Hinseginfræðsla og baráttan um barnssálina

 

Í þessum pistli er fjallað um hinseginfræðslu í grunnskólum landsins, en hún  mælist mjög illa fyrir hjá mörgum foreldrum. Þetta er mér tilefni til að ræða aðeins um 2. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Þar segir meðal annars að hið opinbera skuli í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra. Í pistlinum eru rakin ýmis sjónarmið sem koma til skoðunar þegar metið er hvaða þýðingu þetta hefur varðandi hinseginfræðslu og hvort og að hvaða marki foreldar eigi rétt á, í samræmi við 2. gr. 1. viðauka MSE, að tillit sé tekið til trúar- og heimspekilegrar sannfæringar þeirra við skipulag og framkvæmd þessarar fræðslu. Ég vil taka fram að persónulega ég set mig alls ekki upp á móti þessari fræðslu, en reyndar á ég ekki lengur börn í grunnskóla. Margir foreldrar, sem eiga börn í grunnskóla, hafa á hinn bóginn aðra sannfæringu og spurningin er þá hvort sanngjarnt sé og réttmætt að taka tillit til sannfæringar þeirra við framsetningu og skipulag fræðslunnar?

I

Nokkur umræða er um þessar mundir um hinseginfræðslu í skólum. Nú hef ég ekki nákvæmar upplýsingar um inntak þessarar fræðslu, en margir sem tjá sig, þar með taldir foreldrar, telja hana óviðeigandi og margir þeirra eru raunar mjög reiðir og ósáttir ef marka má harkalegar athugasemdir á samfélagsmiðlum. Talsvert hefur einnig verið rætt um ritið Kyn, kynlíf og allt hitt eftir Cory Silverberg og Fionu Smyth í þessu sambandi sem Menntamálastofnun gaf út fyrr á þessu ári, en netútgáfu þess má sjá hér og kennsluleiðbeiningar hér. Margir hafa einnig orðið til að býsnast yfir þessu riti og þeim boðskap sem það flytur.

Mér er samt ekki ljóst hvort og að hve miklu leyti bókin er notuð við hinseginfræðslu og/eða almenna kynfræðslu í skólum, en nokkur óreiða er í fréttaflutningi af þessum málum og skortur á hlutlausri umfjöllun blaða- og fréttamanna um málið sem ekki er lituð af þeirra eigin persónulegu viðhorfum. Mitt í þessari umræðu flytja nokkrir þingmenn frumvarp til breytinga á lögum um grunnskóla um að efla kristinfræðikennslu í grunnskólum landsins, sjá hér. Um að ræða frumvarp sem er endurflutt en kom fyrst fram fyrir þremur árum en náði þá ekki fram að ganga. Fyrir þá sem fylgjast með úr fjarska birtist þetta uppátæki þingmannanna sem einhvers konar mótvægi við hinseginfræðslu, svona rétt eins og hinseginfræðsla og kristinfræðikennsla séu andstæður, sem varla er rétt. Baráttan um barnssálina milli stjórnmálamanna, hinsegin fólks og foreldra er því snörp þessa dagana. Við lestur frétta, og vegna þeirrar hvössu umræðu sem á sér stað á samfélagsmiðlum um þessi mál, var mér hugsað til MSE, einkum 2. gr. 1. viðauka um rétt til menntunar. Í greininni segir þetta:

Engum manni skal synjað um rétt til menntunar. Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.

Íslenska þýðingin er ekki nákvæm því í enska og franska texta sáttmálans, sem eru opinber tungumál hans, er ekki talað um “trúar- og lífsskoðanir” foreldranna heldur “religious and philosophical convictions”  og “convictions religieuses et philosophiques”. Þannig vísa frumtextarnir til sannfæringar foreldranna ekki skoðana. Þetta skiptir máli því í fræðum um sáttmálann er byggt á að skoðun og sannfæring séu ekki hið sama og munurinn á merkingu orðanna hafi þýðingu fyrir túlkun ákvæðisins.

II

Tilvitnað ákvæði inniheldur tvær reglur. Sú fyrri tryggir rétt einstaklinga til menntunar en hin síðari mælir fyrir um skyldu ríkisins til að virða rétt foreldranna til að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúarlega og heimspekilega sannfæringu þeirra.

Réttur einstaklinga til menntunar sem tekur að meginstefnu til allra skólastiga, þótt hann fjalli fyrst og fremst um grunnmenntun barna, er ekki án takmarkana. Fjölmargir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) fjalla um þetta, en þeir varða meðal annars inntökuskilyrði í skóla, inntökupróf, fjöldatakmarkanir (numerus clausus), skólagjöld, þjóðerni, kynþátt, lágmarksaldur, rétt fatlaðra til menntunar, rétt fanga og jafnræði til náms. Um þessi atriði er ekki fjallað í þessum pistli. Athyglinni er aftur á móti beint að skyldu ríkisins (sveitarfélaga) við skipan menntunar og skólastarfs fyrir börn, til að virða rétt foreldra til að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúarlega og heimspekilega sannfæringu þeirra.

III

Þessa er að geta áður en lengra er haldið að í 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Í 2. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla segir að hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, sé  að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Þá kemur fram að starfshættir skóla skuli mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Enn segir að grunnskóli skuli stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Loks kemur fram að grunnskóli skuli stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda.

Hvorki í íslensku stjórnaskránni né grunnskólalögum er tekið fram að virða skuli rétt foreldra til að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúarlega eða heimspekilega sannfæringu þeirra. Á hinn bóginn er fyrrnefnt ákvæði MSE lögfest hér á landi og er skylda ríkisins til að virða rétt foreldra að þessu leyti þar með bundin í lög. Skoðum þetta nánar.

IV

Að því er varðar orðið sannfæring (conviction) kemur fram í dómum að það merki ekki það sama og skoðun eða hugmyndir (opinions/ideas). Sannfæring vísi til viðhorfa eða afstöðu foreldra sem talin verða heildstæð, einlæg, alvarleg og mikilvæg fyrir viðkomandi. Þannig er ekki nægilegt að foreldrar hafi einhverja almenna  skoðun til að skyldan til að taka tillit til hennar við fræðslu barna þeirra verði virk. Óhagfellt væri fyrir skólastarf ef kennarar þyrftu að taka tillit til hvers kyns sérvisku og mismunandi vel ígrundaðra skoðana eða hleypidóma einstakra foreldra. Dæmi um sannfæringu sem talin hefur verið hafa nægilegan slagkraft að þessu leyti er andstaða við líkamleg agaviðurlög í skólum en þau voru lengi tíðkuð í skólastarfi, einkum í Bretlandi og þóttu langt fram á síðari hluta 20. aldar eðlileg og sjálfsögð í skólastarfi þar í landi. Um þetta vitnar t.d. dómur í máli Campbell ofl. gegn Bretlandi (1982), málsgrein 36). Í þessu felst að ríkinu (skólayfirvöldum) er ekki skylt að taka tillit til hvers kyns skoðana foreldra á þeirri fræðslu sem veitt er í opinberum skólum. Þannig verða foreldrar sem eru eldheitir kommúnistar að una því að börn þeirra séu frædd um markaðshyggju, enda sé það gert á forsendum fræðslu og menntunar, ekki boðunar eða innrætingar.

V

Reynt hefur á umrætt ákvæði 2. gr. 1. viðauka við MSE í dómum við aðallega tvenns konar aðstæður, þ.e. annars vegar trúarbragðafræðslu og hins vegar kynfræðslu. Í þessum tilfellum hefur reynt á hvort foreldrar eigi rétt til þess að börn þeirra séu undanþegin því að sækja kennslustundir vegna þess að það sem þar fer fram fari gegn trúarlegri- eða heimspekilegri sannfæringu foreldaranna. Þetta eru nokkrir dómar og ákvarðanir, en eingöngu tveir verða raktir.

Í málinu Folgerø o.fl. gegn Noregi (2007) kvörtuðu foreldrar undan því að börn þeirra gætu ekki fengið undanþágu frá kennslu í fagi sem kennt var við kristinfræðslu með innsýn í trúar­brögð og lífsskoðanir. Markmið þessa fags var að fræða börn um Biblíuna og kristindóm sem menningararfleifð, evangelíska-lúterska trú (ríkistrú Noregs sem 86% landsmanna aðhyllast), önnur kristin trúarbrögð, önnur trúarbrögð og kenningar í sið­fræði og heimspeki. Samkvæmt eldri skipan gátu foreldrar sótt um að börn þeirra yrðu undan­þeg­in kennslu í sérstöku fagi um kristinfræði. Samkvæmt hinni nýju skipan var einungis unnt að fá undanþágu frá kennslu í ákveðnum hlutum hinnar nýju námsgreinar. Kærendur héldu því fram að með því að synja börnum þeirra um fulla undanþágu frá þátttöku í námsgreininni gætu þeir ekki tryggt börnum sínum menntun í samræmi við trú sína og samvisku og með því væri brotið meðal annars gegn 9. gr. MSE um hugsana-, samvisku- og trúfrelsi og 2. gr. 1. viðauka. Dómstóllinn féllst á að með umræddri námsgrein væri leitast við að tryggja opið og heildstætt skólaumhverfi, óháð bakgrunni nemenda, trú, þjóðerni og fleiri þáttum. Þetta var talið samræmast meginreglum um hlutlægni og fjölhyggju sem fælist í 2. gr. 1. viðauka MSE. Aftur á móti væri ljóst að yfir­gnæf­andi áhersla væri lögð á kristindóm. Var þetta talið benda til þess að munur milli kennslu í kristindómi annars vegar og öðrum trúarbrögðum hins vegar varðaði ekki aðeins umfang eða fyrirferð kristninnar í umræddri námsgrein annars vegar og annarra trúarbragða og lífsskoðana hins vegar heldur einnig eðli hennar. Þegar til þess munar væri litið væri óljóst með hvaða hætti fræðslan ætti að efla með fullnægjandi hætti skilning, virðingu eða samræður milli einstaklinga af mismunandi trú og lífsskoðunum. Dómurinn lagði áherslu á að upplýsingar um samvisku og trú einstaklinga lytu að innilegustu þáttum einkalífs þeirra og að hætta væri á að foreldrum fyndust þeir knúnir til að upplýsa skólayfirvöld um innilegust þætti trúar sinnar, samvisku og einkalífs. Þrátt fyrir lofsverðan tilgang námsgreinar sem um var deilt væri ekki tryggt með fullnægjandi hætti að upplýsingum og þekkingu væri komið á framfæri á hlutlausan og gagnrýninn hátt sem virti sjónarmið fjölhyggju. Með því að hafna beiðnum foreldra um fulla undanþágu frá námsgreininni væri brotið gegn 2. gr. 1. viðauka MSE. Þess er að geta dómurinn var kveðinn upp í Yfirdeild dómstólsins þar sem sitja 17 dómarar, en 8 dómarar voru ósammála þessari niðurstöðu. Fordæmisgildi dómsins er því veikt og hefur hann frá því hann var kveðinn upp verið umdeildur. En dómur er þetta nú samt.

Í Dojan o.fl. gegn Þýskalandi  (2011) voru kærendur strangtrúaðir meðlimir í söfnuði baptista í Þýskalandi og áttu börn sem sóttu opinberan grunnskóla. Hluti af námskrá á fjórða ári voru tímar í kynfræðslu. Skólinn ákvað á árinu 2006 að standa fyrir einskonar reglulegum vinnustofum með nemendum til að auka meðvitund þeirra um hættu á kynferðislegri misnotkun barna. Þá mótaðist sú hefð að skólinn skipulagði kjötkveðjuhátíð árlega (carnival) með trúarlegu ívafi, en þeim nemendum sem ekki vildu sækja það gefinn kostur á sundkennslu eða þátttöku í öðrum íþróttum. Kærendur vildu ekki að börn þeirra tækju þátt í neinu af þessu eða einhverjum hluta og komu í veg fyrir það. Þeir voru sektaðir fyrir tiltækið.

Fyrir MDE báru foreldarnir fyrir sig 2. gr. 1 viðauka MSE, enda töldu þeir þessa fræðslu andstæða trúarlegri og/eða heimspekilegri sannfæringu sinni. Í dóminum kemur fram að ákvæði um skyldu ríkis til að virða trúarlega- og heimspekilega sannfæringu við menntun barna þeirra stefni að því að tryggja fjölhyggju sem nauðsynleg væri í lýðræðissamfélagi. Í ákvæðinu fælist skylda ríkisins til að virða trúarlega og heimspekilega sannfæringu foreldra í hinu opinbera skólakerfi. Á hinn bóginn væri samsetning námskrár í skólum á valdi ríkisins og munur kynni að vera þar á frá einu landi til annars. Raunin væri sú að ýmsar námsgreinar í grunnskólum hefðu skýrar tengingar við kenningar í heimspeki eða eftir atvikum við trúarbrögð. Meginskylda ríkisins samkvæmt 2. gr. 1. viðauka væri að sú að fræðslan sem boðið væri upp á væri í anda fjölhyggju og væri hlutlaus og gagnrýnin og tæki tillit til ólíkra skoðana og sjónarhorna þar sem það ætti við. Forðast skyldi innrætingu barna sem sanngjarnt  væri að líta á sem andstæða trúar- og heimspekilegri sannfæringu foreldra þeirra.

Að því varðar kynfræðsluna sérstaklega mat dómstóllinn það svo að kennslan sem í boði var fælist í að fræða börnin um barneignir, getnaðarvarnir, þungun og barnsfæðingar og gengið væri út frá bestu vísindalegri þekkingu sem völ væri á hverju sinni. Þá væri hluti fræðslunnar til þess ætlaður að vekja vitund barnanna um kynferðisofbeldi gagnvart börnum og væri þannig í samræmi við þá fjölhyggju og hlutlægni sem 2. gr. 1. viðauka MSE gerði kröfu um. Að því er varðaði umrætt „karnival“ þá gætu foreldrar valið að börn þeirra sæktu aðra fræðslu, skemmtun eða þjálfun. Með þessu hefði ríkið ekki farið út fyrir það svigrúm sem það hefði til að ákveða innihald fræðslunnar, enda væri hún sett fram á hlutlausan og gagnrýninn hátt. Kærunni var vísað frá og var að öðru leyti ekki tekin til efnismeðferðar.

VI

Erfitt er að máta þessa dóma við hinseginfræðslu þá sem fram fer í grunnskólum. Á vefsíðu Samtakanna 78 kemur fram að samtökin hafi gert samninga við fjórtán sveitarfélög sem ganga út á fræðslu til grunnskólanemenda, starfsfólks leik- og grunnskóla, bæjarskrifstofa og annarra sem sinna þjónustu við íbúa. Um inntak þessarar fræðslu segir meðal annars að á yngsta stigi sé farið yfir ólík fjölskylduform og kyntjáningu. Sum börn eigi mömmu og pabba, önnur tvær mömmur eða tvo pabba, sum alast upp á tveimur heimilum, hjá einstæðum foreldrum, frændum og frænkum, stjúpforeldrum, öfum og ömmum. Allar fjölskyldur séu jafngildar. Þá kemur fram að þegar rætt sé um kyntjáningu við yngstu börnin sé útgangspunkturinn að mannflóran sé fjölbreytt. Sumt fólk vilji vera í kjól og sumt í buxum. Sumt fólk elski svartan lit, en annað bleikan. Börnum sé kennt að sama hvernig það klæðir sig eða hvernig fjölskyldan þess er, þá séu þau ekki minna virði en annað fólk og eigi skilið virðingu og kærleika.

Á miðstigi fari fram fyrsta kynning á grunnhugtökum hinseginfræða, þ.e. kynhneigð, kynvitund og kyneinkennum. Fólk upplifi kyn sitt á fjölbreyttan hátt og laðist að öðru fólki á mismunandi hátt. Eðlilegt sé að fara fram og til baka, skipta um skoðun og að enginn þurfi að festast í kössum eða skilgreiningum. Allir hafi leyfi og frelsi til að þroskast og þróast á sinn hátt. Inntak fræðslunnar á unglingastigi sé svipað en farið dýpra í grunnhugtök, fjallað um fordóma, mikilvægi þess að koma út og sýna öðru fólki virðingu. Á öllum stigum sé lögð áhersla á samræður við nemendur um málefnið.

Í þessari almennu lýsingu á inntaki og markmiðum fræðslunnar sé ég persónulega ekki neitt sem ég sé ástæðu til að vera mótfallinn. Á hinn bóginn, ef meta á hvort foreldrar, sem hugsa ekki eins og ég, eigi samkvæmt sáttmálanum sanngjarna kröfu eða rétt til þess að börn þeirra séu undanþegin þessari fræðslu, þar sem hún kunni að stríða gegn trúarlegri- eða heimspekilegri sannfæringu þeirra, þarf meiri upplýsingar um inntak hennar og hvernig framsetningu hennar er háttað. Meta þarf hvort hún feli í sér almenna hlutlausa fræðslu eða boðun eða innrætingu ákveðinnar afstöðu til hinsegin málefna, sem eftir atvikum gæti verið umdeild og viðkvæm fyrir foreldra einstakra barna af trúarlegum eða siðferðilegum ástæðum. Ekki er líklegt til árangurs í baráttu við fordóma að afgreiða allar einlægar efasemdir foreldra um inntak fræðslunnar sem birtingarmynd fordóma þeirra og haturs í garð hinsegin fólks. Þá þarf að meta hvort gætt sé hlutleysis og þess að ólík sjónarmið komi fram um einstök umdeild atriði þar sem það á við. Þá myndi MDE eflaust líta til þess hverjir annast fræðsluna og hvort þeir sem það gera leitist við eða geti tryggt, hlutlausa framsetningu frá siðferðilegu og trúarlegu sjónarmiði svo sem kostur er. Þetta allt verður trauðla metið nema á grundvelli nákvæmra upplýsinga til foreldra um inntak fræðslunnar svo þeir hafi réttar forsendur til að meta hvort hún fari gegn einlægri og mikilvægri trúar- eða siðferðissannfæringu þeirra sem rétt sé og sanngjarnt að taka tillit til vegna ákvæðis 2. gr. 1. viðauka við MSE.

Eins og hinseginfræðslunni er lýst á heimasíðu samtakanna 78 er verður ekki annað ráðið en að um sé að ræða almenna fræðslu sem ætlað er að miða að opinni umræðu um hinsegin málefni sem sé fallin til þess að auka skilning barnanna á mannréttindum og fjölbreytileika mannlífsins og með því eyða fordómum í garð þeirra sem hinsegin eru. Það skal fúslega játað að þetta eru ekki alls kostar skýrar niðurstöður hjá mér, enda er það ekki markmiðið með pistlinum. Vonandi eru lesendur þó einhvers fróðari um þau sjónarmið sem þarf að huga að við mat á því hvort réttmætt tillit sé tekið til trúar- og heimspekilegrar sannfæringar foreldra í hinseginfræðslu í grunnskólum eins og 2. gr. 1. viðauka við MSE gerir kröfu um.

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.