Fullveldi og forgangur EES-reglna

I

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til breytinga á lögum nr. 2/1993 (EES-lögin). Lagt er til að eftirfarandi breyting verði gerð á 4. gr. laganna og hún verði svohljóðandi:

Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.

Í 3. gr. laganna er fyrir eftirfarandi regla:

Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

Ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir að þessari reglu í 3. gr. verði breytt enda er hún eðlileg og sjálfsögð og er í raun ekki annað en staðfesting á þeirri almennu og allt umlykjandi lögskýringarreglu að skýra beri íslensk lög til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins eftir því sem unnt er.

II

Regluna í 3. gr. er að rekja til bókunar 35 við EES-samninginn en hún varðar stöðu EES-reglna í íslenskum landsrétti. Efni hennar er að EFTA-ríkin (þar með talið Ísland) skuldbinda sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði sem tryggi að EES-reglur sem komnar eru til framkvæmda, gangi framar öðrum reglum landsréttar ef hinar síðarnefndu rekast á þær fyrrnefndu. Bókunin hefur að geyma þjóðréttarlega skuldbindingu sem Alþingi taldi sig á sínum tíma fullnægja með fyrrnefndri 3. gr. EES-laganna.

Ef orðalag reglunnar í 3. gr. er skoðað sést aftur á móti glöggt að bókunin er ekki efnislega tekin beint upp í íslensk lög heldur þess í stað sett lögskýringarregla sem gengur, samkvæmt orðum sínum, skemmra en skuldbindingin í bókuninni.

Höfundur þessa pistils skrifaði fyrir næstum 30 árum grein um EES-samninginn í Úlfljót, tímarit laganema við Háskóla Íslands, þar sem fjallað er meðal annars um 3. gr. EES-laganna. Niðurstaðan af þeirri athugun var í aðalatriðum sú að efast mætti um að reglan í 3. gr. væri til þess fallin að fullnægja skuldbindingunni í bókun 35. Þó var gerður sá fyrirvari í greininni að þetta færi eftir því hvernig dómstólar myndu í framtíðinni beita 3. gr. og hversu langt þeir væru tilbúnir til að ganga til að virða skuldbindingu íslenska ríkisins samkvæmt bókun 35 og veita EES-reglum forgang á grundvelli hennar þar sem það á við. Síðar hefur komið í ljós að 3. gr. EES-laganna, eins og íslenskir dómstólar beita henni, dugar ekki til að fullnægja bókuninni. Hefur íslenska ríkið af þessum sökum verið snuprað af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fyrir að sinna ekki skyldum sínum í þessu efni. Reynslan hefur því sýnt að efasemdir höfundar fyrir næstum 30 árum um að 3. gr. dygði til að fullnægja skuldbindingum Íslands voru ekki ástæðulausar og reyndar í ljós komið að hún gerir það hreint ekki.

III

Rök fyrir þeirri leið sem Alþingi valdi á sínum tíma vörðuðu með sínum hætti áhyggjur af fullveldisframsali í tengslum við lögfestingu samningsins og að vart hafi verið hægt, vegna stjórnarskrárinnar, að setja hreina og klára forgangsreglu og binda þannig hendur löggjafans í framtíðinni. Eins og fjallað er um í hinni gömlu grein undirritaðs má draga í efa að þetta hafi verið rétt forsenda þegar þessi lögskýringarregla var sett í lög, enda yrði forgangsreglan eingöngu sett í almenn lög sem Alþingi getur alltaf breytt ef svo ber undir. Með hreinni forgangsreglu hefur Alþingi þannig eingöngu bundið hendur handhafa framkvæmdarvalds og dómstóla innanlands, sem og einstaklinga og lögaðila, meðan lögin gilda eins og það gerir með setningu laga endranær. Alþingi getur aldrei bundið sig til frambúðar með setningu laga því að hlutverk þess samkvæmt stjórnarskránni er einmitt að setja ný lög og breyta eldri lögum ef svo ber undir. Engin lög sem Alþingi setur binda hendur þess til frambúðar. Ekki heldur þótt þau séu sett til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum.

Þá eru rök um að EES-reglum í almennum stjórnsýslufyrirmælum fái með slíkri reglu forgang fram yfir reglur í almennum lögum frá Alþingi einnig haldlaus, enda vísar niðurlag ákvæðisins í frumvarpinu til þess þegar ákvæði í almennum stjórnsýslufyrirmælum, sem leiðir af EES skuldbindingu, rekst á við annað ákvæði í almennum stjórnsýslufyrirmælum. Þess er einnig að geta að ákvörðun um að setja EES-reglu í almenn stjórnsýslufyrirmæli byggist alltaf á þeirri forsendu að fyrir því sé stoð í almennum lögum. Annars er hætta á að litið verði svo á að EES-reglan hafi ekki verið réttilega innleidd. Þetta álitamál má aukin heldur forðast með því einfaldlega að setja EES-reglu í almenn lög ef hætta þykir á að stjórnsýslufyrirmæli dugi ekki og EES-reglan virki ekki eins og skuldbinding íslenska ríkisins stendur til.

IV

Í frumvarpinu sem liggur fyrir Alþingi er stefnt að því lagfæra þennan ágalla á EES-lögunum í því skyni að fullnægja loks skuldbindingunni í bókun 35 og setja reglu sem tryggir skýrum og óskilyrtum lagaákvæðum, sem réttilega innleiða skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum, forgang fram yfir aðrar reglur íslensks réttar.

Þessi regla um forgang ESB/EES-reglna er grundvallarregla í rétti sambandsins og byggir á þeirri einföldu hugsun að forsenda fyrir sameiginlegum markaði á sviði vöruviðskipta, þjónustu, fjármagnsflutninga og vinnuafls sé að sömu reglur gildi alls staðar á honum. Hugmyndin er sú, svo skýrt sé með dæmi, að Hollendingur sem nýtir sér réttindi samkvæmt ESB og flytur til Spánar og stofnar þar fyrirtæki eigi að geta treyst því að reglur ESB gangi framar öðrum spænskum lögum rétt eins og Spánverji sem kemur sér fyrir í Hollandi í sömu erindigjörðum á að geta treyst á forgang þeirra í Hollandi. Meginatriði EES-samningsins er að Íslendingum eru tryggð þessi réttindi líka, eins og Ísland væri í ESB. Íslendingur sem flytur til Spánar á að geta treyst því að hann njóti réttinda samkvæmt ESB-reglum og mögulegar fullveldishugmyndir Spánverja standi því ekki í vegi. Á sama hátt á Spánverji sem til Íslands flytur að geta treyst því að fullveldisáhyggjur Íslendinga standi því ekki í vegi að hann njóti réttinda samkvæmt EES-reglum. Með EES-samningnum og bókun 35 gengust Íslendingar undir þá skuldbindingu að tryggja einmitt þetta.

Þrátt fyrir þessi augljósu sannindi er enn og aftur farin af stað umræðan um framsal lagasetningarvalds, yfirgang Evrópustofnana, lýðræðishalla, sjálfsákvörðunarrétt Íslendinga og fl. Höfum í huga í þessu sambandi að reglum EES er fyrst og fremst ætlað að veita einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri aðild að sameiginlegum markaði ESB og veita þeim þar með réttindi, en leggja einnig á þá skyldur í samræmi við kröfur hins sameiginlega markaðar. Ef mönnum er alvara með því að fyrirvarar Íslendinga um fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt standi því í vegi að einstaklingar og aðilar í atvinnurekstri á Íslandi fái að fullu notið réttinda sinna á sameiginlegum markaði ESB, sem Íslendingar sjálfir sóttu um að fá aðgang að án aðildar að sambandinu, er fullveldið þeim ekki það skjól sem það ætti að vera heldur stendur það beinlínis í vegi þess að þeir fái notið þessara réttinda sinna.

Posted in Juris Prudentia

Guðrún Eva Mínervudóttir – Útsýni (Bjartur 2022)

 

Reynsluheimur minn er sá að mér hentar skást að skrifa bóklega þanka um fræðirit, aðallega sagnfræði og lögfræði, en einnig að nokkru það sem kalla má heimildasögur, sögulegar skáldsögur eða sögur sem hafa skýra sögulega tilvísun til raunverulegs fólks og raunverulegra atburða. Ekki spillir fyrir ef í þeim er dass af heimspeki, pólitík og hagfræði. Ég hef þó lesið talsvert af skáldskap gegnum áratugina. Þannig les ég til dæmis allt eftir Gyrði Elíasson nema handritin sem hann er enn með í skúffunni hjá sér, enda kemst ég ekki í þau þar sem ég þekki manninn ekki neitt og veit ekki hvar hann á heima. Sagnaheimur hans höfðar sérlega mikið til mín. Ekki veit ég af hverju það er og hef ekki yfir að búa bókmenntafræðilegum orðaforða sem gerir mér kleift að skýra það á sannfærandi hátt. Kannski er það vegna þess að allir þessir introvertar og einfarar, sem Gyrðir töfrar fram í bókum sínum, höfða svona mikið til mín. Þrátt fyrir þessar takmarkanir mínar, og kannski vegna þeirra, ákvað ég, eftir að hafa ráfað einsamall langa stund milli drekkhlaðinna bókaborðanna í Pennanum í Kringlunni, að fara út fyrir þægindarammann, og spreyta mig aðeins á Guðrúnu Evu Mínervudóttur og bók hennar Útsýni.

Á kápu bókarinnar er saga Guðrúnar Evu Aðferðir til að lifa af ausin lofi af viðurkenndum og þekktum bókmenntadómendum, en svo vill til að þetta er eina bókin sem ég hef áður lesið eftir þennan höfund. Lofgjörðir af þessu tagi á bókarkápum hafa markaðsáhrif á mig og auka kauplöngun mína. Ég fell gjarnan fyrir svona auglýsingabrellum í bókamenntageiranum og hef oft setið uppi með bækur sem mér þóttu ekki rísa undir lofinu. Ég hef því oft verið gabbaður til að kaupa vondar bækur, svo það sé nú sagt. Í þessu tilfelli, vil ég trúa, að meira máli hafi skipt að mér fannst Aðferðir til að lifa af áhugaverð og mér lék forvitni á að kynnast höfundinum betur. Þori varla að segja það, en hún minnti mig á Gyrði.

Sagan er um unga konu Sigurlilju de Waal, sem er svo hávaxin og mjó að hún gæti málað „skipsmöstur að innan“. Sigurlilja er svolítið á skjön í lífinu, að áliti móður hennar. Höfundur áréttar þessa sérstöðu sögupersónu sinnar með ýmsum hætti. Hún á hollenskan föður sem hefur lítið af henni að segja. Hún passar ekki í bílsæti og flugvélar og ekki inn í læknavísindin, já eiginlega ekki inn í heiminn.  Á dimmu vetrarkvöldi í Hafnarfirði sér hún ljósboga á himni, eins konar geimskip, líður út af og er vakin upp og fylgt heim af ókunnugum manni, sem kemur ekki frekar við sögu. Ef ég skil rétt er hún eftir þetta þeim hæfileika búin að sjá veruleikann með augum annarra í bókstaflegri merkingu. Þetta gengur eiginlega svolítið lengra því hún nánast klæðir sig húð annarra og er um tíma það fólk hvers augum hún sér heiminn með, að öðru leyti en því að hún getur ekki tekið líf þeirra yfir og stýrt því hvað það tekur sér fyrir hendur.  Reynsla, hugsanir og kenndir þessa fólks verða hennar eigin á þennan passífa hátt. En hún er sérlega hávaxin og þannig er útsýni hennar meira en okkar hinna sem eru svona rétt í meðallagi og svo ég tali nú ekki um þá sem lágvaxnari eru. Nú veit ég að margir sem ég þekki lesa ekki undir nokkrum kringumstæðum bækur sem fjalla um geimverur, handanveruleika og önnur slík hindurvitni. Verð því að taka fram strax og þessi bók Guðrúnar Evu hefur, eftir mínum skilningi, ekkert sem slíkt að gera.

Ramminn sem höfundur mótar kringum þessa sérstæðu og margslungnu sögu er þó frekar einfaldur. Sagan hefst á að Sigurlilja (Lilja) tekur sér fyrir hendur, að ósk móður sinnar, ferðalag til Bakkafjarðar um sumarsólstöður til að ganga frá dánarbúi eftir aldraða frænku þeirra mæðgna, Teresu. Á þessu ferðalagi hittir hún fjölda fólks. Þessi einfaldi söguþráður heldur sögunni saman og skapar henni ramma, en innan hans er heill heimur og miklu stærri tímarammi en þarf til að leysa þetta tiltekna verkefni af hendi. Ég ætla ekki að spilla lestrinum fyrir mögulegum lesendum með því að rekja söguþráðinn hér nánar.

Á ferðalaginu kynnist lesandinn fjölda fólks; sögupersónunni sjálfri, Teresu frænku, nágrönnum og kunningjum hennar á Bakkafirði, öllu því fólki sem hún tekur sér bólfestu í til að sjá heiminn í gegnum og ýmsu öðru fólki sem staldrað hefur við í lífi hennar, svo sem skólafélögum, vinnufélögum og „vinum“, því óljóst er hvort hún getur átt vini yfirhöfuð.  Þannig eru innan þessa ramma margar smásögur þar sem þessar persónur birtast, segja sína sögu og hverfa svo. Þarna er meira að segja glæpasaga. Þannig stendur aðalpersónan í miðju þessu persónugalleríi og setur sig í spor alls þessa fólks og hlustar á sögur þeirra. Þar stendur Sigurlilja utan við sjálfa sig, ef svo má segja og upplýsir lítið um sig, áform sín, langanir og þrár ef einhverjar eru. Lestur bókarinnar er afar sérstakt ferðalag sem höfundurinn býður lesandanum með sér í. Endir sögunnar er einnig sérstæður, svona í samhengi sögunnar‚ ef svo má segja, því skýringar á þessum hæfileikum Sigurlilju eru jarðbundnari en maður kynni að ætla. Segi ekki meira um það. Þetta skýrist síðari hluta bókarinnar.

Hver er lærdómurinn? Nú verður líklega hver og einn lesandi að ráða í það eftir sínum skilningi, eins og á við um allar góðar skáldsögur. Mér virðist ýmislegt koma til greina þótt ekki sé tryggt að höfundurinn myndi fallast á neitt af því, enda hef ég ekki þann hæfileika að sjá söguna með augum höfundarins sjálfs. Ég les bara textann eins og hann liggur fyrir út frá mínu afgirta sjónarhorni. Í öllu falli minnir sagan á að við erum í raun alltaf lokuð af við eigið sjónarhorn. Allir eiga sér sína sögu og allar eru þessar sögur áhugaverðar og verðugar. Sumar þeirra kunna að þykja hversdagslegar á ytra borði, en aðrar eru dramatískar og tilfinningaþrungnar. Góður er sá eiginleiki að geta sett sig í spor annarra og freista þess að horfa á heiminn frá annarra sjónarhóli og leggja sig fram um að skilja þannig afstöðu þeirra og sérstöðu betur. Hvert og eitt líf er þess verðugt að því sé lifað og það er sérstakt og frásagnarvert.  En þessi eiginleiki að sjá heiminn sífellt með augum annarra er þó ekki heppilegur að öllu leyti því hann kann að leiði til þess að maður setji eigið sjálf til hliðar. Með því að lifa lífi annarra setur maður sitt eigið til hliðar. Það er einmitt það sem aðalpersónan gerir lengst af, hún dregur sig í hlé, hefur engin plön fyrir sig eða metnað sér til handa og er fjarlæg og einræn. Hún lifir í fjölskrúðugu lífi annarra. Eins og Guðrún Eva segir, Sigurlilja vistar sínar „sjálfur“ í símann sinn, en þær hverfa síðan þegar líftíma hans lýkur, svona eins og hann er gerður til. Sigurlilja skilur sjálfa sig eftir á ferð sinni um líf, huga, afstöðu og sjónarhorn annarra. Svo taka hlutirnir á sig aðra mynd þegar maður hefur ekki lengur þá sérstöðu að vera hlutlaus og velviljaður áhorfandi og verða þess í stað ábyrgur fyrir sjálfum sér og öðrum. Sagan er vissulega margræð og unnt að leggja út frá henni á mismunandi vegu. Líklegt er að einstaka lesendur geri einmitt það, hver og einn út frá sínu afmarkaða  sjónarhorni.

Mér hugnast stílinn á bókinni sérleg vel. Um leið og hann er einfaldur, tær og blátt áfram er hann fullur af næmni og skáldlegri andagift og léttri kímni þegar það á við. Og svo er hann alveg laus við þreytandi orðskrúð, óðamæli og tilgerðarlega upphafningu sem einkennir suma höfunda.

Vel gerð og áhugaverð skáldsaga sem skrifuð er af ríku innsæi og næmni.

 

Tugthúsið – Haukur Már Helgason (Mál og menning – 2022)

 

I

Lestur bókarinnar tengist áhuga mínum á íslenskri réttarsögu. Raunar skrifaði ég fyrir margt löngu ritgerð til embættisprófs í lögfræði um áhrif Upplýsingarinnar á íslenska refsilöggjöf og sakamálaréttarfar. Upp úr henni vann ég síðar samnefndan kafla í ritið Upplýsingin á Íslandi (1990) í ritstjórn Inga Sigurðssonar prófessors emeritus í sagnfræði, hvers ég naut leiðsagnar um lendur upplýsingarinnar á Íslandi undir lok BA náms í sagnfræði. Sögutími bókar Hauks Más er einmitt þegar hugmyndir upplýsingamanna um þessi efni eru festast í sessi Evrópu, eða frá því um 1750 til 1840. Efni bókarinnar er mér því skylt.

Afbrot og refsingar á Íslandi á 18. öld er endurtekið stef í íslenskum bókmenntum. Fyrst er nefnd Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness. Sú saga er að sönnu stórbrotin og marglaga, en för Jóns Hreggviðssonar um svipugöng íslensks og dansks réttarkerfis, sem hófst á fyrsta áratug aldarinnar, liggur í gegnum hana alla. Hér má og nefna Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson en bakgrunnur hennar eru morðin á Sjöundá á Rauðasandi 1802. Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson kemur mér einnig hug þótt sú saga gerist síðar. Þá eru mörgum kunnar bækur Björns Th. Björnssonar Haustskip (1975), sem er saga um örlög Íslendinga sem fluttir voru í þrælakistur Kaupmannahafnar á árunum 1745-1763 og Falsarinn um Þorvald Þorvaldsson frá Skógum í Þelamörk, sem falsaði peningaseðil og var dæmdur til dauða. Fleira mætti telja þótt ekki verði gert hér. Má því segja að Haukur Már ráðist ekki á garðinn þar sem lægstur þar sem bók hans skapar hugrenningartengsl við stórvirki í íslenskri bókmenntasögu.

II

Hugmyndir upplýsingamanna eiga rætur í heimspekikenningum um náttúrurétt og náttúruleg réttindi manna sem ríkisvaldið geti ekki af þeim tekið. Rökrétt var að menn veltu fyrir sér hvaðan ríkisvaldinu kæmu heimildir til að beita fólk refsingum og hvort því valdi væru settar skorður. Þetta væri unnt að gera með ýmsum hætti. Ein leiðin væri að þrengja hugtakið afbrot og fækka þannig heimildum til að refsa fólki, svo sem fyrir ætluð brot sem varða trúarviðhorf þess, samvisku, skoðanir og tjáningu þeirra, sem og siðferðilegri breytni. Þannig mætti fella ýmis konar háttsemi sem áður var talið til afbrota utan þess hugtaks. Þá voru mótaðar ýmsar grundvallarreglur refsiréttar, svo sem að heimildir ríkisvaldsins til að refsa fólki styddust við lagaheimild sem mætti ekki vera afturvirk og sjálfstæðir dómstólar gerðu mönnum refsingu. Loks mótuðust hugmyndir um að refsing skyldi hæfa glæpnum og refsivist skyldi beitt í auknum mæli. Loks skyldu lagðar af ýmsar líkamlegar refsingar, svo sem hýðingar, aflimanir og aðrar limlestingar á fólki fyrir litlar eða engar sakir, svo ekki sé nú talað um dauðarefsingar. Þess í stað var talað fyrir refsivist og vinnu fanga í bland við betrun þeirra til gera þá að gildum samfélagsþegnum. Þetta hefur í framkvæmd gengið upp og niður, svo sem menn þekkja. Upplýstar hugmyndir um glæpi og refsingar náðu skjótri útbreiðslu. Raunar eru þær margar nú á dögum svo fastar í sessi að segja má að þær séu hluti af réttarvitund þorra manna, a.m.k. í Evrópu.

Hugmyndir þessar náðu til Danmerkur eins og annarra ríkja í Evrópu, þótt þær bærust til Íslands seint og illa og eiginlega ekki að marki fyrr en Magnús Stephensen dómstjóri kom með þær í farteski sínu frá námsvist í Kaupmannahöfn og tók sæti í hinum nýja Landsyfirrétti sem stofnaður var árið 1800. Fremstur í flokki þeirra sem höfðu kynnt sér þessar hugmyndir var einmitt Henrik Stampe en hann var helsti ráðunautur stjórnarinnar í Kaupmannahöfn til ársins 1784, en hann kemur við sögu í bók Hauks Más. Á eftir honum kom svo Christian Colbiørnsen. Hlutverk þeirra var meðal annars að vera stjórninni til ráðuneytis um refsirétt og meðferð sakamála. Ekki þarf að rýna lengi í verk þeirra til að átta sig á að þeir þekktu til hugmynda upplýsingarmanna um glæpi og refsingar. Lögðu þeir sig nokkuð fram við að innræta íslenskum lagamönnum þessar hugmyndir með óljósum árangri

III

Fyrir meðal annars áhrif Upplýsingarinnar urðu þær breytingar á refsirétti í Danmörku og þar með á Íslandi, að heimildum til að dæma menn í refsivist (þrælkun) fjölgaði. Föngum á Íslandi sem þurfti að senda utan til afplánunar fjölgaði þar með því ekkert tugthús var á Íslandi til að hýsa allt þetta fólk. Meðfram þessu varð talsverður straumur Íslendinga í þrælakistur Kaupmannahafnar og lýsir Björn Th. Björnsson þessu í heimildasögu sinni Haustskip, sem fyrr er nefnd. Kostnaður við upphald fanga meðan ferðar var beðið, því þær voru strjálar, lagðist á sýslumenn þeim til örgustu mæðu.

Þótt umræður um mögulegt tugthús á Íslandi hefðu hafist nokkru fyrr var það vissulega fyrir bænaskrá íslenskra sýslumanna frá 1757 að skriður komst á málið eins og fram kemur í bók Hauks Más. Í bænaskránni, sem send var konungi á hátindi Upplýsingarinnar í Evrópu, er meðal annars biðlað til konungs um að rýmka heimildir til að taka sakamenn af lífi. Þá þyrftu sýslumenn ekki að halda þeim uppi þar til þeir yrðu sendir þrælkunar hjá kónginum. Ódýrara og skilvirkara væri fyrir alla sem ættu hagsmuna að gæta, annarra en sakamannanna sjálfra, að lífláta þá strax. Ekki bætti úr skák, frá sjónarhóli stjórnarinnar í Kaupmannhöfn, að kaupmenn fóru um þessar mundir að heimta gjald fyrir flutning fanga til Danmerkur.

Í bók Hauks Más kemur fram að áðurnefndur Henrik Stampe fékk bænaskrána til umsagnar. Samdi hann ítarlega skýrslu um þessa illræmdu bænskrá og er að sjá að honum hafi verið nokkuð brugðið. Eitt af því sem hann mælti með sem lausn var að reisa hegningarhús á Íslandi. Með því skyldu í einu höggi slegnar þrjár flugur, spara sýslumönnum uppihald dæmdra manna og stjórninni kostnað af flutningi þeirra í þrælakistur sínar. Enn mætti nýta vinnuaflið við þrælakjör á Íslandi svo sem Skúli Magnússon innréttingamaður og fleiri höfðu hug á. Þannig má segja að upplýsing og peningar hafi ráðið mestu um að húsið var reist, þótt í ljós komi, þegar saga þessi er rannsökuð, að hugsjónirnar virðast hafa vikið undra skjótt fyrir sjónarmiðum um kostnaðarhagkvæmni og þrefi um hvernig reksturinn skyldi fjármagnaður. Er þess þá að geta að afrakstur af vinnu fanga innan og utan Múrsins, sem húsið var kallað, hrökk lengst af skammt þótt ekkert væri kaupið (utan brauð- eða brennivínskammta um tíma) og annar kostur oftast rýr, nema þegar mikið lá við að þeir fengu þá næringu sem dygði til að þeir nýttust til vinnu. Þá er líka ljóst að margir sem störfuðu í húsinu og höfðu þar öll ráð í hendi sér hirtu lítt um upplýstar refsikenningar og óvíst hvort þeir höfðu yfirhöfuð frétt af þeim. Þessa ber merki doktorsritgerð Björn Þórðarsonar um Refsivist á Íslandi 1761-1925, en saga hússins er þar kortlögð af mikilli natni og fjármálin áberandi leiðarstef.

IV

Í bók sinni tekur höfundurinn Haukur Már sér fyrir hendur að segja sögu hegningarhússins frá nýju sjónarhorni samanborið við aðra á undan honum sem hafa nálgast efnið frá víðara fræðilegu sjónarhorni. Þetta gerir hann með því að beina athyglinni að lífinu í húsinu og lífi og örlögum þeirra er þar voru vistaðir eða störfuðu þar hverju sinni. Ég tel að framlag Hauks Más til þessarar sögu sé mikilsvert og mikil viðbót við það sem áður hefur verið skrifað um þessi efni. Kafar hann býsna djúpt í þessa sögu og dregur á afar sannfærandi hátt upp mynd af lífi fanganna í húsinu sem er nöturlegri en mig hafði órað fyrir. Taldi ég mig þó fyrir lestur bókarinnar hafa vitað ýmislegt misjafnt um þessa stofnun. Verður til að mynda ekki betur séð en að vinnu fanga innan og  utan Múrsins sé að sönnu best lýst sem þrælahaldi, meðal annars við að bera grjót í nýja dómkirkju í Reykjavík. Þá var meðferð fanga, líkamlegar refsingar og agaviðurlög sem þeir voru beittir, sem og aðstæður og sá kostur sem þeim bauðst mótaður af fullkomnu skeytingarleysi um hag þeirra, harðneskju og grimmd sem leiddi fjölda þeirra til örkumlunar og dauða eins og skýrt er af bók Hauks Más. Í bókinni birtist þessi saga sem ljótur blettur á íslenskri réttarsögu og voru þar þó fyrir margir stórir blettir og ljótir.

VI

Höfundur hefur unnið mikla heimildavinnu, með því að skoða frumheimildir, svo sem löggjöf, bréfaskriftir ýmis konar milli embættismanna, opinberar skýrslur, dómsskjöl o.fl. og næsta líklega einnig fræðileg skrif um efnið. Bók Hauks Más er þó ekki fræðirit því þótt mikið sé um almennar frásagnir af heimildunum eða efni úr þeim í bókinni eru vísanir til þeirra með þeim hætti að ekki er unnt, eða að minnst kosti mjög fyrirhafnarsamt, að staðreyna hvort rétt sé eftir haft. Skáldaleyfi höfundar auðvelda það ekki heldur. Ég tek fram að ég efast þó ekkert um að rétt sé eftir haft þar sem það á við.

Á bakhlið kápu bókarinnar segir að um skáldsögu sé að ræða. Frásögnin og framvinda sögunnar er þannig að fangar og starfsmenn líða fyrir sjónir lesanda eins og skuggamyndir fremur en ljóslifandi persónur og skil aðal- eða aukapersóna eru óglögg. Fangarnir birtast þar hver á fætur öðrum flestir hoknir af fátækt, striti, vesöld, harðræði og bugaðir af ofbeldi og óréttlæti þessa heims. Þar birtast og ráðsmenn, tugtmeistarar og aðrir sem störfuðu í þessu húsi, sem og embættismenn, háir sem lágir, sem flestir létu sér þessa illu meðferð og þetta mikla óréttlæti sig í fáu varða. Erindi þeirra sem tóku málstað fanganna og óskuðu úrbóta voru afgreidd af æðstu embættismönnum sem stagl og leiðindi. Svo er þar sagt frá fálkaföngurum, landmælingamönnum, stjörnuskoðunarmönnum sem sem koma við sögu hússins. Persónugalleríið í bókinni er afar stórt og fjölbreytt. Í bókinni eru þannig í raun margar smærri sögur sem þó gætu margar hver um sig verið uppistaða í sjálfstæðar sögur. Vegna aðferðar höfundar við að koma allri þessari sögu á framfæri er verður stundum illa fest hönd á einstökum persónum og vafalaust væri áhugavert að kynnast mörgum þeim betur og fá að vita meira um lífshlaup þeirra og örlög. Í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni stakk höfundurinn sjálfur upp á að um sögulega skáldsögu eða heimildasögu kynni að vera að ræða, en var þó, ef ég skil rétt, ekki alveg viss hvernig flokka bæri. Skiptir slík flokkun reyndar litlu máli, því bókin er að sönnu snjöll og mikilsverð eins og hún er og best að lesendur nálgist hana þeirri forsendu og velji henni sjálfir stað í bókahillunni að lestri loknum.

Þá aðeins um málfar og stíl. Í því efni verð ég að játa að mér fannst textinn á stundum seigur undir tönn, einkum við upphaf lestursins. Helgast þetta af því að víða eru setningar langar og bútaðar niður með aukasetningum og innskotssetningum sem hver um sig inniheldur sjálfstæð efnisatriði þótt þau séu um leið tengd. Þess er og að geta að í bókinni er fjallað um tímabil Íslandssögunnar sem orðað hefur verið við „íslenskunnar trufl og rammskældan böguskap, sem af dönskunni stendur“. Ætla verður að stíllinn mótist af hendi höfundar á köflum, næsta örugglega meðvitað, af grúski hans í heimildunum og þannig hinum málfarslega tíðaranda, sem og einnig þeim stíl sem vænta mætti í skýrslu sögumannsins Páls Holt. Oftast er höfundur á léttari spretti og textinn líður fram heiður, tær og bráðsnjall.

VI

Undir lokin varpar skýrsluhöfundurinn og sögumaðurinn Páll Holt því fram að forvitnilegt sé, hafandi í huga þessa ömurlegu fortíð hússins „að ríkisstjórnir velji sér þetta samhengi og störfum sínum og hitt hvaða áhrif það hefur á þéttbýli að verða til í kringum tugthús í þeirri nálægð við óslitnar refsingar og með þann aðgang að vinnuafli fanga sem á dönsku hétu þrælar.“ Nú get ég ekki svarað þessari spurningu Páls Holts (höfundar), að öðru leyti en að rifja upp að Hæstiréttur Íslands var beinlínis í tughúsinu við Skólavörðustíg á sínum fyrstu starfsárum. Í því fólst ákveðin tegund af íslenskri skilvirkni með því leiða mátti sakamenn, þegar eftir upplestur dómsorðs, niður á næstu hæð til að hefja þar afplánun. Vil einnig benda á að stjórnskipunardómstóll Suður-Afríku í Jóhannesarborg, sem settur var á fót eftir afnám aðskilnaðarstefnunnar þar í landi, er í endurgerðu húsi á rústum eins illræmdasta fangelsis landsins. Þar dvöldu þúsundir fanga um lengri eða skemmri tíma og týndu lífinu vegna hörmulegra aðstæðna og illrar meðferðar. Þar í landi hefur þessi staðreynd þá táknrænu merkingu, að bygging þar sem réttindi manna voru áður fótum troðin skuli eftirleiðis vera varðstöð um þau. Á Íslandi hafa menn líklega lítið velt fyrir sér slíkum táknmerkingum og eins líklega valið þetta hús til að hýsa æðstu stjórn landsins vegna kostnaðarhagræðis, rétt eins og þegar tekin var ákvörðun um byggingu þess á sínum tíma. Auðvitað er við hæfi að fyrir utan þetta fyrrum illræmda tugthús standi minnismerki um allt það skuggsækna fátæka almúgafólk sem týndi þar lífi sínu.

Afar áhugaverður lestur sem ég mæli óhikað með.

 

Millibilsmaður - Skáldsaga eftir Hermann Stefánsson (Sæmundur 2022)

Millibilsmaður - Skáldsaga eftir Hermann Stefánsson (Sæmundur 2022)

Jólabókavertíðin 2022 er hafin. Skemmtilegur tími og eitt það besta við jólin á Íslandi ef út í það er farið. Nú ætla ég að taka upp á því að setja inn á vefinn hjá mér, í sérstaka möppu, þanka um þær bækur sem ég kemst yfir að lesa á þessari vertíð. Þar sem starf mitt felst í lestri dómskjala lungann úr deginum, er því þreki sem eftir er til bóklesturs takmörk sett, svo ég á ekki von á að pistlarnir verði margir eða tíðir.

Fyrsta „jólabókin“ sem ég las þetta árið er skáldsaga Hermanns Stefánssonar - „Millibilsmaður“ sem Bókaútgáfan Sæmundur gefur út.

Fremst í bókinni tekur höfundur fram að texti hennar sé skáldskapur, en líkindi við veruleikann, raunverulegt fólk og viðburði séu þó ekki tilviljun. Þá segir höfundur að hið ótrúverðugasta í bókinni sé einmitt það sem byggt sé á heimildum, prentuðum sem óprentuðum. Þetta er einkenni höfundar þar sem hið líklega er einmitt ólíklegast og hið ólíklega líklegast. Sagan er tileinkuð minningu hjónanna Guðmundar Hannessonar læknis og skipulagsfrömuðar (1866-1946) og Karólínu Margrétar Sigríðar Ísleifsdóttur Breiðfjörð (1871-1927), langafa og langömmu höfundar. Þau hjónin eru meðal höfuðpersóna sögunnar, og heita þar Jannes Guðmundur Jannesson og Mekkín Karolína Sigríður Ísólfsdóttir Breiðfjörð. Líkindi eru með nöfnum þeirra persóna sem bera uppi söguna og þess raunverulega fólks sem þær eru sóttar í. Tekur höfundur fram að hann hafi sérstaklega lagt sig fram við að gæta ósamræmis í nafngiftum og rithætti, í takti við tíðarandann.

Sögusviðið er fyrst og fremst Reykjavík á fyrsta áratug síðustu aldar. Doktor Jannes og Mekkín eru flutt til Reykjavíkur frá Akureyri. Í Reykjavík breiðist spíritisminn út eins og faraldur og um þetta leyti er Tilraunafélagið stofnað, sem beitti sér meðal annars fyrir því að sanna með vísindalegum aðferðum að framhaldslíf væri staðreynd og vel mætti halda uppi samræðum við framliðna með aðstoð millibilsmanna, þótt ýmsir efuðust mjög, meðal annarra doktor Jannes. Um leið var félagið starfsvettvangur fyrir þekktasta miðil þessa tíma Indriða Indriðason sem í sögunni heitir Tindri Jónsson ættaður úr Saurbæjarsveit í Dalasýslu. Þótti hann búa yfir meiri dulrænum hæfileikum en títt var um aðra menn.

Að starfi Tilraunafélagsins komu margir af betri borgurunum í höfuðstaðnum (heiti þeirra í sögunni í sviga fyrir aftan). Þannig var helsti forkólfur þess Einar Hjörleifsson Kvaran, rithöfundur og ritstjóri (Einar J. Kvaran), Björn Jónsson ristjóri Íslafoldar og síðar ráðherra Íslands 1909-1911 (Björn Hrafndal Jónsson), séra Haraldur Nielsson prófessor (Húnbogi Nielsson). Ýmsum fleiri andans mönnum bregður fyrir í sögunni sem ekki verða nefndir. Svo dúkkuðu nokkrir framliðnir upp á fundum félagsins eins og vænta mátti og tóku virkan þátt í fundarstörfum, svo sem fundargerð félagsins, sem rakin er í sögunni vitnar um, þar sem fært er til bókar að fram hafi komið á fundinum meðal annarra fjölnismaðurinn Konráð Gíslason sem hvarf annars á vit ferða sinn um 15 árum áður og stjórnaði nú fundum að handan. Þar flutti og Hallgrímur Pétursson sálm. Svo var það einn framliðinn sem hafði ekki tíma til að staldra lengi við á fundi félagsins þar sem hann þyrfti að ræða við Sókrates. Margt annað framliðið fólk kemur fyrir í sögunni sem ekki er fært að gera hér frekari skil. Á æðstu stöðum í stjórnkerfinu ræða menn möguleika á því að Ísland geti verið í framlínu á heimsvísu í spíritisma og liður í því gæti verið mannkynbótastefna til rækta miðilshæfileika með þjóðinni, svo sem með því að leiða helstu kvenkosti landsins undir Tindra Jónsson millibilsmann, sem víðkunnur var fyrir dulræna hæfileika sína.

Í hinu stærra samhengi hlutanna er í sögunni af gáska og húmor tekist á við stórar tilvistarspurningar um tengsl trúar, dulspeki og vísinda, þar sem doktor Jannes rannsakar rannsóknir Tilraunafélagsins á framhaldslífinu og leitast til þrautar við að finna svar við þeirri spurningu hvort Tindri Jónsson sé í raun og veru sá millibilsmaður sem hann segist vera og þau skilaboð sem hann flutti frá framliðnum ekta eða fals. Ekki verður sagt frá því hér hvernig til tókst um þessar rannsóknir Jannesar, en leyfi mér þó að upplýsa, ef rétt er skilið, að undir lokin er Jannes farinn að daðra við þá hugmynd að kannski geti hann verið viðstaddur sína eigin jarðarför og jafnvel flutt þar líkræðu sjálfur með aðstoð millibilsmanns.

Skáldsaga Hermanns Stefánssonar - "Millibilsmaður" - er stórskemmileg og margt er þar kostulegt að finna og drepfyndið, þótt hinar stærri tilvistarspurningar séu ekki langt undan. Sagan er skrifuð af miklu stílfengi og unnendur íslenskunnar verða ekki sviknir, en slíkar skáldsögur hafa verið of fáar hin síðustu ár. Ég mæli með þessari bók.

Slaufun og tjáningarfrelsi

Við getum aldrei verið viss um að skoðun, sem við viljum kveða niður, sé röng. Og jafnvel þótt við værum viss, væri bannsetning mesta böl.  - John Stuart Mill, Frelsið, bls. 55 

I

Nokkuð er rætt um slaufunarmenningu (cancel culture) þessi dægrin. Í pistli sem ég birti á vefnum hjá mér í janúar síðastliðnum var sett fram sú skoðun að ágreiningur um réttmæti slaufunar sé siðferðilegur ekki lagalegur [Saklaus uns sekt er sönnuð]. Slaufun (útskúfun, útilokun), sem félagslegt viðbragð eða taumhald, fari ekki gegn lögum, þótt deila megi um siðferðilegt réttmæti hennar í einstökum tilfellum. Hér ætla ég að ræða aðeins um slaufun og tjáningarfrelsið.

Ein birtingarmynd slaufurnar er að unna einstaklingum, og þá helst einstaklingum sem fyrir eru kunnir eða frægir, ekki vettvangs til að tjá sig. Fyrir þessu eru einkum tvær ástæður. Sú fyrri að maður hafi gert eitthvað það af sér að margir telja hann ekki þess verðan að hlustað sé á hann undir nokkrum kringumstæðum og hann eigi ekki að fá vettvang til að tjá sig, a.m.k. ekki opinberlega. Og ef hann er horfinn á vit feðra sinna, að bækur hans séu brenndar, tekin niður minnismerki sem honum hafa verið reist o.fl. Gildir þá einu hversu lærður hann er eða var eða hvort ætlaðar skoðanir hans eru réttar eða rangar. Ekki skal hlustað á það sem hann hefur fram að færa og helst hindra, ef unnt er, að hann tjái sig opinberlega. Líklega er þetta að einhverju marki réttmætt, einkum þegar gjörðir manna eru stórlega siðferðilega ámælisverðar eða viðkomandi hefur orðið uppvís af glæp sem svívirðilegur telst á almennan mælikvarða, og þá alveg sérstaklega þegar slíkar ávirðingar hafa verið sannaðar á viðkomandi eftir reglum réttarríkisins.

Hin ástæðan er að viðkomandi hafi einfaldlega orð á sér fyrir, hjá háværum og fyrirferðamiklum hópum, að hafa ranga og jafnvel hættulega skoðun, þótt hann hafi annars ekkert af sér gert eða sé líklegur til þess, annað en að tjá þessa röngu og válegu  skoðun sína. Skoðun hans er álitin svo vitlaus að betra sé fyrir heilbrigt og gott samfélag að hún heyrist hvergi og spilli ekki huga og hönd þeirra sem hafa hin réttu gildi og réttu skoðun. Skiptir þá engu máli hvort viðkomandi hafi mögulega verið gerð upp þessi skoðun eða hafi kannski, ef á hann er vandlega hlustað, aðra skoðun en gert var ráð fyrir að hann hefði. Einstaklingur með ætlaða ranga skoðun er kveðinn í kútinn með því að gera að honum hróp og köll og að lokum er honum slaufað fremur en að rökræða við hann. Þegar svo er komið fyrir þeim er fyrir verður þá stoðar almennt ekkert fyrir hann að freista þess að rökstyðja sína skoðun betur, útskýra hana eða jafnvel útskýra að hann hafi ekki alveg þá skoðun sem honum er ætluð eða hann hafi jafnvel skipt um skoðun og sé nú í raun með rétta skoðun.

Ég þykist merkja í almennri umræðu vaxandi áhuga margra á að kveða í kútinn fólk með ætlaðar rangar skoðanir. Þetta er réttlætt meðal annars með því að skoðunin sé ekki bara röng heldur líka hættuleg og til þess eins fallin að rugla fólk í ríminu og leiða það af braut réttrar skoðunar og breytni. Stundum er það gert með því að kalla hina röngu skoðun hatursorðræðu, jafnvel þegar það hugtak á ekki við. Um þetta skrifaði ég pistil í apríl sl. (Hvað er hatursorðræða?) Þótt það sé ekki lögbrot að leggja ekki við hlustir þegar maður með ætlaða ranga skoðun tjáir sig og hrópa að honum ókvæðisorð fremur en að rökræða við hann og slaufa honum síðan fyrir fullt og fast, má spyrja hvort það sé gott fyrir tjáningarfrelsið og heilbrigð skoðanaskipti í lýðræðislegu samfélagi? Hið augljósa svar er að svo er ekki.

II.

Ágætt er að minna á Frelsið eftir John Stuart Mill þegar rætt er um tjáningarfrelsið og mikilvægi þess (ísl. þýðing Þorsteins Gylfasonar 1970). Í öðrum kafla bókarinnar er fjallað um hugsunar- og málfrelsi. Mill segir meðal annars að eina leiðin til að nálgast að marki alhliða skilning á einhverju efni sé að leggja eyrun við því, sem fólk með ýmsar skoðanir hefur um það að segja, og kynna sér öll viðhorf hinna ólíkustu manngerða. Enn segir, að enginn vitur maður hafi nokkru sinni aflað sér þekkingar með öðru móti en þessu, og það sé heldur ekki eðli mannlegrar skynsemi að afla sér þekkingar með neinum öðrum hætti.

Kenningar Mill um mikilvægi málfrelsis eru hornsteinn hugmynda um tjáningarfrelsið eins þær birtast í alþjóðlegum mannréttindasamningum og stjórnarskrám ríkja. Raunar eru þær grundvöllur lýðræðislegra og frjálslyndra stjórnarhátta nú á dögum, ef út í það er farið. Þessi hugsun birtist í vel þekktum dómi mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Handyside gegn Bretlandi frá 1976. Þar segir í málgrein 57 (hér):

Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðislegs samfélags og eitt af skilyrðum fyrir framþróun þess, sem og þess að hver og einn einstaklingur geti þroskast. Að teknu tilliti til 2. mgr. 10. gr. sáttmálans [sem mælir fyrir um heimilar takmarkanir], á tjáningarfrelsið ekki eingöngu við um upplýsingar og hugmyndir sem mönnum falla í geð eða þær sem telja má meinlausar eða þýðingarlitlar heldur einnig um þær sem móðga, hneyksla eða fara fyrir brjóstið á handhöfum ríkisvalds eða einhverjum hluta borgaranna. Þetta leiðir af kröfum fjölhyggju, umburðarlyndis og víðsýni sem einkennir lýðræðislegt samfélag.

Þessi orð MDE hafa verið endurtekin í tugum dóma um tjáningarfrelsið síðan þau féllu fyrst.

III

Ákall um slaufun eða útilokun einstaklinga tengist oftar en ekki skoðunum þeirra á umræðu um kynferðisofbeldi eða áreiti, ætluðum fordómum þeirra gagnvart hinsegin fólki og fólki af öðrum kynþáttum eða þjóðerni, og eftir atvikum ætlaðri karlrembu viðkomandi eða kvenfyrirlitningar. Er sá hinn sami þá gjarnan sakaður um hatursorðræðu, sem er hugtak sem tilhneiging er til að ofnota, eins og fyrr er getið. Þá er sótt að fólki sem leyfir sér að viðra efasemdir um hamfarahlýnun og þörf fyrir víðtækar frelsisskerðingar í sóttvarnarskyni, svo eitthvað fleira sé nefnt.

Stundum er ákall um slaufun einstaklings reist á langsóttum og djörfum ályktunum af einstökum ummælum viðkomandi og ógætilegu eða ónákvæmu orðalagi í hita augnabliksins, sem of oft er gróflega slitið úr samhengi við málflutning hans að öðru leyti. Svo er stundum bara um misheppnaðan brandara ræða. Mönnum er síðan á grundvelli slíkra ályktana gerðar upp skoðanir, hugsanir og tilfinningar sem þeir sjálfir kannast ekkert við að bera í brjósti. Og ef þessar ætluðu skoðanir, hugsanir og tilfinningar manns eru ekki réttar er kallað eftir að viðkomandi verði slaufað.

Slaufun einstaklings við aðstæður sem hér um ræðir er ekki brot á rétti hans samkvæmt stjórnarskrá eða mannréttindasáttmálum til að tjá sig. Þannig er ekkert ólögmætt við að einstaklingar í sínum félagslegu samskiptum slaufi hver öðrum í þeim skilningi sem hér er fjallað um. Þeir eru ekki skyldir til að hlusta hver á annan, þótt hugmyndir um almenna kurteisi, háttvísi og umburðarlyndi, kunni að mæla með því að við séum duglegri við að hlusta hvort á annað, svona almennt séð.

IV

Þá um hlutverk fjölmiðla í þessu sambandi, einkum ríkisrekinna og þeirra sem þiggja styrki af opinberu fé til starfsemi sinnar. Tilvist ríkisrekinna fjölmiðla, sem og rök fyrir stuðningi við einkarekna miðla, er reist á þörf fyrir öfluga og fjölbreytta fjölmiðla í lýðræðislegu samfélagi, enda er rökræða um hugmyndir og stefnumið kjarni lýðræðisins. Þetta er einmitt hugsunin að baki ákvæðum fjölmiðlalaga  nr. 38/2011, eins og þeim var breytt með lögum nr. 58/2021, sem mæla fyrir um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Þar kemur fram að styðja skuli við og efla útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni með því að veita einkareknum fjölmiðlum rekstrarstuðning, sbr. 62. gr. d. Í greinargerð segir ennfremur að tilgangurinn með stuðningi við einkarekna fjölmiðla sé beinlínis að efla lýðræðið í landinu með fréttaflutningi og upplýstri umræðu. Í anda Mill verður að halda því til haga að engin umræða getur með góðu móti talist upplýst án þess að fólk með ólíkar skoðanir fá að kveða sér hljóðs í henni þegar það á við.

Í lokin er vert að hafa í huga að ein afleiðing slaufunarmenningar er að ýmsir veigra sér við að tjá skoðanir sínar opinberlega af ótta við að kalla yfir sig fúkyrði og slaufun. Má þó alveg gera ráð fyrir að margt í þessum skoðunum, og þá einkum í rökunum fyrir þeim, væri gagnlegt að heyra í umræðu sem gerir kröfu til þess að teljast upplýst. Svo eru sumir (kannski ekki margir!) sem eru opnir fyrir því að skipta um skoðun ef rökin fyrir nýrri skoðun eru betri en rökin fyrir þeirri gömlu. Þá eru hinir sem geta með upplýstri umræðu sótt sér efnivið til að styrkja rökin fyrir þeim skoðunum sem þeir höfðu fyrir. Það má lengi bæta rök fyrir skoðun sinni með því að taka afstöðu til mögulegra röksemda gegn henni. En þá er líka nauðsynlegt að hlusta á gagnrökin ef þau eiga að gagnast manni enda aldrei að vita nema sá er tjáir sig viti eitthvað sem maður veit ekki sjálfur. Þetta er galdurinn við upplýsta umræðu þar sem tjáning ólíkra skoðana fær rými, líka þær sem móðga, hneyksla eða fara fyrir brjóstið á handhöfum ríkisvalds eða einhverjum hluta samborgaranna. Í þessu felst fjölhyggjan, umburðarlyndið og víðsýnin sem lýðræðislegt samfélag þrífst illa án.

Posted in Juris Prudentia

Hvað er hatursorðræða?

Í pistlinum er fjallað um hugtakið hatursorðræðu. Þess er freistað að lýsa megineinkennum og mismunandi þrepum hatursorðræðu út frá alvarleika hennar. Þegar hugmyndir fóru að mótast á alþjóðavettvangi á fimmta áratug síðustu aldar um að stemma stigu við hatursorðræðu  höfðu menn einkum í huga alvarlegustu afbrigði hennar og einkum þá hatursfulla tjáningu vegna þjóðernis, kynþáttar- eða trúarbragða. Rakið er að síðan þá hafi orðið sú þróun að hugtakið "hatursorðræða" hefur víkkað út á tvenna vegu. Í fyrsta lagi með því kröfur um alvarleika hafa færst niður og í öðru lagi hefur þeim hópum fjölgað sem njóta verndar. Er hugtakið ekki  lengur bundið við fyrst og fremst þjóðerni, kynþætti og trúarbrögð með því að tilvísun til kynhneigðar og kynvitundar hefur bæst við, m.a. hér á landi. Kenna má vilja til þess í  hinni almennu umræðu að hugtakið verði víkkað enn frekar út með því að gera minni kröfur um alvarleika  og að fjölga eigi hópum sem hún taki til. Hvort tveggja þrýstir á mörk tjáningarfrelsis.  

I

Ákvæði 233. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 leggur refsingu við því að rógbera, smána eða ógna manni eða hópi vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar. Er brotinu gjarnan lýst sem „hatursáróðri“ eða „hatursorðræðu“. Nokkur dæmi er í dómaframkvæmd á hér á landi um að einstaklingar hafi verið sakfellir á grundvelli þess ákvæðis og dæmdir til refsingar.

Í almennri umræðu kemur þetta orð oft fyrir án þess að leitast sé við að skilgreina eða afmarka nánar hvað átt er við. Kallað er eftir viðbrögðum með því að beita refsivendi ríkisvaldsins eða öðrum aðferðum til að stemma stigu við hatursorðræðu, en oft skortir þó á að sú umræða sé byggð á skýrum hugmyndum um hvað nákvæmlega átt er við.

Í þessum pistli set ég fram sjónarmið um hvernig afmarka megi þetta hugtak, án þess þó að þreyta lesandann með lagaflækjum. Fremur er þess freistað að ná til hins almenna þátttakanda í opinberri umræðu og leggja honum til verkfæri til að móta sér rökstudda skoðun á málinu. Ég held því fram að hugtakið hafi fengið víðtækari merkingu en upphaflega var ætlað þegar það tók að þróast á fimmta áratug síðustu aldar. Vekur það ýmsar spurningar út frá meginreglum um tjáningarfrelsi í stjórnarskrá og mannréttindasáttamálum.

II

Samkvæmt málskilningi mínum er um „áróður“ (propaganda) að ræða þegar vísvitandi, ítrekað og kerfisbundið er reynt að breyta eða festa í sessi skoðanir eða hegðun hjá þeim sem áróðrinum er ætlað að ná til.  Ef óbeit eða hatur á tilteknum einstaklingi eða hópi er kerfiðsbundið breitt út er má segja að  um „hatursáróður“ að ræða. Á hinn bóginn nægja stök ummæli til að ákvæði 233. gr. a hgl. verði talið eiga við, eins og dómar vitna um. Þykir því m.a. af þeirri ástæðu hæfa betur að nota orðið „hatursorðræða“ í þessum pistli um það brot sem lýst er í 233. gr. a í almennum hegningarlögum.

Ekki liggur fyrir skilgreining á hugtakinu „hatursorðræða“ að þjóðarétti eða landsrétti ríkja, sem sammæli eru um. Hugtakið er nokkuð hlaðið tilfinningum, matskennt og hefur ekki að geyma skýr hlutlæg viðmið, eins og æskilegt er að lagaleg hugtök geri, ekki síst á sviði refsiréttar.

Nefna má ýmsar þjóðréttargerðir þar sem finna má eins konar skilgreiningar eða lýsingar á því sem nefnt er hatursorðaræða. Gefa þær ágætar vísbendingar um það sem ætla má að séu taldir meginþættir í inntaki þess á alþjóðlegum vettvangi, sem og í íslenskum rétti.

Nefna má fyrst 2. mgr. 20. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 16. desember 1966 (SBR) sem vísar til haturs vegna þjóðernis, kynþáttar- eða trúarbragða, sem og tjáningar sem felur í sér hvatningu um mismunun, fjandskap, eða ofbeldi.

Þá ber að nefna Samning SÞ um afnám alls kynþáttamisréttis frá 21. desember 1965.  Í 4. gr. er vísað til áróðurs sem byggir á hugmyndum eða kenningum um yfirburði tiltekinna kynþátta, eða hóps manna af ákveðnum litarhætti eða þjóðlegum uppruna, eða sem reynir að réttlæta eða hvetja til kynþáttahaturs og misréttis í hvers konar mynd.

Hér skal og nefnd samþykkt ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 1997, sem vísar til tjáningar sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, sem birtist m.a. í óvæginni þjóðernishyggju, mismunun og fjandskap gegn minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna.

Þá má hér vísa til samnings Evrópuráðsins um tölvubrot frá 23. nóvember 2001 og viðbótarbókun við samninginn frá 28. janúar 2003. Viðbótarbókunin vísar til framsetningar hugmynda eða kenninga sem mæla með, stuðla að eða kynda undir hatri, mismunun eða ofbeldi sem er beint gegn hvaða einstaklingi eða hópi einstaklinga sem á rót sína að rekja til kynþáttar, litarháttar, ætternis eða þjóðlegs eða þjóðernislegs uppruna og til trúarbragða.

Enn er hér vísað til tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 31. mars 2010 og  tilmæla þings Evrópuráðsins 29. apríl 2010 um hatursorðræðu á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar og aðildarríki hvött meðal annars til að að tryggja einstaklingum vernd gegn hatursorðræðu án þess þó að skerða tjáningarfrelsi.

Að lokum þykir mega nefna hér 27. gr.  laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Í skýringum í greinargerð við ákvæðið er hugtakið skilgreint sem tal, texti, tjáning, hegðun og/eða framkomu sem birtist í texta, hljóði og/eða mynd þar sem hvatt er til ofbeldis, fordóma og/eða fordómafullrar hegðunar gegn einstaklingi eða hópi af fólki og/eða með því að vanvirða, smána, hræða og/eða ógna viðkomandi einstaklingi eða hópi.

III

Framangreindar gerðir falla ágætlega að því sem ætla má að sé, samkvæmt almennum málskilningi, megineinkenni tjáningar sem kölluð er „hatursorðræða“ . Nánar má gera ráð fyrir að slík tjáning hafi eftirtalin einkenni:

- Tjáningin er fordómafull, þ.e. hún er byggð á fáfræði eða skeytingarleysi um staðreyndir og er órökstudd þar sem ekkert tillit tekið til andstæðra sjónarmiða.

– Tjáningin lýsir hatri þess er ummæli viðhefur á þeim eða því sem þau beinast að, þ.e. illvilja, óvinskap, fyrirlitningu, óbeit, andúð eða öðrum viðlíka mannlegum tilfinningum, sem líta má á sem birtingarmyndir haturs.

- Tjáningin beinist að nánar tilgreindum einstaklingum eða hópum vegna tiltekinna sérkenna þeirra eða stöðu.

- Tjáningin er opinber þannig að fordóma- og hatursfull ummæli sem kunna falla í einkasamtölum eða lokuðum vefsvæðum í garð einstaklinga eða hópa vegna sérkenna þeirra yrðu almennt ekki talin hatursorðræða. Það skal játað að þetta er ekki skýr viðmiðun og skoðanir ólíkar um hvenær birting er opinber, einkum á netöld þeirri sem við nú lifum

Framangreind lýsing á einkennum hatursorðærðu tekur þannig til hvers konar opinberrar og fordómafullrar tjáningar um illan vilja, óbeit o.s.frv., óháð því, á þessu stigi, hvort  tjáningin nýtur verndar tjáningarfrelsisákvæða í stjórnarskrá eða mannréttindasamningum, þar með talið Mannréttindasáttmála Evrópu eða hvort hún nær því stigi (alvarleika) að teljast refsiverð samkvæmt 233. gr. a hgl. eða sambærilegum refsiákvæðum í rétti annarra ríkja.

Spurningin er hvenær orðaræðan komin á það stig að réttlætanlegt sé að handhafar opinbers valds grípi til aðgerða gegn henni, með refsingum ef því er að skipta, vegna meginreglna um tjáningarfrelsi?

IV

Í því skyni að freista þess að afmarka hugtakið frekar má gróflega greina a.m.k. fjögur mismunandi þrep hatursorðræðu. Hér er stuðst við það sem nefnt hefur verið „The Hate Speech Pyramid“ á enskri tungu. Umfjöllun um þetta má finna víða á netinu og er framsetningin ekki alltaf nákvæmlega eins, en aðalatriðin eru eftirfarandi að því er mér virðist.

1. Efsta stig hatursorðræðu felur samkvæmt þessari flokkun í sér hvatningu til þjóðarmorðs eða annarra viðlíka alvarlegra brota á grunngildum réttarins (jus cogens) gagnvart einstaklingum eða hópum, eða stuðning við slík brot eða samkennd með þeim. Hér mætti m.a. fella undir tjáningu sem felur í sér stuðning við, samkennd með eða afneitun glæpa gegn mannkyni og mannúð, svo sem stuðning við, samkennd með eða afneitun helfarar nasista gegn gyðingum í síðari heimstyrjöldinni, en víða í Evrópu er í gildi löggjöf sem leggur refsingu við slíkri tjáningu. Einnig kæmi til greina að fella hér undir tjáningu sem felur í sér stuðning eða samkennd með hryðjuverkum, sem einnig er refsiverður verknaður í sumum löndum og raunar hér á landi, sbr. 100. gr. c almennra hegningarlaga.

2. Í næsta þrepi fyrir neðan er orðræða sem felur í sér fordómafulla og hatursfulla tjáningu sem er í senn er ógnandi og lýsir samkennd með eða stuðningi við og markvisst hvetur (incites) til aðgerða sem fela í sér ólögmæta og skaðlega mismun, eða jafnvel ofbeldis, í garð einstaklinga eða hópa vegna sérkenna þeirra (t.d. kynþáttar eða litarháttar). Hér er meginatriðið að tjáningin felur í sér hvatningu til illra verka gagnvart tilteknum hópum.

3. Næst kemur orðræða sem á fordómafullan hátt lýsir hatri, andúð, óbeit í garð einstaklinga eða hópa vegna sérkenna þeirra, sem réttlætanlegt er talið að takmarka vegna verndar mannorðs eða réttinda þeirra sem fyrir verða eða vegna þjóðaröryggis og almannareglu eða almenns siðgæðis, eða eftir atvikum út frá jafnréttissjónarmiðum. Munurinn á þessari hatursorðræðu og þeirri sem fellur undir lið 2 að framan er þá sá, að ummæli verða ekki talin fela í sér stuðning, samkennd eða hvatningu til að beita skaðlegum og ólögmætum aðgerðum, þ.m.t. mismunun, gegn viðkomandi einstaklingi eða hópi, þótt tjáningin sé annars stuðandi, móðgandi, niðrandi eða særandi fyrir þá.

4. Í neðsta þrepi er samkvæmt þessari flokkun orðræða sem ekki telst „ólögmæt“ í lagaskilningi, sem þó eru all góð sammæli um að teljist siðferðilega eða pólitíkst ámælisverð vegna þess að hún, þrátt fyrir allt, vitnar um fordómafullan skort á umburðarlyndi og virðingu fyrir réttindum annarra og gildum, auk þess sem hún kann að vera móðgandi, særandi eða niðrandi fyrir einstaklinga eða þá hópa sem tjáningin beinist að. Hugsunin er þá sú að tjáningin sé ekki nægilega gróf eða alvarleg, miðað við tilefni hennar, til að réttlætanlegt sé vegna meginreglunnar um tjáningarfrelsi að setja henni skorður með beitingu refsinga. Munurinn á þeirri tjáningu sem þannig telst „lögmæt“ og þeirri sem fellur undir 3 hér á undan er fyrst og fremst stigsmunur, en ekki eðlismunur og hann er auðvitað ekki alltaf skýr.

Ég tel að íslensk dómaframkvæmd verði í aðalatriðum skilin svo, að aðeins orðræða sem fellur undir lið 1, 2 og 3 sé nægilega alvarleg til að falla undir 233. gr. a hegningarlaga til að teljast eiginleg hatursorðræða í skilningi þess ákvæðis. Þetta virðist einnig vera tilfellið í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, þótt það sé raunar ekki skýrt, án þess að nánar verði farið út í það í þessum stutta pistli.

V

Almennt má segja að þegar hugmyndir fóru að mótast á alþjóðavettvangi á fimmta áratug síðustu aldar um að stemma þyrfti stigu við hatursorðræðu  hafi menn einkum haft í huga tvö efstu þrepin. Enn fremur má ráða að menn hafi  fyrst og fremst haft í huga hatursfulla tjáningu vegna þjóðernis, kynþáttar- eða trúarbragða.

Síðan þá hefur orðið sú þróun að hugtakið "hatursorðræða" hefur víkkað út á tvenna vegu. Í fyrsta lagi með því að það hefur færst niður á 3. þrep að því er alvarleika tjáningar snertir og jafnvel það 4.  Þá er hugtakið ekki lengur bundið við  þjóðerni, kynþætti og trúarbrögð, með því að tilvísun til kynhneigðar og kynvitundar hefur bæst við. Mér virðist vera að viss þrýstingur sé á að enn sé hugtakið víkkað út þannig að tjáning á 4. þrepi skuli talin með og að fjölga eigi hópum sem hún taki til. Hvort tveggja þrýstir á mörk tjáningarfrelsis.

Helsta ágreiningsefnið varðandi hatursorðræðu er hvort heimilt eigi að vera í lýðræðislegu samfélagi, þar sem tjáningarfrelsi er í hávegum haft, að refsa einstaklingum fyrir hana. Að sínu leyti má segja að alþjóðasamfélagið hafi svarað þeirri spurningu játandi þegar hatursorðræða á í hlut. Talið hefur verið réttlætanlegt, til varnar réttindum annarra, lýðræðislegum grundvallargildum og í þágu jafnréttis, að setja henni skorður. Spurningin um hvernig þetta samræmist meginreglum um tjáningarfrelsi verður áleitnari eftir því sem hugtakið víkkar út eins og lýst er að framan. Álitamálið er þá hvenær tjáning er orðin nægilega alvarleg til að teljast hatursorðræða og hvaða hópar eiga að njóta verndar fyrir slíkri orðræðu?

Enn má spyrja hvort staða þeirra einstaklinga sem tjá sig á hatursfullan hátt skipti einhverju máli við mat á alvarleika tjáningarinnar?

Að því er síðasta atriðið varðar má hafa í huga að oft er það svo (en ekki alltaf) að hatursfull tjáning í kommenntakerfum samfélagsmiðla stafar frá einstaklingum sem lítið eiga undir sér og hafa enga getu eða burði til að fylgja eftir hatursfullum tilfinningum sínum með skaðlegum aðgerðum gagnvart þeim sem hatur þeirra og óbeit beinist að. Höfum einnig í huga, að oft á óbeit og hatur gagnvart því sem öðruvísi er og ókunnugt, sem og þörfin til að tjá slíkar tilfinningar, einmitt rætur í jaðarsetningu, menntunarskorti, fáfræði, vanmætti og reiði þeirra sem þannig tjá sig. Hatursorðræðan er oftar en ekki birtingarmynd óánægju og örvætningar þeirra vegna eigin hlutskiptis í lífinu.

Posted in Juris Prudentia

“Brottvikning” Rússlands úr Evrópuráðinu

Af framsetningu sumra íslenskra fjölmiðla mætti ætla að búið sé að reka Rússland úr Evrópuráðinu (t.d.: https://www.frettabladid.is/frettir/russlandi-vikid-ur-evropuradinu/). Þetta er ekki alveg rétt. Rússar eru ennþá í Evrópuráðinu. Hið rétta er að fulltrúar Rússlands fá tímabundið ekki að  sitja fundi ráðherranefndarinnar eða ráðgjafaþingsins. Þetta er gert samkvæmt 8. gr. stofnsamnings Evrópuráðsins, en þar segir:

Any member of the Council of Europe which has seriously violated Article 3 may be suspended from its rights of representation and requested by the Committee of Ministers to withdraw under Article 7. If such member does not comply with this request, the Committee may decide that it has ceased to be a member of the Council as from such date as the Committee may determine.

Aðgerðin er þannig frekar takmörkuð að sinni þótt hún kunni að vera undanfari þess að farið verði fram á að Rússar fari úr ráðinu sjálfviljugir en ella verði þeir reknir. Rússland, sem er lang fjölmennasta aðildarríkið, er sem sagt eftir sem áður í Evrópuráðinu og fjölmargir rússneskir starfsmenn Evrópuráðsins munu halda áfram störfum sínum. Rússar taka sem fyrr t.d. þátt í störfum Mannréttindadómstóls Evrópu. Rússneski dómarinn situr þar enn og mál sem þar eru til meðferðar gegn Rússlandi verða að óbreyttu rekin þar áfram. Þá geta rússneskir borgarar áfram borið mál sín undir dómstólinn.

Með þessari takmörkuðu aðgerð er þess freistað að halda opnum leiðum  til samskipta við Rússland um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið í samræmi við grunngildi Evrópuráðsins. Þetta eru aftur á móti ekki málefni sem hafa verið á forgangslistanum hjá Pútín og þess tæplega að vænta að hann missi svefn vegna þessarar aðgerðar Evrópuráðsins nema síður sé. Hún gæti aftur á móti leitt til þess að Rússar svari fyrir sig með því að yfirgefa Evrópuráðið fyrir fullt og allt eins og þeir hafa endurtekið daðrað við í gegnum árin. Talskona utanríkisráðuneytisins í Rússlandi  Maria Zakharova fór ekki í grafgötur um að viðbragða Rússa væri að vænta þegar hún sagði að ákvörðunin markaði upphafið að endalokum Evrópuráðsins, því án Rússlands ætti það sér engan tilvistargrundvöll! (hér: https://tass.com/russia/1411999). Þótt hér sé ef til vill tekið nokkuð djúpt í árina er ljóst að brotthvarf Rússlands úr Evrópuráðinu myndi hafa ýmsar afleiðingar í för með sér.

Fyrir utan pólitískar og fjárhagslegar afleiðingar fyrir Evrópuráðið (sem lengi hefur verið fjársvelt) gætu afleiðingar brotthvarfs Rússa orðið margvíslegar aðrar og alvarlegar, meðal annars fyrir rússneska borgara, en um það bil fjórðungur allra mála sem rekin eru fyrir dómstólnum eru gegn Rússlandi. Ef Rússar hverfa á brott fyrir fullt og fast lokast þessi leið fyrir rússneska borgara. Þá lokast þessi leið einnig fyrir borgara Úkraínu til að láta reyna á mannréttindi sín vegna framferðis rússneskra yfirvalda þar í landi.

Því miður er það svo að aðgerðir af þessu tagi, þótt skiljanlegar séu frá pólitísku sjónarhorni, gætu að lokum bitnað helst á þeim sem síst skyldi. Alþjóðastjórnmál eru snúin og hugsa þarf marga leiki fram í tímann.

Höfundur er fyrrverandi dómari við MDE

Posted in Juris Prudentia

Saklaus uns sekt er sönnuð

Í þessum pistli er fjallað um regluna um að maður sé saklaus þar til sekt hans er sönnuð (in dubio pro reo), sem rekja má aftur til Rómaréttar. Reglan er nú á dögum talin til grundvallarréttinda í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, sem og stjórnarskrám ríkja heims sem kenna sig við réttarríkið. Reglan, sem grundvallarregla, gildir ekki eingöngu innan ramma sakamáls sem rekið er gegn einstaklingi, heldur einnig um framgöngu opinberra aðila gagnvart einstaklingi sem hefur verið sýknaður í sakamáli. Reglan gildir á hinn bóginn ekki um opinbera tjáningu einstaklinga, þótt þeir geti engu að síður þurft að axla ábyrgð á tjáningu sinni skaði hún með ólögmætum hætti orðstír eða friðhelgi einkalífs þess sem tjáningin beinist að. Þá kemur fram að „slaufun“ einstaklings án þess að sekt hans sé sönnuð sé ekki brot á reglunni sem lagareglu, enda sé um að ræða félagsleg viðbrögð eða félagslegt taumhald sem einn eða fleiri einstaklingar saman beita aðra en ekki refsingu að lögum. Ágreiningur um réttmæti slaufunar er  siðferðilegur, ekki lagalegur.

  1. Inngangur

Umræða um kynferðisofbeldi hefur verið áberandi á Íslandi undanfarin misseri. Konur stíga fram á opinberum vettvangi og lýsa ofbeldi eða áreiti sem þær hafi mátt þola og nafngreina gerendur. Í kjölfarið rísa deilur og víglína dregin milli þeirra sem trúa viðkomandi og hinna sem telja að einhliða frásögn þolanda sé ekki nægileg sönnun um að rangindum hafi verið beitt sem geti réttlætt samfélagslega útskúfun (slaufun) með á stundum víðtækum afleiðingum fyrir þá sem fyrir verða. Er þá gjarnan vísað til þess að einn af hornsteinum réttarríkisins sé reglan um að maður skuli eiga rétt til að teljast saklaus þar til sekt hans er sönnuð. Verður hér farið nokkrum orðum um þessa reglu. Hvers konar regla er þetta, hverjir eru bundnir af henni og við hvaða aðstæður?

  1. Söguleg atriði

Reglan er skráð í lögbók Justiníanusar keisara hins Aust-rómverska ríkis í Bysans á árdögum miðalda (530–533). Þar er hún lögð út sem almenn sönnunarregla á þann hátt að sá sem fullyrðir eitthvað beri að færa sönnur á fullyrðinguna, en ekki sá sem hafnar því eða dregur í efa að hún sé rétt.  Reglan er í þessari mynd ekki bundin við fullyrðingar um refsiverðar sakir. Reglan mun hafa verið tekin upp sem regla í refsirétti (sakamálaréttarfari) á tíma Antónínusar Píus keisara í Róm á árunum 138 til 161. Samkvæmt því á hún sér hátt í 2000 ára sögu. Sögulega stendur reglan á traustum grunni og styðst að flestra mati við all rík skynsemis- og sanngirnisrök.

Eftir hrun Vest-rómverska ríkisins á síðari hluta fimmtu aldar og á miðöldum hvarf Rómaréttur í skuggann af aðallega germönskum venjurétti í bland við réttarhugmyndir einstakra ættbálka, a.m.k í norðanverðri Evrópu. Birtist umrædd regla m.a. í þeirri mynd að gert var ráð fyrir að við ákveðnar aðstæður mætti gera ráð fyrir sekt manns þótt  sönnunargögn væru veik.  Hann gæti þó borið af sér sakir með t.d. tylftareiði sem svo hefur verið nefndur. Hann fólst í yfirlýsingu tólf manna um að hinn sakaði gæti ekki hafa gert það sem honum er gefið að sök. Að mati sumra réttarsögufræðinga var tylftareiður og áþekkar "sönnunaraðferðir" til þess fallinn að þjóna hinum betur megandi í samfélaginu sem beittu þeim óspart gegn fátæku og fáfróðu almúgafólki sem hafði fá úrræði til að verja hendur sínar gegn ofríki yfirstéttarinnar. Almúginn hafði þannig skert tækifæri til bera af sér sakir sem hinir ríku og voldugu báru á þá án traustra sannana. Sönnunaraðferðir af þessu frumstæða tagi voru sem dæmi mikið notaðar á tímum galdrafársins sem hófst á síðari hluta 15 . aldar. Ef maður eða kona játaði ekki á sig galdur sem á hann eða hana var borinn átti viðkomandi jafnvel líf sitt undir 12 eiðmönnum sem þurfti að útnefna til eiðsvættis. Mörgum "galdrakerlingum" var varpað á bálið vegna þess að þeim tókst ekki að "sanna" sakleysi sitt eins og á þær var lagt samkvæmt þessum réttarhugmyndum. Þannig má segja að þarna hafi gilt reglan „sek(ur) uns sakleysi er sannað“.  Á síðmiðöldum var Rómaréttur að nokkru endurvakinn og er sögulega mikilvægasti grundvöllur lögfræðinnar eins og hún er stunduð nú á dögum í ríkjum sem búa við vestrænar réttarhugmyndir. Það er önnur saga.

  1. Grundvallarregla

Nú á tímum er litið á regluna sem grundvallarréttindi  (fundamental rights). Hana er þannig að finna í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna (11. gr.), sáttamála SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (2. mr. 14. gr.), mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) (2. mgr. 6. gr.), mannréttindaskrá Evrópusambandsins (48. gr.) svo dæmi séu nefnd. Þá á hún sér stoð í stjórnarskrám flestra ríkja heimsins, þar með talið í íslensku stjórnarskránni (2. mgr. 70. gr.). Þar segir: „Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.” Hún er úfærð í lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 (sml), sbr. 108. og 109. gr.

Til fróðleiks má geta þess að reglan í 2. mgr. 6. gr. MSE er orðuð næstum því alveg eins og í íslensku stjórnarskránni, en þar segir: “Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum.” Mætti því ætla að dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) ætti að vera leiðandi um skilning okkar á þessari reglu í stjórnarskránni og framkvæmd hennar á Íslandi. Verður hér farið nokkrum orðum um regluna eins og hún birtist í dómaframkvæmd MDE.

  1. Dómaframkvæmd MDE

Þegar skoðað er hvernig ákvæði 2. mgr. 6. gr. sáttmálans birtist í dómaframkvæmd MDE kemur í ljós að reglan í þrengsta skilningi verndar þann sem af lögreglu eða ákæranda er borinn sökum um refsiverða háttsemi. Hann er þá talinn saklaus í málinu sem rekið er gegn honum uns sekt hans hefur verið sönnuð með þeim hætti að yfir skynsamlegan vafa sé hafið. Fyrir dómi hvílir á ákæruvaldinu af þessum sökum að færa fram sönnunargögn fyrir þeim sökum sem á ákærða eru bornar (108. gr. sml.). Dómari metur hvort sönnun uppfyllir skilyrði um að vera hafin yfir skynsamlegan vafa (109. gr. sml.). Í þessari mynd birtist reglan sem sönnunarregla í sakamálaréttafari þar sem maður í tilteknu máli er borinn sökum um refsiverða háttsemi.

Reglan er þó ekki bundin við að vera sönnunarregla við málsmeðferð fyrir lögreglu, ákæruvaldi og dómi. Hún er samkvæmt dómaframkvæmd MDE víðtækari. Þannig hefur verið litið svo á að maður sem hefur verið sýknaður af tiltekinni háttsemi (t.d. ákæru fyrir kynferðisbrot), eða þar sem sakamál gegn viðkomandi hefur verið fellt niður, njóti verndar ákvæðisins gegn því að fram við hann sé komið af hálfu opinberra aðila (þar með taldir dómstólar) í ákvörðunum þeirra eftir sýknu eins og viðkomandi sé eftir sem áður sekur (eða líklega sekur) um brot það sem hann var ákærður fyrir, þótt fullnægjandi sönnun um það hafi ekki tekist í sakamálinu. Eru rökin þá að reglunni hafi þegar verið beitt í sakamálinu til að koma í veg fyrir að viðkomandi sé með óréttmætum eða ósanngjörnum hætti sakfelldur án nægilegra sannana. Ef ekki þyrfti að virða þá niðurstöðu við meðferð opinbers valds utan þess ramma sem sakamálið sjálft myndar væri dregið úr þeirri vernd sem 2. mgr. 6. gr. MSE er ætlað veita.

Í stuttu máli geta handhafar opinbers valds (ríkis eða sveitarfélags) ekki komið fram við einstakling sem hefur verið sýknaður, eins og hann sé eftir sem áður sekur eða sýkna hans skipti engu máli nema eingöngu innan ramma sakamálameðferðarinnar sjálfrar. Litið er svo á að við þessar aðstæður yrði vernd ákvæðisins ekki eins virk og hún ætti að vera. Hér búa einnig þeir hagsmunir að baki að vernda orðstír og æru viðkomandi einstaklings sem sýknaður hefur verið. Að því leyti tengist reglan í þessum víðari skilningi einnig þeim hagsmunum sem 8. gr. MSE verndar um friðhelgi einkalífs og æru einstaklings.

Um það sem hér segir vitna nokkrir dómar og ákvarðanir mannréttindadómstólsins, sbr. t.d. Zollman gegn Bretlandi (ákvörðun), nr. 62902/00Taliadorou og Stylianou gegn Kýpur nr. 39627/05 og 39631/05, (málsgreinar 27 og 56-59) og  Allen gegn Bretlandi nr. 25424/09 (málsgreinar 93‑94) og að síðustu frá 2018 dómur í máli G.I.E.M. S.r.l. o.fl. gegn Ítalíu nr. 1828/0634163/07 og 19029/11.

Þessi dómaframkvæmd ætti að vera kunnug þeim sem beita opinberu valdi, þar með talið dómsvaldi, og er ætlað að sporna við því að komið sé fram við menn sem sýknaðir hafa verið eins og þeir séu samt sem áður sekir. Ekki er óvarlegt að ætla að hið sama geti átt við um 2. mgr. 70. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Fleiri aðstæður geta komið upp við beitingu 2. mgr. 6. gr. MSE en hér hefur verið lýst en verða ekki frekar raktar.

Samkvæmt þessu sem fram er komið og að svo miklu leyti sem litið er á regluna sem hér um ræðir sem lagareglu sem bundin er í stjórnarskrá, almennum lögum eða mannréttindasáttmálum beinist skyldan til að halda hana í heiðri að yfirvöldum ríkis. Fyrst og fremst þeim sem fara með lögreglu-, ákæru- eða dómsvald í tilteknu máli, en einnig að öðrum yfirvöldum (ríkis eða sveitarfélags) sem vegna reglunnar mega ekki í ákvörðunum sínum koma fram við einstakling sem hefur verið sýknaður með endanlegum dómi eins og hann sé samt sem áður sekur eða líklega sekur.

  1. Ærumeiðingar og friðhelgi einkalífs

Eins og fyrr greinir beinast skyldur samkvæmt 2. mgr. 6. gr. MSE að ríkinu. Á hinn bóginn er hinn almenni þátttakandi í opinberri umræðu ekki lagalega bundinn af reglunni í framangreindum skilningi. Þannig brýtur sá sem ber annan mann refsiverðum sökum í opinberri umræðu (t.d. um kynferðisbrot) ekki gegn reglunni enda beinast skyldur til athafna eða athafnaleysis samkvæmt henni að opinberum aðilum en ekki einstaklingum.

Hinn almenni þátttakandi í opinberri umræðu nýtur tjáningarfrelsis sem verndað er m.a. í 71. gr. stjórnarskrárinnar sem og 10. gr. MSE. Aftur á móti er bæði í stjórnarskránni og MSE gert ráð fyrir að tjáningarfrelsinu fylgi ábyrgð. Af þessu leiðir að öllum þeim sem tjá sig án nægilegs tilefnis með þeim hætti að skaði hagsmuni annarra, t.d. með því að bera á einstaklinga refsiverðar sakir, á að vera ljóst að þeir geta þurft að axla ábyrgð á tjáningunni gagnvart þeim sem hún beinist að og hefur skaðað eða kann að skaða. Þetta leiðir meðal annars af 8. gr. MSE, en í fjölmörgum dómum hefur MDE komist að þeirri niðurstöðu að ríki hafi brotið gegn 8. gr. MSE með því að tryggja ekki nægjanlega að þeir sem bera menn refsiverðum sökum, án þess að það eigi sér nægilega stoð í staðreyndum, sæti ábyrgð, sbr. t.d.  mál Egils Einarssonar gegn   Íslandi nr. 24703/15. Þetta birtist einnig í ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í kafla XXV sem ber yfirskriftina „Ærumeiðingar og friðhelgi einkalífs“.  Hugsunin er þá sú að sá sem með tjáningu sinni skaðar hagsmuni þess sem tjáningin beinist að án fullnægjandi tilefnis verði að axla ábyrgð á því tjóni, t.d. með því að greiða viðkomandi bætur, sbr. 26. gr. skaðabótalaga. Skiptir þá ekki meginmáli hversu göfug markmiðin með tjáningunni kunna annars að vera. Sérstök krafa er gerð til fjölmiðla í þessum efnum, sbr. ýmis ákvæði laga um fjölmiðla nr. 38/2011, en af þeim leiðir að jafnan eru gerðar ríkari kröfur til fjölmiðla um vönduð vinnubrögð en vera myndi um einstaklinga.

  1. Slaufun

Í umræðunni, og þá helst um kynferðisbrot, birtist það viðhorf gjarnan að ekki samræmist reglunni, um að maður sé saklaus þar til sekt er sönnuð, að maður sé, áður er skorið er úr um sekt hans fyrir dómi, látinn sæta félagslegri útskúfun eða slaufun eins það er nefnt. Hér þarf að gæta sín á að rugla ekki saman slíkum félagslegum viðbrögðum eða félagslegu taumhaldi annars vegar og sakfellingu og refsingu að lögum hins vegar. Við getum auðvitað haft þá skoðun að háttsemi einstaklings, sem ekkert lögbrot hefur sannast á, sé samt sem áður af ýmsum ástæðum siðferðilega ámælisverð og ákveðið að fara ekki á tónleika með honum, kaupa ekki vöru frá fyrirtæki hans og almennt hafna öllu samneyti við hann í hverju sem það kann að felast og henda honum að lokum út af vinalistanum á facebook til að taka af allan vafa um sína djúpstæðu vanþóknun á viðkomandi. Sem sagt slaufa honum með öllu. Með þessu er ekki brotin lagaregla um að maður sé saklaus þar til sekt er sönnuð. Ekkert í lögum bannar okkur hverju sinni að slaufa í félagslegum skilningi einstaklingi ef við kjósum svo.

Annað mál er að ýmsir eru á þeirri skoðun að sú aðgerð að slaufa annarri manneskju kunni við ýmsar aðstæður að vera siðferðilega hæpin aðgerð nema maður sé nokkuð viss um að sakir sem á hana eru bornar séu í raun réttar. Þótt einstaklingar séu ekki bundnir af lagareglunni um að maður sé saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð sé reglan engu að síður siðferðileg meginregla sem margir telja rétt að fylgja í samneyti sínu við annað fólk. Þeir sem fallast á regluna sem siðferðilega meginreglu láta þá félagsleg viðbrögð sín ráðast af því, frekar en að grípa án frekari tafa til þess að slaufa fólki hægri og vinstri ef manni mislíkar við það eða skoðanir þess. Þeir sem þannig hugsa, og telja sannanir skorta, geta þá haldið áfram, ef þeir kjósa svo, að fara á tónleika með viðkomandi (séu þeir aðdáendur á annað borð og einhver fáist til að skipuleggja tónleikana), kaupa vörur sem hann eða hún framleiðir eða selur, haldið honum eða henni áfram í vinnu í stað þess að reka, vera vinur hans eða hennar á facebook  o.s. frv., eins og ekkert hafi í skorist, þrátt fyrir ásakanir sem fram hafa komið. Ágreiningur um réttmæti „félagslegrar slaufunar“ og útskúfunar einstaklinga í þeim skilningi sem hér um ræðir og að hvaða marki, án þess að dómur liggi fyrir um sekt þeirra, er þannig fyrst og fremst siðferðilegur en síður lagalegur. Slaufun, sem félagslegt viðbragð eða taumhald, er þannig ekki ólögleg, þótt áfram verði deilt um siðferðilegt réttmæti þess að koma fram við einstakling með þeim hætti.

Dr. jur. Davíð þór Björgvinsson, fyrrv. dómari við MDE, lagaprófessor og varaforseti Landsréttar

Posted in Juris Prudentia

Réttur til frjálsra kosninga

Í kjölfar þingkosninga um síðustu helgi hafa risið deilur um framkvæmd þeirra og hvaða afleiðingar það eigi að hafa ef framkvæmd þeirra er gölluð. Í 120. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis segir að ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurði Alþingi kosningu hans ógilda og einnig án þess ef þingmaðurinn sjálfur, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafi vísvitandi átt sök á misfellunum, enda séu þær verulegar. Fer um alla þingmenn, kosna af listanum, eins og annars um einstakan þingmann ef misfellurnar varða listann í heild.

Hugsunin í ákvæðinu er sú að ekki nægi að leiða í ljós galla eða annmarka á framkvæmd kosninga heldur er það ávallt undirliggjandi skilyrði að þeir verði að hafa haft áhrif á úrslit kosninganna ef til greina á að koma að ógilda kosningu þeirra vegna. Hér að baki býr grundvallaratriði lýðræðisins, sem er að valdið komi frá borgurunum. Markmið kosninga sé að leiða vilja þeirra í ljós. Ef það sem upp úr kjörkössunum kemur leiðir að lokum þann vilja skýrt í ljós hlýtur hann að standa, þótt gallar kunni að vera á framkvæmd kosninganna.

Kjarninn er sá að samkvæmt íslenskri stjórnskipun og lögum er það Alþingi sjálft sem úrskurðar um lögmæti kosningar þeirra þingmanna sem þar sitja. Ferlið er í einföldu máli þannig að talið er upp úr kjörkössunum og þingsætum úthlutað í samræmi við það. Þá eru gefin út kjörbréf til þeirra sem kosnir voru og þeir koma síðan saman á nýju þingi. Í upphafi þess eru kjörbréf skoðuð og úrskurðar þingið um lögmæti kosningu einstakra þingmanna og kosninganna í heild. Við svo búið hefur þingið sín venjubundnu störf, sem er að setja samfélaginu lög.

Þessi háttur hefur verið talinn í samræmi við þrískiptingu ríkisvaldsins þar sem hvorki handhafar framkvæmdavalds eða dómsvalds hafa heimildir til að hlutast til um samsetningu þingsins með beinum eða óbeinum hætti.

Nú má spyrja hvort eðlilegt sé að þingmenn hafi þetta úrskurðarvald um málefni sem getur varðað stöðu þeirra sjálfra. Þegar þetta er metið er vert að hafa í huga að til Alþingis er kosið í lýðræðislegum kosningum. Ef gengið er út frá að þeir sem hafa fengið kjörbréf í hendur beiti valdi sínu af sæmilegum heilindum er varla að finna neina aðra sem hafa skýrara lýðræðislegra umboð til að ráða til lykta álitamálum um gildi kosninga. Eða hvað? Hitt er svo annað mál að þetta fyrirkomulag er ekki fullkomið  þar sem erfitt er að tryggja hlutleysi og vel má hugsa sér að koma þessu fyrir með öðrum hætti, svo sem fela þetta Hæstarétti eða öðrum úskurðaraðila sem settur er á fót í þessu skyni eins og Feneyjarnefndin hefur lagt til.  Meira um þetta hér á eftir.

Þá er að spyrja hvort einstakir kjósendur eða frambjóðendur sem telja að rétti sínum hafi verið hallað við framkvæmd kosninga, þ.m.t. við meðferð kjörgagna, talningu atkvæða, meðferð í þinginu o.fl.  hafi þá enga aðra leið til láta á reyna á réttindi sín.

Hér verður aðeins litið til 3. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem er lögfest regla í íslenskum rétti með lögum nr. 62/1994. Þar segir að samningsaðilar skuldbindi sig til þess að halda frjálsar kosningar með hæfilegu millibili, og sé atkvæðagreiðsla leynileg og fari fram við aðstæður er tryggi það að í ljós komi álit almennings með frjálsum hætti í kjöri til löggjafarþings.

Ákvæðið veitir ríkjum mikið svigrúm til að ákveða sjálf hvernig lagaumgjörð um kosningar og framkvæmd þeirra skal vera. Ræðst nánari úfærsla af sögulegum aðstæðum, hefðum, venjum, stjórnskipulegum hugmyndum o.fl. í hverju landi.

Framsetning ákvæðisins er þannig að mælt fyrir um rétt einstaklinga til að taka reglulega þátt í frjálsum og leynilegum kosningum til löggjafarþings sem fari fram við aðstæður sem séu til þess fallnar að álit borgaranna komi fram með þeim hætti að yfir vafa sé hafið. MSE gengur þannig út frá að borgarar samningsríkjanna búi við lýðræði þar sem kosið er til löggjafarþings.

Í grófum dráttum er um að ræða tvenns konar réttindi í nefndu ákvæði sáttmálans. Annars vegar er rætt um „aktífan“ rétt sem svo er nefndur í fræðunum, þ.e. réttur einstaklings til að kjósa (greiða atkvæði) og hins vegar „passífan“ rétt, þ.e. réttur einstaklings til að bjóða sig fram. Þessi réttindi eru ekki ótakmörkuð og hægt að setja þeim skorður með ýmsum hætti, svo sem með því að miða kosningarétt og kjörgengi við ákveðinn aldur, ríkisborgararétt, búsetu í landinu o.s.frv. Ríki hafa talsvert svigrúm til að ákveða hvernig þessu skuli hagað.

Ef við skoðum fyrst réttinn til að kjósa hefur oft reynt á slík mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu (MDE). Þessi mál varða meðal annars einstaklinga sem hafa misst kosningarétt vegna afbrota sem þeir hafa framið, rétt fanga til að kjósa, rétt ríkisborgara búsetta í öðru ríki til að kjósa í heimalandi sínu, rétt einstaklinga sem búa á tilteknum svæðum innan ríkis o.fl.

Frægast mála af þessu tagi er eflaust HIRST v. THE UNITED KINGDOM (No. 2) (coe.int) sem varðar rétt fanga í breskum fangelsum til að kjósa. Einstaklingur sem var í fangelsi á kjördag fékk í samræmi við bresk lög ekki að kjósa af þeim sökum. Hann höfðaði mál fyrir breskum dómstólum á þeim grunni meðal annars að þetta væri andstætt 3. gr. 1. viðauka MSE, en tapaði því. Hann vann það síðan í MDE og fékk viðurkennt að brotinn hefði verið á honum réttur samkvæmt 3. gr. 1. viðauka við MSE. Fleiri dómar hafa í fallið á sama veg í MDE, en engum hefur dottið í hug að þetta væri til þess fallið að draga niðurstöður umræddra kosninga í efa. Er þess að geta að auki að Bretland hefur hafnað því að fara eftir þessum dómi og hefur gengið í gegnum nokkrar kosningar þar sem fangar fá ekki að kjósa eftir að fyrsti dómurinn féll.

Þá að hinum „passífa“ rétti, þ.e. réttinum til að bjóða sig fram. Þau atriði sem hér koma til skoðunar geta meðal annars lotið að því að einstaklingur telur rétt brotinn á sér með því að hann hafi ekki kjörgengi eða sett séu skilyrði fyrir kjörgengi sem ekki teljast réttmæt. Þessu tengjast einnig reglur um lágmarksfylgi flokks til að ná kosningu, skorður við þátttöku í kosningabaráttu, svo sem vegna ritskoðunar eða aðgengis að fjölmiðlum o.fl.

Vel þekkt mál af þessum toga er SEJDIĆ AND FINCI v. BOSNIA AND HERZEGOVINA (coe.int). Atvik málsins er að rekja til ársins 2006 þegar Jakob Finci, sem er lögfræðingur af gyðingaættum ætlaði að bjóða sig fram í forsetakosningum og þingkosningum í Bosníu-Herzegovínu. Honum var synjað um það vegna þess að hann var gyðingur. Hinn kærandinn Dervo Sejdić er af Róma fólki og var einnig synjað vegna uppruna síns. Þetta var gert á grundvelli stjórnarskrár ríkisins, sem rakin er til Dayton-samkomulagsins, sem gert var til að stilla til friðar í landinu eftir ófrið (1992-1995), sem braust þar út eftir fall fyrrum Jógóslavíu. Samkvæmt Dayton-stjórnarskránni gátu eingöngu boðið sig fram þeir sem voru að uppruna Bosníumenn, Króatar eða Serbar. Þótt viðurkennt væri af dóminum að þessar reglur skýrðust af sögulegum aðstæðum og þeirri nauðsyn sem var til þess að stilla til friðar, varð niðurstaðan engu að síður sú í dómi MDE að þetta fæli í sér brot á 3. gr. 1. viðauka MSE. Dómurinn gat þó ekki breytt neinu um gildi kosninganna enda var hann kveðinn upp nokkrum árum eftir að kosningarnar fóru fram. Fleiri dóma má nefna þar sem kærendur eru einstaklingar sem þola hafa mátt brot á réttindum sínum samkvæmt 3. gr. 1. viðauka MSE, en það rúmast ekki í þessum stutta pistli. Fyrir þá sem vilja skoða þetta nánar er bent á þennan link: Guide on Article 3 of Protocol No. 1 - Right to free elections (coe.int).

Afar áhugaverður í þessu sambandi er einnig dómur MDE í máli MUGEMANGANGO v. BELGIUM (coe.int). Í því máli laut kæran einmitt að endurtalningu atkvæða í kosningum til þings Vallóna. Í málinu var talið að brotið hefði verið gegn kæranda þar sem úrkurðað var um kröfuna af aðila sem ekki var talinn uppfylla kröfu um að geta talist óvilhallur. Atvik voru nánar þau að samkvæmt kosningalögum hefur þingið sjálft vald til að fjalla um meinta galla á framkvæmd kosninga og útiloka þar með aðkomu annarra stofnana, svo sem dómstóla, frá því. Frambjóðandi sem ekki náði kjöri þar sem örfá atkvæði vantaði upp á krafðist endurtalningar. Nefnd Vallóna þingsins sem fjallaði fyrst um kæru frambjóðandans taldi hana á rökum reista og mælti með endurtalningu. Þingið sjálft hafnaði henni á hinn bóginn og staðfesti niðurstöður kosninganna. Í niðurstöðu MDE er meðal annars vísað til þess að með þessu hefði kærandi ekki fengið meðferð síns máls fyrir óvilhöllum aðila. Hann ætti kröfu á úrslausn um þessi efni sem byggðist eingöngu á lögum og staðreyndum málsins. Á það var bent að meðlimir þingsins gætu ekki talist pólitískt hlutlausir. Sérstaklega hefði við þessar aðstæður þurft að tryggja að þeir sem stæðu að slíkri úrlausn væru óvilhallir. Talið var að brotið hefði verið gegn 3. gr. 1. viðauka við MSE. Þá var talið að brotið hefði verið gegn ákvæði 13. gr. MSE um réttinn til virkra réttarúrræða þar sem kæranda stóðu ekki til boða nein önnur úrræði til að láta reyna á rétt sinn. Niðurstaðan hafði þó engin áhrif á úrslit kosninganna í Belgíu og stóðu þau eftir sem áður. Reyndar eru til fleiri dómar í þessa veru, sbr. Grosaru gegn Rúmeníu (2010) og Paunović og Milivojević gegn Serbíu (2016).

Vafalaust mun mörgum þykja þessi dómur áhugaverður í ljósi þeirra deilna sem risið hafa eftir kosningarnar um síðustu helgi og skynsamlegt er að skoða hann betur meðal annars með það í huga hvort og hvaða þýðingu hann hefur hér á landi. Mögulega kallar hann á lagabreytingar eða breytingar á vinnulagi þingsins, en úr því verður ekki skorið hér.

Niðurstaðan af því sem að framan er rakið er að þeir einstaklingar, hvort sem það eru kjósendur eða frambjóðendur, sem telja að á sér hafi verið brotinn réttur samkvæmt þessu ákvæði sáttmálans, lögum eða stjórnarskrá og vilja láta reyna á hann, geta auðvitað freistað þess að bera mál sitt undir íslenska dómstóla. Kröfugerð þeirra gæti lotið að því að fá viðurkennt að réttindi þeirra hafi verið brotin við framkvæmd kosninganna og myndað þannig grundvöll til að krefjast miskabóta. Engu skal spáð um hvernig það mun ganga. Í öllu falli, að lokinni málsmeðferð innanlands, geta þeir hinir sömu freistað þess að fá mál sitt tekið fyrir hjá MDE á grundvelli 3. gr. 1. viðauka. Reyndar er mögulegt í þessu tilfelli að unnt sé að fara með málið beint til MDE án málsmeðferðar innanlands ef talið yrði að slík úrræði væru ekki virk. Aftur skal engu spáð um niðurstöður af slíkri vegferð, en ljóst má vera að hún getur aldrei leitt til ógildingar kosninganna að hluta eða í heild.

Ein hlið eftirmála kosninganna eru mögulegar kærur til lögreglu um brot á kosningalögum, sem eftir atvikum gætu leitt til sakamálarannsóknar, ákæru og sakfellingar ef slík brot sannast. Engu skal heldur spáð um hvort skilyrði þessa eru fyrir hendi. Þetta myndi þó ekki sjálfkrafa hafa nein áhrif á niðurstöðu Alþingis um gildi kosninganna að hluta eða í heild.

Höfundur er fyrrverandi dómari við MDE, dómari við Landsrétt og prófessor við HA, stundakennari við HR og kennir m.a. stjórnskipunarrétt og námskeið um Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá sinnir höfundur leiðbeiningu doktorsnema við lagadeild HÍ sem rannsóknarprófessor.

Posted in Juris Prudentia

Staðgöngumæðrun og mannréttindi

1. Forsaga og atvik

Hinn 18. maí sl. kvað Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) upp dómi í máli gegn Íslandi sem varðar réttarstöðu barns sem alið var með aðstoð staðgöngumóður (hér ). Með því er í almennu máli átt við konu sem ber barn undir belti fyrir aðra konu eða par og elur það og afhendir það síðan þeim síðarnefndu.

Atvik voru þau að tvær íslenskar konur (A og B) sem þá voru í hjúskap gerðu sér ferð til Kaliforníu í Bandaríkjunum og sömdu þar við ónefnda konu um að hún bæri barn undir belti fyrir þær og afhenti þeim það strax eftir fæðingu sem þeirra eigið. Þetta gekk eftir. Árétta ber að barnið var getið með erfðaefni úr ónafngreindri konu og ónafngreindum karli og fósturvísinum komið fyrir í móðurlífi staðgöngumóðurinnar.  Þannig lá ekkert fyrir um að notað hefði verið erfðaefni frá fyrirhuguðum „foreldum“ og því ekki gert ráð fyrir að líffræðileg tengsl væru milli barnsins og hinna fyrirhuguðu foreldra sem þáðu þessa þjónustu staðgöngumóðurinnar.

Þegar til Íslands var komið synjaði Þjóðskrá um skráningu A og B sem foreldra barnsins á þeim grundvelli að til þessa skorti grundvöll að íslenskum lögum. Skipti engu máli þótt A og B væru samkvæmt lögum í Kaliforníu foreldrar barnsins og hefðu undir höndum vottorð þarlendra yfirvalda því til staðfestingar. Er þess þá meðal annars að geta að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 55/1996 er tæknifrjóvgun eins og hún er skilgreind í þeim lögum bönnuð á Íslandi. Þá var litið svo á að barnið væri erlendur ríkisborgari sem ekki gæti fengið íslenskan ríkisborgararétt. Í kjölfarið var skipaður lögráðamaður fyrir barnið og það síðan sett í umsjá A og B þar til því væri komið fyrir í varanlegu fóstri. Barnið fékk síðar íslenskan ríkisborgarrétt, þótt til þess kæmi síðar vegna lagabreytinga, en A og B voru þó ekki skráðar foreldrar þess.

Ákvörðunin var kærð til dómsmálaráðuneytisins þar sem hún var staðfest. A og B höfðuðu þá mál fyrir dómstólum til að fá þessari ákvörðun hnekkt, en synjunin var staðfest í héraðsdómi, sem og í Hæstarétti (Landsréttur var þá ekki kominn til sögunnar). Í dómi héraðsdóms var talið að vottorð sem gefið var út í Kaliforníu, þar sem A og B voru tilgreindar sem foreldrar, væri augljóslega andstætt grundvallarreglum íslensks fjölskylduréttar og ef fallast yrði á skráninguna á Íslandi væri opnað fyrir greiða leið til að sniðganga bann við staðgöngumæðrun samkvæmt íslenskum lögum. Þá var talið, þótt fallast mætti á að fjölskyldutengsl hefðu myndast milli barnsins og A og B , væri skerðing á rétti til fjölskyldulífs sem í synjuninni fælist réttlætanleg með tilliti til nauðsynjar á að gæta hagsmuna kvenna af vernd gegn því að verða ekki beittar þrýstingi til að taka að sér hlutverk staðgöngumóður, sem og með tilliti til hagsmuna barns af því að þekkja uppruna sinn. Með því að fela barnið A og/eða B til fósturs væru slík fjölskyldutengsl nægilega tryggð.

Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms, en taldi á hinn bóginn að tengsl A og B við barnið hafi þá fyrst öðlast stjórnarskrárvernd eftir að barnaverndarnefnd hafði samþykkt að barnið skyldi vistað hjá A og B og þá á grundvelli þess sambands sem síðan varð að formlegu fóstursambandi. Fram að því hefðu þau fjölskyldutengsl ekki skapast að íslenskum lögum þar sem hvorug þeirra A og B hafði gengið með og alið barnið né hafi verið til staðar þau líffræðilegu tengsl sem áskilin séu í 2. mgr. 6. gr. barnalaga. Vísað var til dóms MDE í máli Paradiso o.fl. v Italy þessu til stuðnings. Enn er þess að geta að meðan málið var til meðferðar fyrir dómstólum slitu A og B hjúskap sínum og féll þá niður umsókn þeirra um ættleiðingu barnsins sem þær höfðu áður staðið sameiginlega að, en í héraðsdómi er þess getið að hefði ekki til þessa komið hefði þeim að öllum líkindum verið fært að ættleiða barnið og með þeim hætti koma á foreldratengslum að lögum.

 2. Dómur MDE

Í kæru sinni til MDE í hinu íslenska máli héldu A og B því fram að synjun um að skrá þær sem foreldra barnsins að lögum og neita að viðurkenna hið bandaríska fæðingarvottorð fæli í sér brot rétti þeirra og barnsins til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu samkvæmt 8. gr. MSE. Synjunin jafngilti því að svipta þær og barnið rétti til löglegs og stöðugs sambands barns og foreldris. Sérstök áhersla var lögð á að stöðug félagsleg tengsl væru ekki nægileg til að tryggja rétt barna, svo sem vegna erfðaréttar þeirra. Þá héldu kærendur því fram að þeim hefði verið mismunað í bága við 14. gr. sáttmálans um bann við mismunun vegna þess að fyrir væri að fara ákvörðunum þar sem á slíka skráningu hefði verið fallist við áþekkar aðstæður.

MDE hefur áður fjallað um mál sem varða staðgöngumæðrun. Í fyrri málum hefur MDE byggt á hagsmunum barnsins í tilvikum þar sem maðurinn sem gert er ráð fyrir að yrði faðir barnsins að lögum var einnig líffræðilegur faðir, sbr. Mennesson v France og Labassee v France. Í því máli sem hér er til umræðu var þessari aðstöðu ekki til að dreifa, en hvorugt fyrirhugaðra foreldra tengist barninu líffræðilega svo vitað væri.  Að auki hefur MDE komist að þeirri niðurstöðu í málum þar sem hinir ætluðu foreldrar hafa engin erfðafræðileg tengsl við barnið, að ríki séu ekki skyld til að viðurkenna erlend fæðingarvottorð sem votta um lögformleg foreldratengsl á grundvelli samninga um staðgöngumæðrun við þessar aðstæður og nægilegt sé til að tryggja réttindi samkvæmt sáttmálanum að þeim sé komið á eða viðhaldið með öðrum hætti, svo sem með ættleiðingu eða fósturráðstöfun. (sjá: Advisory Opinion). Niðurstaða málsins var sú að synjun Þjóðskrár um skráningu A og B sem foreldra barnsins var ekki talin brjóta gegn 8. gr. MSE. Þá var talið að þessi takmörkun væri réttlætanleg með vísan til hagsmuna annarra, þ.e. vernd mögulegra staðgöngumæðra. Enn er áréttað í dóminum ekkert sammæli væri meðal aðildarríkja Evrópuráðsins um staðgöngumæðrun og hvort heimila beri hana. Væri svigrúm ríkja þannig mikið til að ákveða hvernig málum þessum skyldi hagað án þess að fara á svig við skyldur samkvæmt sáttmálanum. Með því að önnur úrræði, eins og fósturráðstöfun eða ættleiðing, til að tryggja áframhaldandi fjölskyldutengsl stæðu til boða væri ekki unnt að skylda ríki til að viðurkenna að foreldratengsl í lögformlegum skilningi barnalaga hefðu stofnast á grundvelli samnings eða áætlunar um staðgöngumæðrun. Þá hafnaði dómurinn einnig röksemdum sem byggðust á banni við mismunun samkvæmt 14. gr. MSE.

3. Athugasemdir og hugleiðingar

(1) Þótt dómur þessi falli í öllum meginatriðum að fyrri dómaframkvæmd MDE um áþekk álitaefni er þó eitt atriði í honum sem segja má að feli í sér viðbót við hana og telja má til tíðinda. Í dóminum fjallaði MDE fyrst um hvort myndast hefðu fjölskyldutengsl. Íslenska ríkið hélt því meðal annars fram að engin fjölskyldutengsl hefðu myndast milli A og B og barnsins áður en því var komið fyrir í fóstri hjá kærendum með lögmætum hætti. Þessari röksemd, sem Hæstiréttur byggði meðal annars á niðurstöðu sína, var aftur á móti hafnað í dómi MDE og talið að skilyrði fjölskyldulífs væru fyrir hendi, þótt engin líffræðileg tengsl væru til staðar, en þau byggðust á löngum og óslitnum tengslum A og B við barnið frá fæðingu þess, sem hafi síðar verið treyst frekar með fósturráðstöfun á Íslandi. Féllst dómurinn þannig að á niðurstaða Hæstaréttar fæli ekki í sér brot á sáttmálanum þótt hann féllist ekki á rök Hæstaréttar um hvenær fjölskyldutengsl sem nytu verndar sáttmálans hefðu fyrst stofnast. Er niðurstaða MDE að þessu leyti í samræmi við afstöðu héraðsdóms, en þar segir að frá fæðingu barnsins hafi A og B annast það og í reynd gegnt öllum umönnunar- og uppeldisskyldum gagnvart því allt til þessa er dómurinn var kveðinn upp . Var því fallist á að með þeim hafi myndast fjölskyldutengsl sem nytu verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans áður en lögformleg ákvörðun var tekin um vistun eða fóstur þess (dómar Hæstaréttar og héraðsdóms). Á hinn bóginn verður lesið út úr dómi MDE (rétt eins og héraðsdómi) að fósturráðstöfun (og eftir atvikum ættleiðing hefði til hennar komið) nægi til að vernda þessi tengsl og réttinn til fjölskyldulífs án þess að A og B væru skráðir foreldar barnsins í Þjóðskrá. Þetta þýðir að ríkjum ber engin skylda til að viðurkenna samning eða áætlun um staðgöngumæðrun sem viðhlítandi grundvöll undir ákvörðun um hverjir teljast foreldrar barns að lögum jafnvel þótt hann sé gerður í ríkjum þar sem slíkt er heimilt. Slík skráning sé heldur ekki forsenda til að fjölskyldutengsl teljist njóta fullnægjandi verndar samkvæmt sáttmálanum. Aftur á móti leiðir af dóminum að skylda ríkis getur stofnast til að vernda með öðrum úrræðum fjölskyldutengsl sem kunna að hafa myndast milli barns og fyrirhugaðra foreldra allt frá því þeir fengu barnið afhent til umönnunar og með því um leið slitið á öll tengsl barnsins við líffræðilega móður, eins og um var að ræða í þessu máli.

(2) Í forsendum dómsins vísar MDE til þess að ríki hafi mikið svigrúm til mats þegar um sé að ræða viðkvæm siðferðilega álitaefni þar sem sammæli séu ekki meðal ríkja Evrópuráðsins um afstöðu til þeirra. Þetta er þekkt stef í dómaframkvæmd dómstólsins á sviðum sem talin eru viðkvæm og umdeild í félagslegu, trúarlegu og siðferðilegu tilliti, svo sem þegar um er að ræða löggjöf um þungunarrof, rétt para af sama kyni til að ganga í hjúskap, aðgang þeirra að tækni sem miðar að því að vinna bug á barnleysi og ófrjósemi, svo sem aðgang að tækni- og glasafrjóvgun, notkun staðgöngumæðra o. fl. Þessi mál þykja ef til vill ekki lengur sérlega viðkvæm eða umdeild hér á landi (nema þá helst staðgöngumæðrun), en það getur engu breytt um að þau eru það samt sem áður í mörgum öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Hefur dómstóllinn almennt farið sér hægt í að taka fram fyrir hendur löggjafans í einstökum löndum í málefnum á þessu sviði og eftirlátið þeim svigrúm til mats um þau í ríkum mæli.

(3) Vitaskulda má deila um þessa niðurstöðu og ósennilegt að allir þeir sem kunna að vilja nýta sér þjónustu staðgöngumóður án þess að til staðar séu líffræðileg tengsl við fyrirhugaða „foreldra“ telji þetta fullnægjandi. Þá má spyrja hvort þetta sé í samræmi við það leiðarstef í málefnum sem varða börn að taka skuli mið af því sem þeim er fyrir bestu. Mat á hinum ólíku hagsmunum sem hér eru undir er snúið og margs að gæta. Í því sambandi má hafa í huga að staðgöngumæðrun er bönnuð á Íslandi. Stendur það bann enn þótt talsverð skoðun hafi farið fram á þessu hér á landi og hvort heimila ætti staðgöngumæðrun, svo sem í velgjörðarskyni, en frumvarp þess efnis var lagt fram á Alþingi 2015-2016, þar sem gert er ráð fyrir að slíkt yrði heimilt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (hér). Um það hefur ekki náðst sammæli og hefur lítið til þessa frumvarps spurst síðustu misserin. Af umræðum um málið hér á landi má ráða að meginrök fyrir banninu lúti að vernd kvenna í viðkvæmri stöðu og barnlaust fólk í hinum betur megandi hluta heimsins nýti sér ekki bága stöðu kvenna í öðrum löndum til að kaupa sér aðgang að líkama þeirra til að ganga með og ala fyrir sig barn.

Posted in Juris Prudentia