Kvennaverkfallið á dögunum gaf mér tilefni til að rifja upp nokkur atriði um það sem nefnt hefur verið femínísk lögfræði eða lagakenningar (feminist jurisprudence). Já, þetta er til og reikna má með að margir séu hissa enda viðbúið að flestir geri ráð fyrir því að lögin horfi eins við konum og körlum.
Klassískar kenningar í réttarheimspeki hafa í flestar verið þróaðar af körlum. Þessum lagakenningum er ætlað að skýra eðli laganna og réttarkerfisins og áhrif þess á alla einstaklinga, óháð kyni. Á hinn bóginn leggja margar fræðikonur sem iðka það sem nefnt hefur verið femínísk lögfræði eða femínískar lagakenningar, að kyn höfunda kenninganna hafi einmitt áhrif á inntak þeirra. Femínískar lagakenningar lúta meðal annars að því að rökstyðja að lög og réttarkerfi mótist af reynslu karla fremur en kvenna og leitast við að varpa ljósi á hvernig þessi ójafna staða birtist á mörgum sviðum réttarins, svo sem í refsirétti, fjölskyldurétti, samningarétti og fleiri sviðum.
Ekki er deilt um að femínísk lögfræði sé hlutdræg og er það meðvitað og viðurkennt meðal margra femínista. Áherslan er á kvenlægt sjónarhorn í lögfræðilegri umræðu og leitast er við að skerpa á reynslu og stöðu kvenna við lagagerð, fræðilegum bollaleggingum um lög og í lagaframkvæmd í því skyni bókstaflega að draga hlut kvenna. Þótt kenningarnar séu mismunandi og konurnar deili ekki allar sömu skoðunum, ekki frekar en karlarnir, varpa þær ljósi á tiltekið hagnýtt og félagslegt sjónarhorn á lögin sem hafi að áliti femínista lengst af verið vanrækt.
Mismunandi sjónarmið
Femínískar kenningar í lögfræði einkennast af þremur meginsjónarmiðum. Í fyrsta lagi í áherslu á félagslegan eða líffræðilegan mun karla og kvenna. Í öðru að af sýn á samfélagið sem feðraveldi (patriarchy), þar sem skipan samfélagsins þjóni hagsmunum karla. Í þriðja lagi af þeirri sýn á lögin að þau séu mótuð til að viðhalda og styrkja feðraveldið, sem geri að verkum að samfélagið almennt sé hagfelldara körlum en konum. Því er líka haldið fram að lögin endurspegli aðallega reynslu karla og séu mótuð af hvítum menntuðum körlum sem búa við stöðugan efnahag. Þótt ýmsir lagabálkar fjalli um stöðu kvenna og séu raunar beint afsprengi kvenréttindabaráttu og sé ætlað að bæta hag kvenna, sé þessi staða kvenna skilgreind og afmörkuð út frá karllægu sjónarhorni. Það séu fyrst og fremst hugmyndir karla um hæfileika, getu og reynslu kvenna sem móta þessu lög, túlkun þeirra og framkvæmd.
Tvær áhrifamiklar konur
Mary Wollstonecraft (1759–1797) er gjarnan nefnd meðal fyrstu femínísku kenningasmiðanna, en bók hennar Til varnar réttindum konunnar (e. A Vindication of the Rights of Woman 1792) hefur verið gefin út í íslenskri þýðingu Gísla Magnússonar af Hinu íslenska bókmenntafélagi (Lærdómsrit). Bókin er tímamótaverk í sögu kvenréttinda. Wollstonecraft hélt því fram að konur væru skynsemisverur sem væru full færar til að bera borgaralegar skyldur, en stæðu körlum að baki vegna skorts á menntun og tækifærum.
Simone de Beauvoir (1908–1986) hafði mikil áhrif fyrir femínisma á síðustu öld með verki sínu Le Deuxième Sexe (oftast þýtt: Hitt kynið ). Hún lýsti því hvernig konur væru skilgreindar sem „hitt kynið“ í huga karla og að líffræðilegur kynjamunur væri notaður til að réttlæta misrétti. Kenningar hennar leggja grunn að þeirri hugmynd að kyn sé félagslega mótað frekar en líffræðilega ákveðið: „Maður fæðist ekki kona, heldur verður kona.“ Beauvoir lagði áherslu á að konur ættu að njóta frelsis og jafnréttis á eigin forsendum, ekki sem undantekningar frá karllægu viðmiði. Hugmyndir hennar urðu ráðandi í femínískum lagakenningum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Hún leggur áherslu á að jafnrétti krefjist þess að konur verði fullvalda einstaklingar, sjálfstæðir í hugsun og athöfnum, og að samfélagið taki breytingum til að auðvelda þetta.
Fjórar kenningar
Algengt er í ritum um réttarheimspeki að skipta femínískum lagakenningum í frjálslyndar, menningarlegar, róttækar og síð-módernískar femíniskar lagakenningar. Lítum aðeins nánar á þetta.
Frjálslyndar femínískar kenningar leggja áherslu á jafnan rétt kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins, svo sem þegar kemur að kosningarétti, rétti til menntunar, atvinnu, launa og þátttöku í stjórnmálum. Þótt árangur hafi verið mikill í Vestrænum lýðræðisríkjum, hafa sumir fræðimenn bent á að konur séu enn að starfa innan ramma sem mótaður sé af körlum. Með öðrum orðum jafnréttið hafi tryggt konum rétt en ekki umbreytt samfélaginu í grunnatriðum sem sé ennþá krallægt. Þær horfa á þessar úrbætur sem aðlögun að heimi karla fremur en raunverulega endurskoðun á gildum hins karllæga samfélags. Femínískar jafnréttishugmyndir þróuðust síðan smám saman, og kosningaréttur kvenna var viðurkenndur í mörgum löndum ekki fyrr en á 20. öld (t.d. 1915 á Íslandi).
Menningarlegar femínískar lagakenningar leggja áherslu á eðlislægan mun kynjanna. Carol Gilligan (In a Different Voice) er gjarnan nefnd í þessu sambandi og leggur áherslu á eðlislægan mun kynjanna og mismunandi siðferðilegt sjónarhorn karla og kvenna. Hún staðhæfir að karlar leggi áherslu á sjálfstæði og réttindi, en konur á umhyggju og tengsl. Lausnir kvenna á vandamálum dagsins miðist við að viðhalda samböndum og viðurkenna beri sjónarmið kvenna. Robin L. West (Jurisprudence and Gender 1988) er annar fræðimaður af þessum meiði og telur að konur séu „tengdar“ öðrum frekar en sjálfstæðar einingar, og að reynsla þeirra sé mótuð af líffræðilegum og félagslegum þáttum. Þungun, barnsburður og brjóstagjöf séu ein birtingarmynd þessa. Hér hafa vissulega komið fram andmæli eins og við öllum kenningum sem einhvers virði eru. Þannig benda sumir á að vandinn við þessar hugmyndir sé eða ekki deili allar konur þessari reynslu, sem vekur spurningar um sannindi þessara kenninga fyrir allar konur.
Þá eru það róttækar femínistar kenningar leggja áherslu á að konur séu sérstök stétt undir yfirráðum karla. Prófessorinn Catharine MacKinnon (Toward a Feminist Theory of the State 1989) segir að lög og samfélag viðhaldi yfirráðum karla og að konur verði að meta og skoða á þeirra eigin forsendum, ekki forsendum karla. Þessar kenningar benda á að karllæg viðmið meta eiginleika kvenna lægra og leggja grunn að ójafnri stöðu þeirra. Þær konur sem aðhyllast slíkar kenningar telja að við höfum tilhneigingu til að líta svo á að ákveðnir eiginleikar séu taldir karllægir (rökvísi, athafnasemi, reglur) og aðrir kvenlægir (tilfinningasemi, viðkvæmni og atviksbundin lausn vandamála fremur en að beita á þau reglum). Samfélagið almennt metur þá eiginleika sem við tengjum við karla meira sem styrkir stöðu karla á kostnað kvenna þegar á heildina er litið.
Síð-módernískar femínískar kenningar hafna hugmyndum um algild sannindi um konur. Engin ein femínisk kenning þjónar öllum konum vegna fjölbreytileika þeirra í þjóðerni, trú, menningu, stétt, menntun, efnahagslegri stöðu o.s.frv. Það sé engin leið að skilgreina eða afmarka hið almenna „kvenlega sjónarhorn“ sem getur átt við um allar konur. Þá finnist engin ein femínísk kenning og sameiginlegt stefnumið sem gagnast öllum konum.
Svo segja sumir að þessar kenningar sem nefndar voru séu búnar séu til af hvítum menntuðum konum sem búi við traustan efnahag, sem minnir óneitanlega á karlana sem sagðir eru hafa búið til klassísku karllægu kenningar. Þessar konur séu því, ekki frekar en karlarnir, handahafar hugmynda og kenninga sem gagnist öllum konum sem búi, rétt eins og karlarnir, við mjög ólíkt hlutskipti í lífinu hvort heldur horft er til menntunar, fjárhags, menningar, heilsu eða þjóðfélagsstöðu að öðru leyti.
Að lokum, femínískar lagakenningar hafa haft ýmis áhrif með því að leggja áherslu á reynslu og sjónarmið kvenna og með því að færa rök að því að lög og réttarkerfi mótist af feðraveldi og benda á félagslega þætti sem móta hugmyndir okkar um kynin. Femíniskar lagakenningar vekja umræðu um réttlæti, vald og félagslega mismunun og bjóða á áhugavert sjónarhorn í lögfræðilegum rannsóknum. Endanleg svör og sannleika hafa þær aftur á móti ekki að geyma frekar en aðrar góðar kenningar sem mótaðar hafa verið af körlum.
Höfundur er prófessor í lögfræði við HA