Niels Bohr og Íslendingar V: Andlát Bohrs og arfleifð

Efnisyfirlit

Niels Bohr lést hinn 18. nóvember 1962, þá nýorðinn 77 ára. Fréttin barst fljótt um heim allan, þar á meðal til Íslands:

Fljótlega birtust svo minningargreinar í íslenskum dagblöðum:

Niels Bohr hvílir í sérstökum fjölskyldugrafreit í hinum þekkta Hjástoðarkirkjugarði á Norðurbrú í Kaupmannahöfn.

Erlendis var Bohrs minnst með margvíslegum hætti, meðal annars með minningarræðum, minningargreinum, minningarþingum og minningarritum. Hér eru nokkur dæmi:

Svo merkilega vildi til, að tæpum tveimur mánuðum fyrir lát Bohrs opnaði hin merka stofnun, The American Institute of Physics, bóka- og skjalasafnið The Niels Bohr Library & Archives (um ástæðuna fyrir nafngiftinni má lesa hér).

Árið 1963 voru gefin út í Danmörku og á Grænlandi tvö frímerki til að minnast Bohrs og hálfrar aldar afmælis skammtalíkansins af atóminu. Annað var 35 aura og rauðbrúnt, hitt 60 aura og dökkblátt. Sjá m.a. stutta frétt í Lesbók Mbl, 8. des. 1963 (bls. 10).

Eins og sjá má á heimildaskránni í VI. kafla eru menn enn að skrifa um Bohr og áhrif hans á þróun eðlisfræði og heimspeki á tuttugustu öld. Nafn hans er þó ekki lengur jafn þekkt og áður, ólíkt því sem gerst hefur með vin hans, Einstein. Ástæðurnar eru eflaust margar, en eins og fram kom í II. kafla tel ég, að F. Wilczek hafi hitt naglann á höfuðið í greininni What Did Bohr Do? frá 1992, þar sem segir (bls. 347):

In the ordinary course of their training most physicists, let alone others, may get an insufficient appreciation of Bohr‘s contribution. It is because his most characteristic work was in provisional theories, often of a semi-phenomenological character, whose technical content has been largely superseded. Even in areas of interpretation of quantum mechanics, where his ideas are still very much alive, it seems most unlikely that a doctrine of limitation and renunciation, however revolutioary and constructive in its time, can satisfy ambious minds or endure indefinitly. Like the rest it will be digested and transformed and in its new form no longer bear Bohr‘s distinctive mark or name explicity. Yet, as his contemporaries realized, no one will have contributed more to the finished product.

Í fyrri köflum hefur þegar komið fram, að verk Níelsar Bohr snerta okkur Íslendinga á marga og mismunandi vegu. Þar ber væntanlega hæst aðkomu hans að upphafi og þróun skammtafræðinnar og notkun hennar í eðlisfræði og efnafræði. Sú þekking, sem hann átti svo ríkan þátt í að skapa og móta, reyndist vera stökkpallur fyrir sívaxandi skilning mannkynsins, ekki aðeins á innsta eðli efnis og og orku á jörðinni, heldur í öllum hinum sýnilega heimi. Afleiðingin af þeirri þekkingarsköpun hefur síðan verið lykillinn að svo til öllum mikilvægustu tækniframförum í mannheimum, allt frá fyrri hluta tuttugustu aldar.

Frumkvöðullinn Þorbjörn Sigurgeirsson hlaut þá menntun og þjálfun á eðlisfræðistofnun Bohrs, sem gerði honum kleift að leggja grunninn að kennslu og rannsóknum í eðlisfræði við Háskóla Íslands á sjötta og sjöunda áratugi tuttugustu aldar. Í kjölfarið sóttu margir aðrir íslenskir eðlisfræðingar einnig menntun sína til stofnunar Bohrs og unnu síðan ásamt Þorbirni og fleirum að frekari þróun eðlisfræðinnar á Íslandi.

Eftir seinni heimsstyjöldina vann Bohr ötullega að uppbyggingu og skipulagi rannsókna í kjarneðlisfræði og öreindafræði, ekki aðeins heima fyrir í Danmörku, heldur einnig á vettvangi Evrópu og á Norðurlöndunum sérstaklega. Þar nutum við Íslendingar góðs af, eins og rætt er um í IV. kafla.

Þessi teikning eftir David Levine birtist fyrst í grein V.F. Weisskopfs, On Niels Bohr, árið 1967.

Í lifanda lífi hlaut Niels Bohr margs konar verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín, auk þess að vera gerður að heiðursdoktor við 30 háskóla og heiðursfélaga í 24 vísindafélögum. Þá er nafn hans tengt ýmsum hugtökum, stofnunum og fyrirbærum. Eftir lát hans, hefur bæði danska þjóðin og alþjóðasamfélag vísindamanna, einkum eðlisfræðinga og efnafræðinga, heiðrað minningu þessa merka brautryðjanda við margvísleg tækifæri. Í því, sem á eftir fer, verður minnst á nokkra slíka atburði, lesendum til fróðleiks og skemmtunar.

~

Minningu og arfleifð Bohrs haldið á lofti

Niels Bohr hefði orðið áttræður árið 1965, hefði hann lifað. Af því tilefni fékk hin þekkta eðlisfræðistofnun, sem hann hafði komið á fót á árunum 1920-21, nýtt nafn og hefur síðan borið heitið Niels Bohr Institutet.

Svíar gáfu út fimm frímerki árið 1982 til að minnast Nóbelsverðlauna helstu frumkvöðla skammtafræðinnar. Eitt þeirra var helgað Níelsi Bohr, sem hlaut verðlaunin 1922:

Hin fjögur tengdust verðlaunum þeirra Louis de Broglie (1929), Werners Heisenberg (1932), Erwins Schrödinger (1933) og Pauls Dirac (1933). Sjá nánar hjá M.A. Morgan, 2006: A Postage Stamp History of the Atom, Part II: The Quantum Era (bls. 41).

 

Aldarafmæli Bohrs 1985

Árið 1985 var haldið veglega upp á 100 ára afmæli Bohrs víða um heim, meðal annars  með ráðstefnum, útgáfu rita af ýmsu tagi og öðrum uppákomum.

Sem dæmi má nefna, að Danir gerðu Niels Bohr skjalasafnið formlega að sjálfstæðri stofnun, áratugum eftir að safnið hafði í raun hafið starfsemi. Jafnframt gáfu þeir út sérstakt frímerki með mynd af Bohrhjónunum, Margrethe og Niels.

Í nóvember hélt UNESCO ráðstefnu í París um framlag Bohrs til raunvísinda og alþjóða-samvinnu (hér má finna nokkur erindanna). Jafnframt gaf stofnunin út fróðlegan bækling, Niels Bohr and the Infinitely Small og efndi til sérstakra verðlauna, kennd við Bohr.

Niels Bohr gullmedalía UNESCO.

Hér er svo listi yfir nokkur ráðstefnurit og önnur verk, gefin út í tilefni aldarafmælisins:

 

Reykjavíkurmálþingið 1985

Hér á landi stóðu Eðlisfræðifélag Íslands, Félag áhugamanna um heimspeki og Norræna húsið að málþinginu Niels Bohr 100 ára, sem haldið var í Norræna húsinu 19. og 20. október.

Þessi auglýsing um málþingið birtist í Morgunblaðinu 18. október 1985.

Skömmu eftir að þinginu lauk birti Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur, sem unnið hafði ötullega að undirbúningi atburðarins, stutta grein í NT undir heitinu  Hvað í ósköpunum er skammtafræði? Nokkur tími átti þó enn eftir að líða þar til tvö erindi af þeim sex, sem haldin voru á þinginu, komu á prenti, reyndar aukin og endurbætt:

 

Árið 1997

Árið 1997 gerðust tveir atburðir, sem vert er að nefna, en ekki tengdust á nokkurn hátt tímamótum í lífi Bohrs. Annars vegar gaf danski seðlabankinn út 500 kr peningaseðil með mynd  af meistaranum reykjandi pípu. Seðillinn er enn í gildi.

Eflaust hafa margir Íslendingar handleikið svona seðill undanfarinn aldarfjórðung eða svo.

Hins vegar ákvað sérstök orðanefnd eðlisfræðinga, eftir miklar og strangar umræður árið 1997, að gefa óstöðugu frumefni, sem fundist hafði í kringum 1980, nafnið Bohrín (Bohrium). Þess ber að geta, að þetta frumefni er hvergi að finna í náttúrunni og til að búa það til, þarf alveg sérstakar aðstæður.

 

Leikritið Kaupmannahöfn eftir Michael Frayn - 1998

Rúmlega ári eftir, að Þjóðverjar höfðu hertekið Danmörku vorið 1940, kom Heisenberg, einn af bestu vinum Níelsar Bohr, í stutta ferð til Kaupmannahafnar. Á meðan á dvölinni stóð, mun hann hafa heimsótt Eðlisfræðistofnunina nokkrum sinnum, en aðeins átt einkasamtal við Bohr í eitt skipti. Þar mun hagnýtingu kjarnorkunnar hafa borið á góma, en nákvæmlega hvernig, er enn óvíst. Þó er vitað, að Bohr krossbrá við eitthvað, sem Heisenberg sagði, sleit samtalinu og skildi Þjóðverjann einan eftir. Svo virðist sem þessi fundur hafi valdið vinslitum þeirra félaga, alla vega af Bohrs hálfu. Sem kunnugt er, flúði Bohr undan ofsóknum nazista seinni hluta ársins 1943 og margir samstarfsmanna hans fylgdu í kjölfarið, þar á meðal Þorbjörn Sigurgeirsson (sjá lok II. kafla og kafla IVa).

Þrátt fyrir að áðurnefnt samtal Bohrs og Heisenbergs hafi lítið sem ekkert sögulegt gildi, varð það tilefni mikillar umræðu, þegar fram liðu stundir, ekki síst eftir að leikritið Copenhagen eftir enska rithöfundinn og leikritaskáldið Michael Frayn hafði verið sett á svið í London (1998) og New York (2000).

Leikverkið sló hressilega í gegn og var sýnt víða um lönd á næstu árum.  Í Danmörku var það fyrst sett upp í Betty Nansen leikhúsinu árið 1999 og síðan aftur í Konunglega leikhúsinu í árslok 2022. Það var svo leiklesið hér á landi árið 2009, eins og síðar verður vikið að.

Hér má hlusta á útsendingu BBC Radio 3 á Copenhagen frá árinu 2013. Persónur og leikendur: Margrethe Bohr (Greta Scacchi), Niels Bohr (Simon Russell Beale) og Werner Heisenberg (Benedict Cumberbatch).

Í verkinu er farið frekar frjálslega með staðreyndir, enda er um leikrit að ræða, en ekki sagnfræðirit. Frekari umræður um leikritið sjálft, fund Heisenbergs og Bohrs, smíði fyrstu kjarnorkusprengjunnar, kjarnorkuvána og siðferðilega skyldu vísindamanna má meðal annars finna í eftirtöldum ritunum:

Umfjöllunin varð að lokum til þess, að Bohr-fölskyldan fór þess á leit við Niels Bohr skjalasafnið, að það birti þau gögn um fundinn fræga, sem varðveitt voru í safninu. Það var gert í febrúar 2002: Release of Documents Relating to 1941 Bohr-Heisenberg Meeting. Við það skapaðist að sjálfsögðu enn meiri umræða:

Inn í allt þetta blönduðust einnig margvíslegar vangaveltur um þátttöku Heisenbergs og fleiri eðlisfræðinga í tilraunum nazista til að smíða eigin kjarnorkusprengju. Þær umræður fengu byr undir báða vængi fljótlega eftir að hin svokölluðu Farm Hill gögn voru gerð opinber í ársbyrjun 1992:

 

Leiklesturinn í Reykjavík 2009

Ef ég man rétt, mun það hafa verið Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur og vísinda-sagnfræðingur, sem fyrstur vakti athygli nafna síns, Þorsteins Gunnarssonar leikara og arkitekts, á leikriti Frayns um Kaupmannahafnarfundinn fræga. Það mun svo aftur hafa orðið til þess, að Árni Bergmann þýddi verkið á íslensku og Vonarstrætisleikhúsið tók það til leiklestrar í Iðnó í janúar 2009.

Frá vinstri: Valgerður Dan (Margrethe Bohr), Þorsteinn Gunnarsson (Niels Bohr), Sveinn Einarsson (leikstjóri), Vigdís Finnbogadóttir og Jakob Þór Einarsson (Werner Heisenberg) á æfingu fyrir leiklesturinn á Kaupmannahöfn. Myndin er fengin að láni úr greininni Örlög mikilmenna í Fréttablaðinu.

Þessi listviðburður virðist ekki hafa vakið sérlega mikla athygli hér heima, en María Kristjánsdóttir skrifaði þó gagnrýni í Lesbók Morgunblaðsins, 24. jan 2009:  Um óvissu allra hluta.

 

125 ára afmæli Bohrs 2010

Árið 2010 hefði Niels Bohr orðið 125 ára og af því tilefni efndi Niels Bohr stofnunin til nýrra verðlauna, The Niels Bohr Institute Medal of Honour, honum til heiðurs.

Silfurmedalía Niels Bohr stofnunarinnar var fyrst veitt 2010.

Rússar sáu líka ástæðu til að minnast þessara tímamóta í tímariti rússnenska vísindafélagsins:

 

50 ára ártíðin 2012

Árið 2012 var liðin hálf öld frá því Niels Bohr lést. Af því tilefni birti tímaritið ChemistryViews stutta frétt og Afríkuríkið Gínea gaf út þrjú frímerki með mynd af Bohr með þrjá aðra eðlisfræðinga í bakgrunni (Heisenberg, Oppenheimer og Einstein). Gínea er ekki eina þróunarríkið, sem gefið hefur út frímerki með myndum af Níelsi Bohr á undanförnum árum, hver svo sem ástæðan kann að vera.

Hinn 7. október 2012 breytti Google einkennistákni sínu tímabundið með svokölluðu Google rissi til að minnast 127 ára afmælis Bohrs. Þeir, sem það ákváðu, hafa sennilega ekki haft hugmynd um 50 ára ártíðina.

Líklega hafa margir Íslendingar komið auga á Google rissið á sínum tíma, en hvort það hefur vakið þá til frekari umhugsunar skal ósagt látið.

 

Aldarafmæli Bohr-atómsins 2013

Á þessum tímamótum birti tímaritið Nature skemmtilega forsíðumynd af Bohr-atóminu með Bohr sjálfan í miðjunni:

Eðlisfræðifélag Evrópu setti Bohr-stofnunina á minjaskrá sína og Bandaríska eðlisfræðistofnunin gaf út myndskreytt dagatal fyrir árið 2013, helgað Bohr-atóminu:

Danir héldu aðsjálfsögðu upp á afmælið með glæsibrag. Meðal annars voru gerðar tvær kvikmyndir:

Ráðstefnur voru haldnar:

Lágmynd úr bronsi var afhjúpuð á Niels Bohr stofnuninni í maí 2013. Hún sýnir fjóra Nóbelsverðlaunahafa, sem allir voru starfsmenn stofnunarinnar til lengri tíma:

Lágmyndin af Nóbelsverðlaunahöfunum sýnir Niels Bohr (verðlaun 1922) lengst til hægri. Georg de Hevesy (verðlaun 1943) er lengst til vinstri. Milli þeirra standa félagarnir Aage Bohr (til vinstri) og Ben Mottelson, sem hlutu verðlaunin 1975.

Hinn 7. október 2013 gaf danski seðlabankinn út nýja 20 kr mynt með Margréti Þórhildi Danadrotningu á framhliðinni, en bakhliðina prýða til skiptis táknmyndir af afrekum þekktustu raunvísindamanna Dana, þeirra Níelsar Bohr, H.C. Ørsteds, Óla Rømer og Týchós Brahe:

Samtímis útgáfu 20 kr myntarinnar árið 2013 voru gefnir út sérstakir 500 kr minnispeningar  úr silfri. Sjá nánar hér: Niels Bohr on new 20 kroner coin.

Ýmis rit voru gefin út í tilefni aldarafmælisins, m.a.:

 

Niels Bohr stofnunin 100 ára 2021

 Undirbúningurinn fyrir aldarafmæli Bohr-stofnunarinnar var kominn á fullt, þegar hinn alræmdi covid-faraldur skall á og setti allt úr skorðum. Dönum tókst þó að gera sér glaðan dag, en vegna pestarinnar var ákveðið að flytja hluta dagskrárinnar yfir á næsta ár og tengja hana hátíðarhöldum í tilefni þess, að þá voru liðin 100 ár frá því Niels Bohr fékk Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði.

Þessi loftmynd af hinni eiginlegu Níels Bohr stofnun var tekin árið 1965. Á þeim tíma var húsaskipun stofnunarinnar í stórum dráttum hin sama og hún er í dag. Stofnunin afmarkast af Fælledparken að norðan og vestan, Blegdamsvej að suð-austan og Frímúrarahöllinni að norð-austan. Árið 1993 var stofnunin „útvíkkuð“ með því að setja aðrar raunvísindastofnanir undir sama hatt (Astronomisk Observarorium, H.C. Ørsted Institutet og  the Geofysisk Institut) án þess þó að nafninu væri breytt eða þessar stofnanir fluttar á Blegdamsvej (sjá hér).

Það kastaði nokkurn skugga á hátíðarhöldin, að dönsk yfirvöld höfðu ákveðið það tíu árum áður, að Niels Bohr stofnunin skyldi flutt í nýtt húsnæði 2016. Árið 2014 hófst reyndar furðuleg atburðarás, sem tafði verkið svo mjög, að því er ekki enn lokið. Um þá töf má lesa í grein S. Frandsens frá 2022: Overblik: Striden om Niels Bohr Bygningen. Síðast, þegar færsluhöfundur vissi, voru starfsmenn stofnunarinnar ekki enn byrjaðir að pakka niður bókum og blýöntum. Áhugasamir geta fundið frekari smáatriði þessarar óskemmtilegu hrakfallasögu í eftirtöldum greinum:

 

Öld liðin frá Nóbelsverðlaununum 2022

Í upphafi I. kafla var fjallað all ítarlega um hátíðarhöldin 2022 og óþarft er að endurtaka þá lýsingu hér. Til viðbótar má þó geta þess, að Kaupmannahafnarháskóli hélt heljarmikla alþjóðlega ráðstefnu, Open Science and Global Dangers, til heiðurs Bohr, og í ársbyrjun 2023 var frumsýnd í Kaupmannahöfn ný heimildarmynd með nafninu Niels Bohr: Verdens bedste menneske.

 

Ár skammtafræðinnar 2025?

Að lokum skal geta þess, að Alþjóðasamband eðlisfræðinga (IUPAP) hefur nú þegar farið þess á leit við UNESCO og Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, að árið 2025 verði útnefnt alþjóðlegt ár skammtafræðinnar (the International Year of Quantum Science and Technology). Sjá nánar hér: Proposal for an International Year of Quantum Science and Technology. Áætlað er, að tillagan verði tekin til lokaafgreiðslu haustið 2023.

 

Til baka í efnisyfirlitið

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://einar.hi.is/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Efnafræði, Tuttugasta og fyrsta öldin, Tuttugasta öldin. Bókamerkja beinan tengil.