Niels Bohr og Íslendingar I: Inngangur og efnisyfirlit

Fyrir skömmu minntist Danska kvikmyndastofnunin þess, að árið 2022 var öld liðin frá því Niels Bohr (1885-1962) hlaut Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir „rannsóknir sínar á gerð atóma og geisluninni frá þeim“. Þetta var gert með því að veita opinn aðgang að nokkrum sjaldséðum kvikmyndum af Bohr, þar á meðal mynd frá 1952, þar sem hann segir frá ævi sinni og hugmyndum. Eins og vera ber, fagnaði stofnun Bohrs einnig afmælinu með margvíslegum uppákomum. Það kæmi heldur ekki á óvart, ef Nóbelsnefndin hefur haft aldarafmælið í huga, þegar eðlisfræðiverðlaun ársins 2022 voru veitt „fyrir tilraunir með skammtatengdar ljóseindir, sem staðfestu brot á ójöfnum Bells og lögðu grunn að skammtaupplýsingafræði“.

Þetta mikla húllumhæ varð til þess, að færsluhöfundur ákvað að setja saman pistil um áhrif Bohrs hér á landi og þá umtalsverðu athygli, sem Íslendingar veittu honum og verkum hans, allt frá því fyrst var á hann minnst í íslenskum dagblöðum, í byrjun september árið 1920. Í þeirri sögu ber hæst „opinbera“ heimsókn Bohrs til Íslands árið 1951, þar sem tekið var á móti honum eins og um þjóðhöfðingja væri að ræða. Helstu ráðamenn þjóðarinnar, menningarvitar og fjölmiðlamenn mærðu hann í ræðu og riti, forsetinn sæmdi hann stórkrossi og almenningur fyllti hátíðarsal Háskólans til að heyra hann tala um vísindi og þekkingarfræði. Ólíklegt er, að í annan tíma hafi vísindamanni verið fagnað  jafn innilega hér á landi. Rétt er þó að hafa í huga, að á þessum árum var Bohr ekki aðeins einn frægasti vísindamaður heims, heldur einnig vel þekktur málsvari opins alþjóðasamfélags og friðsamlegrar notkunar kjarnorku.  Þá fór hann ekki leynt með aðdáun sína á íslenskum fornsögum og í kjölfar heimsóknarinnar mun hann hafa gerst því fylgjandi, að Danir skiluðu Íslendingum handritunum.

Lesendum til þæginda er greinin birt í nokkrum köflum. Auðvelt er að nálgast hvern kafla fyrir sig með því að smella á viðkomandi tengil:

  1. Inngangur og efnisyfirlit
  2. Tímabilið frá 1920 til 1950
  3. Íslandsheimsóknin 1951
  4. (a) Kjarnorka
    (b) Alþjóðlegt samstarf á eftirstríðsárunum
    (c) Eðlisfræði nær fótfestu við Háskóla Íslands
  5. Andlát Bohrs og arfleifð
  6. Heimildaskrá

Fróðleiksfúsum lesendum er einnig bent á greinaflokkinn Frá höfuðskepnum til frumeinda og öreinda: Íslendingar og kenningar um innstu gerð og eðli efnisins. sem er reyndar enn í vinnslu.

Færsluhöfundur ásamt Níelsi Bohr fyrir framan Aðalbyggingu Kaupmannahafnarháskóla við Frúartorg sumarið 2002.

 

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Efnafræði, Tuttugasta og fyrsta öldin, Tuttugasta öldin. Bókamerkja beinan tengil.