Fjallið tók joðsótt og fæddist lítil mús: Bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Landsdómsmálið

I

Fyrir síðustu jól kom út bókin Landsdómsmálið. Stjórnmálarefjar og lagaklækir. Útgefandi er Almenna bókafélagið (2022). Höfundur hennar er Hannes Hólmsteinn Gissurarson fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði við HÍ. Landsdómsmálið er einstakt í íslenskri stjórnmála- og réttarsögu, en því lauk með dómi Landsdóms 23. apríl 2012. Mér finnst ólíklegt að komist verði hjá þeim dómi sögunnar að málarekstur þessi á hendur Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi verið óráð og sneypuför hin mesta af hálfu þeirra sem fyrir honum stóðu og hönnuðu. Undarlegt má heita að þess hafi ekki verið freistað fyrr en nú að gera þessu merka máli skil á bók.

II

Hannes Hólmsteinn er kunnur flestum þeim sem fylgjast með þjóðmálum á Ísland. Við vitum fyrir hvað hann stendur í pólitík, enda hefur hann aldrei farið leynt með það. Við vitum líka að hann er óvæginn og harðsnúinn í pólitískum rökræðum og erfiður við að eiga enda með afbrigðum vel lesinn, fróður og minnugur. Við vitum líka að hann er hægri maður á hinu pólitíska litrófi og setur frelsi manna til orða og athafna og einkaframtakið ofar öðrum gildum. Hann er og eindreginn sjálfstæðismaður. Þetta vissi ég auðvitað allt saman þegar ég las bókina. Kom mér því ekki á óvart að bókin ber þessa merki. Nú mætti ætla að ég teldi þetta galla á henni frá sjónarhóli fræðimannsins. Þó tel ég ekki svo vera enda Landsdómsmálið í eðli sínu stórpólitískt. Verður það ekki gert upp nema öll sjónarmið komi fram, hvort sem þau koma frá hægri kantinum eða þeim vinstri. Áhugavert væri frá fræðilegu sjónarmiði að fá aðra bók um þetta einstaka mál með hressilegri vinstri slagsíðu. Ég mun örugglega lesa hana líka.

III

Þótt ég geri mér fulla grein fyrir að þessi einstaki málarekstur hafi valdið þeim sem í hlut áttu miklu hugarangri vil ég segja, áður en lengra er haldið, að lesi maður bókina í hæfilegri pólitískri fjarlægð, með fullri vitund um sjónarhorn höfundar og hafi ekki úr hófi viðkvæmt vinstra hjarta né mislíki þeim mun meira við Sjálfstæðisflokkinn, eins og margir eiga til, að hún er stórskemmtileg aflestrar. Já, hún er eiginlega bara spennandi og reyfarakennd á köflum og lipurlega og vel skrifuð. Það er ekki oft sem maður getur sagt þetta um bækur um stjórnmál og lögfræði. Um hinar síðarnefndu einkanlega hef ég mátt reyna á eigin skinni að algengast er að þær séu frekar leiðinlegar, líka þær sem ég hef skrifað sjálfur, þótt þær geti annars verið merkar og gagnlegar við lagakennslu og lögfræðistörf. Rifjast þá upp fyrir mér að Halldór Laxness sagði um hinn kunna og merka lögfræðing og réttarsögufræðing Ólaf Lárusson að hann hafi verið skemmtilegur maður þótt bækur hans um lögfræðileg efni bæru þess ekki merki.

IV

Svo sem kunnugt er snerist landsdómsmálið um ákæru Alþingis á hendur fyrrverandi forsætiráðherra Geir Haarde vegna ætlaðra athafna eða eftir atvikum athafnaleysis hans í aðdraganda fjármálahrunsins 2008. Aðdragandi ákærunnar er í stuttu máli þessi. Um haustið 2008, þegar fjármálahrunið skall á, varð mikil ólga í íslensku samfélagi og vantraust í garð stjórnvalda og stofnana samfélagsins útbreitt. Krafa um afsögn ríkisstjórnar Geirs Haarde, sem mynduð var af Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, var hávær. Ríkisstjórnin hrökklaðist að lokum frá völdum þegar Samfylkingin sleit stjórnarsamstarfinu í janúar 2009. Í kjölfarið var mynduð minnihlutastjórn Samfylkingar og  VG með stuðningi Framsóknarflokksins og settist Jóhanna Sigurðardóttir í stól forsætisráðherra. Í alþingiskosningunum vorið 2009 jókst fylgi Samfylkingar og VG og mynduðu þessir flokkar meirihlutastjórn að loknum kosningum með Jóhönnu í forsæti. Það var einmitt í tíð þessarar ríkisstjórnar sem Alþingi lagði upp í sinn mikla landsdómsleiðangur.

Þá er þess að geta að um haustið 2008 hafði Alþingi skipað rannsóknarnefnd Alþingis, undir formennsku Páls Hreinssonar þáverandi hæstaréttardómara, en með honum sátu í nefndinni Tryggvi Gunnarsson þáverandi umboðsmaður Alþingis og Sigríður Benediktsdóttir kennari í hagfræði við Yale háskóla í Bandaríkjunum. Tilgangur nefndarinnar var að rannsaka aðdraganda og orsakir hrunsins og semja skýrslu þar um. Skýrslan var birt 12. apríl 2010 eða nokkru síðar en lagt var upp með í upphafi. Alþingi skipaði í kjölfarið níu manna nefnd þingmanna undir formennsku Atla Gíslasonar (VG) til að fjalla um skýrsluna. Lauk því starfi með því að þingmannanefndin lagði til, eftir nokkuð fum og fát, að fjórir fyrrum ráðherrar yrðu ákærðir fyrir Landsdómi fyrir ætluð brot í störfum sínum sem ráðherrar, nánar tiltekið Geir Haarde forsætisráðherra, Árna Mathiesen fjármálaráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og loks Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra. Svo sem kunnugt er endaði þetta með því eftir atkvæðagreiðsluna í þinginu að aðeins Geir Haarde stóð eftir sem ákærður. Var hann því einn dreginn fyrir Landsdóm. Allt er þetta nákvæmlega rakið í bókinni og hvernig einstakir þingmenn höguðu atkvæði sínu. Lyktaði þessi atkvæðagreiðsla öll fremur af pólitískum sjónarmiðum fremur en refsiréttarlegum. Sumir þeirra sem greiddu atkvæði með ákæru hafa viðurkennt mistök sín síðar, en ekki allir, eins og rakið er í lok bókarinnar. Það er önnur saga.

Ákæran var í tveimur liðum, en sá fyrri skiptist í fimm undirliði. Fyrir Landsdómi var tveimur af þessum undirliðum í 1. lið ákærunnar vísað frá dómi, sem vitnar um að þeir hafi verið þannig úr garði gerðir að ekki var talið unnt að leggja á þá efnisdóm. Og það þótt fremstu sérfræðingar þjóðarinnar á sviði refsiréttar hafi komið að smíði þeirra sem ráðgjafar eins og rakið er í bókinni.  Þá var Geir sýknaður af þremur undirliðum í 1. lið. Geir var á hinn bóginn sakfelldur samkvæmt 2. lið ákærunnar, en sá liður laut að því hann hefði brotið gegn 17. gr. stjórnarskrárinnar fyrir að halda ekki ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Niðurstaða Landsdóms um þetta var þó ekki einróma því að henni stóðu níu dómarar, en sex voru á móti og töldu að sýkna bæri. Þess má geta að áliti margra lögfræðinga, þar með talið undirritaðs, er að niðurstaða meirihlutans sé byggð á hæpinni, ef ekki rangri, túlkun á umræddu ákvæði stjórnarskrárinnar. Rökstuðningur minnihlutans ber einnig þar vitni um. Hannes Hólmsteinn bætir í þau rök með sannfærandi hætti. Þá er þess að geta að Geir var ekki gerð refsing og sakarkostnaður lagður á ríkissjóð. Eftirtekjan af þessum einstaka málarekstri Alþingis á hendur Geir Haarde var því harla rýr svo vægt sé til orða tekið. Mér þykir ekki ólíklegt í framtíðinni muni margir líta á þessa vegferð sem blett á stjórnmála- og réttarsögu Íslendinga.

V

Framgreindri atburðarás er lýst í talsverðum smáatriðum í bókinni. Höfundur telur að allt ferlið hafi verið meingallað. Þannig rökstyður hann að ýmsir vankantar hafi verið á skipan rannsóknarnefndarinnar sem samdi skýrsluna sem þingnefndin lagði til grundvallar niðurstöðu sinni. Einkum dregur hann í efa hæfi Sigríðar Benediktsdóttur vegna ummæla sem hún hafði frammi í bandarísku skólablaði, Yale Daily News, í mars 2009, þar sem hún rakti fjármálahrunið til öfgafullrar græðgi og glæfralegs andvaraleysis þeirra stofnana sem áttu að hafa eftirlit. Höfundur bókarinnar færir fyrir því gild lögfræðileg rök að Sigríður hafi í raun verið vanhæf til áframhaldandi setu í nefndinni vegna þessara ummæla, sem aftur er til þess fallið að varpa rýrð á trúverðugleika skýrslunnar. Þá gefur Hannes Hólmsteinn lítið fyrir þá meginskýringu nefndarinnar að bankarnir hafi verið of stórir. Telur hann þetta nokkurs konar rökfræðilega tuggu (klifun/tautológíu). Bankar falli ekki vegna þess að þeir séu of stórir, heldur þurfi fleira að koma til, rétt eins og gler brotni ekki af því það sé brothætt. Stærð bankanna hafi verið nauðsynlegt skilyrði fyrir hruni þeirra, en ekki nægilegt. Hinn rétta skýring sé lausafjárþrurrð bankanna og Íslendingum hafi verið neitað um fyrirgreiðslu í þeim efnum sem aðrir bankar hafi fengið. Skýrslan, þar sem engin lögbrot hafi fundist þrátt fyrir mikla leit, hafi verið lögð til grundvallar ákvörðun Alþingis um að ákæra Geir án þess að nokkur sakamálarannsókn hafi farið fram. Um hafi verið að ræða ákvörðun sem ekki hafi verið tekin á refsiréttarlegum forsendum, heldur hreinum pólitískum. Réttarhöldin hafi í raun verið pólitísk!

Áfram heldur höfundur bókarinnar og rekur ýmsa meinbugi sem hann telur að hafi verið á skipan Landsdóms og samsetningu. Þannig telur hann að Eiríkur Tómasson hafi verið vanhæfur til að sitja í dóminum af ýmsum ástæðum m.a. vegna þess að hann hafi átt hlutabréf í bönkum, sem urðu verðlaus í bankahruninu. Þá hafi hann birt grein á netinu, sem hafi horfið fljótlega þaðan, þar sem hann mun hafa rakið að bankahrunið væri að rekja til þess, að ráðherrar hefðu misbeitt valdi. Enn nefnir höfundur að Eiríkur kunni að hafa verið argur út í Geir þar sem sá síðarnefndi sem settur dómsmálaráðherra 2004 hafi gengið fram hjá honum við val á hæstaréttardómara. Þá telur hann að tveir aðrir dómendur í Landsdómi, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson hafi að öllum líkindum verið vanhæfir þar sem þeir hafi tapað stórfé í hlutabréfum og peningamarkaðssjóðum í bankahruninu. Ekki er hér tekin afstaða til þessara röksemda höfundar frá lagalegu sjónarmiði, en fyrir afstöðu sinni færir hann mjög frambærileg rök. Ýmsar fleiri athugasemdir eru gerðar við samsetningu og skipan Landsdóms sem ekki verða raktar hér.

Þá fjallar höfundur um að rannsókn og skýrsla rannsóknarnefndar hafi ekki verið jafngildi sakamálarannsóknar og skýrslan því ekki haft sönnunargildi í sakamálinu á hendur Geir. Engin slík rannsókn hefði farið fram þótt þingmannanefndin hefði haft heimild til að gera sjálfstæða rannsókn, eins og nauðsynlegt hefði verið. Geir hafi ekki notið réttar sem sakaður maður við rannsókn málsins og ákvörðun um ákæru eins og venjulegir sakborningar njóti í sakamáli. Rekur hann margvíslega annmarka sem hann telur að hafi verið á vinnubrögðum þingnefndarinnar, Alþingis og saksóknara. Hér aftur verður ekki tekin afstaða til þessa, en rök höfundar eru á ýmsan hátt sannfærandi og umhugsunarverð.

Í bókinni kemur einnig fram að Geir kærði niðurstöðu Landsréttar til Mannréttindadómstóls Evrópu en þar var íslenska ríkið sýknað af kröfum Geirs um viðurkenningu á því að brotið hefði verið á honum réttur til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 6. gr. sáttmálans sem og brotið gegn 7. gr. hans vegna þess að 17. gr. stjórnskrárinnar hafi ekki verið viðhlítandi refsiheimild eða eftir atvikum hafi túlkun hennar verið röng hjá meirihluta Landsdóms. Höfundur bókarinnar gerir ýmsar athugasemdir við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins. Ég ætla ekki að fara nánar út það hér enda er það of langt mál og snúið. Vil þó vekja athygli á því að eftir að Landsdómur hafði vísað frá tveimur ákæruliðum og sýknað af þremur var í rauninni lítið eða ekkert eftir af málinu fyrir dómendur í Strassborg að fjalla um. Í því sambandi er vert nefna, sem höfundur kemur raunar inn á að Mannréttindadómstóllinn er ekki áfrýjunardómstóll og getur ekki, í samræmi við nálægðarregluna og regluna um svigrúm til mats, endurskoðað túlkun innlendra dómstóla á lögum, heldur eingöngu svarað þeirri spurningu hvort lög eins og þau eru túlkuð og þeim beitt í einstökum málum feli í sér brot á sáttmálanum.

VI

Áhugavert er í meira lagi að Mannréttindadómstólinn segir á einum stað í dóminum að ferlið sem leiddi til ákærunnar á hendur kæranda, hafi ekki verið gerræðislegt, þegar til alls er litið né heldur pólitísk að því marki, að sanngirni réttarhaldsins hafi verið skert. Höfundur bókarinnar bendir á þetta og telur þetta fráleitt. Nokkuð er til í því.

Sumir kynnu að freistast til að líta svo á að niðurstaða Mannréttindadómstólsins feli í sér eins konar syndakvittun fyrir íslenska ríkið. Það væri misráðið, enda helgast niðurstaðan fyrst og fremst af því hvernig dómstóllinn beitir valdi sínu í ljósi nálægðarreglunnar (subsidiarity) og reglunnar um svigrúm til mats (margin of appreciation). Staðreyndin er sú að aðildarríkin fara mjög mismunandi leiðir í því að koma fram ráðherraábyrgð (impeachment procedure) og hefur dómstólinn farið varleg í að taka fram fyrir hendur aðildarríkja í þeim efnum, enda mótast reglur um þetta af ríkum pólitískum og sögulegum hefðum sem geta verið mjög mismunandi frá einu ríki til annars.

Hvað sem þessu líður er niðurstaða höfundar bókarinnar alveg skýr um að atkvæðagreiðslan á Alþingi um ákæru á hendur Geir hafi verið af hreinum pólitískum toga og réttarhöldin í þeim skilningi pólitísk. Eftir lestur bókarinnar er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þessari. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að mikilvægustu ákæruliðunum var ýmist vísað frá eða Geir sýknaður af þeim. Þannig má segja að Landsdómur hafi í öllum mikilvægustu atriðum hrundið ákærunni, þótt hnýtt hafi verið í ákærða með ýmsum hætti í rökstuðningi fyrir sýknu. Eftir stóð sakfelling fyrir atriði sem telja má minniháttar í heildarsamhenginu, auk þess sem sú sakfelling stendur á mjög veikum grunni. Í það minnst á við hér að fjallið tók joðsótt og fæddist lítil mús.

Ég get ekki annað en mælt með þessari bók fyrir alla áhugamenn um stjórnmál, stjórnmálasögu og lögfræði. Hún er mikilvægt innlegg í umræðu um þetta einstaka dómsmál og uppgjör þess.

Í bókinni fylgir ítarleg heimildaskrá og listi yfir viðmælendur og ljóst að höfundur hefur leitað víða fanga. Þá er í upphafi bókarinnar ítarlegt efnisyfilit og útdráttur í tölusettum liðum en allt þetta, auk nafnaskrár í lokin, auðveldar mjög lesturinn og notkun ritsins fyrir þá sem vilja glöggva sig á einstökum atriðum.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.