Þankar í tilefni að ferð til Úkraínu

Dagana 3. – 6. júlí sl. heimsótti ég Kænugarð (Kiev) í Úkraínu. Erindið var að halda tölu á seminari með hæstaréttardómurum þar í landi um úrbætur í dómstólakerfinu og eflingu mannréttinda, en seminarið var skipulagt af sænsku þróunarsamvinnustofnuninni og Evrópuráðinu.

Tímar eru sögulegir í Úkraínu, eins og sést hefur af fréttum, en eitt meginviðfangsefnið í stjórnmálunum nú um stundir er hvar leita skuli bandamanna í samskiptum við önnur ríki. Til einföldunar má segja að sá ágreiningurinn snúist um hvort leita skuli bandamanna í Evrópusambandinu  og meðal annarra vestrænna ríkja, eða hvort þeirra skuli leitað í Rússlandi. Meirihluti Úkraínumanna virðast vera hallur undir það fyrrnefnda, þar á meðal margir áhrifamenn í viðskiptalífi landsins.

Má þar nefna að fráfarandi forseti Viktor Yanukovych og hans teymi hafði lagt grunninn að samningi við ESB um viðtæka samvinnu við Úkraínu á mörgum sviðum. Áður en náðist að undirrita hann dró Yanukovych sig til baka í nóvember 2013 og mun þrýstingur frá Pútín Rússlandsforseta hafa ráðið þar mestu.

Í kjölfarið hófust mótmæli og menn fóru að bera atburði saman við það sem nefnt hefur verið appelsínubyltingin (orange revolution) 2004 sem var leidd m.a. af Julíu Tymoshenko. Mótmælin færðust í aukana og söfnuðust um 800.000 manns saman á sjálfstæðistorginu í Ukraínu þegar mesta var. Til að slá á vandræði Úkraínumanna gerði Yanukovich samstafssamning við Rússa, sem m.a. fól í sér mikla fjárhagsaðstoð við Úkraínu. Mótmælin héldu áfram og í febrúar sl. er talið að 80 manns hafi látið lífið í mótmælunum. Yanukovych hrökklaðist að lokum frá völdum og flúði til Rússlands. Við forsetaembættinu tók Petro Porochenko. Rússar létu síðan, sem kunnugt er, hné fylgja kviði, og innlimuðu Krímskaga í rússneksa ríkjasambandið undir því yfirskyni að það væri vilji meirihluta íbúa á skaganum að tilheyra Rússlandi.

Af samtölum við menn er ljóst að mörgum mislíkar Pútín stórum:  „This fucking Putin“ eins og leigubílstjórinn minn orðaði það. Margir eiga efitt með að skilja hvers vegna ekki megi eiga góð samskipti við ESB og Rússland á sama tíma. Skýra það sumir svo að Pútín vilji endurreisa jántjaldið milli austurs og vesturs. Úkraína og fleiri ríki í austur Evrópu og fyrrum sovétlýðveldi tilheyri einfaldlega rússnesku áhrifasvæði og það fari ekki saman við daður við ESB. Staða Úkraínu er viðkvæm sem stendur og íbúar óttaslegnir enda eru rússneksar hersveitir á sveimi í austurhluta Úkraínu og ljóst að landið skortir hernaðarlega getu til að takast á við Rússland á vígvellinum.

Eins og mörg fyrrum Sovétlýðvelda á Úkraína við margvísleg önnur vandamál að stríða, pólitísk og efnahagsleg. Eitt vandamálið er vanmáttugt dómstólakerfi og bág staða mannréttinda, en það var einmitt umræðuefnið á fyrrnefndu seminari eins og fyrr segir.

Nokkuð lýsandi fyrir stöðu mannréttinda er að í lok árs 2013 voru 18512 mál gegn Úkraínu til meðferðar fyrir mannréttindadómstól Evrópu. Þá má nefna að á því ári var kveðinn upp 2281 dómur í málum gegn Úkraínu. Mál þessi eru af ýmsum toga og sumum tilfellum er um alvarleg mannréttindabrot að ræða, m.a. á réttinn til lífsins, réttinn til að sæta ekki pyndingum eða illri og ómannlegri meðferð í fangelsum og réttinn til frelsis og algengt að einstaklingar sæti gæsluvarðhaldi eða annars konar frelsisiviptingu án viðunandi lagastoðar. Af öllum þessum fjölda mála má nefna mál fyrrum forsætisráðherra landsins Tymoshenko gegn Ukraínu, en gæsluvarðhaldsvist hennar var talin andstæð 5. gr. sáttmálans um rétt til frelsis. Var fangelsun hennar talin bera einkenni geðþótta þáverandi valdahafa og vera án lagastoðar, auk þess sem talið var að hún hefði ekki fengið tækifæri til að láta reyna á lögmæti gæsluvarðhaldsvistar á viðunandi hátt fyrir dómstólum.

Kjarni vandans í dómstólakerfinu er að í raun skortir talsvert á að dómstólar geti talist sjálfstæðir, eins og áskilið er í 6. gr. mannréttindasáttmálans. Lýsandi fyrir vandann er mál Oleksandr Volkov gegn Ukraínu, en kærandi er fyrrverandi hæstaréttardómari þar í landi (hann var raunar þátttakandi í seminarinu), sem bolað var úr embætti hæstaréttardómara. Í dómi mannréttindadómstólsins segir að málaferlin, sem lauk með því að Volkov var dæmdur frá embætti, hafi ekki uppfyllt skilyrði sáttmálans um réttinn til rekstur máls fyrir sjálfstæðum og óhlutdrægum dómstól. Í dómsorði er er m.a. tekið fram að að yfirvöld skuli sem allra fyrst setja Volkov aftur í embætti. Mjög óvenjulegt er að dómstóllinn kveði á um slíka skyldu í dómum sínum og er vísbending um að málið er litið mjög alvarlegum augum. Önnur vandamál steðja að dómstólakrefinu, en þar er spilling og mútuþægni dómara útbreidd, sem og skortur á faglegri hæfni á öllu stigum dómskerfisins. Þessi vandi er ekki bundinn við dómstóla landsins, heldur tekur meira og minna til allra þátta í opinberri þjónustu, í sjórnsýslu, opinberum skólum, heilbrigðiskerfinu og víðar.

Á árinu 2010 var gerðar breytingar á dómstólakerfinu í Úkraínu undir forystu Yanukovych. Þær hafa verið hraðlega gagnrýndar af Feneyjarnefndinni, Evrópuráðinu ofl., en meðal breytinga voru að stórlega var dregið úr lögsögu Hæstaréttar landsins. Er það rakið til pólitískrar óvildar  Yanukovych og félaga í garð dómstólsins, sem þótti hafa sýnt fullmikið sjálfstæði í ýmsum ákvörðunum sínum.

Eitt svona seminar eins hér var haldið mun ekki leiða til neinna grundvallarbreytinga, en ber fremur að líta á sem eitt lítið skerf í þá átt að efla sjálfstæði og fagmennsku í dómstólakerfinu í þágu íbúa Úkraínu. Til þess þarf m.a. að gera ákveðnar breytingar á sjórnarskrá landsins. Einn meginvandinn er hugafarslegur, en í mörgum fyrrum kommúnistaríkjum er hugmyndin um fullt sjálfstæði dómstóla framandi sem margir stjórnmálamenn eiga erfitt með að skilja (eða vilja ekki skilja) til fulls enda þjónar það ekki pólitískri lund þeirra. Í ýmsum fyrrum kommúnistaríkjum er inngróinn sá þankagangur að dómstólar sé einskonar armur hins pólitíska framkvæmdarvalds sem hægt sé að beita til að ná fram pólitískum markmiðum undir yfirskyni réttarríkisins. Kynslóðir getur tekið að uppræta slíkan hugsunarhátt.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.