Útlensk lög á Íslandi

Ísland starfar náið með ýmsum alþjóðlegum stofnunum. Einna mikilvægast er samstarf Íslands við ESB, en stór hluti af störfum Alþingis og ráðuneyta felst að innleiða löggjöf sambandsins um innri markaðinn. Þetta er gert á grundvelli EES-samningsins en með honum var Íslendingum heimiluð þátttaka á þessum markaði sem telur um 450 milljónir manna.

Þeir sem tortryggja þessa útlensku löggjöf líta svo á að hún taki ekki mið af íslenskum lagahefðum eða sérstöðu íslensks samfélags í sögulegu, efnahagslegu og menningarlegu tilliti. Til lengri tíma grafi hún undan þjóðríkinu og sjálfstæði landsmanna þeim til tjóns. Ekki megi hleypa þessum útlensku lögum dýpra inn í hina helgu lagasál Íslendinga umfram það sem hagstætt er fyrir landann. Í þessu felst hugmynd um að eitthvað sé til sem heitir íslensk lagahefð eða lagasál af sérstökum uppruna og sérstakrar gerðar sem þjóðinni sé hollast að halla sér að eigi ekki illa að fara fyrir henni.

Ég ætla að gerast svo djarfur að rökstyðja að lagahefð sem sé alfarið íslensk sé strangt til tekið ekki til. Ég rifja upp fyrirlestur sem ég hélt á fullveldisráðstefnu Dansk-Íslenska félagsins í Eddu, húsi íslenskunnar, 30. nóvember 2023, en þar rökstuddi ég að hin ætlaða íslenska lögfræði væri í raun dönsk.

Með lögum skal land vort byggja en með ólögum eyða

Í skjaldarmerki íslensku lögreglunnar segir „Með lögum skal land byggja“.  Ýmsir ætla að hér sé vísað til íslenskra lagahugmynda um að án íslenskra laga sé ekki hægt að byggja Ísland svo vel fari. Höfundur Njálu var einnig þessarar skoðunar Í 70. kafla sögunnar segir frá því er Mörður Valgarðsson sakaði Gunnar á Hlíðarenda um að hafa rofið sætt sem gerð hafði verið. Þá svaraði Njáll sem þar mun hafa verið viðstaddur: „Eigi er það sættarrof að hver hafi lög við annan því að með lögum skal land vort byggja en með ólögum eyða“. Höfundur Njálu var fróður um íslensk lög og kannski líka norræn lög, en þetta tvennt var sennilega að stóru leyti eitt og hið sama á þeim tíma er samtal þetta á að hafa átt sér stað. Er þá þess að geta að Njála lýsir atburðum sem eiga að hafa gerst á árabilinu 950-1020, þótt elsti texti hennar sem til er sé talinn skrifaður mun seinna eða um 1300. Orðin finnast aftur á móti hvergi í Grágás né Jónsbók. Þau er á hinn bóginn að finna í  3. kafla þingfararbálks Járnsíðu, sem gilti í um tíu ár á Íslandi á milli fyrrnefndra lögbóka. Þannig ef ekki væri fyrir Njálu hefðu vísdómsorð þessi varla náð að festast í lagahuga Íslendinga.

Í æsku trúði ég að þetta væri alíslensk speki um nauðsyn laga í samfélagi manna, helst íslenskra laga, og var‘ því frekar hissa þegar ég kom til Kaupmannahafnar í fyrst sinn um vorið 1977. Þar stóð nefnilega (og stendur enn) á húsinu við Kóngsins Nýjatorg sem hýsir Bæjarrétt Kaupmannahafnar „Med lov skal land bygges“. Mín viðbrögð voru að þetta hlyti að koma úr Njálu, nú eða jafnvel skjaldarmerki íslensku lögreglunnar.  Hið rétta er aftur ámóti að þetta kemur úr Codex Holmiensis (Landskaparbálki fyrir Jótland, Fjón og Slésvík) sem staðfestur var af Valdemar II konungi Danmerkur árið 1241. Ólíklegt er að Valdemar konungur hafi á þessum tíma þekkt til Njálu og enn síður til skjaldarmerkis íslensku lögreglunnar. Hann hlýtur að hafa haft þennan vísdóm annars staðar frá. Líklega úr norðanverðri Evrópu úr hyldýpum lögspeki miðalda.

 Þjóðveldið

Íslendingar tala gjarnan um stjórnskipan þjóðveldisins 930-1262/4 sem kjarna íslenskra lagahugsunar og á þeim tíma hafi fornaldarfrægð landsins risið hæst, sem og frelsið og manndáðin best, svo leitað sé í kvæðasmiðju Jónasar Hallgrímssonar. Samt vita allir sem vilja vita að rannsóknir á lögum þessa tíma eins og þau eru skráð í Grágás gefa til kynna að þau hafi að stórum hluta verið innflutt eins og sagan af Úlfljótslögum vitnar um en fyrirmynd þeirra voru lög fyrir Hörðaland í Noregi. Þessi lög voru aldrei skráð, nema ef vera skyldi fyrst í Hafliðaskrá 1117-1118, en ekki hefur varðveist eintak af þeirri skrá. Víst má telja að lög þjóðveldisaldar, eins og þau eru skráð í Grágás, eigi sér beina hliðstæðu í Gulaþingslögum frá Noregi og hafi byggst á norrænum og germönskum réttarhugmyndum með rætur í norðurhluta meginlands Evrópu. Þannig hafa þessar réttarhugmyndir ferðast alla leið frá norðanverðri Evrópu, einkum þeim hluta kenndur er við Germaníu (Sviss, Þýskaland, Austurríki, Holland) og áfram þaðan til Danmerkur og Noregs og loks alla leið til Íslands. Að sönnu má segja að frá upphafi byggðar á Íslandi hafi „Evrópurétturinn“ streymt um æðar íslensks samfélags.

Íslenskt konungdæmi

Við lok Sturlungaaldar gáfust Íslendingar upp á þjóðveldinu, sjálfstæðinu sem því var samfara, sem og erjum höfðingjaætta á Íslandi. Sáu þeir ekki annað ráð vænna en að leita á náðir  Noregskonungs til að koma á friði innanlands, gegn því meðal annars að halda íslenskum lögum. Gerður var við hann Gamli-sáttmáli sem svo er nefndur (1261-1262/4). Samþykkt var lögbók sem nefnd var Jónsbók en Jón Erlendsson kom með bókina til Alþingis 1281 frá Noregi. Jónsbók, sem á sér skýra hliðstæðu í landslögum Magnúsar lagabætis  Noregskonungs, sem er í raun samsuða úr lögum þjóðveldisins (upphaflega frá Noregi), evrópskri lagahefð, með dassi af rómverskum áhrifum, einkum á sviði  kirkjuréttar, sem og reglum sem telja má íslenskar að því leyti að þær voru að nokkru sniðnar að búskaparháttum og aðstæðum á Íslandi.

Með lögtöku Jónsbókar tók við það tímabili Íslandssögunnar sem stundum er við hana kennt, en

endalok þess eru gjarnan miðuð við það þegar réttarfarsreglur Norsku laga frá 1687 voru lögteknar á Íslandi 1732. Í lagalegu tilliti einkenndist Jónsbókartímabilið að því að smátt og smátt dró úr lagasetningu Alþingis, jafnframt kvarnaðist úr Jónsbók og vék hún fyrir norskum og síðan dönskum lögum fyrir tilverknað Kalmarssambandsins sem gerði að verkum að Ísland féll að lokum undir Danmörku þótt íslenskir höfðingjar hefðu upphaflega gert Gamla sáttmála við Noregskonung. Þannig einkennist réttarsaga Íslendinga á Jónsbókartímabilinu sem stóð í um það bil fimm hundruð ár, af því að dönsk og norsku lög viku í aðalatriðum fyrir öðrum nýrri dönskum og norskum lögum. Í reynd fór lítið fyrir lögum sem segja má að hafi verið alfarið íslensk þótt í sumum tilfellum megi segja að erlend lög hafi verið aðlöguð að íslenskum aðstæðum, með einskonar altækri aðlögun eins og það heitir í EES-samningnum.

Valdd Danakonungs náði mestum hæðum á Íslandi með einveldishyllingunni í Kópavogi 1662. Niðurlæging Alþingis var orðinn algjör þegar leið á 18. öld og var það síðan lagt niður á árinu 1800 og var þá eingöngu dómstóll. Að vísu var Alþingi síðan endurreist sem ráðgjafarþing 1843 með tilskipun Danakonungs.

Á 18. og 19. öld voru dönsk lagaáhrif áfram ríkjandi á Íslandi. Embættismenn voru danskir og rentukammerið í Kaupmannahöfn streymdi í sífellu danskri löggjöf til Íslands. Íslendingar lærðu líka sína lögfræði í Kaupmannahöfn allt fram á 20. öld og stúderuðu, svo sem vænta mátti dönsk lög. Þetta breyttist þó með stofnun lagaskóla við Þingholtstræti 28 í Reykjavík 1908 þar sem læra mátti íslenska lögfræði þótt það breytti ekki þeirri staðreynd að kennslubækurnar voru áfram á dönsku enda lögin að mestu enn dönsk að uppruna. Eftir að lagakennsla hófst á Íslandi hafa Íslendingar áfram að fara í framhaldsnám til Danmerkur, nú orðið mest til að stúdera Evrópurétt og evrópskar mannréttindareglur!

Íslenskt löggjafarvald eftir 1874

Með stjórnarskránni frá 1874 fengu Íslendingar löggjafarvaldið í sínar hendur ásamt konungi Danmerkur. Alþingi hélt áfram að samþykkja lagabálka langt fram á 20. öld á ýmsum mikilvægum sviðum opinbers réttar og einkaréttar sem í öllum meginatriðum voru reist á dönskum lögum sem fyrirmynd. Þá voru danskar kennslubækur áberandi í laganámi fram undir lok 20. aldar. Þær íslensku kennslubækur sem tóku við eru líka stútfullar af tilvísunum í rit danskra fræðimanna. Má hér nefna svið eins og refsilöggjöf, samningalög, fjölskyldurétt og réttarfar í einkamálum, sem og sakamálum. Önnur svið mótast af dönskum óskráðum reglum, svo sem í skaðabótarétti, kröfurétti og stjórnsýslurétti, en vitaskuld fundu Danir þessar reglur ekki upp heldur fengu þær flestar að láni sunnar í álfunni.  Í stuttu máli, lögfræðin á Íslandi var alveg fram undir lok 20. aldar meira og minn dönsk ef grannt er skoðað, og sú danska raunar aðallega þýsk. Meira segja er lýðveldisstjórnaskráin frá 1944 aðallega dönsk eins og menn þekkja með íslenskri aðlögun þar sem kjósa varð forseta í stað þess að hafa arfakóng sem ekki fannst á Íslandi. Já og svo loks að lokum þarf að nefna mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar sem er samsuða upp úr dönsku stjórnarskránni, sem aftur er soðinn upp úr þeirri Belgísku, og þessu öllu síðan blandað saman við alþjóðlega mannréttindasáttmála, ekki síst Mannréttindasáttmála Evrópu.

Þróun íslenskra laga síðustu árartugi

Upp úr 1990 hafa áhrif danskra laga og danskra fræðimanna á lögfræðiiðkun á Íslandi farið þverrandi. Í stað þessara áhrifa koma áhrif þjóðréttarsamninga á mörgum sviðum. Einkum eru fyrirferðarmiklar reglur sem varða innri markað ESB vegna EES-samningsins og evrópskar mannréttindareglur, svo sem eins og þær birtast í Mannréttindasáttmála Evrópu. Vitaskuld ber ekki að skilja það svo að löggjöf sem alfarið má segja að sé íslensk skipti ekki máli, en það gerir hún auðvitað í ríkum mæli.

Aðalpunkturinn í þessum pistli er þó að halda því til haga að allt frá því að Ísland byggðist hafa lögin í landinu mótast af innfluttum réttarhugmyndum frá meginlandi Evrópu! Það byrjaði svo sannarlega ekki með EES-samningnum.

 

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og prófessor í lögfræði við lagadeild HA

 

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.