Inngangur
Hinn 25. febrúar sl. flutti ég í Eddu, húsi íslenskunnar, tölu um fornar lögbækur, gildandi lög og dóma. Efnið tengist handritasýningunni Heimur í orðum sem er í gangi, en þar eru meðal annars fornar lögbækur til sýnis. Í þessu erindi mínu fjallaði ég um þýðingu þessara lögbóka í samtímanum, hvaða ákvæði þeirra kunni enn að vera í gildi og þá hvernig þau birtast í dómum í samtímanum. Hér er það helsta úr því sem ég hafði að segja.
Byrjum á smá tölfræði. Dómar og úrskurðir eru (flestir) birtir á netsíðum dómstólanna svo þetta efni er aðgengilegt öllum sem áhuga hafa. Ég sló fyrst inn leitarorðin „Grágás“ og „Jónsbók“ á netsíðum Hæstaréttar og Landsréttar. Vefsíða Hæstaréttar nær eingöngu aftur til 1998. Síðan 1998 hefur Jónsbók verið nefnd í 125 málum og Grágás í 83 málum. Í dómum Landsréttar frá stofnun hans 2018 er Jónsbók nefnd í 23 dómum og Grágás í 11 dómum.
Landnáma, sem að vísu er ekki lögbók, er nefnd í 71 dómi í Hæstarétti (frá 1998) og í Landsrétti í 15 dómum. Landnáma kemur fyrst og fremst til skoðunar svonefndum þjóðlendumálum þar sem hún þykir til merkis um að tiltekin landsvæði hafi á einhverjum tímapunkti verið háð einkaeignarétti, en það er stundum talið skipta máli við þegar tekin er afstaða til þess hvort landeigendur kunni að eiga rétt til umdeildra svæða eða hvort um hafi verið að ræða einskis manns land (terra nullius) sem ríkið ætti þá. Hér má segja að málið snúist um sönnunargildi Landnámu, rétt eins og annarra skjala endranær, fornra og nýrra. Ýmsar kenningar eru til um hvers vegna Landnáma var skrifuð og sumar eru þess eðlis að, séu þær réttrar, leiða þær til þess að sönnunargildi hennar verði að teljast frekar takmarkað. Það er annað mál og verður látið liggja hér milli hluta.
Tölur þessar eru áhugaverðar og ég verð að játa að fjöldi tilvísana kom mér aðeins á óvart. En fjöldi úrlausna þar sem þessi rit eru nefnd segir þó ekki alla söguna. Fyrst er þess að geta að tilvísun í forna lögbók, oftast Jónsbók, þarf ekki alltaf að vera í dómi Hæstaréttar eða Landsréttar, því þetta getur verið í héraðdómi án þess að það skili sér í dóm æðri réttar. Þá eru þessi rit oft nefnd í þeim hluta dóms þar sem rakin eru málsástæður og lagarök aðila málsins. Lögmenn þeirra freista þess þá að fiska upp úr þessum fornu ritum eitthvað sem kann að verða þeim að haldi fyrir málstað skjólstæðinga sinna, mismunandi líklegt til árangurs skulum við segja, en það má alltaf reyna. Þótt lögmenn slái um sig með tilvísunum í fornar lögbækur þarf það ekki að þýða að dómendur taki þær upp í niðurstöðu sína. Svo ber að nefna að þar sem þessar tilvísanir eru nefndar í dómi að þær eru oftar en ekki hluti af lýsingu á forsögu lagaákvæðis sem löggjafinn hefur sett í samtímanum og varpa þannig ljósi á sögulegan aðdraganda þess, sem getur skipt máli um hvernig það beri skilja. Við þessar aðstæður getur tilvísun í fornar bækur haft óbeint gildi fyrir niðurstöðu. Loks er það sjaldgæft, en þekkist samt, að niðurstaða máls beinlínis (eða næstum því) ráðist af tilvísun í forn lagaákvæði, einkum úr Jónsbók. Þetta gildir líka um Landnámu sem einhvers konar sönnunargagn ef út í það farið.
Lagahreinsun og brottfall laga og lagaákvæða
Með lögum nr. 118/1990 var hreinsað til í íslenskum lögum og þar með lagasafninu. Felldur úr gildi fjöldi laga og lagaboða og voru mörg hver eldri en frá 1874 þegar lagasetningavaldið færðist til Alþingis. Það sem er einna athyglisverðast við þessi lagahreinsunarlög, er að við undirbúning þeirra var tekin sérstök ákvörðun um að „fella ekki formlega úr gildi“ þau ákvæði sem voru og eru enn elst í lagasafninu þ.e. ákvæði Kristinréttar Árna biskups Þorlákssonar, 47 ákvæði Jónsbókar sem enn voru í lagasafni, réttarbót Eiríks konungs Magnússonar og alþingisdóm um rekamark frá 1300. Þessi lagahreinsun hafði átt sér langan aðdraganda því alveg frá 1888 höfðu umræður staðið um hana. Einkum vildu sumir hreinsa út dönsk lagaboð! Um sögu þessa er fjallað í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu og saga lagahreinsunarhugmynda rakin. Fer þar talsvert pláss í að ræða elstu ákvæðin og er það um sumt athyglisvert. Þar segir meðal annars:
Við vinnubrögð að lagahreinsun ber að áliti nefndarinnar að skirrast við að hreyfa við hinum elstu lagaboðum sem í gildi eru og prýða íslensk lagasöfn og hlýtur það sjónarmið þó að þoka fyrir brýnni nauðsyn ef slíku er að skipta. Yfirleitt eru þau lagaákvæði Jónsbókar, sem talin eru í gildi, með þeim hætti að þau ganga ekki í berhögg við nútímalög eða lagaviðhorf, en gæta ber þess, svo sem áður greinir, að samlaga einstök ákvæði þeirra meginreglum laga eða einstökum settum lagaákvæðum þegar þeim er beitt. Veldur það sjaldnast vafa. Athyglisvert er að til nokkurra Jónsbókarákvæða hefur verið vísað í hæstaréttardómum á síðustu árum. Í þessu lagahreinsunarstarfi ber því öðrum þræði að gæta lagaverndarsjónarmiða og þyrma hinum fornu lögum.
Samkvæmt þessum orðum er ljóst að svonefnd „lagaverndunarsjónarmið“ og „þörfin fyrir að þyrma hinum fornu lögum“ réðu því í raun að hin fornu lög fengu að „halda gildi sínu“ eins og það er orðað. Þótt ég deili vissulega þessari verndartilfinningu gagnvart fornum lögum verð ég samt að viðurkenna að mér finnst það frekar undarleg hugmynd að „halda í gildi“ lögum vegna sjónarmiða af þessu tagi.
Lagaboð fyrir 1874
Í réttarheimildafræðinni sem ég las í lögfræðinni á sínum tíma eftir Ármann Snævarr var sérstakur flokkur réttarheimildanna, nánar tiltekið settra laga, sem hét lög sett fyrir 1874. Sögufróðir menn og konur þekkja að með stjórnarskránni 1874 um hin sjerstaklegu málefni Íslands fékk Alþingi löggjafarvald (með konungi) og einveldið þá fyrst formlega afnumið á Íslandi. Þetta markar talsvert mikilvæg skil í réttarsögu Íslands. Á ýmsu gekk um form lagasetningar á Íslandi í gegnum aldirnar. Förum aðeins stutt yfir þetta.
Í prentaðri útgáfu lagasafns frá 1990 er efnisskrá þar sem lögum er raðað upp í aldursröð og auðvelt að sjá hvaða ritstjórar töldu þá að heima ætti í lagasafni af lagaboðum fyrir 1874. Sum má ætla að hafi örugglega átt þar heima, en annað miklu síður. Þess er að gæta að safn gildandi laga hverju sinni sem safnað er í „lagasafn“ er annað en lögbók sem lögtekin er á einu bretti, eins og gerðist með Járnsíðu 1271-1273 og svo Jónsbók 1281. Grágás var ekki svoleiðis lögbók, miklu fremur lagasafn eða lagaskrá eða eftir atvikum lögskýringarrit. Af þessu leiðir að þótt ritstjórar lagasafns hafi tekið ýmis forn ákvæði, þar með talið úr Jónsbók, sker það út af fyrir sig ekki úr um það hvort þau eru í raun gildandi lög. Í raun eru það dómarar sem skera úr um þetta þegar þeir dæma mál. Í ljósi þessa er svolítið óheppilegt orðalagið í greinargerðinni með hreinsunarlögunum sem vísað er til hér að framan um að gömlu lögin hafi fengið að halda gildi sínu því ósvissan um gildi þeirra hafði ríkt lengi og gerir auðvitað enn.
Í lagasafninu er ekkert beint úr Grágás. Þannig ef horft er til lagasafnsins þá hafa ritstjórar þess væntanlega talið að ekkert væri „í gildi“ úr Grágás. Það má heita rökrétt þegar af þeirri ástæðu að lögtaka Járnsíðu hefur líklega átt að fella úr gildi þau lög sem voru í Grágás, ef svo má segja. Síðan hafi Jónsbók fellt úr gildi Járnsíðu. Á hinn bóginn kemur ýmislegt í Jónsbók úr Grágás. Líklegast allt í samræmi við norrænar lagahugmyndir með evrópskar rætur í germönskum rétti, jafnvel með smá dassi af Rómarrétti, enda lögðu Rómverjar undir sig stóran hluta Germaníu, eins og sjá má t.d. á Svarta hliðinu (Porta Nigra) í Trier í Rínarlöndum.
Hin elstu lög
Förum aðeins yfir þau fornu lög sem ritstjórar lagasafnsins telja að nú eigi þar heima. Elsti lagabálkurinn sem kemur þar fyrir er Kristinréttur Árna biskups Þorlákssonar frá 1275. Kristinréttur Árna biskups tók við af hinum kristinna lagaþætti Grágásar, sem hafði verið lögtekin. Í lagasafninu eins og það er nú á netinu eru tvö ákvæði úr þessum fornum lögum. Við skulum gefa okkur tíma til að skoða þau þar sem þau varpa ljósi á álitaefnin sem kom upp við beitingu fornra lagaákvæða.
Þessi ákvæði hljóða svo:
- Um forræði biskups á kirkjum ok eignum þeirra.… Landeigandi er skyldr at láta gera kirkju á bæ sínum, hverr sem fyrr lét gera.
- Um kirkjuvígslu. Vígja skal kirkju síðan er ger er … En ef kirkja brenn upp eða annars kostar spillist, svá at niðr fellr öll eða meiri hlutr, þá skal vígja endrgerva kirkju. En þó at kirkjuráf brenni upp, fúni ok niðr falli lítill hlutr af veggjum, þá skal eigi vígja endrbætta kirkju. …
Vitaskuld er þetta hæpin lagasetning frá sjónarhóli samtímans, þó ekki væri af annarri ástæðu en þeirri að 11. gr. fer bersýnilega gegn trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, sem og MSE. Af sömu ástæðu er 12. gr. einkennileg þar sem þetta er alfarið guðfræðilegt atriði og á ekki erindi í lög. Af hverju er Siðmennt ekki búinn að láta málið til sín taka?
Jónsbók 1281. Enn er talsvert úr Jónsbók í lagasafninu eða alls 47 ákvæði. Samkvæmt góðum pistli Þorsteins Hjaltasonar hæstaréttarlögmanns á Akureyri á Vísindavefnum er um það bil 10% Jónsbókar enn „í gildi“(hér).
Stundum er sagt að Jónsbókartímabilinu hafi lokið 1732 þegar réttarfarsreglur Norsku laga (Norsku lög Kristján 4 frá 1687) voru lögteknar á Íslandi. Það er ekki verra ártal en ýmis önnur sem koma til greina til að marka endalok Jónsbókar. Lögbókin stóð að sjálfsögðu ekki óbreytt allan þennan tíma og kvarnast hafði úr henni á þessari löngu leið í gegnum aldirnar. Spurning er síðan hvernær svo mikið hafði fallið úr gildi að segja megi að lögbókin hafi ekki verið í gildi sem slík þótt einstök ákvæði úr henni stæðu enn.
Um þetta er að segja, að þessi ákvæði Jónsbókar sem enn eru í lagasafninu eru rituð á fornu máli og ég myndi ætla að mestu illskiljanlegu flestu fólki í samtímanum, og eru lögmenn og dómarar ekki undanskildir. Margir myndu þar af leiðandi segja að svona lagatexti standist ekki lágmarkskröfur réttarríkisins um að samfélaginu sé ekki bara stjórnað með lögum, heldur þurfi lögin að vera þorra fólks skiljanleg. Hvað um það, þegar þetta er rætt þarf einnig að hafa í huga að í þessum fornu lögum birtist í ýmsu lagahugsun sem er lík því sem á við nú á dögum. Kemur það kannski ekki á óvart því, eins og Íslendingasögurnar, vitna þessi fornu lög um að þótt tæknin breytist og búskaparhættir og þrátt fyrir allar tölvurnar, snjallmennin og allsherjarnetið, breytist mannskepnan hið innra nákvæmlega ekki neitt og þar af leiðandi sama þörf fyrir sambærilegar grunnreglur um samlíf manna. Þegar kemur að sálarlífi manneskjunnar hafa engar framfarir orðið að ég hygg. Ýmsar reglur Jónsbókar eiga í þessum skilningi erindi í samtímanum og látum þá liggja milli hvort þær hafa í raun lagagildi.
Þótt margar reglur Jónsbókar sem finna má í lagasafninu séu illskiljanlegar, eru sumar þeirra þó mun kjarnyrtari og skýrari en á við um samtímalög. Þannig segir í 12 kap. Kvennagiptinga í Jónsbók, sem enn er í lagasafninu: „… Vélakaup skal at vettugi hafa. …“ Í gildandi samningalögum eru svonefndar ógildingareglur í 28. gr. – 37. gr. og telja um að bil 1330 orð meðan fimm eru talin duga í Jónsbók. Í þessum reglum ræðir um að við ákveðnar aðstæður séu ákvæði samninga þess eðlis og fengin fram með þess konar aðferðum að ekki er hægt að bera þau fyrir og virða ber þau að vettugi. Kannski var pressa á menn í þá daga er Jónsbók var færð í letur að vera stuttorðir því afar dýrt var að skrifa á kálfskinn.
Réttarbót Eiríks konungs frá 1294. Næsta gama lagaboð sem talið er eiga erindi í lagasafnið eru þrjú ákvæði úr réttarbót Eiríks konungs Magnússonar frá 1294. Þar segir þetta:
- Nú ferr maðr á veg með hrossi ok þó at þeir sé þrír, ok stendr hey nær götu, en bær eigi allnær, þá taki þeir at ósekju, ef þeir þurfu, þat sem hross þeira eta þar, ef nauðsyn gengr til.
- Ef hrútr kemr til sauða eða hafr til geita ok gerir spell á, bæti skaða allan, ef hann er heimtr áðr. …
- Skaðabætr skal gjalda sá er svín þau á, er skaða gera, svá sem fyrir annan fénað.
Þá vitum við það. Reynum að ímynda okkur hagnýtt gildi fyrstu reglunnar nú á dögum. Ef hey liggur á víðavangi og engin bær í augsýn þá mega hrossin éta af reiðmanninum að refsilausu, enda sé það hrossinu nauðsynlegt. Þetta er auðvitað gagnlegt fyrir hestamenn að vita. Hin eru í samræmi við almennar reglur, flestar óskráðar, um tjón af völdum dýra, þótt reyndar þær séu eftir orðalagi Jónsbókar bundnar við tjón af völdum hrúta, hafra og svína.
Nokkrir dómar
Fyrst nefni ég dóm Hæstaréttar frá 1972.
Atvikin eru að A var heyrnarlaus og veikur á geði. Hann var heima hjá sér og taldi að verkamenn sem voru að störfum eigi fjarri trufluðu sig. Tók hann byssu og skaut nokkrum skotum í átt að mönnunum, en hæfði þó ekki neinn þeirra sem betur fer, þótt hurð hafi vissulega skollið nærri hælum. Einn mannanna B fékk taugaáfall og var frá vinnu um skeið. B höfðaði mál gegn A til greiðslu bóta.
Þá kom sér vel að geta gripið til reglu í 8. kapitula Jónsbókar um „óðs manns víg ok hversu með hann skal fara“. Þar segir: „ Ef óðr maðr brýst ór böndum ok verðr hann manns bani, þá skal bæta af fé hans … ef til er … En ef óðr maðr særir mann, þá skal arfi uppi láta vera sárbætr ok læknisfé af fé hins óða.“ Í héraðsdómi og Hæstarétti var talið rétt að leggja fébótaskyldu á A samkvæmt „grunnreglum“ þessa ákvæðis.
Orðalagið í Jónsbókarákvæðinu er nokkuð atviksbundið eins og það er kallað. Ef orðalagið er skoðað þá átti það eftir ströngu orðalagi sínu ekki við í málinu enda braust hinn óði hvorki úr böndum og né hlaust bani af atlögunni. Grunnhugsunin er þessi, eins og dómararnir skyldu hana, að andlega vanheill einstaklingur getur borið bótaábyrgð að einkarétti vegna háttsemi sinnar þótt honum verði ekki refsað fyrir hana vegna þess að hann er ósakhæfur (þ.e. óður). Grunnreglan sem Jónsbókarákvæðið hefur að geyma var enn góð og gild lögfræði að hyggju dómaranna sem dæmdu, ef svo má segja.
Þessir regla dúkkaði einnig upp í dómi Landsréttar frá 2021, en um var að ræða sakamál sem reis af íkveikju í húsi við Bræðraborgarstíg í Reykjavík, en ákærði var talinn ósakhæfur og látinn sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Þar segir meðal annars:
Með hinum áfrýjaða dómi var talin sönnuð sú háttsemi ákærða sem honum var gefin að sök í báðum liðum ákæru en hann sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins með vísan til fyrrnefndrar greinar laga nr. 19/1940. Ákærða var aftur á móti gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Með vísan til 8. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar verður ákærði einnig dæmdur til að greiða brotaþolum og öðrum einkaréttarkröfuhöfum skaða og miskabætur eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi.
Samkvæmt þessu lifir þetta ákvæði Jónsbókar um óðs manns víg all góðu lífi, að minnsta kosti grunnhugsunin í því.
Svo er það kaupfox, sem menn nefndu svo á kálfskinninu, og í því efni að líta til dóms Hæstaréttar 16. desember 1993.
Málavextir voru að 1. desember 1989 keypti A krana af B og gengið frá kaupunum. A ákvað að geyma kranann hjá B fram yfir jól. Þegar A ætlaði að sækja kranann sinn kom í ljós að B var búinn að selja og afhenda hann öðrum aðila C. A var skiljanlega ósáttur og bar fyrir sig 14 kapitula Jónsbókar: Þar segir:
..... Þat má eigi haldast, ef maðr selr manni þat, er hann hefir öðrum fyrr selt. En ef sá hefir hönd at, er síðarr keypti, þá.....á sá kaup at hafa, er fyrr keypti, ef honum fullnast vitni......þá er þeim kaupfox, er síðarr keypti...... Þat er kaupfox, ef maðr kaupir þat, er hinn átti ekki í, er seldi, nema at þess ráði væri selt, er átti. Nú skal hann hitta þann, sem honum seldi, ok heimta sitt af honum......
Í héraðdómi segir:
Þótt ákvæði þetta [Jónsbókar] hafi aldrei gengið úr gildi, hefur það sætt takmörkunum og breytilegri túlkun á ýmsum tímum. Vegna áhrifa Rómaréttar var lengi talið, að fyrri kaupandi hefði ekki öðlast eignarrétt, ef hann hafði ekki tekið hinn keypta hlut í vörslur sínar. Þetta er ekki regla gildandi íslensks réttar, og verður að leggja til grundvallar, að stefnandi hafi verið orðinn eigandi kranans, þegar stefndi keypti hann.
Í dómi Hæstaréttar segir:
Í íslenskum rétti nýtur ekki annarra settra reglna um álitaefni hliðstæð því, sem til úrlausnar er í máli þessu, en ákvæða 14. kapítula kaupabálks Jónsbókar, sem rakin eru í héraðsdómi, og við hérlenda dómvenju er ekki að styðjast í þessu efni. Verður að telja, að enn megi á þessari fornu réttarheimild byggja, þegar ágreiningsefni og tilefni þess er eins háttað og hér.
Sem sagt, kaupfox er það að selja manni hlut sem maður á ekki og mönnum ráðið frá að stunda slík viðskipti vilji þeir komast undan armi Jónsbókarlaga.
Svo er það annar úrskurður frá Landsrétti 2021. Þar er rætt um álitaefni sem varða óskipta sameign.
Þá kom þetta ákvæði í 20. kapitula kaupabálks Jónsbókar að góðum notum um það hvernig með skuli fara ef menn tveir eða fleiri eiga einn grip saman. Segir þar:
Alla þá gripi er menn eigu saman, hvárt sem þat er akr eða teigar, hús eða aðra hluti, þá er skipti fær á komit, þá skal sá skipti ráða er skipta vill … En þar sem tveir menn eða fleiri eigu einn grip saman, þann eigi fær skipti á komit svá at eigi verði skaði af, eða þann er annarr vill gagn af hafa, en annarr órækir eða má eigi, bjóði þeim fyrst er til móts eigu við hann. Nú vilja þeir eigi kaupa, þá hluti, hverr kaupa skal, ok leysi sá er hlýtr eptir því sem … skynsamir menn meta, eða seli hverjum er hann vill, ok lúki þeim sinn hluta verðs. Vilja þeir eigi við taka, hafi at ósekju þar til er hinir heimta ok ábyrgist sem sitt fé …
Í úrskurði Landsréttar segir:
Við úrlausn máls þessa verður fyrst að líta til þess að samkvæmt meginreglu eignaréttar, sem á stoð í ákvæðum 20. kapítula kaupabálks Jónsbókar, getur einn sameigenda krafist slita á sérstakri sameign til þess að hver þeirra fái hluta af henni í samræmi við eignarhlutfall sitt, enda sé hún skiptanleg, skiptum verði komið við án þess að það leiði til tjóns að þarflausu og það stangist hvorki á við lög né samning sem eignina varða, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 21. júní 2005 í máli nr. 234/2005 og 22. febrúar 2006.
Bergþórshvoll og Káragerði
Að lokum skulum við skoða aðeins einn dóma Landsréttar frá 2021. Málið rataði í fréttir vegna þess að þar var farið ansi langt aftur og gramsað í gömlum lögum og bókum. Þar er fjallað um Bergþórshvol (I og II) og Káragerði og kröfur eigenda síðarnefndu jarðarinnar til hlunninda sem fylgdu Bergþórshvoli. Dómurinn sýnir hvernig margvíslegar fornar heimildir eru notaða til að rekja sögulega þróun lagákvæða og reglna til frekari skilnings á gildandi reglum, auk þess sem hann varðar ljósi á sönnunargildi gamalla heimilda.
Í dóminum er tekið fram að Bergþórshvols er fyrst getið í Brennu-Njálssögu sem talin er skrifuð á síðari hluta 13. aldar. Ekki er talað um hvenær Káragerðis sé fyrst getið, en rifjum upp að Kári Sölmundarson slapp úr brennunni. Segir í sögunni að Kári hafi hlaupið að læk einum „og kastaði sér í ofan og slökkti á sér eldinn. Þaðan hljóp hann með reykinum í gróf nokkura og hvíldi sig og er það síðan kölluð Káragróf.“ Spurning hvort nafnið Káragerði tengist þessu. Ekki er það ósennilegt, en skiptir þó ekki öllu máli um úrlausn málsins.
Í málinu var deilt um hvort Káragerði tilheyrði óskipt hlunnindi með Bergþórshvoli og um „tilheyrandi umferðarrétt.“ Til að taka afstöðu til þessarar kröfu þurfti meðal annars að skoða lagalega stöðu Káragerðis sem hjáleigu í gegnum aldirnar og hvenær hún hafi orðið sjálfstæð jörð.
Í dóminum segir.
Káragerðis er getið í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem lokið var á árunum 1712 til 1714 en bókin er tekin saman á grundvelli erindisbréfs sem Danakonungur gaf út 1702. Þar er Káragerði sögð vera hjáleiga frá Bergþórshvoli. Ekki er getið hlunninda sem fylgdu Káragerði en í lýsingu á Bergþórshvoli er lýst hlunnindum sem þeirri jörð fylgdu. Er þar á meðal talinn réttur til reka fyrir landi jarðarinnar. Þá hafi jörðin afnot af fiski sem lagst hafi til Oddakirkju á Rangárvöllum sem var eigandi jarðarinnar.
Í jarðamatinu frá 1804 er Káragerðis getið sem hjáleigu frá Bergþórshvoli og jarðirnar metnar saman. Í jarðamatinu frá 1849 eru „Bergþórshvoll með Káragerði“ metnar saman, en þess ekki getið berum orðum að Káragerði sé hjáleiga. Þá er þess að geta að í riti J. Johnsen sem kom út 1847 er Káragerði sögð vera hjáleiga („hjál.“) Bergþórshvols en ritið inniheldur brauðlýsingar, upplýsingar um fólksfjölda í hreppum og prestaköllum, ágrip af búnaðartöflum 1855 til 1845 og skýrslur um sölu þjóðjarða á landinu.
Í jarðabók frá 1861 eru Bergþórshvoll og Káragerði tilgreind undir sama lið og tekið fram að Káragerði sé hjáleiga. Verðmæti Káragerðis er metið sem tiltekið hlutfall, 33,35%, af samantekinni hundraðstölu jarðanna beggja.
Í landamerkjabók Rangárvallasýslu sem tekin var saman á árunum 1884 til 1890 er ekki fjallað sérstaklega um landamerki Káragerðis en vísað til landamerkja Bergþórshvols frá 1883. Í fasteignamati 1916-1918 eru jarðirnar tilgreindar sem sín hvor jörðin og Káragerði metin sem 34,88% af samanlögðu verðmæti jarðanna beggja. Um Káragerði segir einnig að beitilandið sé óskipt frá Bergþórshvoli og landamerkin þau sömu.
Svo er farið í smá sögulegt ferðalag lengra aftur þar sem segir:
Lengst af voru ekki í gildi sérstakar reglur eða lög um hjáleigur, aðrar en þær að í Grágás er leiguliðum eða hjáleigubændum óheimilt að leigja öðrum með sér í óleyfi landeiganda. Heimildir greina frá leiguliðum á 11. öld. Þeim fór síðan fjölgandi á 12. og 13. öld en meirihluti bænda mun hafa verið leiguliðar við lok þjóðveldisaldar. Þannig var aðgreining milli aðal- eða heimajarðar annars vegar og hjáleigu hins vegar vel þekkt hér á landi allt frá 13. öld. Hjáleigur voru sérstök rekstrareining og heimili fyrir leiguliða og hans fólk og gengu kaupum og sölum með aðaljörðinni og eigandi aðaljarðar greiddi af henni tolla og tíundir. Algengt var að ýmsar kvaðir væru lagðar á leiguliða auk greiðslu landskuldar eða leigugjalds. Var þeim til að mynda gert að greiða leigu af kúgildum, leysa af hendi vinnuskyldu, greiða heytoll og tolla af smjöri og ostum og fleira. Lagt hefur verið til grundvallar að væri hjáleigu úthlutað landi úr heimajörðinni að fullu væri hún þar með orðin sjálfstætt býli eins og hver önnur jörð en meðan það hefði ekki verið gert mætti eigandinn leggja hana undir heimajörðina eða aðra hjáleigu þegar hann vildi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 30. mars 2017 í máli nr. 566/2016.
Loks er rætt um veiðirétt í Affalli sérstaklega og segir:
Í Landbrigðisþætti Grágásar var kveðið á um að þar, sem menn ættu merkivötn saman, ætti hver að veiða fyrir sínu landi. Í 56. kapítula Landleigubálks Jónsbókar sagði að hver maður ætti vatn og veiðistöð fyrir sinni jörðu sem að fornu hafi verið nema með lögum væri frá komið. Þessum grunnreglum íslensks réttar um rétt til veiða í straumvötnum og stöðuvötnum var fylgt við setningu vatnalaga nr. 15/1923, þar sem mælt var svo fyrir í 1. mgr. 121. gr. að landeiganda og þeim, sem hann veitti heimild til, væri einum heimil veiði í vatni á landi sínu. Eftir afnám 121. gr. vatnalaga hafa efnislega sömu reglur gilt áfram samkvæmt framangreindum ákvæðum laga um lax og silungsveiði.
Þessi dómur, og fleiri dómar sem varða landaeignir, hlunnindi jarða og því um líkt, sýnir að tilvísanir til fornra laga geta haft margvíslega þýðingu þegar rekja þarf forsögu lagaákvæða sem og til að varpa ljósi á forna réttarstöðu sem getur haft þýðingu fyrir úrlausn mála í samtímanum.
Dr. jur. Davíð Þór Björgvinsson. Höfundur er prófessor við lagadeild HA og deildaforseti