Að lenda í ferðalögum

 

Ágætu laganemar.

Mér er heiður að þiggja boð um að vera heiðursgestur á árshátíð Orators, félags laganema við Háskóla Íslands. Orator hefur í áratugi verið eitt öflugasta stúdentafélag landsins og get ég með allgóðri samvisku sagt að ég hafi lagt eitt örlítið lóð á þær vogarskálar. Fyrir löngu síðan þó. Með því að ritstýra Úlfljóti, sem og með öðrum afskiptum af starfsemi félagsins í þá daga. Gott ef ég var ekki einu sinni veislustjóri á árshátíð. Eitthvað rámar mig í að hafa síðar flutt minni Grágásar, - en þá nýútskrifaður. Jafnvel er mögulegt að það Minni hafi ratað í Úlfljót. Þar var, að mig minnir, tekist á við þá grundvallarspurningu í lögfræði hver þessi svokallaði „þriðji maður“ væri. Lögfræðingum er nokkuð tíðrætt um þann gaur. Niðurstaðan var, að það væri ekki vitað. Er sú gáta óleyst, að ég hygg, þrátt fyrir geysimiklar framfarir í vísindum og fræðum. Enn minnist ég þess m.a. að hafa tekið þátt í umræðum um mögulega heiðursgesti á árshátíð Orators. Undarlegt að vera nú sjálfur þessi heiðursgestur. Sagt er að enginn stöðvi tímans þunga nið. Í þeim orðum felst mikilvægur sannleikur, laganemar góðir.

Á þessari stundu segi ég eins og Málfríður Sigurðardóttir í bók sinni Rásir dægranna, „ ... að sálakirnan mín hún er nokkuð einkennilegur hlutur, ekki veit ég hvar hún er innbyggð í mig, en giska samt á heilann. Hann er manni geysihaglegt tæki. Stundum er í sálakirnunni mikil ládeyða, stundum ólgar og sýður, því líkast að öll veröldin vilji eiga þarna aðild að, en það tekst veröldinni ekki. Til þess er kirnan langtum of þröng. Ýmislegt sem í hana kemur, kemur ósjálfrátt og að óvörum.“

Og hvað var ég að hugsa þegar ég sem stúdent lagði orð í belg um næsta heiðursgest á árshátíð Orators. Ekki man ég það glöggt, en örugglega hugsaði ég minnst um hvar ég yrði sjálfur staddur þrjátíu og þremur árum síðar, og enn minna vissi ég um hvert leiðir myndu liggja á þesssum árum. Hafði ekki skipulagt neitt ferðalag inn í framtíðina, vissi ekkert hvað ég vildi vinna við, hvert ég vildi fara og átti ekkert leiðarhnoð til að fylgja. Sem sagt, alveg óvart, ég „... lenti í ferðalögum“, eins og amman í Brekkukoti sagði um ógæfu Garðars Hólm, stórsöngvarans sem reyndist ekki geta sungið þegar hann sneri heim. Hann bara hrópaði og öskraði í dauðans angist eftir allt sitt flakk um veröldina. Hann hafði ekki fundið hinn eina sanna tón, því hann var jú að finna í klukkunni í Brekkukoti hjá Birni bónda og konu hans. Heitir það að leita langt yfir skammt. Og einatt hafa verið margar beygjur, lykkjur og krossgötur á þessari leið, ef leið skyldi kalla. Vonandi mun ég geta sungið þegar ég sný heim eftir flakk víða um lönd.

Og áfangi á heimleið frá löndum sunnar í álfunni er Kóngsins Kaupmannahöfn þar sem „ ... gnæfði höll ein há og glæst í hlé við bústnar laufkrónur eikanna, nýreist, með brött þök og útflúruð gaflöð, útskot úr rauðum sandsteini og innskot þarsem líkneskjum var tildrað á palla“ eins og segir í Íslandsklukkunni. Gott ef hún var ekki byggð fyrir gróðann af einokunarverslun Dana á Íslandi.

Sem ég sit á Hvíti (Hvids Vinstue) við Kóngsins Nýjatorg, og skrifa þessi orð, verður mér litið á teikningu Örlygs Sigurðssonar af Jónasi Hallgrímssyni, Sverri Kristjánssyni, Árna Pálssyni og Jóhanni Sigurjónssyni „að tímaskökku sumbli“ eins og Jónas Kristjánsson ritstjóri orðar það í ferðalýsingu sinni. Mér verður þá ljóst að viðkoma í stól kennara við Háskólann í Kaupmannahöfn er í rökréttu samhengi við hinn „tímaskakka“ flæking íslenskra stúdenta, þ.m.t. lögfræðistúdenta, um stræti og torg þessarar fyrrum höfuðborgar Íslands, oftar en ekki í myrkri og nöprum vetrarvindum. Sumum sóttist námið vel, öðrum síður, þótt þeir reyndu, eins og gengur, og enn aðrir kusu, þrátt fyrir góðar námsgáfur, „að láta hugann líða inn í mjúkar veraldir áfengisins“, eins og Björn Th. Björnsson orðar það. Var það ekki Frans Kafka sem sagði að lesa lög væri eins og að éta hefilspæni? Þá er nú ilurinn frá ölkrúsinni þeirri „freistingu“ yfirsterkari.

Síðan held ég upp eftir Strikinu nokkurn spöl og geng þá framhjá húsinu þar sem Jörundur hundadagakonungur, sá mikli grallari, átti sitt æskuheimili, síðan framhjá húsinu þar sem bjó um hríð Þorleifur Repp, sem að setti ofsalegan hlátur þegar hann reiddist og frægt varð, og fleiri gömlum húsum sem tengast íslenskri sögu og Íslendingum í Höfn með ýmsum hætti. Tek beygju til hægri upp Nýjatorg og aftur til vinstri, með vor Frúarkirkju á hægri hönd, inn eftir Stúdíustræti og inn í Stúdíugarðinnn við hús númer sex. Þar er lagadeild þessa forna skóla og hefur lengi verið. Sest inn á skrifstofu mína og horfi út í garðinn, þann sama og Alf Ross, Vinding Kruse, Stephan Hurwitz, von Eyben og Bernhard Gomard, og mörg fleiri „idol“ minna eigin prófessora við lagadeild, horfðu út í, er þeir litu upp úr sínum fræðum, rétt eins og þeirra eigin „idol“ gerðu á undan þeim. Þannig er sagan á vissan hátt í rökréttu samhengi hlutanna, þótt hún sé „tímaskökk“, að því er sjálfan mig varðar, verandi inná þessum gamla kontór í stóli kennara, þar sem margir aðrir Íslendingar hefðu átt að vera löngu á undan mér.

En heimahagarnir toga, eins og löngum fyrr í Íslendinga í Höfn, heimahagarnir þar sem á „ ... mornana og kvöldin voru túnin svo græn að þau voru rauð og á daginn var víðáttan svo blá að hún var græn“ svo sóttur sé innblástur í Paradísarheimt.

En þar er fyrir eyðikot.

Og áfram heldur Laxness:

„Vegfarandi nokkur sér að ókunnur maður er tekinn til að laspra við garðana í þessu eyðikoti.

Hver ert þú, spyr þessi ferðamaður.

Hinn svarar: Ég er sá maður sem heimti aftur Paradís eftir að hún hafði leingi verið týnd, og gaf hana börnum sínum.

Hvað er slíkur maður að vilja hér, spurði vegfarandinn.

Ég hef fundið sannleikann og það land þar sem hann býr, áréttaði vegghleðslumaðurinn. Það er að vísu allmikils vert. En nú skiftir mestu máli að reisa við aftur þennan vallargarð.“

(Tilefni: Heiðursgestur á árshátíð Orators, félags laganema við HÍ 16. feb. 2016)

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.