Áhrif dóms Yfirdeildar MDE á starfsemi Landsréttar

Dómur Yfirdeildar MDE í Landsréttarmálinu liggur nú fyrir. Þetta er mikil lesning, alls 153 blaðsíður, en þar af eru sératkvæðin (sperate opinions) 36 síður sem sex dómarar koma að með einum eða öðrum hætti. Allt er þetta fróðlegt í fræðilegum og tæknilegum skilningi. Enginn þessara dómara sem standa að sératkvæðum er þó ósammála megin niðurstöðunni um aðal kæruefnið, sem er að kærandi hafi ekki fengið málsmeðferð fyrir dómstól sem starfar samkvæmt lögum í skilningi 1. mgr. 6. gr. MSE. Þetta er sama niðurstaðan og í dómi deildar sem kveðinn var upp 12. mars 2019.  Um hana má deila, en þetta er lokaniðurstaða MDE og við hana verður að una hvað sem mönnum annars finnst.

Þegar dómur í deild féll 12. mars á síðasta ári hafði hann nokkur áhrif á starfsemi Landsréttar. Þau helstu voru að endurflutt voru ellefu mál sem í sátu einhver af þeim fjórum dómurum sem málið snýst um. Þessi mál höfðu verið dómtekin þegar dómur MDE féll en ekki dæmd. Þau voru endurflutt fyrir öðrum dómurum réttarins og síðan dæmd. Þetta tók tiltölulega stuttan tíma og olli ekki teljandi röskun á starfseminni. Samhliða var tekin sú ákvörðun að þeir dómarar sem í hlut eiga skyldu ekki sinna dómstörfum um sinn þótt þeir væru annars skipaðir dómarar við réttinn. Með þessu fækkaði um fjóra í hópi dómara sem sinntu dómstörfum. Eðlilega hafði það þau áhrif að álagið á þá sem eftir voru jókst. Þegar á leið fékk Landsréttur einnig liðsauka með því að settir voru dómarar til gera réttinum auðveldara að sinna verkefnum sínum, auk þess sem dómarar hafa verið skipaðir ad hoc til að sitja í einstökum málum. Með þessu tókst að halda nokkuð vel í horfinu meðan beðið var niðurstöðu Yfirdeildar. Hún liggur nú fyrir sem fyrr segir.

Þá er þess að geta að á meðan málið var til meðferðar hjá Yfirdeild voru þrír þessara fjögurra dómara sem málið snýst um skipaðir aftur, en dómur Yfirdeildar fjallar ekki um þær skipanir eða lögmæti þeirra. Hafa þeir eftir að skipun þeirra tók gildi sinnt dómstörfum eins og aðrir dómarar. Þá hafa verið skipaðir sem dómarar við Landsrétt tveir þeirra sem í hæfnismati voru taldir til hinna 15 hæfustu til að gegna embætti dómara við Landsrétt, en voru ekki skipaðir í fyrstu umferð.

Þrátt fyrir þetta leiddi af dómi deildar tvenns konar óvissa sem sveif yfir vötnum á göngum Landsréttar þótt ekki hafi í sjálfu sér haft áhrif á daglega starfsemi svo nokkru nemi. Annað var að vegna orðfæris í dómi deildar frá því í mars á síðasta ári þótti leika viss vafi á hvort niðurstaðan tæki í raun til allra dómara Landsréttar, og eru þá hafðir í huga meintir gallar á atkvæðagreiðslu í þinginu, sem gat eftir orðalaginu talist hafa áhrif á stöðu þeirra, en ekki aðeins þeirra fjögurra sem málið hverfist í grunninn um. Hinn óvissuþátturinn var hvort niðurstaðan kynni að leiða til að endurupptaka þyrfti þau mál sem einhver af hinum fjórum dómurum, sem mestur styr hefur staðið um, tóku þátt í að dæma.

Þótt það kunni að hljóma einkennilega er niðurstaða Yfirdeildar til þess fallin að draga úr þessari óvissu, en eðlilegt er að skilja hana svo, ef grannt er skoðað, að hún eigi eingöngu við um fyrrnefnda fjóra dómara (nú í reynd aðeins einn þeirra þar sem þrír hafa verið skipaðir aftur) en ekki alla dómarana eins og mögulegt var að álykta af fyrri dómi MDE.

Að því er varðar síðara atriðið um endurupptöku (reopening) er athyglisvert að í lok dóms Yfirdeildar er að finna eftirfarandi:

The Court further considers that in accordance with its obligations under Article 46 of the Convention, it falls upon the respondent State to draw the necessary conclusions from the present judgment and to take any general measures as appropriate in order to solve the problems that have led to the Court’s findings and to prevent similar violations from taking place in the future. That being said, the Court stresses that the finding of a violation in the present case may not as such be taken to impose on the respondent State an obligation under the Convention to reopen all similar cases that have since become res judicata in accordance with Icelandic law.”

Í fyrri hluta þessara orða er að finna tilmæli til íslenska ríkisins um að grípa til almennra ráðstafana til að leysa úr þeim vandkvæðum sem dómur Yfirdeildar skapar og koma í veg fyrir frekari brot. Um þetta er að segja að þetta hefur þegar verið gert með því að tekin var sú ákvörðun að þeir fjórir dómarar sem niðurstaðan varðar skyldu ekki sinna dómstörfum þegar á grundvelli dóms deildarinnar. Með þessari ákvörðun var augljóslega komið í veg fyrir frekari möguleg brot. Þrír þeirra hafa komið til starfa aftur á grundvelli nýrrar skipunar. Skipan þeirra hefur því verið komið á traustan grunn. Niðurstaða Yfirdeildar skapar því engin vandkvæði sem ekki er þegar búið að leysa úr, að undanskildum einum þessara dómara. Vænta má þess að lausn finnist á vanda er hann varðar áður en langt um líður. Ekki er þörf á að grípa til frekari almennra ráðstafana. Kemur þar tvennt til. Í fyrsta lagi var regluverkið um þessa skipan einnota að nokkru marki, einkum að því er varðar aðkomu þingsins. Í öðru lagi er niðurstaða Yfirdeildar ekki á því byggð að regluverkið sjálft um skipan dómara hafi verið eða sé gallað, heldur því að meinbugir hafi verið á framkvæmd þess í þessu tilfelli. Ætti að vera nægilegt að lesa dóminn gaumgæfilega til að forðast sambærilega uppákomu í framtíðinni.

Um mögulega endurupptöku mála segir ekki annað í hinum tilvitnuðu orðum en að af MSE leiði ekki skyldu ríkja til að tryggja rétt kærenda til að fá mál endurupptekin þótt 6. gr. teljist að áliti MDE hafa verið brotin. Þetta er alkunnugt þeim sem þekkingu hafa á MSE og þarf ekki að koma neinum á óvart. Hitt er þó annað mál að í fjölmörgum dómum MDE, í eins konar obiter dictum, hefur dómstóllinn bent á að einmitt endurupptaka sé heppilegt úrræði til að rétta hlut kærenda sem þola hafa mátt brot gegn 6. gr. MSE. Þetta er ekki gert í dómi Yfirdeildar í Landsréttarmálinu, heldur áréttað að til þess standi engin skylda samkvæmt sáttmálanum. Þetta er athyglisvert svo ekki sé meira sagt á þessu stigi. Mætti skrifa um þetta aðra grein, jafnvel langa fræðigrein.

Í þessum orðum er einnig lögð áhersla á að réttur til endurupptöku ráðist af íslenskum lögum og sé á valdi innlendra stofnana (nú endurupptökudómstóls) að taka ákvörðun um hvort skilyrði endurupptöku eru fyrir hendi eftir íslenskum lögum og hvort hún skuli verða. Þó má vel gera ráð fyrir að þessi orð í dómi Yfirdeildar letji marga til að leggja í slíka vegferð og þeir meti það svo að þeir muni fara erindisleysu. Ekki ætla ég að gerast spámaður um líklega niðurstöðu af slíkri vegferð kjósi einhver aðila þessara mála að leggja í hana. Í öllu falli er líklega óhætt að ætla að til endurupptöku dæmdra mála muni tæpast koma í stórum stíl. Má ætla að komi til þess í einhverjum mæli muni það ekki hafa sérstök vandkvæði í för með sér fyrir Landsrétt sem ekki verður vel við ráðið.

Að öllu samanlögðu kallar niðurstaða Yfirdeildar ekki á neinar sérstakar ráðstafanir af hálfu Landsréttar sem ekki hefur þegar verið tekið til. Með dómi Yfirdeildar er þvert á móti dregið verulega úr þeirri óvissu sem fyrri dómur skapaði og er það vel.

Dómur MDE gefur tilefni til fleiri þanka, m.a. um þátt Hæstaréttar, en í dómi Yfirdeildar  sætir dómur Hæstaréttar frá 24. maí 2018 nokkurri gagnrýni.  Í þessum dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu að einn þeirra fjögurra dómara sem málið varðar væri lögmætur handhafi dómsvalds þrátt fyrir galla á málsmeðferð í aðdraganda skipunar sem sami réttur hafði áður talið vera á henni. Telur MDE að Hæstarétti hafi brugðist bogalistin við að útskýra þetta á fullnægjandi hátt með vísan til viðeigandi meginreglna sáttmálans. Verður dómur MDE tæpast skilin á annan hátt en að þessi dómur Hæstaréttar eigi nokkurn þátt í að ákvæði 6. gr. MSE var talið brotið. Að þessu sögðu gefur þessi rökstuðningur í dómi MDE líka tilefni til margvíslegra hugleiðinga og vekur ýmsar spurningar, m.a. um hvort hann hafi seilst full langt inn á verksvið Hæstaréttar með þessu lögfræðilega ati. En ekki meira um þetta að sinni.

Höfundur er dómari við Landsrétt og fyrrverandi dómari við MDE.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.