1. Forsaga og atvik
Hinn 18. maí sl. kvað Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) upp dómi í máli gegn Íslandi sem varðar réttarstöðu barns sem alið var með aðstoð staðgöngumóður (hér ). Með því er í almennu máli átt við konu sem ber barn undir belti fyrir aðra konu eða par og elur það og afhendir það síðan þeim síðarnefndu.
Atvik voru þau að tvær íslenskar konur (A og B) sem þá voru í hjúskap gerðu sér ferð til Kaliforníu í Bandaríkjunum og sömdu þar við ónefnda konu um að hún bæri barn undir belti fyrir þær og afhenti þeim það strax eftir fæðingu sem þeirra eigið. Þetta gekk eftir. Árétta ber að barnið var getið með erfðaefni úr ónafngreindri konu og ónafngreindum karli og fósturvísinum komið fyrir í móðurlífi staðgöngumóðurinnar. Þannig lá ekkert fyrir um að notað hefði verið erfðaefni frá fyrirhuguðum „foreldum“ og því ekki gert ráð fyrir að líffræðileg tengsl væru milli barnsins og hinna fyrirhuguðu foreldra sem þáðu þessa þjónustu staðgöngumóðurinnar.
Þegar til Íslands var komið synjaði Þjóðskrá um skráningu A og B sem foreldra barnsins á þeim grundvelli að til þessa skorti grundvöll að íslenskum lögum. Skipti engu máli þótt A og B væru samkvæmt lögum í Kaliforníu foreldrar barnsins og hefðu undir höndum vottorð þarlendra yfirvalda því til staðfestingar. Er þess þá meðal annars að geta að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 55/1996 er tæknifrjóvgun eins og hún er skilgreind í þeim lögum bönnuð á Íslandi. Þá var litið svo á að barnið væri erlendur ríkisborgari sem ekki gæti fengið íslenskan ríkisborgararétt. Í kjölfarið var skipaður lögráðamaður fyrir barnið og það síðan sett í umsjá A og B þar til því væri komið fyrir í varanlegu fóstri. Barnið fékk síðar íslenskan ríkisborgarrétt, þótt til þess kæmi síðar vegna lagabreytinga, en A og B voru þó ekki skráðar foreldrar þess.
Ákvörðunin var kærð til dómsmálaráðuneytisins þar sem hún var staðfest. A og B höfðuðu þá mál fyrir dómstólum til að fá þessari ákvörðun hnekkt, en synjunin var staðfest í héraðsdómi, sem og í Hæstarétti (Landsréttur var þá ekki kominn til sögunnar). Í dómi héraðsdóms var talið að vottorð sem gefið var út í Kaliforníu, þar sem A og B voru tilgreindar sem foreldrar, væri augljóslega andstætt grundvallarreglum íslensks fjölskylduréttar og ef fallast yrði á skráninguna á Íslandi væri opnað fyrir greiða leið til að sniðganga bann við staðgöngumæðrun samkvæmt íslenskum lögum. Þá var talið, þótt fallast mætti á að fjölskyldutengsl hefðu myndast milli barnsins og A og B , væri skerðing á rétti til fjölskyldulífs sem í synjuninni fælist réttlætanleg með tilliti til nauðsynjar á að gæta hagsmuna kvenna af vernd gegn því að verða ekki beittar þrýstingi til að taka að sér hlutverk staðgöngumóður, sem og með tilliti til hagsmuna barns af því að þekkja uppruna sinn. Með því að fela barnið A og/eða B til fósturs væru slík fjölskyldutengsl nægilega tryggð.
Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms, en taldi á hinn bóginn að tengsl A og B við barnið hafi þá fyrst öðlast stjórnarskrárvernd eftir að barnaverndarnefnd hafði samþykkt að barnið skyldi vistað hjá A og B og þá á grundvelli þess sambands sem síðan varð að formlegu fóstursambandi. Fram að því hefðu þau fjölskyldutengsl ekki skapast að íslenskum lögum þar sem hvorug þeirra A og B hafði gengið með og alið barnið né hafi verið til staðar þau líffræðilegu tengsl sem áskilin séu í 2. mgr. 6. gr. barnalaga. Vísað var til dóms MDE í máli Paradiso o.fl. v Italy þessu til stuðnings. Enn er þess að geta að meðan málið var til meðferðar fyrir dómstólum slitu A og B hjúskap sínum og féll þá niður umsókn þeirra um ættleiðingu barnsins sem þær höfðu áður staðið sameiginlega að, en í héraðsdómi er þess getið að hefði ekki til þessa komið hefði þeim að öllum líkindum verið fært að ættleiða barnið og með þeim hætti koma á foreldratengslum að lögum.
2. Dómur MDE
Í kæru sinni til MDE í hinu íslenska máli héldu A og B því fram að synjun um að skrá þær sem foreldra barnsins að lögum og neita að viðurkenna hið bandaríska fæðingarvottorð fæli í sér brot rétti þeirra og barnsins til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu samkvæmt 8. gr. MSE. Synjunin jafngilti því að svipta þær og barnið rétti til löglegs og stöðugs sambands barns og foreldris. Sérstök áhersla var lögð á að stöðug félagsleg tengsl væru ekki nægileg til að tryggja rétt barna, svo sem vegna erfðaréttar þeirra. Þá héldu kærendur því fram að þeim hefði verið mismunað í bága við 14. gr. sáttmálans um bann við mismunun vegna þess að fyrir væri að fara ákvörðunum þar sem á slíka skráningu hefði verið fallist við áþekkar aðstæður.
MDE hefur áður fjallað um mál sem varða staðgöngumæðrun. Í fyrri málum hefur MDE byggt á hagsmunum barnsins í tilvikum þar sem maðurinn sem gert er ráð fyrir að yrði faðir barnsins að lögum var einnig líffræðilegur faðir, sbr. Mennesson v France og Labassee v France. Í því máli sem hér er til umræðu var þessari aðstöðu ekki til að dreifa, en hvorugt fyrirhugaðra foreldra tengist barninu líffræðilega svo vitað væri. Að auki hefur MDE komist að þeirri niðurstöðu í málum þar sem hinir ætluðu foreldrar hafa engin erfðafræðileg tengsl við barnið, að ríki séu ekki skyld til að viðurkenna erlend fæðingarvottorð sem votta um lögformleg foreldratengsl á grundvelli samninga um staðgöngumæðrun við þessar aðstæður og nægilegt sé til að tryggja réttindi samkvæmt sáttmálanum að þeim sé komið á eða viðhaldið með öðrum hætti, svo sem með ættleiðingu eða fósturráðstöfun. (sjá: Advisory Opinion). Niðurstaða málsins var sú að synjun Þjóðskrár um skráningu A og B sem foreldra barnsins var ekki talin brjóta gegn 8. gr. MSE. Þá var talið að þessi takmörkun væri réttlætanleg með vísan til hagsmuna annarra, þ.e. vernd mögulegra staðgöngumæðra. Enn er áréttað í dóminum ekkert sammæli væri meðal aðildarríkja Evrópuráðsins um staðgöngumæðrun og hvort heimila beri hana. Væri svigrúm ríkja þannig mikið til að ákveða hvernig málum þessum skyldi hagað án þess að fara á svig við skyldur samkvæmt sáttmálanum. Með því að önnur úrræði, eins og fósturráðstöfun eða ættleiðing, til að tryggja áframhaldandi fjölskyldutengsl stæðu til boða væri ekki unnt að skylda ríki til að viðurkenna að foreldratengsl í lögformlegum skilningi barnalaga hefðu stofnast á grundvelli samnings eða áætlunar um staðgöngumæðrun. Þá hafnaði dómurinn einnig röksemdum sem byggðust á banni við mismunun samkvæmt 14. gr. MSE.
3. Athugasemdir og hugleiðingar
(1) Þótt dómur þessi falli í öllum meginatriðum að fyrri dómaframkvæmd MDE um áþekk álitaefni er þó eitt atriði í honum sem segja má að feli í sér viðbót við hana og telja má til tíðinda. Í dóminum fjallaði MDE fyrst um hvort myndast hefðu fjölskyldutengsl. Íslenska ríkið hélt því meðal annars fram að engin fjölskyldutengsl hefðu myndast milli A og B og barnsins áður en því var komið fyrir í fóstri hjá kærendum með lögmætum hætti. Þessari röksemd, sem Hæstiréttur byggði meðal annars á niðurstöðu sína, var aftur á móti hafnað í dómi MDE og talið að skilyrði fjölskyldulífs væru fyrir hendi, þótt engin líffræðileg tengsl væru til staðar, en þau byggðust á löngum og óslitnum tengslum A og B við barnið frá fæðingu þess, sem hafi síðar verið treyst frekar með fósturráðstöfun á Íslandi. Féllst dómurinn þannig að á niðurstaða Hæstaréttar fæli ekki í sér brot á sáttmálanum þótt hann féllist ekki á rök Hæstaréttar um hvenær fjölskyldutengsl sem nytu verndar sáttmálans hefðu fyrst stofnast. Er niðurstaða MDE að þessu leyti í samræmi við afstöðu héraðsdóms, en þar segir að frá fæðingu barnsins hafi A og B annast það og í reynd gegnt öllum umönnunar- og uppeldisskyldum gagnvart því allt til þessa er dómurinn var kveðinn upp . Var því fallist á að með þeim hafi myndast fjölskyldutengsl sem nytu verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans áður en lögformleg ákvörðun var tekin um vistun eða fóstur þess (dómar Hæstaréttar og héraðsdóms). Á hinn bóginn verður lesið út úr dómi MDE (rétt eins og héraðsdómi) að fósturráðstöfun (og eftir atvikum ættleiðing hefði til hennar komið) nægi til að vernda þessi tengsl og réttinn til fjölskyldulífs án þess að A og B væru skráðir foreldar barnsins í Þjóðskrá. Þetta þýðir að ríkjum ber engin skylda til að viðurkenna samning eða áætlun um staðgöngumæðrun sem viðhlítandi grundvöll undir ákvörðun um hverjir teljast foreldrar barns að lögum jafnvel þótt hann sé gerður í ríkjum þar sem slíkt er heimilt. Slík skráning sé heldur ekki forsenda til að fjölskyldutengsl teljist njóta fullnægjandi verndar samkvæmt sáttmálanum. Aftur á móti leiðir af dóminum að skylda ríkis getur stofnast til að vernda með öðrum úrræðum fjölskyldutengsl sem kunna að hafa myndast milli barns og fyrirhugaðra foreldra allt frá því þeir fengu barnið afhent til umönnunar og með því um leið slitið á öll tengsl barnsins við líffræðilega móður, eins og um var að ræða í þessu máli.
(2) Í forsendum dómsins vísar MDE til þess að ríki hafi mikið svigrúm til mats þegar um sé að ræða viðkvæm siðferðilega álitaefni þar sem sammæli séu ekki meðal ríkja Evrópuráðsins um afstöðu til þeirra. Þetta er þekkt stef í dómaframkvæmd dómstólsins á sviðum sem talin eru viðkvæm og umdeild í félagslegu, trúarlegu og siðferðilegu tilliti, svo sem þegar um er að ræða löggjöf um þungunarrof, rétt para af sama kyni til að ganga í hjúskap, aðgang þeirra að tækni sem miðar að því að vinna bug á barnleysi og ófrjósemi, svo sem aðgang að tækni- og glasafrjóvgun, notkun staðgöngumæðra o. fl. Þessi mál þykja ef til vill ekki lengur sérlega viðkvæm eða umdeild hér á landi (nema þá helst staðgöngumæðrun), en það getur engu breytt um að þau eru það samt sem áður í mörgum öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Hefur dómstóllinn almennt farið sér hægt í að taka fram fyrir hendur löggjafans í einstökum löndum í málefnum á þessu sviði og eftirlátið þeim svigrúm til mats um þau í ríkum mæli.
(3) Vitaskulda má deila um þessa niðurstöðu og ósennilegt að allir þeir sem kunna að vilja nýta sér þjónustu staðgöngumóður án þess að til staðar séu líffræðileg tengsl við fyrirhugaða „foreldra“ telji þetta fullnægjandi. Þá má spyrja hvort þetta sé í samræmi við það leiðarstef í málefnum sem varða börn að taka skuli mið af því sem þeim er fyrir bestu. Mat á hinum ólíku hagsmunum sem hér eru undir er snúið og margs að gæta. Í því sambandi má hafa í huga að staðgöngumæðrun er bönnuð á Íslandi. Stendur það bann enn þótt talsverð skoðun hafi farið fram á þessu hér á landi og hvort heimila ætti staðgöngumæðrun, svo sem í velgjörðarskyni, en frumvarp þess efnis var lagt fram á Alþingi 2015-2016, þar sem gert er ráð fyrir að slíkt yrði heimilt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (hér). Um það hefur ekki náðst sammæli og hefur lítið til þessa frumvarps spurst síðustu misserin. Af umræðum um málið hér á landi má ráða að meginrök fyrir banninu lúti að vernd kvenna í viðkvæmri stöðu og barnlaust fólk í hinum betur megandi hluta heimsins nýti sér ekki bága stöðu kvenna í öðrum löndum til að kaupa sér aðgang að líkama þeirra til að ganga með og ala fyrir sig barn.