Helförin og tjáningarfrelsið – „Hitler í Karókí“

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 þar sem lagt er til að refsivert verði að afneita helförinni. Fyrsti flutningsmaður hennar er Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar, en að frumvarpinu standa einnig aðrir þingmenn þess flokks, sem og einn þingmaður Viðreisnar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson sem nýlega gekk í raðir Pírata.

Í 1. gr. frumvarpsins segir: “Hver sá sem opinberlega afneitar, gróflega gerir lítið úr, eða reynir að réttlæta eða samþykkja þjóðarmorð sem framin voru á vegum þýska nasistaflokksins í síðari heimsstyrjöldinni skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.”

Nú kann ýmsum að finnast þessi frumvarpsgerð sérkennileg og eftir atvikum óþörf. Langt sé um liðið og vandséð hvaða tilgangi svona löggjöf þjóni. Í því sambandi er vert að geta þess að slík löggjöf eða hliðstæð er í lögum víða í aðildarríkjum Evrópuráðsins og hefur reglulega komið til kasta MDE.

Framferði Nasista í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar og í styrjöldinni sjálfri er vel þekkt og skráð í sögubækur. Er það stuttlega rakið í greinargerð með frumvarpinu og þarf ekki að rekja það hér. Ber þar hæst helförin, sem  stundum er kennd við hina endanlegu lausn á gyðingavandamálinu sem nasistar skilgreindu svo. Var sú stefna mótuð að drepa alla gyðinga sem til næðist. Talið er að á grundvelli þessarar stefnu að fórnarlömbin hafi verið um 6 milljónir. Þá voru drepnir í þúsundatali meðlimir annarra minnihlutahópa, Rómfólk, samkynhneigðir, fatlaðir o.s.frv. Er þetta vissulega einn stærsti glæpur mannkynssögunnar og þeir eru þó margir og stórir.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fengist við mál þar sem reynir á hvort slík takmörkun á tjáningarfrelsinu sem lögð er til í frumvarpinu stenst ákvæði 10. gr. MSE sem verndar tjáningarfrelsið. Hefur dómstóllinn ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að slík tjáning sé einfaldlega ekki vernduð af ákvæðinu eða eftir atvikum feli í sér lögmæta takmörkun á því í skilningi 2. mgr. 10. gr. MSE. Skýrslur og samþykktir á vegum Evrópuráðsins styðja við það.

Í greinargerðinni með frumvarpinu er vísað til dóma eða ákvarðana MDE til frekari rökstuðnings fyrir frumvarpinu. Nefnd er ákvörðun í máli Pastörs gegn Þýskalandi, þar sem fram kemur að bann við tjáningu sem felur í sér afneitun helfararinnar eða minna úr henni gert en efni standa til. Pastörs þessi, sem var þingmaður í Þýskalandi  hafði verið dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa brotið gegn þýskum hegningarlögum þar sem hann í ræðu sem hann flutti hafi hann viljandi haft í frammi ósannindi um helförina til að varpa rýrð á gyðinga og þær ofsóknir sem þeir urðu fyrir. MDE taldi staðhæfingar hans fela í sér vanvirðingu við fórnarlömbin. Talið var að þessi framsetning hefði varpað rýrð á gyðinga og stuðning við ofsóknir sem þeir urðu fyrir í seinni heimsstyrjöldinni. Var kærunni vísað frá vegna þessa litið var svo á að kærandi misnotaði réttindi sín sem tryggð væru í sáttmálanum og vísað til 17. gr. hans.

Nefna má eldri ákvörðun í máli Garaudy gegn Frakklandi (2003) sem er mikilvægasta fordæmið um þetta efni. Þar var fjallað um mál sagnfræðings sem setti ýmsa fyrirvara við þá sögu um helförina sem sett hafi verið fram af sagnfræðingum. Í ákvörðuninni kemur fram að enginn vafi sé á að afneitun á skýrlega staðfestum sögulegum staðreyndum, eins og helförinni, eins og gert hafi verið í bók sagnfræðingsins um þetta efni, verði ekki flokkuð sem sagnfræði sem miði að því að leiða sögulegan sannleika í ljós. Markmiðið sé allt annað, en það hafi klárlega verið að endurreisa hugmyndfræði nasisimans og varpa ábyrgðinni á helförinni á fórnarlömbin sjálf. Afneitun á slíkum glæp gegn mannkyni sé alvarlegasta form rasískrar tjáningar til að varpa rýrð á gyðinga og hvatning til haturs gegn þeim. Þessi tjáning sé ósamrýmanleg lýðræðinu og mannréttindum vegna þess að með þessari tjáningu séu skert réttindi annarra. Var kærunni vísað frá vegna þessa litið var svo á að kærandi misnotaði réttindi sín sem tryggð væru í sáttmálanum og vísað til 17. gr. hans.

Enn má vísa til ákvörðunar í máli M'Bala M'Bala gegn Frakklandi. Dieudonné M'Bala M'Bala er uppistandari í Frakklandi og hefur víða sætt kærum og dómum fyrir and-gyðinglega fyndni sína, sem margir eru á að hafi farið langt út fyrir ásættanlega mörk. Málsatvik eru að í desember 2008 stjórnaði hann sjónvarpsþætti í Frakklandi og bauð þar Robert nokkrum Faurisson, sem er fræðimaður sem hefur afneitað tilvist gasklefa í búðum nasista. Í lok þáttarins voru Faurisson veitt verðlaun og um það sá leikari sem klæddur var búningi samsvarandi þeim er gyðingum í fangabúðum nasista var gert að klæðast. Verðlaunin voru veitt fyrir það sem heitir á ensku “unfrequentability and insolence” sem ef til vill má þýða sem óskammfeilni og ósvífni, en þau voru þriggja kerta stjaki þar sem epli höfðu verið sett í stað kerta. M’Bala M’Bala var kærður fyrir  tiltækið og fyrir móðgun og smánun gagnvart gyðingum. Hann var síðar dæmdur í sekt. Hann kærði til MDE og hélt því fram að tjáningarfrelsi sitt hefði verið skert í andstöðu við 10. gr. MSE. Dómurinn taldi að að satírur nytu almennt verndar sáttmálans. Í þessu tilfelli hefði þó verið farið út fyrir mörk skemmtunar og í heildarsamhenginu vitnaði þetta atriði um hatur og andúð á gyðingum og stuðning við helförina. Málinu var vísað frá á grundvelli 17. gr. MSE um misnotkun réttinda. Fleiri dóma eða ákvarðanir má nefna þótt ekki verði gert hér. Af þessu verður ekki dregið í efa að frumvarpið samræmist MSE, þótt auðvitað verði að beita reglunni sem þar er sett fram með fullri meðvitund um meginregluna um rétt borgaranna til að tjá sig, jafnvel þótt tjáning þeirra sé hvöss og óbilgjörn.

Í greinargerðinni er rætt um að þótt ekki hafi reynt á tjáningu af þessu tagi hér á landi sem frumvarpinu er stefnt gegn sé mikilvægt að vera á varðbergi og fyrirbyggja hana eftir því sem unnt er.

Þetta má vera rétt. Hinu verður þó ekki horft framhjá að nokkuð ber á því að kallað sé eftir ákvæðum sem eru til þess fallin að takmakra tjáningarfrelsið. Gerist þetta með því að hugtakið hatursorðræða er víkkað út. Sumt sem áður var hlegið að því sem er nú ekki lengur álitið fyndið af því það er talið særandi og til þess fallið að móðga tiltekna hópa. Er þá kallað eftir því að spaugarar gæti sína, en ella megi þeir vænta viðbragða.

Í þessu andrúmslofti er alls ekki víst að ekki geti reynt á lögin verði þau sett. Má í því sambandi nefna að Adolf Hitler hefur í óteljandi skipti verið viðfangsefni spaugara víða um lönd og mörg höfum við hlegið að slíku, eða a.m.k. brosað út í annað. Íslenskir spaugarar eru þar ekki undanskildir.

Við lestur frumvarpsins komu mér í huga atriði úr Fóstbræðrum, þeim skemmtilegu þáttum, sem þó voru á köflum nokkuð óskammfeilnir og allt að því ósvífnir þótt í búningi satíru séu. Þetta eru atriði sem bera á Youtube yfirskriftina „Adolf Hilter – No regrets“ og „Hitler í Karókí“.

Lesendur geta spreytt sig á þeirri spurningu hvort þessi atriði  hefðu falið í sér brot á lögunum ef í gildi hefðu verið þegar þau birtust fyrst, nú eða hvort þar eftir yrði sýning þeirra refsiverð. Satíra er þetta vissulega og ég er nokkuð viss um að margir hafa hlegið að þessu. Til að taka af öll tvímæli dettur mér auðvitað ekki í hug að fyrir Jóni Gnarr og félögum hafi vakað annað en að vera skemmtilegir og sniðugir og þeir séu í nákvæmlega engu hallir undir orðræðu af því tagi sem frumvarpinu er stefnt gegn. Samt myndu sumir líklega telja þetta nokkuð á brúninni. Hér eru þessi atriði.

https://www.youtube.com/watch?v=Ilq_iFKLTQM

https://www.youtube.com/watch?v=Hl_mjFn9feo

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.