sem alltaf mætti gera þá kröfu að einstaklingar lyftu hulunni af andlitinu þar sem þess væri þörf vegna öryggissjónarmiða.
Í síðari rökum ríkisins fólust nánar tvenns konar sjónarmið. Annars vegar væru lögin nauðsynleg til stuðla að jafnrétti kynjanna, enda væri búrkan og annar slíkur fatnaður afrakstur kúgunar karla gegn konum. Hins vegar væri mikilvægur hluti af því að lifa saman í samfélagi og í samskiptum fólks að einstaklingar hyldu ekki andlit sitt á almannafæri (en. living together, fr. la vivre ensemble). Dómstóllinn hafnaði rökum sem lúta að jafnrétti kynjanna þar sem ríki geti ekki borið fyrir sig í þessu tilfelli að verið sé að vernda konur gegn fatnaði sem þær sjálfar vildu verja rétt sinn til að klæðast.
Á hinn bóginn féllst dómurinn á þau rök franska ríkisins sem kennd hafa verið við la vivre ensemble og bannið stæðist að því marki sem um væri að ræða vernd réttinda og frelsis annarra, en það er samkvæmt ákvæðum sáttmálans ein möguleg réttlæting fyrir því að takmarka réttindi einstaklinga vegna annarra hagsmuna. Þetta má orða svo að það sé réttur annarra í opnu lýðræðislegu samfélagi að sjá andlit þeirra samborgara sinna sem á vegi þeirra verða á almannafæri og í samskiptum við þá. Svo einkennilega sem það kann að hljóma víkur þar með réttur kæranda til að klæðast t.d. búrku á almannafæri fyrir þessum rétti samborgara hennar til að sjá andlit hennar. Hér þarf einnig að halda til haga að dómurinn vísar til nálægðarreglunnar (subsidiarity) og svigrúms til mats (margin of appreciation) en þessar reglur byggja báðar á þeirri hugsun að ríki séu betur til þess fallin að meta nauðsyn slíks banns í eigin samfélagi en dómarar við alþjóðlegan dómstól og því mati ríkis beri að una ef kjarna réttindinna sem um er deilt er ekki kastað fyrir róða.
Dómurinn er langur og ítarlega rökstuddur og hér aðeins stiklað á meginatriðum og ýmsu sleppt sem þó skiptir máli til að skilja til hlítar þessa, að margra mati, óvæntu niðurstöðu. Þá er þess að geta að í ríkum mæli er vísað til þátta í franskri menningu um samskipti einstaklinga og rökin þannig að vissu marki sniðin að aðstæðum sem eru taldar sérstakar fyrir Frakkland, sem ef til vill eiga ekki við með sama hætti í menningu og aðstæðum annarra landa.
Dómurinn skiptir þó máli fyrir umræðuna á Íslandi því af honum leiðir að yrðu sett sambærileg lög eru næsta fullar líkur til að þau teldust standast framangreind ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, hvort heldur mönnum líkar betur eða verr. Á hinn bóginn er athyglisvert að dómurinn hafnar engu að síður skýrlega þeim rökum franska ríkisins að slík lög verði reist á sjónarmiðum um vernd kvenna og jafnrétti kynjanna, enda hélt kærandi því fram að hún notaði þennan fatnað að eigin vali og frumkvæði. Þeir sem tala fyrir slíku banni gerðu því ef til vill best með því að laga málflutning sinn að því og freista þess að sannfæra þingheim um að la vivre enesmble rökin eigi einnig við á Íslandi, ekkert síður en í Frakklandi. Féllist löggjafinn á Íslandi á það er ólíklegt, í ljósi þessa dóms, að mannréttindadómstóll Evrópu myndi hnekkja því mati.