Fúkyrði eða fullyrðing?

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í máli Egils Einarssonar hefur vakið athygli. Málið reis af instagramfærslu Inga Kristjáns Sigurmarssonar. Undanfarinn var sá að Egill hafði verið kærður fyrir nauðgun, en málið síðan fellt niður af ákæruvaldinu. Inga Kristjáni virðist hafa orðið nokkuð heitt í hamsi vegna þessara tíðinda og setti inn færslu á instagram þar sem birt var stílfærð mynd af Agli. Myndinni fylgdi texti þar sem Egill var kallaður „aumingi“ og ennfremur: “Fuck you rapist bastard”. Að sönnu er þetta gróft orðfæri og alls ekki til fyrirmyndar. Egill, sem hefur kallað sig Gillzenegger eða Gillz, var ósáttur og höfðaði mál fyrir héraðsdómi. Krafðist hann þess að Ingi Kristján yrði dæmdur til refsingar fyrir ærumeiðandi aðdróttun með því að hafa breytt ljósmyndinni af sér, svo og að tilgreind ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk. Að auki gerði Egill kröfu um skaðabætur og greiðslu kostnaðar af birtingu dóms í málinu.

Í héraðsdómi var Ingi Kristján sýknaður og voru forsendur þess aðallega að Egill hefði í blaðaviðtali látið ýmis ögrandi ummæli falla um tilgreindar persónur í kjölfar niðurfellingar málsins, hann væri þekkt persóna sem hefði ítrekað tjáð sig um samskipti kynjanna og sett þar fram sjónarmið sem varla yrðu skýrð á annan veg en niðrandi um kynfrelsi kvenna, hvort heldur þau höfðu verið sett fram í gríni eða alvöru. Hann, aðallega undir „listamannsnafni“,  hefði þannig kallað yfir sig hörð viðbrögð.

Egill áfrýjaði dóminum. Í dómi Hæstaréttar var af meirihlutanum skírskotað til þess að í undanfara myndbirtingar Inga Kristjáns hefði Egill komið fram í blaðaviðtali og viðhaft þar ögrandi, ef ekki niðrandi, ummæli um aðra. Með því hefði hann hrundið af stað hvassri þjóðfélagsumræðu og mátt jafnframt gera sér ljóst að ummæli hans kynnu að kalla á hörð viðbrögð þeirra sem andúð hefðu á viðhorfum hans. Í þessu samhengi bæri að líta á ummælin sem gildisdóm sem hefði stoð í framgöngu hans sjálfs. Talið var að Ingi Kristján nyti tjáningarfrelsis á grundvelli stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og eins og á hefði staðið hefði hann notið rýmkaðs frelsis til að tjá sig um Egil og skoðanir hans. Þegar virt voru í heild hin afbakaða mynd og áðurgreind ummæli, var talið að um væri að ræða fúkyrði (gildisdóm) Inga Kristjáns um  Egil í óvæginni þjóðfélagslegri umræðu, sem Egill hefði sjálfur átt frumkvæði að, en ekki staðhæfingu um að hann hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi. Var tjáning Inga Kristjáns í  umrætt sinn talin hafa verið innan marka þess frelsis sem honum væri tryggt í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og hann því sýknaður af kröfum Egils.

Þess er skylt að geta að einn dómari Hæstaréttar, Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði sératkvæði og vildi dæma Inga Kristjáni áfelli með þeim rökum að ummæli hans verði ekki talin fela í sér annað en grófa aðdróttun um að áfrýjandi hafi gerst sekur um grafalvarlegt refsivert afbrot. Því væri um að ræða staðhæfingu um staðreynd.

Egill var enn ósáttur og fór með málið fyrir MDE og hélt því fram að með niðurstöðu Hæstaréttar hefði verið brotið á rétti hans samkvæmt 8. gr. sáttmálans til friðhelgi einkalífs og æruverndar þar sem í myndinni og textanum sem fylgdi fælist aðdróttun um alvarlega refsiverða háttsemi sem hann hefði verið hreinsaður af.

Í dómi MDE er talið að Egill, hvort heldur undir eigin nafni eða „listamannsnafninu Gillzenegger (Gillz)“, væri þekkt persóna. Hann yrði þannig, sem og vegna eigin þátttöku í almennri umræðu um ásakanir á hendur sér um kynferðislegt ofbeldi, að þola hvassari umfjöllun í sinn garð en annars hefði verið. Þá var umfjöllunin um málefni sem varðaði almenning, þ.e. kynferði og kynfrelsi. Þá fjallar MDE um hvort myndbirtingin og textinn fæli í sér gildisdóm eða staðhæfingu um staðreynd. Með öðrum orðum, hvort um væri að ræða fúkyrði eða fullyrðingu, svo vísað sé í heiti greinarinnar.

Þetta síðastnefnda er kjarni málsins, þ.e. hvort setningin „fuck you rapist bastard“ fæli í sér staðhæfingu um staðreynd, eða hvort um gildisdóm væri að ræða. Þessi greinarmunur skiptir talsverðu máli, því ef um er að ræða staðhæfingu um staðreynd er gerð ríkari krafa um að hún sé studd við gögn sem sanngjarnt er að sá sem viðhefur ummæli geti reitt sig á, þótt ekki sé farið fram á fulla sönnun. Ef um gildisdóm er að ræða þarf ekki að sanna slíkan dóm, þótt krafa sé gerð um að tjáningin styðjist við „einhver“ gögn sem gefi tilefni til hennar.

Meirihluti Hæstaréttar taldi að um „gildisdóm“ væri að ræða og að skoða yrði ummælin í víðara samhengi þeirrar umræðu sem Egill hefði staðið fyrir á opinberum vettvangi. Hann hefði kallað þessi viðbrögð yfir sig og yrði að þola þau. Þessu var MDE ósammála. Þótt MDE viðurkenndi svigrúm Hæstaréttar til mats um þetta atriði sá hann engu að síður ástæðu til að endurskoða það. Í því efni lagði MDE áherslu á að orðið nauðgari („rapist“) lýsti í raun hlutlægum aðstæðum og ef nákvæmlega væri skoðað í hvaða röð atburðir gerðust hefði Hæstiréttur ekki haft nægilega rík rök, þrátt fyrir að ummælin væru þáttur í óvæginni umræðu, til að meta ummæli Inga Kristjáns sem gildisdóm. Frekar væri um að ræða staðhæfingu um staðreynd sem enginn grundvöllur væri fyrir. Íslenska ríkið hefði því, með dómi Hæstaréttar, brugðist skyldu sinni til að vernda einkalíf og æru Egils og með því brotið gegn 8. gr. sáttmálans.

Tveir dómarar MDE lýstu sig ósammála niðurstöðu meirihlutans. Fyrst Paul Lemmens frá Belgíu, en inntakið í sératkvæði hans er að meirihlutinn hafi brugðist í því að virða svigrúm Hæstaréttar til mats á því hvort um væri að ræða gildisdóm eða staðhæfingu um staðreynd. Mat Hæstaréttar væri stutt viðeigandi rökum og væri skynsamlegt og sanngjarnt og ekki næg ástæða til að endurskoða það. Í sératkvæði Stéphanie Mourou-Vikström frá Mókanó er m.a. lögð áhersla á fyrri framkomu Egils í opinberri umræðu sem hefðu lotið mjög að kynfrelsi kvenna og með henni hefði hann kallað yfir sig hvöss ummæli í sinn garð. Hæstaréttur hefði með réttu mátt meta þýðingu þeirra á þann hátt sem gert var. Þau töldu bæði að sýkna bæri íslenska ríkið.

Sératkvæðin, nánar tiltekið þau bæði saman, hafa talsvert til síns máls, þ.e. að mat Hæstaréttar sé ígrundað og styðjist við viðeigandi rök sem MDE hefði vel getað unað við, og til viðbótar að með fyrri framgöngu sinni í opinberri umræðu hefði Agli mátt vera ljóst að hann kynni að kalla yfir sig hvöss viðbrögð sem hann yrði að una. Hann hafi með öðrum orðum sjálfur slegið tón umræðunnar með þátttöku sinni í opinberri umræðu  í bráð og lengd.

Að lokum er bent á að Egill gerði fyrir MDE kröfu um að sér yrðu dæmdar 10.000 evrur í miskabætur. Í dóminum er þessari kröfu hafnað og talið að viðurkenning á því að 8. gr. sáttmálans hefði verið brotin gagnvart honum fæli í sér nægilega uppreist honum til handa. Þetta er ekki fordæmalaust en heyrir þó fremur til undantekninga, því miskabætur eru oftast dæmdar í slíkum málum ef um brot er að ræða. Þetta er ekki sérstaklega rökstutt í dóminum, en má túlka svo að MDE fallist á sinn hátt á að Egill, sem væri þekkt persóna, hefði með eigin framgöngu að nokkru kallað þessi viðbrögð yfir sig og ekki rétt að dæma honum miskabætur við þær aðstæður.

Ef horft er til allra þeirra dóma sem fallið hafa í tjáningarfrelsis- og ærumeiðingarmálum gegn Íslandi síðustu árin má með nokkrum rétti halda því fram að skilaboðin frá MDE séu nokkuð misvísandi og til þess fallin að gera  landsdómstólum fremur erfitt fyrir um að fullnægja þeim kröfum sem telja má að í dómaframkvæmd MDE felist, þrátt fyrir vilja til þess. Erfitt getur verið að átta sig á hvenær og á hvaða grundvelli MDE unir mati landsdómstóla og hvenær ekki. Niðurstaða Hæstaréttar um að líta bæri á tjáninguna sem gildisdóm er, þegar á allt er litið, ágætlega rökstudd og sannfærandi og innan þess svigrúms til mats sem Hæstiréttur mátti með sanngirni ætla að hann hefði til þess að meta þetta atriði, einkum þegar horft er til þess hvernig dómaframkvæmd MDE hefur þróast síðustu ár. Með sanngirni má segja að dómur Hæstaréttar hafi falið í sér raunverulega og rökstudda tilraun til að taka mið af þeim sjónarmiðum sem MDE hefur þróað, einkum í málum sem varða tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. En allt kom það fyrir ekki að þessu sinni. Þrátt fyrir þetta bakslag verður engu að síður að hvetja íslenska dómstóla til að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið síðustu misseri um að taka í vaxandi mæli mið af dómaframkvæmd MDE þar sem við á. Hætt er þó við að þessi dómur MDE, sem hér hefur verið gerður að umtalsefni, virki letjandi á íslenska dómara í þeim efnum. Þeir eru vafalaust margir ósáttir við þennan dóm enda hafi Hæstiréttur í góðri trú beitt í dómi sínum þeim sjónarmiðum sem MDE hefur mótað í sinni framkvæmd um jafnvægið milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.