Fréttir herma að Laxness sé á útleið úr grunn og framhaldsskólum landsins. Sjálfur las ég Íslandsklukkuna fyrir landspróf, sem var nám sem krakkar stunduðu 15-16 ára gömul í þá daga til að komast í menntaskóla. Nú er þetta 10. bekkur í grunnskóla. Man þetta vel því mér fannst Íslandsklukkan svo frábær og skemmtileg. Í MT minnir mig að okkur samnemendum hafi verið gert að lesa m.a. Gerplu og mögulega fleiri sögur eftir Laxness sem námsefni í íslensku. Man þetta þó ekki glöggt, enda las ég Laxness mikið á menntaskólaárunum af fúsum og frjálsum vilja hvort sem er af því að mér bara fannst hann svo frábær.
Í þá daga er ég sótti menntaskóla var algengt að ungir menn gortuðu sig því að hafa lesið Laxness og ákveðin samkeppni var í gangi meðal þeirra um það hver hefði lesið mest og hver hefði flestar tilvísanir í Laxness á valdi sínu, helst með því að herma eftir skáldinu. Þetta átti síður við um stúlkurnar sem almennt höfðu minni áhuga á Nóbelsskáldinu en piltarnir. Til að standa sig í samkeppninni áttu sumir þessara ungu manna það til að segjast hafa lesið heldur meira í Laxness en rétt var strangt til tekið.
Nú eru þessir fyrrum skólapiltar á virðulegum aldri og ég sé suma þeirra þusa á fésbókinni yfir því að Laxness sé á útleið úr skólum landsins. Grunar mig að einhverjir þeirra hafi í gegnum árin náð að sannfæra sjálfa sig um að þeir hafi lesið ýmislegt í Laxness sem þeir hafa í raun ekki lesið ennþá. Þetta er að einhverju leyti skiljanlegt þegar Laxness á í hlut því maður gæti vel haldið að maður hefði lesið sumt eftir hann sem maður hefur aldrei lesið. Ástæðan er sú að margar persónur úr bókum hans eru þekktar meðal eldri kynslóða langt út fyrir bækurnar sjálfar. Þannig telja margir sig góðkunningja Bjarts í Sumarhúsum þótt þeir hafi í raun aldrei lesið Sjálfstætt fólk. Svo er Bjartur erkitýpa sem svo má nefna, eins konar frumgerð hins forpokaða manns. Til að mynda sagði mér bandarískur bókmenntafræðingur og rithöfundur sem dvaldi langdvölum í stúdentakjallaranum við Hringbraut, þar sem ég starfaði á kvöldin sem dyravörður meðfram háskólanámi mínu í sögu, heimspeki og lögfræði, að þúsundir slíkra Bjarta byggju í Nýju Jórvík. Sjálfur þekki ég nokkra sem búsettir eru í Rangárþingi Ytra.
Vitaskuld voru það vonbrigði fyrir mig að lesa fréttir um að Laxness væri á útleið úr skólum landsins, þótt mig rámi raunar í að áþekk frétt hafi birst í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum síðan. Þessi viðbrögð ráðast eflaust af því að það sem maður telur hafa gagnast sér og hafi jafnvel mótað mann á jákvæðan hátt hljóti að vera gott fyrir aðra líka, ef ekki bara nauðsynlegt. Fer þetta mat eflaust eftir því hvað maður telur sjálfan sig vel heppnaðan og hversu stóran þátt skyldulestur á Laxness kann að hafa átt í því.
En svo hugsar maður málið nánar. Þá verður niðurstaðan sú að auðvitaða er Laxness ekki ómissandi frekar en aðrir dauðlegir menn þegar kemur að því að vinna að mál- og bókmenntaþroska ungdómsins í landinu. Í því sambandi má vekja athygli á að Laxness sjálfur náði þessum þroska sínum langt umfram aðra menn þótt hann hafi ekki átt þess kost á unga aldri að lesa sjálfan sig sem fullmótaðan rithöfund. Aukin heldur entist hann ekki einu sinni í menntaskóla til að klára stúdentspróf svo mikið lá honum á að fara út í heim að skrifa bókmenntir. Hann las því heldur ekki sem menntaskólanemi fyrir próf þær heimsbókmenntir sem í þá daga voru taldar nauðsynlegar hverjum manni sem menntaþroska vildi ná.
Sem aðdáandi Laxness vinn ég gegn því að bækur hans rykfalli með því að halda áfram því sem ég hef gert með hléum í áratugi, sem er að hafa hverju sinni að minnsta kosti eina bók eftir hann í bókastaflanum á náttborðinu mínu. Þar eru jafnan nokkuð margar bækur mismunandi mikið lesnar. Ég er ennþá að reyna að læra af Laxness að skrifa vel. Þegar og ef það tekst ætla ég að verða rithöfundur.
Þegar þetta er skrifað er Innansveitarkronika á náttborðinu mínu, en hún kom út fyrir 55 árum síðan. Ég teygi mig eftir bókinni og um leið hugsa ég með mér hvaða snilld ég muni hnjóta um í þetta sinn. Opna ég þá bókina af hendingu og les þar sem segir af Finnbjörgu eiginkonu Ólafs Magnússonar á Hrísbrú.
„Einginn þekti hana, vegfarendur höfðu aldrei séð hana, sumir drógu af líkum að slík kona væri ekki til. Innansveitarmenn höfðu þó margir séð hana fyr á árum þegar hún gekk um hús sín, stilt í orðfæri en tók á öllu af röggsemi, samt með nokkrum hætti gestur heimahjá sjálfri sér, enda ættuð að norðan; þjóðskáldið á Bæsá sem þýddi Milton og Klopstock ku hafa verið ömmubróðir hennar. Hvernig barst hún að norðan og giftist Ólafi á Hrísbrú? Um það fara ekki sögur. Einstöku maður mundi svo lángt að hafa séð konu þessa fægja gljáþjöppuð moldargólfin á Hrísbrú með álftarvæng fyrir jól. Kanski hafði vilpan í bæardyrunum sem einginn vissi hennar dýpt ásamt foraðinu fyrir framan hlaðstéttirnar orðið henni ofjarl. Dag nokkurn um það bil sem börn hennar voru vel komin á legg lagðist hún í kör og reis ekki upp síðan; en kör hefur verið ein mikilsverðust þjóðfélagsstofnun á Íslandi frá því land bygðist. Það var sagt að konan væri búin að liggja átján ár í körinni.“
Nú fer að styttast í að jólin nálgist! Við blasir að þeir sem áhyggjur hafa af brotthvarfi Laxness úr skólum vinna best gegn neikvæðum áhrifum þess með því með að gefa stálpuðum börnum sínum og barnabörnum Laxness í jólagjöf. Þeir geta meira segja gefið þeim bækurnar sem þeir eiga í sínu eigin safni og stuðlað þannig að aukinni sjálfbærni og sparnaði, sérstaklega þeir sem ekki hafa lesið þær lengi. Það er fátt skemmtilegra við bóklestur en að lesa einmitt eintök af bókum sem bera þess merki að hafa verið oft og vel lesin.
Höfundur er doktor í lögfræði og prófessor við lagadeild Háskólans á Akureyri