Verðtryggingaálit EFTA dómstólsins

I.

Í „dómi“ EFTA dómstólsins frá 28. ágúst kemur ekkert sérstaklega á óvart.

Fyrst þetta. Í raun er ekki um dóm að ræða, þótt EFTA dómstóllinn kjósi að nefna skjalið „dóm“. Hér er um að ræða ráðgefandi álit (Advisory Opinion), sem ekki er bindandi, um túlkun á tilteknum ákvæðum tilskipunar 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Í raun er villandi, í formlegu og efnislegu tilliti, að nota orðið dómur í þessu sambandi. Þetta skiptir máli vegna þess að þetta þýðir m.a. að niðurstaðan í ágreiningum liggur ekki fyrir og vantar í raun talsvert upp á það eins og ráða má af því sem segir hér í framhaldinu.

Í álitinu ræðir EFTA dómstóllinn fyrst um gildsissvið tilskipunarinnar, þótt spurningarnar sem til hans var beint lúti ekki beint að því atriði. Um þetta segir EFTA dómstóllinn að í raun sé óljóst hvort hinn íslenski dómstóll þurfi yfirhöfuð á áliti dómstólsins að halda. Ástæðan er 2. mgr. 1. gr. þar sem segir að tilskipunin eigi ekki við um samningsskilmála sem endurspegla lög og bindandi stjórnsýsluákvæði og ákvæði eða meginreglur í alþjóðasamningum. Umfjöllun EFTA dómstólsins um þetta atriði lýtur að því hvort þær innlendu reglur sem skilmálar um verðtryggingu eru reistir á í umrædddum lánasamningu leiði af bindandi reglum landsréttar. Ef svo er falla skilmálarnir ekki undir tilskipunina. Niðurstaða EFTA dómstólsins er sú að þetta verði hinn íslenski dómstóll sjálfur að meta, enda byggist það á túlkun íslenskra laga.

Í áliti sínu svarar EFTA dómstóllinn síðan tilteknum spurningum sem varða túlkun á tilskipuninni, ef svo kynni að fara að hinn íslenski dómstóll teldi hana yfirhöfuð eiga við.

1. Hin fyrsta er hvort verðtrygging veðlána til hússnæðiskaupa samrýmist framangreindri tilskipun. Svar EFTA-dómstólsins er að svo sé. Þetta má líka orða þannig að umrædd tilskipun banni ekki slíka verðtryggingu. Þetta merkir í stuttu máli að íslenskar reglur sem heimila verðtryggingu slíkra lána eru ekki andstæðar þessari tilteknu tilskipun. Því má bæta við að enn síður mælir þessi tilskipun fyrir um að slík láni skuli vera verðtryggð. Í stuttu máli, er það niðurstaða álitsins að það sé á valdi íslenska löggjafans að ákveða hvort slík verðtrygging skuli heimiluð eða ekki. Þetta er einfaldlega pólitísk ákvörðun. Mér sýnist af þessu að þar með skipti í raun í meginatriðum ekki máli, að því er þetta atriði varðar, hvort tilskipunin gildir um samningsksilmálana eða ekki, því hún bannar verðtrygginguna ekki hvort sem er.

2. Næstu spurningu leiðir af þeirri fyrstu, en hún er sú hvort tilskipunin, teljist hún ekki banna verðtryggingu, takmarki þá svigrúm ríkis til þess að ákveða reglur um hvernig verðtrygging (vísistalan) skuli reiknuð út. Svar EFTA dómstólsins er að svo sé ekki. Þetta mekir að það er í meginatriðum á valdi hins innlenda löggjafa að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir geti valdið breytingum á vísitölunni og hvernig hún skuli mæld og þar með hvaða áhrif og að hvaða marki hún skuli hafa á verðtryggð lán.

3. Þriðja spurningin lýtur að því hvort þær aðferðir sem Íslandsbanki notaði til að kynna fyrir lántakanda verðtryggingarákvæðin samræmdust tilskipuninni og þannig í reynd verið samið um skilmála um verðtryggingu. Í svarinu setur EFTA-dómstóllinn fram hin almennu sjónarmið sem við eiga samkvæmt tilskipununni um þetta atriði og klykkir síðan út með því að segja að sé í raun hlutverk hins íslenska dómstóls að taka afstöðu til þess hvort samið hafi verið sérstaklega um tiltekinn samningsskilmála í skilningi 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE. Ástæðan er sú að þetta er atriði, sem veltur á nánari atvikum málsins (staðreyndum) og sumpart á íslenskum réttarreglum, sem eftir atvikum kunna að mæla fyrir um ríkari vernd en tilskipunin mælir fyrir um, en hún veiti bara lágmarksvernd og standi ekki í vegi fyrir að ríki veiti betri vernd. Í stuttu máli, dómstóllinn veitir ekki svar við þessari spurningu öðru vísi en með því að rekja almenn sjónarmið, sem eftir atvikum, geta gagnast hinum íslenska dómstól þegar hann kveður upp sinn dóm.

4. Í fjórða lagi er spurt hvort aðferðin við útreikning verðtryggingarinn í umæddum máli hafi verið útskýrð „rækilega“ í skilningi tilskipunarinnar. Þessari spurningu svarar EFTA dómstóllinn heldur ekki beint, að öðru leyti en að setja fram almenn sjónarmið um túlkun orðsins „rækilega“ eins og það er notað í tilskipuninni. Að öðru leyti sé það hutverk hins íslenska dómstóls að taka afstöðu til þessa á grundvelli atvika í málinu og eftir atvikum á grundvelli íslenskra regla sem kunna að veita betri vernd en tilskipunin.

5. Fimmta og síðasta spurningin lýtur af afleiðingum þess ef íslenskur dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að verðtryggingarskilmálarnir í þessu umrædda máli teljist óréttmætir. Um það segir EFTA dómstóllinn, að tryggja beri að slíkur skilmáli sé óskuldbindandi fyrir neytandann að því gefnu að samningurinn geti haldið gildi sínu að öðru leyti, að því marki sem reglur landsréttar leyfa. Spurning er skilyrt og svarið líka. Verður þetta ekki rætt hér frekar, enda á svar EFTA dómstólsins við þessari spurningu eingöngu við ef hinn íslenski dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að verðtryggingarskilmálanir í umræddu veðskulabréfi teljist óréttmætir samkvæmt tilskipuninni.

II.

Nú má spyrja hvaða þýðingu álitið hefur í framhaldinu. Í því sambandi er haganlegt að gera greinarmun, annars vegar á því, hvaða þýðingu álitið hefur fyrir þetta tiltekna dómsmál sem það er hluti af og hins vegar hvaða þýðingu það hefur fyrir hinn „pólitíska“ ágreining sem verið hefur um verðtrygginguna og kosti hennar og galla í hinu víðara samhengi. Um hið síðara er fjallað í III. hluta hér á eftir.

Að því er varðar þýðingu álitsins fyrir framhald málsins fyrir héraðsdómi (og síðar Hæstarétti, ef svo ber undir) er þetta að segja. Fyrst má nefna að álitamálinu um hvort tilskipunin tekur yfirhöfuð til skilmálanna í lánasamingi þeim sem deilt er um í málinu er í reynd ekki svarað, því það ráðist af túlkun íslenskra laga. Um fyrstu spurninguna segir álitið aðeins að tilskipunin banni ekki verðtrygginguna. Það segir aftur á móti ekkert um það hvort hún er samt sem áður bönnuð við þær aðstæður sem uppi eru í þessu tiltekna máli samkvæmt öðrum reglum sem við kunna að eiga. Svo er tæpast og má þannig gera ráð fyrir að íslenskri dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að verðtryggingin sé sem slík ekki „óréttmætur skilmáli“, jafnvel þótt tilskipunin þætti eiga við.

Í svari við annarri spurningunni segir aðeins að tilskipunin, ef hún er talin eiga við, takmarki ekki svigrúm ríkis til að ákveða reglur um hvernig verðtrygging (vísistalan) skuli reiknuð út. Það sé á valdi innlenda löggjafans að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir geti valdið breytingum á vísitölunni og hvernig hún skuli mæld og þar með hvaða áhrif og að hvaða marki hún skuli hafa á verðtryggð hússnæðislán. Álitið segir aftur á móti ekkert um hvort allt það móverk sem um þetta gildir á Íslandi stenst samkvæmt íslenskum lögum og reglum, m.a. annars um það hvort reglur sem um þetta gilda eigi sér fullnægjandi lagastoð, hvort þeim er réttilega beitt í þessu tiltekna máli o.s.frv. Þannig útilokar álitið ekki að íslenskur dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að íslenska regluverkinu sé áfátt eða þeim ranglega beitt í þessu tiltekna máli. Þetta ber ekki að skilja þannig að ég spái slíkri niðurstöðu fyrir íslenskum dómstólum enda væri það óvarlegt á þessu stigi. Þetta er sagt eingöngu til að undirstrika að álitið svarar ekki álitaefninu nema að litlum hluta.

Svörin við þriðju og fjórðu spurningunni eru aðeins hjálpleg að mjög litlu leyti því þar segir EFTA dómstóllinn aðeins að íslenskir dómstólar verði sjálfir að svara þeim spurningum í ljósi atvika málsins og annarra íslenskra réttarreglna sem við kunna að eiga. Lýsing EFTA dómstólsins á hinum almennu sjónarmiðum sem eiga við um túlkun á ákvæðum tilskipunarinnar, svo langt sem hún nær, kann að vera gagnleg við það mat íslenskra dómstóla, en bindur ekki, að því er best verður séð, hendur þeirra í neinum verulegum atriðum.

Um svarið við fimmtu spurningunni er það að segja, að komist íslenskir dómstólar að því að skilmálarnir eins og þeir voru settir fram í þessu tiltekna máli hafi verið óréttmætir (og tilskipunin er talin eiga við) hefur það víðtækar afleiðingar fyrir alla slíka veðlánasamninga sem staðið hefur verið að með sama hætti og í þessu máli (og aðeins þá). Þau vandræði sem af því líklega hljótast eru af viðskiptalegum og fjárhagslegum toga og strangt til tekið að mestu utan við hin lögfræðilegu álitaefni.

III.

Hvað þýðingu hefur álitið síðan fyrir hina víðtækari umræðu um verðtrygginguna? Í því sambandi skiptir tvennt meginmáli. Í fyrsta lagi sú staðreynd að verðtryggingin er ekki andstæð tilskipuninni sem hér um ræðir, jafnvel þótt hún yrði talin eiga við. „Andstæðingar“ verðtryggingar geta þá ekki lengur notað þá röksemd. En á sama tíma segir álitið heldur ekkert um aðrar röksemdir þeirra sem vilja verðtrygginguna feiga.

Í öðru lagi segir í álitinu að Evróputilskipunin takmarki ekki svigrúm ríkis til þess að ákveða reglur um hvernig verðtrygging (vísistalan) skuli reiknuð út og hvaða áhrif og að hvaða marki hún skuli hafa á verðtryggð húsnæðislán. Þar með geta „stuðningsmenn“ verðtryggingar ekki notað þá röksemd (hafi þeir gert það), að þessi tilskipun setji skorður við því að ríkisvaldið breyti núverandi reglum um hvernig vísitalan skuli reiknuð út og hver áhrif hennar á verðtryggðar skuldir skuli vera, m.a. með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum hennar fyrir skuldara. Að öðru leyti leysir álitið ekki úr hinum pólitíska ágreiningi um vísitöluna og verðtrygginguna á nokkrun hátt.

IV.

Þess gætir stundum að stjórnmálamenn leyti skjóls í þjóðréttarlegum skuldbindingum við ákvarðanatöku, hvort heldur um er að ræða EES-samninginn eða aðra samninga. Þegar þeir framfylgja slíkum skuldbindingum þykir þeim það oft ljúft því þeir meta það svo að þeir geti aflað sér vinsælda með því (þótt þeir séu ekki að gera annað en þeim er skylt). Þetta á t.d. við mannréttindasamninga. Á hinn bóginn ef um er að ræða ákvarðanir sem þeim er skylt að taka, og gætu valdið þeim óvinsældum, eiga þeir það til að þverskallast við eða leita undankomuleiða. En þeir geta líka fallið í þá freistni að skýla sér á bak við „meintar“ þjóðréttarskuldbindingar til að losna við að taka óþægilegar ákvarðanir sem mögulega geta valdið miklum ágreiningi með óljósum afleiðingum fyrir stöðu þeirra í stjórnmálum.

Verðtryggingamálið er á ýmsan hátt ágætt dæmi um þetta. Mögulega hefði verið þægilegt fyrir ýmsa stjórnmálamenn að fá þá niðurstöðu að umrædd tilskipun ætti við og hún bannaði verðtrygginguna. Þar með væru þeir neyddir til að afnema hana, með góðu eða illu. Það gæti aflað þeim vinsælda hjá þorra skuldara, en væri um leið í óþökk annarra, einkum fjármagnseigenda, banka o.s.frv. Gagnvart þeim er gott að geta vísað í skuldbindinguna sér til halds og trausts. Enga slík niðurstöðu fengu þeir í verðtryggingaáliti EFTA dómstólsins og í raun eru skilaboðin býsna skýr um að þetta sé nokkuð sem þeir verða að ákveða sjálfir.

Í næsta pistli mun ég fjalla um hvort og að hvað marki meginreglur um samningsfrelsi, stjórnarskráin eða aðrar alþjóðlegar skuldbindingar, einkum um vernd eignaréttinda, kunni að setja skorður við afnámi verðtryggingar og við breytingar á grundvelli hennar, eða hvort sú ákvörðun snýst aðeins um pólitísk hyggindi og þor.

------

Höfundur er doktor í þjóðarétti og prófessor við lagadeild Háskólans í Kaupmannahöfn og lagadeild Háskóla Íslands. Hann hefur starfað sem lögfræðingur við EFTA dómstólinn og sem dómari við Mannréttindadómstól Evrópu.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.