Einkennismynd vefsíðunnar - Norræni stjörnusjónaukinn

Myndin efst á vefsíðunni sýnir þyrpingu stjörnusjónauka á Strákakletti á La Palma, einni af Kanaríeyjum. Lengst til vinstri er Norræni sjónaukinn Hægra megin við hann er breskur sjónauki sem kenndur er við William Herschel. Lengra í burtu hægra megin eru nokkrir minni sjónaukar.

Norræni stjörnusjónaukinn: Turninn sem hýsir sjónaukann er fremst á bjargbrúninni. Nær má sjá stöðvarhúsið með aðstöðu fyrir starfsmenn og gesti.

Sjálfur sjónaukinn. Þvermál spegilsins er 2,56 m.

Norræni stjörnusjónaukinn hefur að hluta verið í eigu Háskóla Íslands frá 1997. Á þessu ári, 2017, eru því liðin tuttugu ár frá því Íslendingar gerðust aðilar að samstarfinu um sjónaukann. Fullyrða má, að aðildin hafi markað þáttaskil í iðkun stjarnvísinda á Íslandi. Með henni fengu íslenskir stjarnvísindamenn ekki aðeins beinan aðgang að fyrsta flokks tækjabúnaði til rannsókna á alheimi, heldur opnaði hún jafnframt nýjar leiðir til samstarfs við erlenda stjarnvísindamenn og rannsóknarhópa. Áhrifin létu ekki á sér standa og eiga meðal annars stóran þátt í sterkri stöðu rannsókna og kennslu í stjarnvísindum við Háskóla Íslands um þessar mundir (sjá t.d. heimasíðu stjarnvísindahópins).

Í næstu færslu er fjallað nánar um Norræna stjörnusjónaukann, íslensku aðildina og fyrstu rannsóknarverkefni íslenskra stjarnvísindamanna með sjónaukanum.

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Kynning, Stjörnufræði, Tuttugasta öldin. Bókamerkja beinan tengil.