Tjáningarfrelsi og „hatursáróður“ gegn samkynhneigðum

Í pistli mínum frá 21. maí sl. er vikið að dómi mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í málinu  Vejdeland v. Sweden (2012). Í þessum dómi komst MDE að þeirri samhljóða niðurstöðu að Svíþjóð hefði ekki brotið gegn tjáningarfrelsi kærenda samkvæmt 10. gr. mannréttindasáttmálans með því að dæma þá í sekt á grundvelli ákvæðis í sænskum hegningarlögum fyrir að dreifa meðal nemenda í menntaskóla bæklingi þar sem talað var með móðgandi og niðrandi hætti gegn samkynhneigðum og transfólki (hér eftir LGBT). Dómurinn er athyglisverður fyrir þær sakir að dómstóllinn beitir þar í fyrsta skipti meginreglum svipuðum þeim sem eiga við um hatursáróður (hate speech) vegna ummæla um kynhneigð og kynvitund. Kærendur fóru inn í skóla, þar sem þeir höfðu engan rétt til að vera, þar sem þeir voru hvorki nemendur né starfsmenn, og dreifðu umræddum bæklingi. Í honum sagði m.a. að samkynhneigð væri kynferðislegt óeðli af hinu illa og hefði siðferðilega niðurbrjótandi áhrif á samfélagið. Sitthvað fleira miður fallegt var þar sagt um LGBT-fólk.

Dómurinn áréttar í upphafi að mismunun vegna kynhneigðar og kynvitundar sé jafn alvarleg og mismunun á grundvelli kynþáttar, uppruna eða litarháttar. Þótt bæklingurinn hvetti ekki beint til hatursglæpa væri þar að finna alvarlegar, niðrandi og fordómafullar staðhæfingar um samkynhneigða. Tekið var sérstaklega fram að bæklingarnir hefðu verið settir í skápa nemenda skólans, en nemendur á þessum aldri séu gjarnan viðkvæmir og áhrifagjarnir, og að þeim hafi ekki verið gefið tækifæri til ákveða sjálfir hvort þeir vildu taka við þeim eða ekki. Ennfremur að kærendur hefðu ekki verið nemendur í viðkomandi skóla og að þeir hefðu ekki með réttu átt aðgang að húsnæði hans. Þá var tekið fram að sektirnr sem kærendum hafði verið gert að greiða hefðu ekki verið úr hófi háar.

Þótt niðurstaðan hafi verið samhjóða var dómurinn margklofinn að því er varðar rökin fyrir niðurstöðunni. Um þetta vitna þrjú sérálit sem dóminum fylgja. Sérálitin endurspegla hin mikilvægu og áhugaverðu álitamál sem hér eru á ferðinni.

Í tveimur þessara sérálita var lögð mikil áhersla á að umræddum bæklingum hafði verið dreift í opinberum skóla þar sem áróður af þessu tagi ætti ekkert erindi. Þetta atriði sem slíkt var talið ráða úrslitum í huga þeirra dómara sem tóku þessa afstöðu, fremur en innihald bæklingsins sem slíkt. Var m.a. vísað í þessu sambandi til ályktunar ráðherranendar Evrópuráðins frá 21. október 2009 til frekari stuðning sem styður þetta viðhorf. Af rökum þessara dómara má draga þá ályktun að mögulega hefði að áliti þessara dómara verið um að ræða ræða brot á tjáningarfrelsi kærenda samkvæmt 10. gr. ef þeir hefðu t.d. dreift bæklingnum á almannafæri og gefið einstökum vegfarendum kost á að ákveða hvort þeir vildu taka við þeim eða ekki.

Í öðru sératkvæði var rökstuðningur aftur á móti víðtækari og lögð áhersla á að komið hefðu fram kröfur um að búa svo um hnúta að meginreglur  um hatursáróður vernduðu einnig LGBT fólk. Í þessu áliti er lögð áhersla á að málið varði ekki aðeins jafnvægið milli tjáningarfrelsis kærenda og réttinda tiltekins minnihlutahóps til að standa vörð um mannorð sitt. Hatursáróður væri að auki eyðileggjandi fyrir hið lýðræðislega samfélag þar sem, með því að umbera slíkt væri fordómum gefinn trúverðuleiki, sem gæti leitt til mismunar og jafnvel ofbeldis gagnvart minnihlutahópum sem fyrir þessum fordómum verða. Þess vegna ætti hann ekki að njóta verndar.  Þetta sératkvæði fellur að þeim rökstuðningi sem er að finna í megintexta dómsins, en gengur nokkuð lengra að því leyti að svo virðist sem gengið sé út frá að um hatursároður hafi verið að ræða. Í öllu falli, hvernig sem þessi atkvæði eru túlkuð, er ljóst að meirihluta dómenda taldi það eitt ekki ráða úrslitum að bæklingnum hafði verið dreift í opinberum skóla. Þannig má gera að því skóna að þessir dómarar hefðu komist að sömu niðurstöðu þótt bæklingunum hefði verið dreift á almannafæri. Þetta merkir væntanlega í huga þessara dómara, að innihald bæklingsins eitt nægi til þess að réttalæta viðurlögin við dreifingu hans, óháð aðstæðum að öðru leyti.

Dómur þessi vakti athygi og varð tilefni talsverðra skoðanaskipta á netinu sem og annars staðar. Sumir hafa lofað dóminn í hástert og segja hann mikilvægan lið í réttindabaráttu LGBT fólks. Aðrir telja sig sjá hættumerki þar sem tjáningarfrelsinu sé fórnað á altari pólitíksrar rétthugsunar, ef svo má orði komast.

Gagnrýnendur benda m.a. á að með dóminum hafi MDE gert vernd tjáningarfrelsis samkvæmt sáttmálanum ógagn. Dómstólinn hafi lengi tekið fram í dómum sínum að rétturinn til tjáningar taki einnig til þess að tjá skoðanir og hugmyndir sem móðga eða ofbjóða. Í megintexta dómsins sé aftur á móti komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið um brot á tjáningarfrelsinu af hálfu Svíþjóðar að ræða vegna þess að bæklingurinn hafi m.a haft að geyma alvarlegar, niðrandi og fordómafullar ásakanir í garð samkynhneigðra, án þess að fullyrt sé berum orðum að um hatursáróður hafi verið að ræða í þess orðs fyllstu merkingu. Þá benda gagnrýnendur á að engin skilgreining sé til á  hugtakinu „hatursáróður“ sem sammæli séu um. Þetta hafi dómstóllinn m.a. viðurkennt í upplýsingabæklingum (Factsheets) sem hann sjálfur hafi birt. Þar sé tekið fram, að á grundvelli dómframkvæmdar dómstólsins sé næsta ómögulegt að henda reiður á mælikvarða sem nota megi til að afmarka hatursáróður frá annarri móðgandi eða fordómafullri tjáningu. Afleiðingin er sú að borgurunum er gert mjög erfitt að átta sig á að hvenær tjáning þeirra fer út fyrir leyfileg mörk 10. gr. sáttmálans. Betra hefði verið fyrir dóminn að fara þá leið að láta ráða úrslitum að bæklingnum var dreift í opinberum skóla, en líklega geta allir verið sammála að fordómar af þessu tagi eigi þar ekkert erindi.

Að lokum. Almennt má segja ekki verði deilt um að dómurinn er fagnaðarefni fyrir réttindabaráttu LGBT fólks, þar sem hann viðurkennir rétt ríkja til að takmarka niðrandi og fordómafullan áróður gegn þessum minnihlutahópi. Að því leyti hlýtur allt sanngjarnt fólk sem styður jafnréttindabáráttu LGBT-fólks að fallast á þau meginskilaboð sem í dóminum felast, að mismunun gagnvart þessum hópi verði ekki þoluð. Á hinn bóginn vitnar dómurinn um mikilvægi þess að huga vandlega að jafnvægi milli hinna andstæðu sjónarmiða sem koma upp í tengslum við túlkun og beitingu 10. gr. um tjáningarfrelsið. Í einum skilningi er dómurinn íhaldsamur ef svo má segja, þar sem svo virðist sem litið hafi verið svo á að ekki væri fullum fetum um að ræða hatursáróður. Er það vel, því óvarlegt er að útvíkka það hugtak mikið umfram tjáningu sem felur í sér hvatningu til ofbeldisfullra aðgerða gegn tilteknum hópum, ef það á ekki að missa allt bit, auk þess sem það er í samræmi við það meginsjónarmið að túlka eigi þröngt reglur sem takmarka tjáningarfrelsið. Á hinn bóginn er hann róttækur að því leyti að litið er svo á að ríki hafi heimild til að takamarka tjáningarfrelsið til að koma í veg fyrir niðrandi, fordómafullar og móðgandi staðhæfingar um tiltekna hópa samfélagsins, án þess þó að um hatursáróður sé að ræða í hefðbundnum skilningi.

Dómurinn vekur ýmsar áleitnar spurningar um hvar draga skuli mörkin milli verndar minnihlutahópa annars vegar og tjáningarfrelsisins hins vegar. Ég er sammála þeim dómurum sem töldu vettvangurinn fyrir dreifingu bæklingsins hefði átt að ráða úrslitum fremur en efni hans eitt og sér.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.