Saklaus uns sekt er sönnuð

Í þessum pistli er fjallað um regluna um að maður sé saklaus þar til sekt hans er sönnuð (in dubio pro reo), sem rekja má aftur til Rómaréttar. Reglan er nú á dögum talin til grundvallarréttinda í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, sem og stjórnarskrám ríkja heims sem kenna sig við réttarríkið. Reglan, sem grundvallarregla, gildir ekki eingöngu innan ramma sakamáls sem rekið er gegn einstaklingi, heldur einnig um framgöngu opinberra aðila gagnvart einstaklingi sem hefur verið sýknaður í sakamáli. Reglan gildir á hinn bóginn ekki um opinbera tjáningu einstaklinga, þótt þeir geti engu að síður þurft að axla ábyrgð á tjáningu sinni skaði hún með ólögmætum hætti orðstír eða friðhelgi einkalífs þess sem tjáningin beinist að. Þá kemur fram að „slaufun“ einstaklings án þess að sekt hans sé sönnuð sé ekki brot á reglunni sem lagareglu, enda sé um að ræða félagsleg viðbrögð eða félagslegt taumhald sem einn eða fleiri einstaklingar saman beita aðra en ekki refsingu að lögum. Ágreiningur um réttmæti slaufunar er  siðferðilegur, ekki lagalegur.

  1. Inngangur

Umræða um kynferðisofbeldi hefur verið áberandi á Íslandi undanfarin misseri. Konur stíga fram á opinberum vettvangi og lýsa ofbeldi eða áreiti sem þær hafi mátt þola og nafngreina gerendur. Í kjölfarið rísa deilur og víglína dregin milli þeirra sem trúa viðkomandi og hinna sem telja að einhliða frásögn þolanda sé ekki nægileg sönnun um að rangindum hafi verið beitt sem geti réttlætt samfélagslega útskúfun (slaufun) með á stundum víðtækum afleiðingum fyrir þá sem fyrir verða. Er þá gjarnan vísað til þess að einn af hornsteinum réttarríkisins sé reglan um að maður skuli eiga rétt til að teljast saklaus þar til sekt hans er sönnuð. Verður hér farið nokkrum orðum um þessa reglu. Hvers konar regla er þetta, hverjir eru bundnir af henni og við hvaða aðstæður?

  1. Söguleg atriði

Reglan er skráð í lögbók Justiníanusar keisara hins Aust-rómverska ríkis í Bysans á árdögum miðalda (530–533). Þar er hún lögð út sem almenn sönnunarregla á þann hátt að sá sem fullyrðir eitthvað beri að færa sönnur á fullyrðinguna, en ekki sá sem hafnar því eða dregur í efa að hún sé rétt.  Reglan er í þessari mynd ekki bundin við fullyrðingar um refsiverðar sakir. Reglan mun hafa verið tekin upp sem regla í refsirétti (sakamálaréttarfari) á tíma Antónínusar Píus keisara í Róm á árunum 138 til 161. Samkvæmt því á hún sér hátt í 2000 ára sögu. Sögulega stendur reglan á traustum grunni og styðst að flestra mati við all rík skynsemis- og sanngirnisrök.

Eftir hrun Vest-rómverska ríkisins á síðari hluta fimmtu aldar og á miðöldum hvarf Rómaréttur í skuggann af aðallega germönskum venjurétti í bland við réttarhugmyndir einstakra ættbálka, a.m.k í norðanverðri Evrópu. Birtist umrædd regla m.a. í þeirri mynd að gert var ráð fyrir að við ákveðnar aðstæður mætti gera ráð fyrir sekt manns þótt  sönnunargögn væru veik.  Hann gæti þó borið af sér sakir með t.d. tylftareiði sem svo hefur verið nefndur. Hann fólst í yfirlýsingu tólf manna um að hinn sakaði gæti ekki hafa gert það sem honum er gefið að sök. Að mati sumra réttarsögufræðinga var tylftareiður og áþekkar "sönnunaraðferðir" til þess fallinn að þjóna hinum betur megandi í samfélaginu sem beittu þeim óspart gegn fátæku og fáfróðu almúgafólki sem hafði fá úrræði til að verja hendur sínar gegn ofríki yfirstéttarinnar. Almúginn hafði þannig skert tækifæri til bera af sér sakir sem hinir ríku og voldugu báru á þá án traustra sannana. Sönnunaraðferðir af þessu frumstæða tagi voru sem dæmi mikið notaðar á tímum galdrafársins sem hófst á síðari hluta 15 . aldar. Ef maður eða kona játaði ekki á sig galdur sem á hann eða hana var borinn átti viðkomandi jafnvel líf sitt undir 12 eiðmönnum sem þurfti að útnefna til eiðsvættis. Mörgum "galdrakerlingum" var varpað á bálið vegna þess að þeim tókst ekki að "sanna" sakleysi sitt eins og á þær var lagt samkvæmt þessum réttarhugmyndum. Þannig má segja að þarna hafi gilt reglan „sek(ur) uns sakleysi er sannað“.  Á síðmiðöldum var Rómaréttur að nokkru endurvakinn og er sögulega mikilvægasti grundvöllur lögfræðinnar eins og hún er stunduð nú á dögum í ríkjum sem búa við vestrænar réttarhugmyndir. Það er önnur saga.

  1. Grundvallarregla

Nú á tímum er litið á regluna sem grundvallarréttindi  (fundamental rights). Hana er þannig að finna í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna (11. gr.), sáttamála SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (2. mr. 14. gr.), mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) (2. mgr. 6. gr.), mannréttindaskrá Evrópusambandsins (48. gr.) svo dæmi séu nefnd. Þá á hún sér stoð í stjórnarskrám flestra ríkja heimsins, þar með talið í íslensku stjórnarskránni (2. mgr. 70. gr.). Þar segir: „Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.” Hún er úfærð í lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 (sml), sbr. 108. og 109. gr.

Til fróðleiks má geta þess að reglan í 2. mgr. 6. gr. MSE er orðuð næstum því alveg eins og í íslensku stjórnarskránni, en þar segir: “Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum.” Mætti því ætla að dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) ætti að vera leiðandi um skilning okkar á þessari reglu í stjórnarskránni og framkvæmd hennar á Íslandi. Verður hér farið nokkrum orðum um regluna eins og hún birtist í dómaframkvæmd MDE.

  1. Dómaframkvæmd MDE

Þegar skoðað er hvernig ákvæði 2. mgr. 6. gr. sáttmálans birtist í dómaframkvæmd MDE kemur í ljós að reglan í þrengsta skilningi verndar þann sem af lögreglu eða ákæranda er borinn sökum um refsiverða háttsemi. Hann er þá talinn saklaus í málinu sem rekið er gegn honum uns sekt hans hefur verið sönnuð með þeim hætti að yfir skynsamlegan vafa sé hafið. Fyrir dómi hvílir á ákæruvaldinu af þessum sökum að færa fram sönnunargögn fyrir þeim sökum sem á ákærða eru bornar (108. gr. sml.). Dómari metur hvort sönnun uppfyllir skilyrði um að vera hafin yfir skynsamlegan vafa (109. gr. sml.). Í þessari mynd birtist reglan sem sönnunarregla í sakamálaréttafari þar sem maður í tilteknu máli er borinn sökum um refsiverða háttsemi.

Reglan er þó ekki bundin við að vera sönnunarregla við málsmeðferð fyrir lögreglu, ákæruvaldi og dómi. Hún er samkvæmt dómaframkvæmd MDE víðtækari. Þannig hefur verið litið svo á að maður sem hefur verið sýknaður af tiltekinni háttsemi (t.d. ákæru fyrir kynferðisbrot), eða þar sem sakamál gegn viðkomandi hefur verið fellt niður, njóti verndar ákvæðisins gegn því að fram við hann sé komið af hálfu opinberra aðila (þar með taldir dómstólar) í ákvörðunum þeirra eftir sýknu eins og viðkomandi sé eftir sem áður sekur (eða líklega sekur) um brot það sem hann var ákærður fyrir, þótt fullnægjandi sönnun um það hafi ekki tekist í sakamálinu. Eru rökin þá að reglunni hafi þegar verið beitt í sakamálinu til að koma í veg fyrir að viðkomandi sé með óréttmætum eða ósanngjörnum hætti sakfelldur án nægilegra sannana. Ef ekki þyrfti að virða þá niðurstöðu við meðferð opinbers valds utan þess ramma sem sakamálið sjálft myndar væri dregið úr þeirri vernd sem 2. mgr. 6. gr. MSE er ætlað veita.

Í stuttu máli geta handhafar opinbers valds (ríkis eða sveitarfélags) ekki komið fram við einstakling sem hefur verið sýknaður, eins og hann sé eftir sem áður sekur eða sýkna hans skipti engu máli nema eingöngu innan ramma sakamálameðferðarinnar sjálfrar. Litið er svo á að við þessar aðstæður yrði vernd ákvæðisins ekki eins virk og hún ætti að vera. Hér búa einnig þeir hagsmunir að baki að vernda orðstír og æru viðkomandi einstaklings sem sýknaður hefur verið. Að því leyti tengist reglan í þessum víðari skilningi einnig þeim hagsmunum sem 8. gr. MSE verndar um friðhelgi einkalífs og æru einstaklings.

Um það sem hér segir vitna nokkrir dómar og ákvarðanir mannréttindadómstólsins, sbr. t.d. Zollman gegn Bretlandi (ákvörðun), nr. 62902/00Taliadorou og Stylianou gegn Kýpur nr. 39627/05 og 39631/05, (málsgreinar 27 og 56-59) og  Allen gegn Bretlandi nr. 25424/09 (málsgreinar 93‑94) og að síðustu frá 2018 dómur í máli G.I.E.M. S.r.l. o.fl. gegn Ítalíu nr. 1828/0634163/07 og 19029/11.

Þessi dómaframkvæmd ætti að vera kunnug þeim sem beita opinberu valdi, þar með talið dómsvaldi, og er ætlað að sporna við því að komið sé fram við menn sem sýknaðir hafa verið eins og þeir séu samt sem áður sekir. Ekki er óvarlegt að ætla að hið sama geti átt við um 2. mgr. 70. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Fleiri aðstæður geta komið upp við beitingu 2. mgr. 6. gr. MSE en hér hefur verið lýst en verða ekki frekar raktar.

Samkvæmt þessu sem fram er komið og að svo miklu leyti sem litið er á regluna sem hér um ræðir sem lagareglu sem bundin er í stjórnarskrá, almennum lögum eða mannréttindasáttmálum beinist skyldan til að halda hana í heiðri að yfirvöldum ríkis. Fyrst og fremst þeim sem fara með lögreglu-, ákæru- eða dómsvald í tilteknu máli, en einnig að öðrum yfirvöldum (ríkis eða sveitarfélags) sem vegna reglunnar mega ekki í ákvörðunum sínum koma fram við einstakling sem hefur verið sýknaður með endanlegum dómi eins og hann sé samt sem áður sekur eða líklega sekur.

  1. Ærumeiðingar og friðhelgi einkalífs

Eins og fyrr greinir beinast skyldur samkvæmt 2. mgr. 6. gr. MSE að ríkinu. Á hinn bóginn er hinn almenni þátttakandi í opinberri umræðu ekki lagalega bundinn af reglunni í framangreindum skilningi. Þannig brýtur sá sem ber annan mann refsiverðum sökum í opinberri umræðu (t.d. um kynferðisbrot) ekki gegn reglunni enda beinast skyldur til athafna eða athafnaleysis samkvæmt henni að opinberum aðilum en ekki einstaklingum.

Hinn almenni þátttakandi í opinberri umræðu nýtur tjáningarfrelsis sem verndað er m.a. í 71. gr. stjórnarskrárinnar sem og 10. gr. MSE. Aftur á móti er bæði í stjórnarskránni og MSE gert ráð fyrir að tjáningarfrelsinu fylgi ábyrgð. Af þessu leiðir að öllum þeim sem tjá sig án nægilegs tilefnis með þeim hætti að skaði hagsmuni annarra, t.d. með því að bera á einstaklinga refsiverðar sakir, á að vera ljóst að þeir geta þurft að axla ábyrgð á tjáningunni gagnvart þeim sem hún beinist að og hefur skaðað eða kann að skaða. Þetta leiðir meðal annars af 8. gr. MSE, en í fjölmörgum dómum hefur MDE komist að þeirri niðurstöðu að ríki hafi brotið gegn 8. gr. MSE með því að tryggja ekki nægjanlega að þeir sem bera menn refsiverðum sökum, án þess að það eigi sér nægilega stoð í staðreyndum, sæti ábyrgð, sbr. t.d.  mál Egils Einarssonar gegn   Íslandi nr. 24703/15. Þetta birtist einnig í ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í kafla XXV sem ber yfirskriftina „Ærumeiðingar og friðhelgi einkalífs“.  Hugsunin er þá sú að sá sem með tjáningu sinni skaðar hagsmuni þess sem tjáningin beinist að án fullnægjandi tilefnis verði að axla ábyrgð á því tjóni, t.d. með því að greiða viðkomandi bætur, sbr. 26. gr. skaðabótalaga. Skiptir þá ekki meginmáli hversu göfug markmiðin með tjáningunni kunna annars að vera. Sérstök krafa er gerð til fjölmiðla í þessum efnum, sbr. ýmis ákvæði laga um fjölmiðla nr. 38/2011, en af þeim leiðir að jafnan eru gerðar ríkari kröfur til fjölmiðla um vönduð vinnubrögð en vera myndi um einstaklinga.

  1. Slaufun

Í umræðunni, og þá helst um kynferðisbrot, birtist það viðhorf gjarnan að ekki samræmist reglunni, um að maður sé saklaus þar til sekt er sönnuð, að maður sé, áður er skorið er úr um sekt hans fyrir dómi, látinn sæta félagslegri útskúfun eða slaufun eins það er nefnt. Hér þarf að gæta sín á að rugla ekki saman slíkum félagslegum viðbrögðum eða félagslegu taumhaldi annars vegar og sakfellingu og refsingu að lögum hins vegar. Við getum auðvitað haft þá skoðun að háttsemi einstaklings, sem ekkert lögbrot hefur sannast á, sé samt sem áður af ýmsum ástæðum siðferðilega ámælisverð og ákveðið að fara ekki á tónleika með honum, kaupa ekki vöru frá fyrirtæki hans og almennt hafna öllu samneyti við hann í hverju sem það kann að felast og henda honum að lokum út af vinalistanum á facebook til að taka af allan vafa um sína djúpstæðu vanþóknun á viðkomandi. Sem sagt slaufa honum með öllu. Með þessu er ekki brotin lagaregla um að maður sé saklaus þar til sekt er sönnuð. Ekkert í lögum bannar okkur hverju sinni að slaufa í félagslegum skilningi einstaklingi ef við kjósum svo.

Annað mál er að ýmsir eru á þeirri skoðun að sú aðgerð að slaufa annarri manneskju kunni við ýmsar aðstæður að vera siðferðilega hæpin aðgerð nema maður sé nokkuð viss um að sakir sem á hana eru bornar séu í raun réttar. Þótt einstaklingar séu ekki bundnir af lagareglunni um að maður sé saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð sé reglan engu að síður siðferðileg meginregla sem margir telja rétt að fylgja í samneyti sínu við annað fólk. Þeir sem fallast á regluna sem siðferðilega meginreglu láta þá félagsleg viðbrögð sín ráðast af því, frekar en að grípa án frekari tafa til þess að slaufa fólki hægri og vinstri ef manni mislíkar við það eða skoðanir þess. Þeir sem þannig hugsa, og telja sannanir skorta, geta þá haldið áfram, ef þeir kjósa svo, að fara á tónleika með viðkomandi (séu þeir aðdáendur á annað borð og einhver fáist til að skipuleggja tónleikana), kaupa vörur sem hann eða hún framleiðir eða selur, haldið honum eða henni áfram í vinnu í stað þess að reka, vera vinur hans eða hennar á facebook  o.s. frv., eins og ekkert hafi í skorist, þrátt fyrir ásakanir sem fram hafa komið. Ágreiningur um réttmæti „félagslegrar slaufunar“ og útskúfunar einstaklinga í þeim skilningi sem hér um ræðir og að hvaða marki, án þess að dómur liggi fyrir um sekt þeirra, er þannig fyrst og fremst siðferðilegur en síður lagalegur. Slaufun, sem félagslegt viðbragð eða taumhald, er þannig ekki ólögleg, þótt áfram verði deilt um siðferðilegt réttmæti þess að koma fram við einstakling með þeim hætti.

Dr. jur. Davíð þór Björgvinsson, fyrrv. dómari við MDE, lagaprófessor og varaforseti Landsréttar

This entry was posted in Juris Prudentia. Bookmark the permalink.