Lög sem undirstaða siðferðis

Tilhneiging er til þess í umræðu um samfélasgefni að stilla lögum og lagaframkvæmd upp sem einhvers konar andstæðu við siðferðilega samvinnu. Hér er margs að gæta, enda tengsl laga og siðferðis viðfangsefni sem hugleikið hefur verið réttarheimspekingum um aldir og fjölmargar og fjölbreytilegar kenningar verið settar fram um það efni.

Lítið brot af umræðu um tengsl laga og siðferðis varðar þá spurningu hvort og þá að hvaða marki siðferði byggist á lögum. Svarið gæti virst liggja í augum uppi, enda sækja menn stuðning fyrir siðareglum og siðferðilegri afstöðu sinni yfirleitt ekki til laga.

Þetta er þó ekki eins augljóst og það virðist við fyrstu sýn og veltur m.a. á því hvernig við afmörkum siðareglur og siðferðilega afstöðu eða breytni. Siðareglur og siðferðileg afstaða einstaklinga og breytni hefur rík áhrif á samskipti þeirra við aðra menn og umhverfið allt, bæði í einstökum tilvikum og í heild. Þetta þýðir auðvitað, þegar tekin er siðferðileg afstaða, að hafa þarf í huga þau áhrif og þá þýðingu sem hún hefur fyrir aðra. Þar sem einstaklingar eru hluti af hópi, samfélagi, ríki eða öðrum pólitískum einingum, verður meginverkefni siðfræði og siðferðilegrar aftstöðu hvernig við getum lifað í friði og sátt í samfélagi við aðra menn. Kjarni siðferðis er þannig í vissum skilningi „pólitískur” í víðustu merkingu þess orðs.

Til að varpa ljósi á að siðareglur eru ófullkomnar eða ófullnægjandi hafa menn bent á umferðarreglur sem dæmi. Segja má að umferðarreglur séu sprottnar af því sem kalla má „siðferðilega samvinnu”. Krafan um siðferðilega samvinnu í þessu samhengi helgast af því að okkur er nauðugur einn kostur að koma okkur, með einum eða öðrum hætti, saman um vissa þætti umferðar, svo sem eins og á hvorum vegarhelmingi aka á, hver á réttinn þegar kemur að gatnamótum o.s.frv. Annars er hætta á að öngþveiti skapist öllum til verulegs óhagræðis. Þá er ástæða til að spyrja hvort hægt sé að koma sér saman um þessar reglur á hreinum siðferðilegum grundvelli, þannig að tryggt sé, svo sem kostur er, að eftir þeim verði farið. Þetta sýnist vissulega erfitt, ef ekki ómögulegt, nema settar séu reglur sem fela í sér valdboð og gert sé ráð fyrir að hægt sé að framfylgja þeim, jafnvel gagnvart þeim sem ekki fella sig við reglurnar af einhverjum ástæðum. Í stuttu máli, setja þarf um þetta lög sem gera kleift að þessum sjálfsögðu og eðlilegu siðferðilegum markmiðum verði náð. Að öðrum kosti er mikil hætta á að reglurnar verði gagnslausar og kröfur siðferðilegrar samvinnu ekki uppfylltar.

Hér má og nefna að siðferðileg samvinna krefst þess einnig að menn skipti með sér kostnaði sem af því hlýst að halda uppi skipulagðri samfélagsheild, sem nauðsynleg er sem umgjörð um siðferðilega samvinnu. Innheimta þarf skatta. Ef skattskylda manna væri eingöngu reist á tilvísun til hreinna siðareglna yrði skattheimta ekki bara ófullkomin, heldur líklega mjög ósanngjörn. Fullyrða má að reglur sem eingöngu höfðuðu til siðferðiskenndar manna yrðu algjörlega gagnslausar, enda sú tilhneiging manna útbreidd að koma sér undan greiðslu skatta svo sem kostur er. Óráðlegt er í meira lagi að treysta á siðferðiskennd manna eina saman í þeim efnum. Um þetta þarf auðvitað að setja valdboð, sem m.a. kveða á um hvernig reglunum skuli framfylgt og skattarnir innheimtir, hvað sem tautar og raular. Það þarf m.ö.o. að setja lög til að skattheimta verði siðferðilega ásættanleg. Endalausar deilur um það hvernig þessi lög eiga nákvæmlega að vera breyta engu um nauðsyn þess að setja þau.

Þörf fyrir lög verður einnig ljós við úrlausn álitaefna sem eru fyrst og fremst siðferðileg. Fóstureyðingar eru gjarnan teknar í dæmaskyni. Sumir hafna fóstureyðingum með öllu við hvers konar aðstæður nema til að bjarga lífi konu, vegna þess að þeir setja virðingu fyrir lífinu ofar öllum gildum. Aðrir meta lífsgæði sem gildi sem taka þurfi tillit til, sem geti jafnvel vikið til hliðar öðrum gildum, svo sem því að líf verði til eða lengd þess. Þá er fleiri sjónarmiðum haldið á lofti í þessu sambandi, svo sem að mögulegt líf (fóstur) skuli setja á sama bekk og lífið sjálft, en aðrir telja að það líf sem þegar er orðið hljóti að ganga framar. Þá eru það þeir sem leggja áherslu á frelsi einstaklingsins til að ákveða hvernig hann hagar lífi sínu, og enn aðrir að það frelsi hljóti þó að víkja fyrir öðrum brýnni og almennari hagsmunum. Í stuttu máli, menn geta ekki með siðferðilegum rökum einum saman komið sér saman um hvað skal gera og hvað ekki, ef kona vill láta eyða fóstri.

Einnig hér leiðir af þörfinni fyrir siðferðilega samvinnu að menn komi sér saman um siðferðilegar lágmarkskröfur. Það er erfitt að sjá að það geti gerst nema valdið í samfélaginu skerist í leikinn. Auðvitað er það svo að hinn siðferðilegi ágreiningur verður ekki leystur með lögunum, þar sem þau kveða eingöngu á um hvað má og hvað má ekki, skilyrði fyrir því að fóstureyðing skuli heimiluð og hvernig að henni skuli staðið, auk þess sem þau mæla fyrir um viðbrögð við því ef brugðið er út af reglunum. Hinn siðferðilegi ágreiningur heldur áfram. Krafa um siðferðilega samvinnu krefst þess á hinn bóginn, hvað sem hinum siðferðilega ágreiningi líður, að fundin verði hagnýt lausn og henni framfylgt. Að gera ekki neitt og bíða eftir að hin siðferðilega rökræða verði til lykta leidd er óásættanleg niðurstaða frá siðferðilegu sjónarmiði, enda líkurnar á að hún verði í reynd endanlega til lykta leidd nánast engar. Þetta gildir ekki eingöngu um fóstureyðingar, heldur mörg álitamál samtímans sem hafa siðferðilega skírskotun.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.