Um trúfrelsi og trúariðkun sem grundvallarmannréttindi.

Réttur til trúariðkunar er ekki algildur

Meðal grundvallarreglna í íslenskri stjórnskipan telst trúfrelsi og frelsi til að iðka trú. Þetta er staðfest í 63. gr. stjórnarskrárinnar sem og 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE).

Í stjórnarskránni segir:

„Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.“

Og í 9. gr. MSE segir:

1. Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.

2. Frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi.

Þegar við lesum þessi ákvæði sjáum við að trúfrelsi og réttur til að iðka trú er í báðum ákvæðunum sett fram sem meginregla. Á hinn bóginn sést líka að réttur til að iðka trú eða sannfæringu er ekki algildur, að því leyti að setja má trúariðkun beinar og óbeinar skorður af ýmsum ástæðum og að því marki sem kann að vera nauðsynlegt í lýðræðislegu samfélagi. Þessar beinu eða óbeinu skorður eru settar með lögum með vilja meirihlutans þar sem lýðræði ríkir.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið upp marga dóma sem varða trúfrelsi, og þá sérstaklega frelsi til að iðka trú, og mögulega takmörkun á því. Í dæmaskyni má nefna  Eweida and Others v United Kingdom þar sem einn kærenda, sem starfaði á bæjarskrifstofu í Bretlandi, var vikið úr starfi vegna þess að hún vildi ekki af trúarástæðum gefa saman samkynhneigða (skrá sambúð þeirra), sem þó var meðal starfsskyldan hennar. Mannréttindadómstóllin komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið brotinn á henni réttur samkvæmt 9. gr. sáttmálans um trúfrelsi. Í þessu tilfelli rákust á trúarviðhorf kæranda og stefnumörkun löggjafans um að samkynhneigðir sættu ekki mismunun. Trúarsannfæring kæranda vék fyrir hugmyndum um jafnrétti.

Svo þetta sé heimfært upp á  ”moskumálið” sem verið hefur til umræðu  þá tryggir hvorki mannréttindasáttmálinn né stjórnarskráin félagi múslima óskoraðan „rétt“ til að byggja mosku í Reykjavík, að svo miklu leyti sem skorður  við því leiða af almennum reglum  og mismuna ekki trúarbrögðum án gildra ástæðna og að teknu tilliti til sérstöðu þjóðkirkjunnar lögum samkvæmt. Þeir verða að sjálfsögðu að auki að lúta reglum um byggingarleyfi, gerð og stærð byggingar og virða ákvæði byggingarreglugerðar, jafnvel þótt þeir vildu hafa hlutina á annan veg af trúarlegum ástæðum. Ennfremur má gera þá kröfu að bygging falli að skipulagi o.s.frv. Enn síður ber opinberum aðilum skylda til að láta trúfélögum í té lóðir án endurgjalds til að byggja bænahús, en kjósi yfirvöld að gera það þá eiga öll trúfélög (a.m.k. þau sem  eru virk og hafa tilskilinn fjölda virkra meðlima) að sitja við sama borð, að teknu tilliti til mismunandi stærðar safnaða og mismunandi þarfa þeirra af slíkum ástæðum, o.s.frv. Þannig leiðir ekki af skyldu til að gæta jafnræðis að heimila beri trúfélögum að byggja bænahús sem að rúmmetrafjölda eru á pari við Hallgrímskirkju!

Frekari skorður leiða af fyrrnefndum ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmálans, en þar kemur fram að setja megi trúariðkun skorður „vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi.” Þetta merkir m.a. að íslenska ríkið getur sett reglur sem banna ”nauðungarhjónabönd” sem trúarsöfnuðir kunna standa fyrir og synjað um að slíkum "hjónaböndum" verði fengið gildi að íslenskum lögum  (og raunar eru þau ógild að íslenskum lögum ef nauðung hefur sannanlega verið beitt), og ennfremur að banna hvaðeina það sem með málefnalegum rökum er talið fara gegn ”heilsu manna eða siðgæði“ eða „rétti og frelsi” annarra,  jafnvel þótt söfnuðir beri fyrir sig trú sína. Vitaskuld þarf að túlka heimildir til skerðingar þröngt, en þær eru vissulega til staðar. Í stuttu máli, réttur til trúarariðkunar, samkvæmt þeim ákvæðum sem nefnd voru, er ekki algildur, hvorki samkvæmt stjórnaskrá né mannréttindasáttmála Evrópu.  Sem sagt, þótt moska yrði byggð er ekki þar með sagt að íslenska ríkið þurfi að þola hvaða starfsemi sem er, sem þar kann að fara fram innandyra í nafni trúarinnar. Þeirri starfsemi má að sjálfsögðu setja ýmsar skorður með tilliti til almannahagsmuna, allsherjareglu, siðgæðis o.s.frv. Múslimar, eins og aðrir trúarhópar, verða að lúta íslenskum lögum, þótt sumt af því kunni mögulega að fara gegn trúarsannfæringu þeirra, án þess að það verði talið brot á frelsi þeirra til að iðka trú sína, svo lengi sem það er byggt á almennum reglum sem gilda jafnt fyrir alla í sömu eða sambærilegri stöðu og fyrir reglunum eru málefnaleg rök.

Bann við bænaturnum múslima í Sviss

Þann 26. nóvember 2009 gengu Svisslendingar að kjörborðinu um hvort setja ætti í stjórnarská Sviss bann við byggingu bænaturna (minarets) við moskur þar í landi, en þeir hafa margvíslega mikilvæga trúarlega merkingu fyrir múslima. Meirihluti var hlynntur slíku banni og er nú bannað samkvæmt stjórnarskrá landsins að reisa slíka turna.  Bannið gaf tilefni til málaferla fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. mál Ouardiri v. Switzerland og Ligue des Musulmans de Suisse and Others v. Switzerland  (ákvarðanir um meðferðarhæfi frá 28. júní 2011, eingöngu á frönsku). Kærendur voru m.a. trúfélög múslima og forstöðumenn slíkra safnaða, sem héldu því fram að bannið sem slíkt væri andstætt mannréttindasáttmála Evrópu. Því miður, ef svo má segja, var málunum vísað frá þar sem þau voru ekki talin tæk til efnismeðferðar, þar sem ekki var talið að þessir aðilar hefðu einstaklingsbundna hagsmuni af því fá úr þessu lagalega vafamáli skorið, þar sem þeir höfðu ekki nein áform um að byggja slíka turna, né hafði þeim verið synjað um leyfi til þess. Þannig voru þeir ekki taldir beinir þolendur bannsins í skilningi 34. gr. sáttmálans, heldur væru þeir fremur að bera undir dóminn almennt lögfræðilegt álitaefni. Vafalítið á eftir að reyna á þetta álitamál síðar í máli sem réttilega er undir dómstólinn borið.

 Og að lokum þetta:

Skammt norðan við Kaupmannahöfn er bær sem heitir Kokkedal. Í sveitarstjórnarkosningum í Danmörku árið 2012 fóru leikar svo að múslimar fengu meirihluta í bæjarstjórn. Í Kokkedal var áratugahefð fyrir því að fagna komu frelsarans í desember með því setja upp, á kostnað bæjarsjóðs, jólatré við Egedalsvænge í bænum. En nú brá út af hefðinni því hin nýja bæjarstjórn hafnaði því að leggja til fjármuni í verkefnið, en hafði þó fáum dögum áður samþykkt rausnarlegt framlag til trúarhátíðar múslima í bænum. Þetta var af sumum túlkað svo að hinn lýðræðislega kjörni meirihluti í Kokkedal hefði aflýst jólunum það árið.

 

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.