Guðlast, Kóranbrennur og tjáningarfrelsi

Í pistlinum er rætt um Kóranbrennur sem form tjáningar út frá ákvæði 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. Raktir eru dómar Mannréttindadómstóls Evrópu sem sýna að trúarlegar tilfinningar einstaklinga eða hópa njóta verndar samkvæmt 9. gr. sáttmálans gagnvart því sem telja má óverðskuldaðar og móðgandi árásir á trúarsannfæringu þeirra og tjáningu sem talin er fela í sér hvatningu til að umbera ekki tiltekin trúarbrögð. Takmörkun slíkrar tjáningar geti því verið réttmæt með vísan til 2. mgr. 10. gr. MSE vegna réttinda hinna trúuðu. Þetta gefur tilefni til að spyrja hvort setja megi Kóranbrennum, sem aðferð til að tjá skoðun sína á íslam, skorður á þeim grundvelli að þær feli í sér grófa og óverðskuldaða árás á trúartilfinningar múslima eða hvatningu til að umbera ekki íslam og múslima. Rök eru færð fyrir því, með vísan til dómaframkvæmdar MDE, að skorður (refsingar) við Kóranbrennum sem form tjáningar yrðu taldar heimilar. Líklegt er að við mat á þessu myndi MDE horfa til þess að tjáningu með þessum hætti er trauðla unnt að líta á sem framlag til heilbrigðra skoðanaskipta um mikilvæg samfélagsleg málefni. Fremur yrði litið á Kóranbrennur sem vitnisburð um mikla óbeit (jafnvel hatur) á íslam og múslimum og meðvitaða hvatningu til umbera hvorugt. Um væri að ræða tilefnislausa árás á islam og trúarsannfæringu múslima sem væri til þess fallin að særa trúartilfinningar þeirra, móðga þá og stuða án þess að þjónaði að öðru leyti uppbyggilegum tilgangi í lýðræðislegu samfélagi.

I.

Fréttir berast þessa dagana, aðallega frá Svíþjóð og Danmörku, þar sem  Kóranbrennur koma við sögu. Í þessum pistli er litið framhjá því að brennur og íkveikjur á almannafæri, hvort heldur lagður er eldur að bókum eða öðru, geta valdið almannahættu og falið í sér hegningarlagabrot á grundvelli ákvæða um brennu, sbr. 1. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga. Eingöngu er fjallað um það þegar trúarleg rit, sem mörgum eru helg, eru brennd, sem form tjáningar út frá meginreglum um tjáningarfrelsi í 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) og hvort sáttmálinn verndar slíka tjáningu.

Yfirvöldum í Svíþjóð og Danmörku er vandi á höndum um viðbrögð, enda má segja að með því að brenna eintak af Kórnaninum til að tjá vanþóknun sína á innihaldi ritsins, sé tjáning sem í grunninn nýtur verndar ákvæða um tjáningarfrelsi í stjórnarskrám þessara ríkja og MSE. Í Svíþjóð virðist þetta sjónarmið hafa orðið ofaná. Á hinn bóginn vitna bókabrennur, hvort sem það eru trúarrit eða annars konar rit, um mikla óbeit og algjöran skort á umburðarlyndi þeirra sem fyrir slíkum brennum standa gagnvart innihaldi ritanna sem brennd eru. Þegar um trúarrit er að ræða má gera má ráð fyrir að slík tjáning sé til þess fallin að  særa trúartilfinningar sanntrúaðra múslima og móðga þá, en í því felst einmitt guðlast í lagalegum skilningi. Þess utan hafa Kóranbrennur valdið mikilli spennu í  þessum löndum og yfirvöld telja sig merkja vaxandi hryðjuverkaógn og þar með ógn við allsherjarreglu og öryggi borgara sinna. Þá hafa Kóranbrennurnar valdið miklum vandræðum í samskiptum Svíþjóðar og Danmerkur við íslömsk ríki og diplómatísk samskipti við einstök ríki eru í uppnámi. Af þessu geta hlotist margs konar vandræði og hættur. Hefur þetta leitt til þess að yfirvöld í Danmörku og Svíþjóð hafa íhugað löggjöf sem reisir skorður við tjáningu sem felst í að brenna helg trúarrit til að tjá skömm sína á þeim, þótt lagaákvæði um guðlast hafi annars verið afnumin í þessum löndum, eins og á Íslandi. Um slík áform eru eðlilega mjög skiptar skoðanir út frá meginreglum um frelsi borgaranna til að tjá sig á hvern þann hátt sem þeir kjósa. Í þessum pistli geri ég að umtalsefni það sem kalla má „vernd trúartilfinninga“ sem er þekkt stef í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE). Þessu tengt er álitamálið um hvort refsingar fyrir guðlast (blasphemy) sem svo er nefnt, geti samrýmst MSE.

II.

Í 1. mgr. 9. gr. MSE segir meðal annars að sérhver einstaklingur eigi rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst meðal annars frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi. Þá segir í  2. mgr. 9. gr.  að frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skuli einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi. Tjáningarfrelsið er verndað í 10. gr. Þar segir meðal annars í 1. mgr. að einstaklingur eigi rétt til tjáningarfrelsis. Skuli sá réttur einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Þá kemur meðal annars fram í 2. mgr. að þar sem af réttindum þessum leiði skyldur og ábyrgð sé heimilt að þau séu háð þeim formreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum.

Af þessu ákvæði sýnist blasa við að mögulegt er að rökstyðja með ýmsum hætti takmarkanir á tjáningu þar sem fólk tjáir óbeit sína á innihaldi Kóranins og íslam með því að brenna af honum eintök á almannafæri. Rökin geta verið meðal annars að slík takmörkun sé í þágu þjóðaröryggis og almannaheilla, eða í því skyni að firra glundroða og glæpum. Svo er spurning hvort unnt sé að takmarka slíka tjáningu til verndar réttindum annarra, svo sem vegna trúartilfinninga múslima. Spurninguna má orða svo hvort réttmætt sé að takmarka tjáningu sem túlka má sem óverðskuldaða eða tilefnislausa árás á trú annarra og trúartilfinningar og þar með trúfrelsi þeirra. Um þetta hefur verið fjallað í dómum MDE.

III.

Þekktastur er dómurinn í máli Otto-Preminger Institute gegn Austurríki frá 1994. Málið varðaði bann við opinberri sýningu kvikmyndarinnar Das Liebeskonzil eftir leikstjórann Werner Schroeter í Týrol héraðinu í Austurríki. Myndin sækir innblástur í satíru eftir leikskáldið Oskar Panizza, en höfundur hennar mátti 1895 þola dóm fyrir guðlast fyrir leikverkið. Kvikmyndin er um þessi réttarhöld með tilvísunum í leikrit Panizza. Í kvikmyndinni birtist himnafaðirinn sem elliært gamalmenni sem skiptist á kossum við þann Gamla í Niðurkoti (Kölska) sem hann telur til vina sinna. Önnur atriði í myndinni sýna kynferðislega spennu milli Maríu meyjar og Kölska. Þá birtist Jesú Kristur þar sem andlegur eftirbátur, sem meðal annars freistar þess að kreista og kyssa brjóst móður sinnar. Öll hefur hin heilaga þrenning miklar mætur á árakorninu.

Áður en myndin var sýnd opinberlega bárust spurnir af innihaldi hennar og var lagt á hana hald og hún gerð upptæk. Þar með var komið í veg fyrir opinbera sýningu hennar. Framleiðandi myndarinnar, taldi að aðgerðir yfirvalda hefðu falið í sér brot á 1. mgr. 10. gr. MSE um tjáningarfrelsi. Um væri að ræða listræna tjáningu sem nyti ríkrar verndar. Tjáningarfrelsið verndaði tjáningu sem væri stuðandi og óþægileg fyrir yfirvöld og einstaklinga. MDE komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið brotið gegn tjáningarfrelsi kæranda. Í forsendum dómsins segir meðal annars, að ekki verði horft framhjá því að yfirgnæfandi meirihluti íbúa í Týról væri rómversk-kaþólskrar trúar. Með aðgerðum sínum stefndu yfirvöld að því að skapa frið um trú og trúariðkun í héraðinu og koma í veg fyrir að trúaðir einstaklingar teldu að sér vegið með árásum á trú þeirra og sannfæringu á óverðskuldaðan og móðgandi hátt. Segir jafnframt að það sé fyrst og fremst hlutverk yfirvalda í ríki að meta þörf fyrir slíkar aðgerðir og þau hefðu ekki farið út fyrir það svigrúm sem þau hafi í þessum efnum. Sem sagt, ekki var fallist á að brotið hefði verið á tjáningarfrelsi kæranda. Í niðurstöðunni felst að trúarlegar tilfinningar einstaklinga njóta samkvæmt 9. gr. MSE verndar gagnvart óverðskulduðum og móðgandi árásum á trúarsannfæringu þeirra. Skorður við sýningu myndarinnar væru réttmætar á grundvelli 2. mgr. 10. gr. sem heimilar meðal annars takmarkanir á tjáningu vegna réttinda annarra. Dómur þessi hefur alla tíð sætt gagnrýni talsmanna tjáningarfrelsis og margir telja hann beinlínis rangan. Nokkuð er til í því að minni hyggju, en hann er nú samt staðreynd.

IV

Á árinu 2018 kvað MDE annan dóm sem túlka má svo að MDE haldi sig við fordæmið sem gefið var með dóminum í Otto-Preminger málinu. Hér ræðir um dóm í máli E.S. gegn Austurríki. Í þetta sinn snerist málið ekki um trúarlegar tilfinningar rómversk-kaþólskra heldur múslima. Atvik voru þau að kærandi stóð fyrir röð fyrirlestra í Vínarborg um íslam í höfuðstöðvum Frelsisflokksins, sem er hægrisinnaður íhaldsflokkur. Í einum fyrirlestranna, sem voru öllum opnir, ræddi hún um hjónaband Múhameðs spámanns með sex ára stúlku og þau hafi haft samræði þegar hún var níu ára. Velti kærandi upp þeirri spurning hvort ekki væri rétt að kalla þetta barnaníð (pedófilía)? Sakamáladómstóll í Vínarborg sakfelldi kæranda fyrir guðlast í febrúar 2011 og kærandi talin hafa með þessum ummælum vanvirt kennisetningar íslams. Var kæranda gert að að greiða sekt og málskostnað.

Fyrir MDE byggði kærandi á því brotið hefði verið gegn tjáningarfrelsi hennar samkvæmt 10. gr. MSE. Í dómi MDE kemur fram að þeir sem kjósi að rækja trú sína í krafti trúfrelsis samkvæmt 9. gr. MSE þurfi að vera undir það búnir að sæta gagnrýni af hálfu annarra sem ekki deildu með þeim trúarskoðunum. Þó væri heimilt að takmarka slíka tjáningu fari hún yfir mörk gagnrýni og feli í sér hvatningu til að umbera ekki trúarbrögð eða fylgjendur þeirra. Heimilt væri, innan hóflegra marka, að takmarka tjáningu sem bæri með sér algjöran skort á umburðarlyndi gagnvart tilteknum trúarbrögðum eða fylgjendum þeirra. Dómstóllinn lagði áherslu á að ummæli kæranda snertu mikilvægt málefni og gætu mögulega haft neikvæðar afleiðingar, allt eftir því hvar, hvenær og í hvaða samhengi þau væru höfð í frammi. Dómurinn tók jafnframt fram að aðildarríkin hefðu mikið svigrúm til mats í málum sem þessum þar sem þau væru í betri stöðu til að meta hvaða ummæli væru líkleg til þess að valda ólgu og ógna trúfrelsi í viðkomandi ríki. Dómurinn taldi að ummælin hafi ekki verið sett fram á þann hátt að þau væru liður í uppbyggilegri þjóðfélagsumræðu heldur væru til þess fallin að vera túlkuð af almenningi, og þá sérstaklega múslimasamfélaginu, sem árás á Múhameð spámann og falið í sér þá ályktun að hann væri ekki verður þeirra tilbeiðslu sem við hann væri tengd. Dómstóllinn tók undir þá niðurstöðu að kærandi hafi sett fram staðhæfingar sínar gegn betri vitund og þær væru til þess fallnar að ala á vanþóknun annarra á íslam. MDE féllst á að dómstólar í Austurríki hefðu gætt jafnvægis milli tjáningarfrelsis kæranda og réttarins til verndar á trúfrelsinu skv. 9. gr. sáttmálans og gætt meðalhófs við ákvörðun refsingar. Af þessum dómi, líkt og hinum fyrrnefnda, má draga þá ályktun að ríkjum sáttmálans sé heimilt að setja skorður við tjáningu sem túlka má sem árás á trúartilfinningar manna eða felur í sér hvatningu til að umbera ekki trúarbrögð eða fylgjendur þeirra.

V.

Til að varpa ljósi á mörk milli tjáningar sem sáttmálinn verndar og þeirrar sem reisa má skorður við má einnig geta dóms í máli Rabczewska gegn Pólandi frá september 2022. MDE. Kærandi í málinu er vinsæl poppsöngkona í Póllandi. Í viðtali sem tekið var við hana og birt opinberlega, lét hún ýmis ummæli falla um Biblíuna og þá sem festu hana í letur.  Meðal þess sem hún lét út úr sér var að þeir hefðu verið „ruglaðir af drykkju og grasreykingum“. Fyrir þessi ummæli var hún sakfelld á grundvelli ákvæða um guðlast í pólskum hegningarlögum fyrir að særa trúartilfinningar  kristinna manna. Um hefði verið að ræða móðgandi árás á trú þeirra og takmörkun á slíkri tjáningu væri réttmæt með vísan til 2. mgr. 10. gr. MSE. Fyrir MDE hélt kærandi því fram að sakfellingin færi gegn ákvæði 1. mgr. 10. gr. MSE um tjáningarfrelsi. Í þessu tilfelli fellst MDE á rök kæranda. Í forsendum fyrir þeirri niðurstöðu kemur fram að pólskir dómstólar hefðu ekki nægilega vegið og metið þá ólíku hagsmuni sem um ræðir og þá alveg sérstaklega hefði ekki verið metið hvort ummælin, sem voru hvatvís, kæruleysisleg og léttvæg, hefðu í raun verið til þess fallin að ala á hatri eða trufla með öðrum hætti frið og trúarlegt umburðarlyndi í Pólandi og hafa þannig skaðlegar afleiðingar í för með sér. Var talið að pólska ríkið hefði ekki nægilega rökstutt að takmörkunin hefði verið nauðsynleg vegna réttinda trúaðra á grundvelli 9. gr. MSE.

Fleiri dóma má nefna sem snerta á þessu álitaefni, svo sem  Wingrove gegn UK frá 1996. Í þessu máli var fjallað um videómyndband sem tekið var úr dreifingu þar sem innihald þess var talið fela í sér guðlast. Í því sést meðal annars nunna, heilög Teresa, hafandi í frammi erótíska tilburði við Krist á krossinum. Talið var að skorður við dreifingu myndbandsins væru samrýmanlegar 2. mgr. 10. gr. MSE og fælu ekki sér brot á sáttmálanum. Hér má sjá hluta úr þessu myndbandi.  Í İ.A. gegn Tyrklandi frá 2005 taldi MDE að trynesk yfirvöld hefðu ekki brotið gegn tjáningarfrelsi kæranda með því refsa honum fyrir að gefa út skáldsöguna Yasak Tümceler” (“The forbidden phrases”) eftir rithöfundinn Abdullah Rıza Ergüven þar sem innihald þess hefði að geyma tilefnislausa og móðgandi árás á trúarsetningar íslam og færi gegn tyrkneskum lögum um guðlast. Loks má nefna Tagiyev and Huseynov gegn Azerbaijan frá 2019, en þar var fallist á að brotið hefði verið gegn tjáningarfrelsi kærenda vegna dóms sem þeir höfðu mátt þola fyrir gagnrýni sína á  að íslam og ýmsa túarleiðtoga í Tyrklandi.

VI.

Dómarnir sem nefndir hafa verið sýna að trúarlegar tilfinningar einstaklinga eða hópa njóta tiltekinnar verndar samkvæmt 9. gr. MSE gagnvart því sem telja má særandi  og móðgandi árásir á trúarsannfæringu þeirra og gagnvart tjáningu sem talin verður ala á óbeit gagnvart tilteknum trúarbrögðum og fela í sér hvatningu til að umbera þau ekki. Takmarkanir eru taldar helgast af brýnni samfélagslegri nauðsyn og því réttmæt á grundvelli 2. mgr. 10. gr. MSE. Tjáningin þarf einnig að hafa til að bera ákveðin alvöruþunga og vera til þess fallin að ala á óbeit eða hatri á viðkomandi trúarbrögðum og þeim sem þau aðhyllast. Sem sagt þetta er staðan samkvæmt dómaframkvæmd  MDE og vert að hafa í huga að margir lögspekingar hafa miklar efasemdir um þessa dóma, sem og um það hvort dómstóllinn er alveg samkvæmur sjálfum sér í þessum málum. Taka má undir ýmislegt í þeirri gagnrýni.

Þetta leiðir okkur aftur að Kóranbrennum og gefur tilefni til að spyrja hvort setja megi slíkum brennum, sem form tjáningar, skorður á þeim grundvelli að þær feli í sér  særandi árás á trúartilfinningar múslima eða hvatningu til að umbera ekki íslam og múslima. Út frá þremur þessara dóma sem nefndir voru virðist blasa við að skorður við Kóranbrennum, jafnvel með refsingum, yrðu, út frá þessum sjónarmiðum, taldar heimilar samkvæmt 2. mgr. 10. gr. MSE. Mér finnst líklegt að við mat á þessu myndi MDE horfa til þess að tjáning með þessum hætti er tæpast unnt að líta á sem framlag til heilbrigðra skoðanaskipta um mikilvæg samfélagsleg málefni. Fremur yrði litið á Kóranbrennur sem vitnisburð um mikla óbeit (jafnvel hatur) á íslam og múslimum og meðvitaða hvatningu til umbera hvorugt. Um væri að ræða grófa árás á íslam og trúarsannfæringu múslima sem væri til þess fallin að særa trúartilfinningar þeirra, móðga þá og stuða án þess að tjáningin þjónaði að öðru leyti uppbyggilegum tilgangi í lýðræðislegu samfélagi.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.