Ég hef aðeins verið að ráfa um á netinu sem og ráðfæra mig við gervigreindina til að fræðast um lengstu málþóf síðari tíma. Samkvæmt þessari athugun minni er Suður-Kórea heimsmeistari í málþófi. Um var að ræða hópmálþóf 39 þingmanna í 192 klukkustundir á árinu 2016 um setningu löggjafar um varnir gegn hryðjuverkum. Í þessu stórmerka málþófi lásu þátttakendur meðal annars upp valda kafla úr skáldsögunni 1984 eftir George Orwell. Þá var þæft af elju í hópmálþófi í kanadíska þinginu 2011 þar sem 103 þingmenn þæfðu saman í 58 klukkustundir um vinnulöggjöfina. Er þetta afrek stundum nefnt sem næst lengsta málþóf á síðari tímum. Þá segir gervigreindin frá því sem sögulegu málþófi þegar þingmaðurinn Roseller T. Lim á þingi Filippseyja talaði á árinu 1963 í rúmlega 18 klukkustundir í einni lotu til að tefja fyrir að Ferdinand Marcos (síðar forseta) yrði kjörinn forseti öldungadeildar þingsins. Segir að þingmaðurinn muni hafa örmagnast og verið borin út úr þingsalnum á sjúkrabörum.
Bandaríkjamenn hafa sett mark sitt á málþófssöguna. Kemur það ef til vill ekki á óvart því í öldungadeild bandaríska þingsins geta menn talað eins lengi og þeir hafa þrek til, en verða þó að tala nokkurn veginn samfellt. Þannig talaði þingmaðurinn Strom Thurmond samfellt á árinu 1957 í ríflega 24 klukkustundir. Hann talaði í ræðu sinni gegn auknum borgaralegum réttindum blökkumanna. Sagt er að hann hafi í sinni löngu og merku ræðu lesið mjög hægt með löngum þögnum á milli valda kafla úr símaskrá Suður-Karólínufylkis, mataruppskriftir og fleira skemmtilegt. Segir sagan jafnframt að hann hafi takmarkað inntöku vökva áður en hann hóf ræðuna til að þurfa ekki að gera hlé á henni til að kasta af sér vatni. Þetta var lengsta ræðan sem haldin hefur verið í öldungadeild bandaríska þingsins, eða þangað til 1. apríl sl. til þegar öldungadeildar þingmaðurinn Cory Booker talaði í 25 klukkustundir og 5 mín gegn stefnu Trump og sérstaklega aðgerðum Elon Musk til að auka hagræðingu í opinberum rekstri. Rétt eins of Thurmond bjó hann sig undir ræðuna með því að takmarka inntöku vökva dagana fyrir ræðuna, og raunar matar einnig, til að þurfa ekki að gera hlé á ræðunni til að sinna kalli náttúrunnar.
Segja má frá því í framhjáhlaupi að Thurmond, þá öldungadeildarþingmaður, tók á móti íslenskum lögfræðingum í vísindaferð þeirra til Washington 1998. Hann var þá 96 ára og greindi okkur sem við hann spjölluðum að hann væri á að undirbúa næstu kosningabaráttu! Hann var 101 árs þegar hann lét af þingmennsku!
Þegar ég spurði gervigreindina almennt um löng og fræg málþóf nefndi hún hvorki Icesave málþófið sem stóð í samtals 147 klukkustundir né heldur 134 klukkustunda orkupakkamálþófið. Hún kannaðist þó við bæði þegar hún var spurð um þau sérstaklega. Sama á við um málþófið um leiðréttingu veiðigjalda, sem nýlega lauk eftir að hafa staðið ríflega í 160 klukkustundir. Suður-Kóreumenn geta andað léttar því forseti Alþingis beitti 71. gr. þingskaparlaga til að stöðva veiðigjaldamálþófið áður en heimsmet þeirra yrði slegið. Þó tókst að slá Íslandsmet eins og allir vita. Þessi könnun mín á málinu skilar sem sagt þeirri niðurstöðu að Alþingi geti nú þegar státað af þremur af fjórum lengstu málþófum síðari tíma.
Jú, jú vissulega þarf að hafa marga fyrirvara á svona samanburði, en þetta ætti þó að gefa nokkuð góða vísbendingu um að þegar kemur að þeirri list að þæfa mál eru íslenskir stjórnarandstöðuþingmenn í hópi þeirra bestu í heimi.
Þegar skoðuð eru rök með málþófi eru þau helst að málþóf auki möguleika minnihlutans til áhrifa enda felist í því ákall um breiðari samstöðu um lög sem getur þrengt möguleika meirihlutans til að þröngva málum í gegn með einföldum meirihluta án samráðs sem kann að vera æskilegt í sumum tilfellum. Í þessum skilningi má segja að beiting málþófs geti þjónað vissum markmiðum í anda lýðræðis og valddreifingar, þar sem ekki sé aðeins tekið mið af fjölda atkvæða, heldur einnig þörfinni fyrir samstöðu og mótvægi við, mögulega, óbilgjörnu meirihlutaræði þar sem ekkert tillit er tekið til andstæðra sjónarmið. Aðrir benda á að málþóf geti jafnast á við neitunarvald minnihlutans og sé í reynd oft notað í þeim miður göfuga tilgangi að stöðva lýðræðislega og þingræðislega framgöngu lagafrumvarpa, jafnvel þótt þau kunni annars að njóta stuðnings meirihluta almennings. Þá geti málþóf sem tæki til að stöðva umbætur leitt til stöðnunar og torveldað þær. Er þá gjarnan bent á málþóf gegn borgaralegum réttindum blökkumanna í Bandaríkjunum sem dæmi um slík neikvæð áhrif. Þá er nefnt að málþóf geti falið í sér sóun á tíma þingmanna og starfsfólks þingsins. Ég fyrir mitt leyti hallast að því að málþóf hafi miklu fleiri galla en kosti og lítill sómi sé af því að vera bestur í heimi í þessari grein „mælskulistar“. Ég er ekki einn um þá skoðun.
Vegna ókosta sem málþóf hefur frá sjónarhóli þingræðis og lýðræðis hafa fjörmörg þjóðþing í lýðræðisríkjum sett reglur sem miða að því að koma í veg fyrir að þingmenn misnoti málfrelsi sitt á þann veg að raunverulegt málþóf megi telja. Auðvitað má deila um hvenær talað hefur verið svo mikið að með réttu megi kallast málþóf, en varla er ágreiningur um að 160 klukkustundir og ríflega 3.400 ræður er ansi löng og mikil umræða hvernig sem á það er litið, enda er þetta í námunda við heimsmetið.
Ákvæði 71. gr. þingskaparlaga sem beitt var af forseta þingsins til að stöðva málþófið um leiðréttingu veiðigjalda kveður ekki á nein tímamörk. Það getur verið kostur því ágætt er að hafa þann möguleika ákveða þetta eftir mikilvægi og umfangi mála hverju sinni. Ákvæðið má aftur á móti líta á sem eins konar öryggisventil sem forseti getur beitt til að tryggja að þingmenn, sem ekki átta sig ekki á muninum á að neyta réttar síns til að ræða mál óhindrað eftir þörfum annars vegar og misnotkun á þessum rétti hins vegar, geti ekki stöðvað eða tafið óeðlilega lengi lýðræðislega og þingræðislega framgöngu mála sem hafa verið ítarlega rædd og sem vitað er með vissu að skýr meirihluti er fyrir meðal þingmanna og jafnvel þorra almennings ef svo ber undir.
Ég get ekki skilgreint málþóf nákvæmlega en ég þekki það þegar ég sé það og heyri, svo sótt sé í smiðju Potter Stewart hæstaréttardómara í Bandaríkjunum sem treysti sér ekki til að skilgreina klám en taldi sig með vissu þekkja það þegar hann sæi það.
Ég er heldur ekki í nokkrum vafa um að þessi ætlaða „takmörkun“ á málfrelsi þingmanna er fullkomlega samrýmanlega stjórnskrá Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu. Áskil mér rétt til að rökstyðja þetta frekar ef tilefni verður til.