Dr. jur. Davíð Þór Björgvinsson
- Inngangur
Við hljótum að hafa veitt því athygli að allar kenningar sem fjallað hefur verið um í þessu námskeiði um lagakenningar hingað til eru eignaðar körlum. Engar konur hafa komist að. Þetta er með öðrum orðum samræða gáfumanna af kyni karla. Ekki þarf að draga í efa að þessir karlar allir hafa gefið sér að sannleikurinn um eðli laga og réttar væri sá sami fyrir alla viti borna einstaklinga, óháð kyni. Ennfremur, að þeirra eigið kyn skipti engu máli fyrir innihald kenninga þeirra. Það megi auðvitað deila um hvort þær eru réttar eða rangar, en það hafi ekkert að gera með þá staðreynd að höfundar þeirra eru karlmenn. Margir kenningarsmiðir femínismans telja á hinn bóginn einmitt þessa staðreynd skipta miklu máli fyrir inntak kenninganna.
Sumir höfundar, einkum karlkyns, hefðu eflaust tilhneigingu til að segja að öfgar einkenndu suma áhangendur þessara kenninga, og þeir væru nokkuð fylgnir sér. Það er sennilega réttmæt aðfinnsla að einhverju leyti og er það stundum miður, vegna þess að öfgar eru alltaf til þess fallnar að kalla fram andstöðu, jafnvel við þau atriði sem þó þarf ekki endilega að vera mikill ágreiningur um.
Þeir sem leggja stunda á femínískar lagakenningar hafa látið sig margt varða og þær eru ekki bundnar við hreinar kennilegar hugleiðingar, heldur sér þessa einnig stað í rannsóknum í refsirétti, einkum í rannsóknum á ofbeldisbrotum gagnvart konum og meðferð þeirra í réttarkerfinu, svo sem nauðgunum, í fjölskyldurétti, samningarétti, skaðabótarétti, eignarétti og öðrum sviðum. Þungmiðjan er að sýna fram á að þetta regluverk allt sé mótað af heimsmynd og reynslu karla, fremur en kvenna.
Höfundar og fræðimenn á sviði femínískra lagakenninga, sem flestir eru konur, mæla auðvitað ekki einni röddu, ekki frekar en karlarnir.
Áður en við skoðum hvert afbrigði fyrir sig nánar má halda því til haga að femínískar lagakenningar feli í sér sjálfstætt framlag að því leyti að lögð er áhersla á femínísk sjónarmið í lögfræðilegri umræðu, sem fallast má á að hafi ekki fengið mikið rými í ritum eldri höfunda. Þeir eru yfirleitt karlmenn og eflaust eru hugmyndir þeirra reistar á heimsmynd karla, að svo miklu leyti sem hún er önnur en kvenna, fremur en sérstakt tillit hafi verið tekið til femínískra sjónarmiða.
Helstu kenningarsmiðir femínískra lagakenninga eru konur og þær eru einnig oft virkar í baráttu kvenna fyrir auknum réttindum og bættri stöðu þeirra almennt. Þessi kenningarsmiðir hafa ekki heldur reynt að leyna því og þeir gera ekki endilega kröfu til þess að fræði þeirra séu hlutlaus. Þetta eru í reynd fræði sem ætlað er að leggja tilteknum málstað fræðilegt lið. Femínískar lagakenningar eru ekki einar á báti að þessu leyti. Þetta má einnig segja um aðrar lagakenningar, svo sem það sem hefur verið nefnt racial legal theory, sem beinir athyglinni að mismunandi stöðu kynþátta í samfélagi manna. Marxískar lagakenningar bera einnig þetta einkenni að nokkru leyti. Sumpart er á því byggt að hlutleysi fræða eða vísinda sé tálsýn. Engin fræðikenning sé í reynd hlutlaus þegar allt kemur til alls.
- Samkenni og grundvöllur femínískra lagakenninga
Femínískar lagakenningar koma fram í mismunandi myndum. Þó eru það þrjú atriði sem einkenna þessar hugmyndir, sem þó tengjast nokkuð.
Í fyrsta lagi er lögð áhersla á félagslegan og/eða lífræðilegan eðlislægan mun karla og kvenna, þótt ekki séu full sammæli um í hverju sá munur sé fólgin.
Í öðru lagi sú skoðun að þjóðfélagið allt, og þar með réttarkerfið, sé reist á feðraveldi (patriarchy). Samfélagið allt sé í raun karlaveldi.
Í þriðja lagi leitast þeir sem aðhyllast femínískar lagakenningar við að skoða og greina hlutverk laga í samfélaginu út frá þeirri forsendu að lögunum og réttindum í samfélaginu sé ætlað að byggja upp, viðhalda og treysta feðraveldið, þ.e. treysta stöðu karla.
Með tveimur síðarnefndu atriðunum er nánar átt við samfélagsskipan, hvort heldur horft er til stjórnmála, efnahagsmála, réttarkerfisins eða félagsskipunarinnar að öðru leyti, sé mótuð af körlum og í þágu hagsmuna karla. Þessi skipan sé þess vegna almennt hagfelldari körlum en konum. Litið er á hið karllæga viðmið, karlmennskuna, sem viðmið allra hluta. Íþróttir, hermennska, viðskipti, starfslýsingar og kröfur um hæfni til að gegn störfum o.s.frv. miðast við karla þar sem litið er á konur sem undantekningu, en þeim beri þó að eiga möguleika eða rétt ef hinar karllægu gildi eða hæfniskröfur eru uppfylltar. Feðraveldið er að áliti femínista samfélagsskipan sem virðir karlæg gildi meira en kvenlæg og þar með karla meira en konur.
Þegar kemur að lögunum birtist feðraveldið að þeirra áliti í því að lögin miða fyrst og fremst við reynslu og sjónarmið karla. Því er haldið fram að talsmönnum femínisma að lögin hafi fyrst og fremst verið mótuð að hvítum menntuðum körlum sem búa við traustan efnahag. Þessir karlar hafa mótað lögin, skilgreint þau, túlkað þau og gefið þeim merkingu sem fer saman við skilningi þeirra á heiminum og „öðru“ fólki og tekur mið að stöðu þeirra og lífsgildum. Þótt lögin séu sniðin að feðraveldi þýði það ekki lögin taki ekki til kvenna. Mörg lagaákvæði fjalla um stöðu kvenna sérstaklega, en þau ganga út frá skilningi karla á konum, skilningi þeirra á kveneðli, hugmyndum þeirra um hæfileika kvenna, getu og reynslu. Refsiákvæði um nauðgun og annað ofbeldi gegn konum byggja á skilningi karla á því hvað er nauðung, hvað er ofbeldi o.s.frv. Einnig má nefna „fjölskylduna“. Hugtakið er skilið að hætti karla, þ.e. karl og hans kona, sem er að einhverju leyti háð honum. Önnur fjölskylduform eru viðurkennd, en þau eru samt talin „frávik“ frá því sem er eðlilegt.
- Uppruni femínískra lagakenninga
Einn fyrsti kenningasmiðurinn sem telja má til femínista er Mary Wollstonecraft (1959-1797), sbr. rit hennar A Vindication of the Rights of Women frá 1792.(Sjá nú íslenska þýðingu. Til varnar réttindum konunnar. Þýð. Gísli Magnússon. Lærdómsrit Bókmenntafélagsins 2016). Hugmyndir þær sem fram koma í ritinu eru reistar á því að konur séu skynsemisverur og þar með færar um að bera borgaralegar skyldur, rétt eins og karlmenn. Konur virðist eingöngu standa karlmönnum að baki vegna skorts á menntun og tækifærum til jafns á við karla. Ekki gekk hún þó svo langt að konur ættu þar með að njóta fullra pólitískra réttinda á við karla. Femínískar jafnréttishugmyndir að því tagi komu síðar til, en almennum kosningaréttur kvenna og kjörgengi var ekki viðurkenndur fyrr en löngu síðar (t.d. árið 1915 á Íslandi). Kenningar Wollstonecraft bera að skoða sem andsvar við drottnandi karllægum viðhorfum til kvenna á þeim tíma sem bókin er skrifuð. Megináhersla er á konur sem skynsamar verur og þeim beri réttur til menntunar til þess að fá notið sín á sínum forsendum.
Annar frægur höfundur, sem talinn er hafa haft gífurlega mikil áhrif fyrir þróun femínískra hugmynda á 20. öld er franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Simon de Beauvoir, einkum með riti sínu Hitt kynið (e. the Second sex, f. Le deuxième sexe).
Bókin var mikið brautryðjendaverk á sviði femínisma og margir heimspekingar eru á þeirri skoðun að þetta rit sé merkast framlag hennar til heimspeki og lykilverk á sviði femínisma. Ritið fékk bæði í senn mjög góðar viðtökur hjá mörgum þegar það kom út, en líka ákafa gagnrýni frá öðrum. Bókin var svo umdeild að hún var sett á lista yfir bannaðar bækur í Vatikaninu í Róm. Telja margir að með þessari rannsókn sinni á stöðu kvenna í sögulegu og félagslegu ljósi hafi Beauvoir komið af stað femínistahreyfingu samtímans og mun þess vafalaust verða minnst sem eins af helstu byltingarritum 20. aldar. Það hefur engu að síður verið umdeilt og var Beauvoir meðal annars verið sökuð um karllegan hugsunarhátt, sem gerði lítið úr móðurhlutverkinu. Simon de Beauvoir fór eigin leiðir í lífi sínu og verki.
Meginþema bókarinnar er sú hugmynd að konunni hafi verið haldið í kúgunarsambandi við mann með því að skilgreina hana vera karlsins „hinn“ (The man‘s other“, eins og það er orðað á ensku). Hitt kynið. Þetta er m.a. byggt á hugmynd sem kemur fram í heimspeki Hegel og Sartre (sem var fylginautur Beauvoir og eitt frægasta par 20. aldar) að sjálf mannsins þarfnist „annars“ til að vera fært um að skilgreina sjálft sig. Beauvoir telur að rannsóknir hennar hafi leitt í ljós að konan sé endurtekið skilgreind af sjálfi karla sem „hinn“ eða „hitt kynið“
Nánar eru rök hennar fyrir jafnrétti þessi: Í fyrsta lagi reynir hún að sýna fram á hvernig karllæg hugmyndafræði nýtir sér mun kynjanna til að koma á kerfi sem felur í sér misrétti. Líffræðilegur munur kynjanna (barnsburður, móðurhlutverkið o.s.frv.) er notað til að skilgreina tiltekið hlutverk kvenna sem felur í sér misrétti. Á hinn bóginn er þessum mun milli kynjanna eytt með því að líta á karlinn sem hina eiginlegu mannlegu veru. Fyrirmyndin sem annað er miðað við. Jafnréttishugmynd hennar byggir á áherslu á að kona og karl umgangist og líti hvort á annað sem jafningja, en um leið að kynjamunurinn sé gerður gildandi, þ.e. hann sé viðurkenndur. Jafnrétti er ekki háð því að þau séu alveg eins og það er rangt að nýta sér kynjamun til að beita konur misrétti.
Hún bendir t.d. á að okkur sé tamt að tala um konur sem veikara kynið. Hver er grundvöllurinn að þessari staðhæfingu spyr hún? Hvað styrkleikaviðmið eru notuð? Er það vöðvastyrkur? Meðal líkamsstærð? Ef þetta er notað má segja að karlar séu sterkara kynið. En hvað með langlífi? Konur lifa að meðaltali lengur en karlar. Er það ekki merki um að konur séu í raun sterkara kynið? Þetta sýnir að niðurstaðan um hæfni og styrk einstaklings ræðst af því viðmiði sem við kjósum að nota og val á viðmiði er oft mjög hlutdrægt og valið til að fá fram fyrirframgefna niðurstöðu.
Niðurstöður Beauvoir hefur orðið mörgum femínistum íhugunarefni og hún er talin kristallast í setningunni: „maður fæðist ekki kona, heldur verður kona.“ Þar með hafnaði Beauvoir ríkjandi hugmyndum um meðfætt eða náttúrulegt séreðli kvenna og lagði grunninn að þeirri skoðun að almennar hugmyndir um sérkenni kvenna, í samanburði við karla, ætti rætur í menningarlegri og félagslegri mótun, fremur en í eðlislægum líffræðilegum mun. Beauvoir bent á að flestar skilgreiningar á hugtakinu „kona“ gangi út frá því að konur séu hluti þess sem nefnt hefur verið tvenndarparið, þ.e. karl/kona, þar sem karlinn er settur yfir konuna. Hún benti á að karlmenn þyrftu aldrei að spyrja sig: Hvað er karl? Ástæðan er sú að karlinn er hið eðlilega viðmið en konan er frávikið eða „hitt kynið“ eins og Beauvoir orðaði það. Það er hinn (the other). Þetta mótaði samfélagslega stöðu kvenna á allan hátt og setti þær skör lægra en karla.
Hún lagði megináherslu á frelsi kvenna og að þær nytu réttar til jafns við karla. Hún andmælti því að hlutskipti þeirra sem „hitt kynið“ ætti að skerða möguleika þeirra og tækifæri. Af þeim sökum andmælti hún af ákafa hugmyndum um áskipaða hlutverkaskiptingu kynjanna sem byggja á líffræðilegu kyni. Með hinni fleygu setningu „maður fæðist ekki kona, heldur verður kona“ leitaðist hún við að sýna fram á að kyn væri ekki „líffræðileg örlög“ sem dæmdu konur til ófrelsis.
Þótt femínistar deili ekki allir skoðunum Beauvoir, m.a. varðandi eðlislægan mun karla og kvenna, og sumir telji hugmyndir hennar full karllægar, var það meðal annars fyrir líf og höfundarverk kvenna eins og Beauvoir að hugmyndin um jafnrétti karla og kvenna varð ráðandi þáttur í femínískum lagakenningum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. „Ryksugan á fullu, étur alla drullu“ sungu Rauðsokkur á Íslandi til að mótmæla þessum hefðbundnu hugmyndum um stöðu kvenna. Þær féllust ekki á að það væri áskapað hlutverk þeirra að vera heima og ryksuga til búa karlinum hreint og notalegt heimili þegar hann kæmi heim úr vinnunni!
Segja má að barátta fyrir jafnrétti karla og kvenna hér á landi, sem og löggjöf og aðrar aðgerðir á því sviði séu afrakstur þessarar frjálslyndu stefnu. Má þar nefna jafnréttislög, hjúskaparlög og önnur löggjöf á sviði fjölskylduréttar, vinnulöggjöf, almannatryggingar o.s.frv. Þarf ekki annað er að skoða allt þetta regluverk til að sannfæra sig um að árangur verður að teljast verulegur. Fer því þó fjarri allir séu sammála um að sú barátta og viðleitni sé reist á réttum forsendum. Enda er það svo að femínískar lagakenningar hafa síðan þróast í aðrar áttir og jafnvel andstæðar, þótt margvísleg samkenni séu á þeim.
Sem dæmi má nefna að hugtakið jöfnuður (jafnrétti) karla og kvenna hefur orðið femínískum lagakenningarsmiðum tilefni ágreinings milli þeirra sem aðhyllast svonefndar frjálslyndar femínískar lagakenningar og annarra femínískra kenningasmiða. Þeir síðarnefndu telja hina hefðbundnu kröfu um jafnrétti kynjanna reist á ókynbundinni hugmynd um hinn skynsama þjóðfélagsþegn sem í reynd horfi framhjá þeim félags- og líffræðilega mun sem sé á körlum og konum. Þessi eðlislægi munur á körlum og konum dragi í reynd úr möguleikum kvenna til að neyta pólitískra réttinda til jafns á við karla, enda felist í þeirri kröfu að konur verði fullgildir meðlimir í karlaklúbbi, þar sem þær muni ávallt standa verr að vígi.
Greina má a.m.k. fjögur mismunandi afbrigði femínískra lagakenninga í réttarheimspeki: frjálslyndar kenningar (liberal), menningarlegar kenningar (cultural), róttækar (radical) og síð-modernískar (post-modernist).
- Frjálslyndar femínískar kenningar
Þetta afbrigði femínískra lagakenninga á sér lengsta sögu, en önnur afbrigði eru síðar til komin. Viðurkenning á kosningarétti og kjörgengi kvenna á s.h. 19. aldar og á f.h. 20. aladar er afrakstur þessara hugmynda, sem og síðar einkum um og eftir 1960 aukin viðurkenning á jafnrétti karla og kvenna, sbr. löggjöf á sviðum sem nefnd er hér að ofan.
Grunnhugmynd frjálslyndrar femínískra kenninga er að leitast við fá það viðurkennt að konur eigi að njóta sama réttar og karlar á öllum sviðum, svo sem á sviði kosningaréttar og þátttöku í pólitísku lífi, rétt til menntunar, rétt til starfa, rétt til sömu launa o.s.frv.
Segja má að í orði hafi verið fallist á þessa sjálfsögðu kröfu í Vestrænum lýðræðisríkjum, þótt víða skorti nokkuð á í reynd, að margra mati, að fullur og viðunandi árangur hafi náðst. Þótt ennþá sé verk að vinna ættu flestir að geta fallist á að hinar frjálslyndu kenningar hafi skilað konum raunhæfum og mikilvægum árangri.
Sumir fylgismenn femínískra lagakenninga telja þó að þessi árangur hafi verið keyptur dýru verði, kannski full dýru verði. Þeir segja að megininntak hinna frjálslyndu kenninga hafi verið að tryggja stöðu kvenna til jafns á við karla, í samfélagi sem er karllægt í eðli sínu. Breytingar hafi því tryggt konum jafnan rétt í heimi karla. Hin karllægu norm og viðmiðanir eru eftir sem áður reglan. Ennfremur, með því að miða að afnámi sýnilegra birtingamynda ójafnrar stöðu kynjanna, hafa frjálslyndar kenningar brugðist með því að skoða ekki uppruna eða rætur þessa ójafnréttis. Einkennin hafa verið afmáð, en meinið hefur ekki verið læknað. Meðan svo er muni konur ekki njóta sannmælis að fullu.
Eitt afbrigði þessarar hugmyndar miðar að því forðast þá gildru sem hinar frjálslyndu kenningar hafi fallið í, þ.e. að koma konum í raðir „heiðviðra og virðulegra karla”.
- Menningarlegar femínískar lagakenningar
Helsti kenningarsmiður hinna menningarlegu femínísku kenninga í réttarheimspeki er sálfræðingurinn Carol Gilligan (ritið: In a Different Voice).
Kenningar hennar byggja á því að eðlislægur munur sé á kynjunum, og í heimi sem karlar ráði, séu hin kvenlegu sjónarmið í versta falli óþekkt og í besta falli vanmetin.
Á skorti að þau sé viðurkennd og metin að verðleikum. Gilligan skilgreinir eða auðkennir hin kvenlægu sjónamið með vísan til umhyggju og persónutengsla (care and conectness), og sýn þeirra á siðferðileg markmið og þarfir séu aðrar en karla. Konur vilja tengjast öðrum og óttast aðskilnað. Karlar leggja áherslu á sjálfstæði og óttast að það verði skert. Þeir sem aðhyllast þessar kenningar vilja breyta stofnunum samfélagsins til að tryggja að hinum sérstöku kvenlægu sjónarmið heyrist og fái brautargengi og þau séu metin að verðleikum. Hið kvenlæga sjónarmið einkennist af áherslu á þörf fyrir tilfinningalega næringu, umhyggjusemi og persónuleg tengsl. Hún segir að þetta séu jú vissulega kvenlæg einkenni, þau séu staðreynd og þau beri að virða og taka beri tillit til þeirra.
Vegna eðlis síns hafa konur aðra sýn á siðferðileg úrlausnarefni, sem birtist m.a. í aðferðum við úrlausn ágreiningsefna. Drengir líta á einstaklinga sem sjálfstæðar einingar og í sérhverri deilu leita þeir að reglunni sem á við um málefnið til að sjá hver réttur hvers og eins er. Drengir sjá þannig deilu sem baráttu andstæðra póla þar sem annar hlýtur að hafa rétt fyrir sér en hinn rangt, og sá fyrrnefndi fer með sigur. Þetta nefnir Gilligan siðferði réttinda. Á hinn bóginn leita stúlkur ekki lausna sem byggjast á réttindum, heldur á að leita lausna sem viðhalda samböndum. Stúlkur leita ekki að reglum til að leysa ágreining, heldur sérsniðinni lausn fyrir sérhvert álitamál. Þær vilja leysa mál þannig að tekið sé tillit til beggja deiluaðila. Þær hugsa í þörfum og ábyrgð á öðrum, en ekki í réttindum.
Gilligan telur að barátta kvenna fyrir viðurkenningu eigi að snúast um að þessir eiginleikar og þetta eðli kvenna sé metið af verðleikum. Þetta er „önnur rödd“
Um þessar hugmyndir er erfitt að alhæfa, en þær virðast stundum vera nokkuð öfgakenndar. Einn kenningarsmiðurinn er Robin L. West., en hún er raunar af sumum talin vera á mörkum hinna menningarlegu kenninga og róttækra femínískra kenninga.
Hún segir að heimsmynd karla sé í grundvallaratriðum önnur en kvenna, þar sem karlar sjái fyrir sér heiminn sem byggðan upp af aðskildum og sjálfstæðum einstaklingum, öndvert við konur sem „ekki eru í eðli sínu, nauðsynlega, óhjákvæmilega, alltaf og að eilífu aðskildar frá öðrum mannlegum verum, en eru þess í stað „tengdar” við lífið og við aðrar manneskjur.” Nefnir hún ferns konar aðstæður sérstaklega sem gera reynslu kvenna að þessu leyti aðra en karla, þ.e. kynmök (þar sem konan tekur við og umvefur), þungun, mánaðarlegar blæðingar og brjóstagjöf.
Gallinn við þessa framsetningu er að margra mati næsta augljós, en hann er sá að milljónir kvenna deila ekki þessari reynslu í öllu tilfellum og sumar engu af þessu. Fjöldi kvenna eru óbyrjur, af mismunandi ástæðum, sem eiga þess aldrei kost að lifa þá reynslu sem felst í þungun. Annars eins fjöldi tekur þá meðvituð ákvörðun að verða ekki þungaðar undir nokkrum kringumstæðum. Enn aðrar einfaldlega pipra og eru aldrei við karlmann kenndar, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þá er fjöldi kvenna samkynhneigður og á aldrei kynferðislegt samneyti við karla og hefur ekki áhuga á því. Þá má ekki gleyma því að fjöldi kvenna hefur ekki blæðingar af læknisfræðilegum ástæðum og í öllu falli hætta blæðingar þegar ákveðnum aldri er náð. Og að síðustu, fjölmargar konur annað hvort mjólka ekki eða ákveða, af mismunandi ástæðum, að hafa börn sín ekki á brjósti, nema þá kannski eins stutt og þær telja óhjákvæmilegt. Spurt er hvaða stað eiga þessar konur í hugmyndaheimi Robin West, eða eru þetta kannski ekki eiginlegar konur að hennar mati?
Í stuttu máli er erfitt að festa hendur á því sem telja má sameiginlega reynslu allra kvenna, sem greini þær algjörlega frá reynslu og hugmyndaheimi karla.
- Róttækar femínískar lagakenningar
Hinar róttæku femínísku lagakenningar koma fram í ýmsum myndum, en áherslan er á að konur séu sérstök stétt sem búi við yfirráð karla. Helsti talsmaður slíkra kenninga er Chatarine MacKinnon.
Öll lagaleg yfirbygging samfélagsins tryggir og festir í sessi yfirráð karla. Þungamiðja hinna róttæku femínísku lagakenninga er að uppræta mismunun kynjanna. Þetta á ekki að gerast með þeim hætti að konur komist til metorða og áhrifa í heimi karla, heldur verði að skoða konur og stöðu þeirra á þeirra eigin forsendum, en ekki forsendum karla.
Gengið er út frá því að hin almenna og viðtekna hugmynd um það hvað felst í því að vera kona sé karllæg og hafi orðið til í hugmyndaheimi karla. Mismunur kynjanna sem talinn er vera, hvort sem afleiðingar hans eru neikvæðar eða jákvæðar fyrir konur, er skilgreindur af körlum í krafti valds þeirra.
Samkvæmt hinum karllægu hugmyndum eru sumir eiginleikar tengdir körlum aðrir konum. Aðstaðan er sú að samfélagið almennt metur hina karllægu eiginleika meira. Af því leiðir að fyrirframgefnar hugmyndir (karla) um karllæga eiginleika annars vegar og kvenlæga hins vegar leiða til verri stöðu kvenna. Munur kynjanna sé þessi, sbr. F. Olsen Feminism and Critical Legal Theory (1990):
-
- Male Female
- Rational Irrational
- Active Passive
- Thought Feeling
- Reason Emotion
- Culture Nature
- Power Sensitivity
- Objective Subjective
- Abstract Contextualised
Í heimi karla eru sumir eiginleikar taldir karmannlegir og þar með æðri, en aðrir kvenlægir og þar með óæðri. Þörf er á að breyta þessum almennu hugmyndum um mun kynjanna. Samfélagið metur hina meintu karllægu eiginleika meira og konur standa þar með verr að vígi.
- Síð-módernískar femínískar lagakenningar
Þeir sem aðhyllast síð-modernískar lagakenningar hafna því, eins og síð-módernistar endranær, að til sé heildarsannleikur eða algildur sannleikur um mannlegt samfélag, eðli og þarfir. Þannig er jafnrétti kynjanna hugmynd búin til af fólki, eins konar samfélagsleg stofnun. Það er vissulega augljóst að í samfélagi sem mótað er af körlum þarf að jafna hlut kvenna til jafns á við karla. Á hinn bóginn þurfa femínistar að gæta þess að miða ekki leitina við að finna nýjan heildarsannleika, til að leysa af hólmi hinn gamla. Þeir hafna því að til sé eitthvað sem heitir “sjónarmið kvenna” eða einhver endanleg skilgreining á því hvað það merkir að vera “kona”. Engin ein kenning um jafnrétti er til sem er til hagsbóta fyrir allar konur. Í raun og veru er engin ein breyting eða markmið sem þjónar hagsmunum allra kvenna. Þegar haft er í huga að konur, rétt eins og karlar, heyra til mismunandi þjóðum eða þjóðarbrotum, kynþáttum, trúarbrögðum, menningarheimum og síðast en ekki síst þá staðreynd, að þær lifa, rétt eins og karlar, við efnalega og menntunarlega stéttaskiptingu innan sama samfélags, sé útilokað að skilgreina þá þætti sem geti eða eigi að leiða til samstöðu meðal allra kvenna.
Helstu rit sem stuðst hefur verið við:
Raymond Wacks: Understanding Jurisprudence (2005).
Wayne Morrison. Jursiprudence. From Greeks to post-modernism (1997).
Michael Doherty: Jursiprudence. The Philosophy of Law (2005).
J.G. Riddall: Jursiprudence. 2. útgáfa (1999).
Loyd´s Jursiprudence: 7. útgáfa M.D.A. Freedman, einkum bls. 1122-1252. Þar er að finna valda kafla úr verkum helstu höfunda á þessu sviði.