Tvö hundruð og fimmtíu ár frá stofnun embættis konunglegs stjörnumeistara á Íslandi

Vorið 1772 skipaði Kristján konungur sjöundi Borgfirðinginn Eyjólf Jónsson (1735-1775) stjörnumeistara á Íslandi (Observator paa Vort Land Island). Eyjólfur hafði áður verið aðstoðarmaður Christians Horrebow við stjörnuathuganir í Sívalaturni, og síðan framkvæmt ýmsar mælingar hér á landi, samhliða því að vera ritari landsnefndarinnar, sem hér starfaði á áunum 1770-71.

Í erindisbréfi Eyjólfs frá 1772 eru taldar upp þær athuganir, sem honum var ætlað að stunda, og jafnframt tekið fram að reisa skuli fyrir hann viðunandi athugunarstöð. Stiftamtmaður fékk og sérstök fyrirmæli um stuðning við við hinn nýja stjörnumeistara.

Eyjólfur mun hafa þjáðst af tæringu og háði sjúkdómurinn honum svo mjög, að honum varð minna úr verki en annars hefði orðið. Hann kom sér þó upp aðstöðu til stjörnuathugana á Arnarhóli í Reykjavík, þar sem hann stundaði meðal annars athuganir á sólinni. Sjálfur bjó hann í tugthúsinu (nú Stjórnarráðshúsinu). Því miður hefur ekkert varðveist af mæliniðurstöðum hans frá Íslandsárunum, hvernig sem á því stendur.

Eyjólfur lést fertugur að aldri, sumarið 1775, nokkrum dögum eftir að byrjað var að grafa fyrir stjörnuathugunarstöðinni í landi Bessastaða. Við lát hans var hætt við verkið.

Teikning Eyjólfs Jónssonar frá 1773 af stjörnu-athugunarstöðinni, sem aldrei var reist. Stjörnumeistarinn átti að búa á neðri hæðinni, en mælingarnar að fara fram á þeirri efri.

Erfiðlega gekk að finna eftirmann Eyjólfs og það var ekki fyrr en vorið 1779, sem Norðmaðurinn Rasmus Lievog (1738-1811) var  skipaður nýr stjörnumeistari á Íslandi. Áður hafði hann starfað í Sívalaturni, fyrst sem aðstoðarmaður Christians Horrebow 1775-76 og síðan hjá Thomas Bugge, sem tók við sem prófessor í stjörnufræði að Horrebow látnum árið 1777.

Fljólega eftir komuna til landsins hóf Lievog stjörnuathuganir, fyrst á lofti Bessastaðastofu, þá á heimili sínu, Lambhúsum (árin 1780-83), og loks í sérbyggðum stjörnuturni, sem tilbúinn var í árslok 1783.

Grunnleikning Lievogs af athugunarstöðinni í Lambhúsum frá 1785-86.

Óhætt er að fullyrða, að Lievog hafi starfað hér við erfiðar aðstæður, bæði  hvað varðar veðurfar og skilningsleysi, jafnt Íslendinga sem danskra embættismanna. Að auki var tækjakostur hans rýr og úr sér genginn og kvartaði hann oft yfir því við Bugge í bréfum sínum. Þrátt fyrir þetta voru mælingar hans vandaðar og stóðust fyllilega samjöfnuð við mælingar samtímamanna annars staðar. Í því sambandi ber sérstaklega að geta athugana hans á myrkvum Júpíterstungla, en niðurstöður þeirra mælinga eru enn nýttar.

Hin þekkta mynd Johns Baine af stjörnuathugunarstöð Lievogs sumarið 1789. Við hliðina á turninum er heimili stjörnumeistaranns (bærinn Lambhús) og lengra í burtu er bústaður stiftamtmanns.

Þess ber að geta, að auk margvíslegra stjörnuathugana sá Lievog um daglegar veðurathuganir, fylgdist með sjávarföllum og norðurljósum sem og misvísun áttavita. Meðal Íslendinga er hann þó sennilega þekktastur fyrir Reykjavíkurkortið, sem hann lauk við 1787 (sjá einnig hér). Þessi fjölbreytta starfsemi gerir það að verkum að líta má á stjörnuturninn í Lambhúsum sem fyrstu raunvísindastofnunina á Íslandi.

Lista yfir mæliniðurstöður Lievogs stjörnumeistara, bæði útgefnar og í handritum, má finna hér.

Lievog starfaði á Íslandi í rúman aldarfjórðung, eða til ársins 1805, þegar hann fluttist alfarinn til Kaupmannahafnar. Lögðust stjarnmælingar þá af í Lambhúsum. Tengdist það meðal annars upphafi strandmælinganna síðari árið 1801.

Hér að framan hefur verið stiklað mjög á stóru, en frekari smáatriði í þessari annars flóknu sögu er að finna í eftirfarandi heimildum:

Aðrar gagnlegar heimildir:

 

Viðauki

Ekki er vitað hvenær stjörnuturninn í Lambhúsum var rifinn, en hann var allavega horfinn árið 1836, eins og sjá má á eftirfarandi mynd A. Mayers frá því ári. Myndin birtist fyrst í ferðabók Gaimards 1838.

„Lambhús á Álftanesi með leifum athugunarstöðvar Lievogs.“ Mynd úr bókinni Íslandsmyndir Mayers 1836.

Bærinn Lambhús var síðar rifinn. Þannig voru til dæmis engin merki sjáanleg um bústað stjörnumeistarans, þegar ég fór þarna um í fyrsta sinn á sjöunda áratugi tuttugustu aldar.

Árið 2018 grófu fornleifafræðingar í túni Lambhúsa og fundu margvíslegar og forvitnilegar minjar. Þar á meðal var húsgrunnur af timburhúsi, sem talið er að kunni að vera leifar af stjörnuturni Lievogs.

Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur og samstarfsmenn við rannsóknir í túni Lambhúsa í september 2018. Ljósmynd: Mbl.

Nánar má fræðast um þessar áhugaverðu rannsóknir í eftirfarandi heimildum:

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://einar.hi.is/
Þessi færsla var birt undir Átjánda öldin, Eðlisfræði, Stjörnufræði. Bókamerkja beinan tengil.