Niels Bohr og Íslendingar IV: (c) Eðlisfræði nær fótfestu við Háskóla Íslands

Efnisyfirlit

Eins og fjallað var um í köflum IVa og IVb olli seinni heimsstyrjöldin, og ekki síst beiting kjarnorkuvopna gegn Japönum í ágúst 1945, grundvallarbreytingu á þróun heimsmála. Í kjölfarið kom svo kalda stríðið, sem með tilheyrandi kjarnorkuvopnakapphlaupi reyndist mikill áhrifavaldur á sviðum eins og raunvísindum og verkfræði. Þar ber einna hæst gífurlegur vöxtur í kennslu og rannsóknum í eðlisfræði, ekki síst kjarneðlisfræði og öreindafræði.

Þessar miklu breyingar á stöðu eðlisfræðinnar hófust fyrst í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum strax að stríðinu loknu. Eftir „Atoms for Peace“ ræðu Eisenhowers á allherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 1953 jókst umræðan um friðsamlega notkun kjarnorkunnar víða um heim, bæði meðal vísindamanna og stjórnmálmanna. Jafnframt varð mönnum fljótlega ljós mikilvægi eðlisfræðinnar í öllu því sem viðkom kjarnorku og framtíðartækni. Það varð meðal annars til að kveikja áhuga margra ungra námsmanna um heim allan á greininni. Það er því engin tilviljun, að af þeirri kynslóð Íslendinga, sem voru unglingar á fyrstu 10 til 15 árunum eftir stríðið, kusu óvenju margir að fara í háskólanám í eðlisfræði eða skyldum greinum.

Forsíða bæklings frá Bell rannsóknarstofnuninni árið 1954.

Í árslok 1954 náðu aðildarríki Sameinuðu þjóðanna loks samkomulagi um að haldin skyldi sameiginleg ráðstefna um friðsamlega notkun kjarnorkunnar, sumarið eða haustið 1955. Við það jukust vonir margra vestrænna ráðamanna, sem og vísindamanna, um bjartari framtíð, þrátt fyrir að kjarnorkuváin lægi enn eins og mara á jarðarbúum. Fljótlega var svo ákveðið að kjarnorkuráðstefnan skyldi haldin í Genf í ágúst 1955. Í kjölfarið hófst mikil umræða í flestum löndum um orkumál, hönnun og byggingu kjarnaofna og jafnvel kjarnorkuvera til raforkuframleiðslu. Jafnframt jókst umræða um hagnýtingu geislavirkra samsæta á hinum ýmsu sviðum verulega.

Eins og minnst var á í lok kafla IVb markaði Genfarráðstefnan þáttaskil í sögu raunvísinda hér á landi. Ráðstefnan setti af stað atburðarás, sem leiddi strax til stofnunar Kjarnfræðanefndar Íslands og innan tveggja ára til  sérstakrar geislamælingastofu og nýs prófessorsembættis í eðlisfræði við Háskóla Íslands. Geislamælingastofan breyttist svo fljótlega í Eðlisfræðistofnun Háskólans, sem nokkrum árum síðar varð kjölfestan í Raunvísindastofnun Háskólans.

 

Genfarráðstefnan 1955

Fljótlega eftir að ákveðið hafði verið að halda kjarnorkuráðstefnuna í Genf, hófu íslensku dagblöðin fréttafluttning af undirbúningi hennar og mikilvægi:

Í vetrarlok 1955 birti Sveinn Sigurðsson ritstjóri greinina Gullgerðarlist hin nýja í Eimreiðinni og var hún að mestu byggð á greinum G. Wendts í desemberhefti The UNESCO Courier árið 1954 og áður hefur verið minnst á.  Hinn 8. mars 1955 flutti Þorbjörn Sigurgeirsson erindi um kjarnorku á fundi Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna, og í kjölfarið annað erindi um sama efni, nú hjá Félagi ungra Framsóknarmanna:

Í maíhefti Tímarits Máls og Menningar 1955 var heilmikið fjallað um kjarnorkuhernað. Meðal annars var Þorbjörn Sigurgeirsson einn þeirra, sem þar svaraði þremur spurningum varðandi kjarnorkustyrjöld.

Skömmu áður en Genfarráðstefnan hófst, 8. ágúst, hófu íslensku blöðin að fræða landsmenn um tilgang hennar og væntanlega þáttöku Íslendinga.

Fulltrúar Íslands á ráðstefnunni voru þrír, þeir Þorbjörn Sigurgeirsson framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs ríkisins, Magnús Magnússon eðlisfræðingur, þá nýkominn heim eftir ársdvöl við Princetonháskóla, og Kristján Albertsson sendiráðunautur Íslands í París.

Eðlisfræðingarnir Þorbjörn Sigurgeirsson (1917-1988) til vinstri og Magnús Magnússon (f. 1926) um miðjan sjötta áratug tuttugustu aldar. Þeir voru fulltrúar Íslands á Genfarráðstefnunni 1955 ásamt Kristjáni Albertssyni.

Ráðstefnan stóð yfir dagana 8. til 20. ágúst og þótti það merkileg, að íslensku blöðin fluttu nær daglega fréttir af framvindu mála í Genf:

Ráðstefnuna sóttu um 1400 vísindamenn, verkfræðingar og ráðamenn, fulltrúar frá alls 73 þjóðum. Með áheyrnarfulltrúum og blaðamönnum, mun heildarfjöldi þátttakenda hafa verið í kringum 3000. Í mannfjöldanum mátti meðal annars finna vorn gamla kunningja, Niels Bohr.

x

Niels Bohr (1985-1962) og bandaríski eðlisfræðingurinn I. Rabi (1898-1988) ræða saman á Genfarfundinum um friðsamlega notkun kjarnorkunnar árið 1955. Bohr, sem þá var við það að verða sjötugur, hélt fyrirlestur á ráðstefnunni. Hér má sjá myndband með brotum úr erindi hans, Physical Science and Man´s Position. Fundarstjóri í það skiptið var forseti ráðstefnunnar, indverski eðlisfræðingurinn H.J. Bhabha.

 

Áhrif Genfarráðstefnunnar hér á landi

Eftir ráðstefnuna var mikill hugur í mönnum um heim allan að nýta vel þær nýju upplýsingar, sem vísindamenn og verkfræðingar kjarnorkuveldanna höfðu opinberað í fyrsta sinn með erindum og á umræðufundum, sem og í persónulegum samskiptum.

Heimildir um áhrif ráðstefnunar á íslensku þátttakendurna er að finna í grein eftir Þorbjörn frá því í ágúst 1955 og í blaðaviðtali við þá Þorbjörn og Magnús í Þjóðviljanum, fljótlega eftir heimkomuna frá Genf. Gagnlegustu upplýsingarnar eru hins vegar í upphafi afar fróðlegrar yfirlitsgreinar Magnúsar frá 1987 um Kjarnfræðanefnd Íslands og áhrif hennar á þróun mála hér á landi, á meðan nefndin var og hét.

Í grein sinni segir Magnús meðal annars (MM, bls. 78):

Íslendingar höfðu ekki þörf fyrir nýja orkulind. Það athyglisverðasta fyrir þá á þessari ráðstefnu var notkun geislavirkra efna, í læknisfræði, landbúnaði og á fleiri sviðum, og möguleikar á framleiðslu þungs vatns, en það mál hafði borið á góma í sambandi við nýtingu jarðhita á Íslandi ... Okkur Þorbirni var ljóst, að notkun geislavirkra efna á ýmsum sviðum væri sá þáttur kjarnfræða, sem fyrst kæmi til álita hér og ræddum um, að nauðsynlegt væri að koma upp geislarannsóknarstofu. Fyrstu hugmyndir um það, sem síðar varð Eðlisfræðistofnun háskólans, komu því fram í Genf í ágúst 1955.

Á síðasta degi ráðstefnunnar, 20. ágúst 1955, setti íslenska sendinefndin því fram tvær tilllögur til ríkisstjórnarinnar í skýrslu sinni til utanríkisráðuneytisins (MM, bls. 78):

  1. Að komið verði á fót rannsóknastofu, sem hafi með höndum geislamælingar og forgöngu og eftirlit með notkun geislavirkra efna í þágu læknavísinda og atvinnuvega.
  1. Að strax verði gerðar ráðstafanir til rækilegrar athugunar á möguleikunum til framleiðslu þungs vatns á Íslandi með notkun jarðhita.

Strax eftir komu þeirra Þorbjörns og Magnúsar frá Genf, var ákveðið að taka kjarnorkumálin til umræðu á fundi íslensku landsnefndarinnar í Alþjóða-orkumálaráðstefnunni (AOR). Fundurinn var haldinn hinn 2. september 1955 og er ítarlega lýsingu af honum að finna hjá MM (bls. 78-81). Í því sem á eftir fer, mun ég því stikla mjög á stóru um þennan mikilvæga fund og stofnun Kjarnfræðanefndarinnar, sem fylgdi í kjölfarið. Þeim sem vilja kynna sér frekari smáatriði um nefndina og störf henna er bent á grein Magnúsar.

Í upphafi fundar landsnefndar AOR, 2. september, ræddu þeir Jakob Gíslason, raforkumálastjóri og formaður nefndarinnar, og Þorbjörn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknarráðs ríkisins um möguleika á vinnslu þungs vatns hér á landi og Þorbjörn sagði frá kjarnorkuþinginu í Genf.  Að framsöguerindunum loknum var svo samþykkt tillaga um fela stjórn landsnefndarinnar að skipa sérstaka undirbúningsnefnd, svokallaða „atóm-nefnd“ til að kynna sér nýjungar varðandi hagnýtingu kjarnorku á ýmsum sviðum, stuðla að fræðslu um kjarnorkumál hér á landi og gera tillögur um innlendar rannsóknir í kjarnfræði og hagnýtingu þeirra, Jafnframt að vinna að því að hrinda tillögunum í framkvæmd (tillagan er birt í heild hjá MM, bls. 79).

Í undirbúningsnefndina voru kosnir Jakob Gíslason raforkumálastjóri, Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri, Gunnar Böðvarsson, yfirverkfræðingur jarðhitadeildar raforkumálaskrifstofunnar og Þorbjörn Sigurgeirsson.

Rafmagnsverkfræðingarnir Jakob Gíslason (1902-1987) til vinstri og Steingrímur Jónsson (1890-1975).

Verkfræðingurinn og jarðeðlisfræðingurinn Gunnar Böðvarsson (1916-1989) til vinstri og Þorbjörn Sigurgeirsson.

Undirbúningsnefndin fundaði strax 5. september 1955 og vann síðan ötullega að málinu það sem eftir var ársins. Helsti árangur nefndarstarfsins var stofnun Kjarnfræðanefndar Íslands, sem fjallað verður um hér á eftir.

Fagleg kynning um kjarnorkumál í blöðum og tímaritum hófst einnig fljótlega eftir landsnefndarfund AOR með greinum eftir Magnús Magnússon, Þorbjörn Sigurgeirsson og Jóhannes Nordal:

Í október lögðu nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins fram þingsályktunartillögu um rannsóknir á hagnýtingu kjarnorku hér á landi og var hún samþykkt skömmu eftir áramótin 1955-56:

Það lýsir sjálfsagt vel tíðarandanum á Íslandi á þessum tíma, að í lok október 1955 var frumsýnt nýtt leikrit í Reykjavík, Kjarnorka og kvenhylli, sem hlaut mikla aðsókn:

Sjá umsögn um leikritið í Tímanum.

Sunnudaginn 6. nóvember hélt Stúdentafélag Reykjavíkur svo opinn fund um friðsamlega nýtingu kjarnorkunnar. Þar voru þeir Þorbjörn og Magnús frummælendur:

Auglýsing Súdentafélagsins um fundinn í Morgunblaðinu, 5. nóv 1955. – Sjá einnig Alþbl, 5. nóv 1955: Stúdentafundur um kjarnorku á morgun í Sjálfstæðishúsinu.

Í þessu sambandi má einnig nefna erindi Thor Thors sendiherra á fundi svokallaðrar pólitískrar nefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þetta ár:

Eftir að hafa mært hina frægu ræðu Eisenhowers á allsherjarþinginu 1953 (sjá kafla IVb) segir Thor meðal annars:

Um miðjan janúar 1956, var frá því sagt í dagblöðunum, að Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna og Rannsóknaráð ríkisins myndu setja upp bandarískra farandsýningu um kjarnorkumál í Reykjavík í febrúar næstkomandi.

Sýningin hófst svo samkvæmt áætlun í Listamannaskálanum, 4. febrúar 1956, og stóð í 10 daga. Landbúnaðar- og félagsmálaráðherra, Steingrímur Steinþórsson, flutti setningarræðuna og gefinn var út sérstakur bæklingur, sem þeir Magnús Magnússon og Þorbjörn Sigurgeirsson höfðu þýtt: Kjarnorkan í þjónustu mannkynsins : sýning á vegum Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna og Rannsóknaráðs ríkisins 4.-14. febrúar 1956.

Þorbjörn Sigurgeirsson útskýrir líkan af kjarnorkuveri fyrir Ásgeiri Ágeirssyni forseta á kjarnorkusýningunni í febrúar 1956.

Á meðan á sýningunni stóð voru ýmsar kvikmyndir um kjarnorkumál einnig sýndar víða um land. Sumar höfðu reyndar verið sýndar hér áður og voru jafnframt endursýndar á næstu árum:

Undir lok sýningarinnar í Listamannaskálanum bárust þau skilaboð frá bandaríska sendiráðinu, að Kjarnorkumálanefnd Bandaríkjanna myndi innan tíðar færa Háskóla Íslands veglegt safn bóka og skjala að gjöf:

Gjöfin var svo afhent skólanum tæplega ári síðar.

Frá afhendingu bókagjafar Kjarnorkumálanefndar Bandaríkjanna til Háskóla Íslands í janúar 1957. Frá vinstri: Þorkell Jóhannesson rektor, John J. Muccio sendihera Bandaríkjanna og Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðhertra. Hluta bókagjafarinnar má sjá á borðinu fyrir framan þá. Fyrstu árin voru bækurnar geymdar í húsakynnum Kjarnfræðanefndar Íslands. Mynd: Pétur Thomsen.

 

Kjarnfræðanefnd Íslands 1956-1964

Þremur dögum eftir að áðurnefnd kjarnorkusýning var fyrst kynnt í íslenskum blöðum birtist eftirarandi frétt í síðdegisblaði landsmanna:

Kjarnfræðanefnd Íslands var svo stofnuð í Reykjavík, 25. janúar 1956, á efri hæð hins þá þekkta veitingastaðar, Naustsins. Að stofnfundinum stóðu 26 aðilar, aðallega opinberar stofnanir. Rétt er að hafa í huga, að þrátt fyrir margvíslegar tilraunir fékk nefndin aldrei opinbera skipun, þótt hún hafi fengið framlag frá ríkissjóði árin 1958-60 í gegnum Rannsóknarráð ríkisins. Að öðru leyti var nefndarstarfið fjármagnað með framlögum stofnaðila. Frekari umfjöllun um þessi atriði, sem og stofnfundinn sjálfan, má finna hjá MM (bls. 81-84).

Verðandi formaður nefndarinnar, Þorbjörn Sigurgeirsson, hélt framsöguerindi á stofnfundinum, sem birtist nokkru síðar í tímaritinu Iðnaðarmálum. Þar fjallaði hann meðal annars um væntanleg verkefni Kjarnfræðanefndar:

Einnig skýrðu dagblöðin frá stofnun nefndarinnar nokkrum vikum síðar:

Kjarnfræðanefndin starfaði af miklum krafti allt fram á sjöunda áratuginn, en smám saman dró úr starfseminni og  varð það að lokum til þess að nefndin lagði sjálfa sig niður árið 1964. Þorbjörn var formaður öll árin og Magnús var ráðinn framkvæmdastjóri nefndarinnar í júní 1956. Það hefur eflaust haft sín áhrif á störf nefndarinnar, að Þorbjörn var skipaður prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands haustið 1957 og Magnús varð síðan prófessor við sama skóla haustið 1960. Hann var jafnframt í tveggja ára leyfi frá starfi sínu fyrir nefndina vegna dvalar hjá Nordita í Kaupmannahöfn árin 1958-60. Björn Kristinsson rafmagnsverkfræðingur leysti hann af á meðan.

Eins og þegar hefur komið fram, er helsta heimildin um sögu og starfsemi Kjarnfræðanefnarinnar að finna í greininni

Einnig má finna frekari smáatriði í ársskýrslum nefndarinnar:

Í fyrstu stjórn Kjarnfræðanefndar sátu þeir Þorbjörn Sigurgeirsson (formaður), Jakob Gíslason (varaformaður), Jóhann Jakobsson (ritari) og Halldór Pálsson (gjaldkeri). Fljótlega skipaði hún sex starfshópa til að fjalla um helstu áherslur í starfi nefndarinnar:

  1. Þungavatnsframleiðslu (MM, bls. 92-99)
  2. Orkumál (MM, bls. 92-99 að hluta)
  3. Heilbrigðismál (MM, bls. 91)
  4. Landbúnaðarmál (MM, bls. 91-92)
  5. Iðnaðarmál (MM, bls. 91-92)
  6. Almennar rannsóknir og undirbúning að stofnun rannsóknastofu (MM, bls. 84-90).

Kjarnfræðanefndin lagði gífurlega vinnu í svokallað þungavatnsmál, þ.e.a.s. könnun á því, hvort arðbært væri að nota jarðhita hér á landi til að framleiða þungt vatn til útflutnings. Endanleg niðurstaða reyndist sú, að svo væri ekki, og mun ástæðan fyrst og fremst hafa verið óhagstæð þróun þungavatnsmála erlendis. Magnús gerir þessu flókna máli góð skil í grein sinni (MM, bls.92-99), en eftirfarandi heimildir fylla upp í myndina:

Þungavatnsrannsóknirnar tengdust eðlilega jarðhitarannsóknum og leiddu meðal annars til þess, að grunnvatnsrannsóknir voru teknar upp við Háskóla Íslands með aðstoð frá Alþjóða-kjarnorkumálastofnuninni (MM, bls. 102).

Geislavarnir ríkisins má einnig rekja til vinnu Kjarnfræðanefndarinnar. Sjá til dæmis:

Í því sem á eftir fer í þessari umfjöllun um Kjarnfræðanefndina verður eingöngu rætt um vinnu starfshóps nr. 6 á listanum.

 

Geislamælingastofa og prófessorsembætti í eðlisfræði við Háskóla Íslands

Að mati færsluhöfundar reyndist vinna starfshóps nr. 6 á listanum hér að framan langmikilvægust allra viðfangsefna Kjarnfræðanefndarinnar og þeirra áhrifamest. Þótt aðrir aðilar hafi einnig komið að málum, er það einkum starfshópnum að þakka, að rannsóknir í eðlisfræði náðu fótfestu við Háskóla Íslands. Það gerðist með stofnun sérstakrar rannsóknastofu til mælinga á geislavirkum efnum og jafnframt nýs prófessorsembættis í eðlisfræði haustið 1957.

Í starfshópi 6 voru auk Þorbjörns, formanns Kjarnfræðanefndarinnar, þeir Trausti Einarsson, prófessor við Háskóla Íslands og Sigurður Þórarinsson frá Náttúrugripasafni Íslands.

Frá vinstri:  Trausti Einarsson stjörnufræðingur (1907-1984), Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur (1912-1983) og Þorbjörn Sigurgeirsson.

Starfshópurinn skilaði áliti sínu „Tillögur um stofnun og rekstur rannsóknastofu til þess að annast mælingar á geislavirkum efnum“ í júnílok 1956 og niðurstaðan var afdráttarlaus:

Í álitinu, sem birt er í heild hjá MM (bls. 85-87) er færður ítarlegur rökstuðningur fyrir hverjum verkefnalið fyrir sig, rætt um nauðsynlegt starfslið, undirbúningstíma, kostnað og húsnæðisþörf. Í lokin setur starfshópurinn svo fram tillögu um rekstarform rannsóknarstofunnar:

Kjarnfræðanefndin fylgdi málinu vel eftir, óskaði eftir umsögnum frá fjölda aðila og kynnti málið fyrir menntamálaráðuneytinu. Eftir talsverðar umræður og jákvæðar viðtökur, ekki síst frá Háskóla Íslands, endurskoðaði nefndin tillögur starfshópsins í apríl 1957 (MM, bls. 88-89):

Háskólaráð, undir forystu Þorkels Jóhannessonar rektors, hafði ákveðið, þegar í febrúar 1956, að stefnt skyldi að því, að stofnað yrðið nýtt prófessorsembætti í eðlisfræði við Verkfræðideild skólans og notaðir til þess vextirnir af veglegri dánargjöf Vestur-Íslendingsins Aðalsteins Kristjánssonar. Vandinn vara bara sá, að vextirnir dugðu aðeins fyrir um fjórðungi prófessorslauna. Árið 1957 hjó Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra á hnútinn, með því benda á, að nýr prófessor og geislarannsóknir hans þyrftu ekki að hafa neinn aukakostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Auk vaxtanna af dánargjöf Aðalsteins, mætti nefnilega nýta þegar ákveðnar fjárveitingar, sem annars vegar voru ætlaðar fyrir stundakennslu í eðlisfræði við Háskólann og hins vegar fyrir árlegan kostnað við mælingar á geislavirkum efnum, sem veittar höfðu verið á fjárlögum í desember 1956.

Frá vinstri: Þorkell Jóhannesson sagnfræðiprófessor og rektor (1895-1960), Aðalsteinn Kristjánsson fasteignasali (1878-1949) og Gylfi Þ. Gíslason hagfræðiprófessor og ráðherra (1917-2004).

Í apríl 1957 var því lagt fram stjórnarfrumvarp til laga um stofnun prófessorsembættis í eðlisfræði við verkfræðideild Háskóla Íslands og starfrækslu rannsóknarstofu til geislamælinga.

Frumvarpið varð að lögum og staðan síðan auglýst. Þorbjörn Sigurgeirsson var eini umsækjandinn og var hann skipaður prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands frá og með 1. september 1957. Þá voru liðin um tíu ár frá því hann kom alkominn til starfa hér á landi. Með skipun hans má segja, að framtíð rannsókna í eðlisfræði við Háskólann hafi loksins verið tryggð. Af framansögðu má og ráða, hversu mikið og samstillt átak þurfti til að slíkt yrði að veruleika, svo ekki sé talað um hagstæðan tíðaranda og erlend áhrif.

Geislamælingastofan tók formlega til starfa 1. janúar 1958 undir stjórn Þorbjörns. Skömmu síðar var eðlisfræðingurinn, Páll Theodórsson, ráðinn að stofunni sem sérfræðingur í geislamælingum.

Páll Theodórsson við geislamælingar árið 1960.

Eftir að hafa ráðfært sig við Pál, ákvað Þorbjörn fljótlega að gefa rannsóknastofunni nafnið Eðlisfræðistofnun Háskólans og lét útbúa fyrir hana viðeigandi bréfsefni og umslög því til staðfestingar:

Upphaf skýrslu Páls Theodórssonar eðlisfræðings um vatnsrennslismælingar með geislavirkum efnum, skrifað á bréfsefni Eðlisfræðistofnunarinnar árið 1959. Sjá einnig fréttatilkynningu frá Kjarnfræðanefnd í nóvember 1959: Rennsli í ám mælt með geislavirkum efnum.

Opinberar fjárveitingar til hinnar nýju rannsóknarstofu voru mjög takmarkaðar í fyrstu og reksturinn því þungur. Það hjálpaði þó til, að Vísindasjóður hafði tekið til starfa árið 1958, og gat stutt helstu verkefni árin 1958 og 1959, en síðan ekki aftur fyrr en 1963. Þar kann að hafa ráðið nokkru, að framlagið til stofnunarinnar var tvöfaldað á fjálögum ársins 1959. Hækkunin gerði það að verkum, að hægt var að ráða rafmagnsverkfræðinginn Örn Garðarsson að stofnuninni og einnig sérstakan aðstoðarmann, Eirík Kristinsson rafvirkja (1941-1983). Jafnframt kom fyrsti sumarstúdentinn, Þorstein J. Halldórsson menntaskólanemi, fljótlega til starfa.

Frekari stuðningur kom frá Alþjóða-kjarnorkumálastofnuninni (IAEA), sem veitti Eðlisfræðistofnuninni veglegan styrk til að kaupa massagreini árið 1960 og kosta uppsetningu hans.

Eðlisfræðistofnunin átti sér ekki fastan samastað fyrstu átta árin og það var ekki fyrr en með tilkomu Raunvísindastofnunar Háskólans árið 1966, sem húsnæðismálin komust í viðunandi horf.

Háskólasvæðið undir lok sjöunda áratugs tuttugustu aldar. Eðlisfræðistofnun Háskólans var fyrst til húsa í kjallara Aðalbyggingar Háskólans (1957-1959), síðan á neðstu hæð Þjóðminjasafnsins (1959-1963) og fékk svo viðbótaraðstöðu í Gömlu loftskeytastöðinni (1963- 1966). Einnig mun stofnunin hafa fengið aðstöðu í Íþróttahúsinu um tíma. Eðlisfræðistofnunin var lögð niður um leið og Raunvísindastofnun Háskólans hóf starfsemi árið 1966 og við verkefnum hennar tóku Eðlisfræðistofa og Jarðeðlisfræðistofa.

Hér er einnig rétt að geta þess, að strax á frumbýlisárum Eðlisfræðistofnunarinnar hóf Vestur-Íslendingurinn Eggert V. Briem að styðja rannsóknarstarfsemina. Fyrst færði hann stofnuninni sveiflusjá og bifreið að gjöf, en síðan áttu margar aðrar gjafir eftir að fylgja í kjölfarið, bæði tæki og styrkir.

Eggert V. Briem (1895-1996) ásamt Þorbirni Sigurgeirssyni á eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans árið 1972. Myndin var tekin í tilefni þess, að Eggert hafði þá gefið stofunni tæki til Mössbauermælinga og svokallaðan fjölrásagreini. Frekari upplýsingar um gjafir þessa merka velgjörðamanns stofnunarinnar má finna hér: Eggertssjóður.

 

***

Eftirmáli A:  Risö og NORDITA, tvær mikilvægar rannsóknarstofnanir í eðlisfræði

Áður en Páll Theodórsson hóf störf við geislarannsóknarstofuna sumarið 1958, hafði hann unnið fyrir dönsku Kjarnorkumálanefndina (Atomenergikommisionen) á Risö, allt frá því hann lauk magisterprófi við Kaupmannahafnarháskóla árið 1955. Aðalkennari hans við skólann og framkvæmdastjóri nefndarinnar, J.C. Jacobsen (sjá kafla IVa) hafði ráðið hann til rannsókna á umhverfisgeislavirkni á staðnum. Að auki hafði Páll unnið þar að tækjasmíði, sem kom að góðum notum, þegar heim kom.

Eðlisfræðingarnir Ari Brynjólfsson (1926-2013) til vinstri og Páll Theodórsson (1928-2017).

Annar íslenskur eðlisfræðingur, Ari Brynjólfsson, sem lokið hafði magisterprófi frá Kaupmannahafnarháskóla ári á undan Páli, starfaði einnig á Risö við góðan orðstír á árunum 1957 til 1965. Þar vann hann aðallega við rannsóknir á geislun matvæla. Hann fluttist alfarinn til Bandaríkjanna árið 1965, þar sem hann hélt áfram að stunda svipaðar athuganir. Á árunum 1954-55 vann hann hins vegar að segulmælingum á Íslandi í samvinnu við Þorbjörn Sigurgeirsson, eins og síðar verður komið að.

Að minnsta kosti einn Íslendingur til viðbótar hlaut þjálfun á Risö á þessum árum. Það var Bragi Árnason efnafræðingur, sem á árinu 1962 lærði þar að vinna með geislavirkar samsætur. Að dvöl lokinni sneri hann aftur heim, þar sem hann hóf ítarlegar grunnvatnsrannsóknir við Eðlisfræðistofnun Háskólans í samvinnu við Þorbjörn, Pál og fleiri.

Nokkur orð um kjarnorkurannsóknarstöðina á Risö

Fljótlega eftir ræðu Eisenhowers á allsherþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 1953, tóku Danir að undirbúa eigin rannsóknir á friðsamlegri nýtingu kjarnorkunnar.

Fram komu hugmyndir um stofnun danskrar kjarnorkunefndar og danskrar kjarnorkurannsóknarstöðvar og ekki leið á löngu þar til þær urðu að veruleika.

Til gamans má nefna það hér, að Magnús Magnússon getur þess í minningargrein um Þorbjörn Sigurgeirsson (miðdálkur, bls. 64), að á Genfarráðstefnunni í ágúst 1955 hafi danska sendinefndin boðið Þorbirni út að borða. Tilgangurinn var sá, að fá hann til starfa við hina fyrirhuguðu kjarnorkurannsóknarstöð Dana. Ljóst er af þróun mála hér á landi, að Þorbjörn þáði ekki boðið.

Danska Kjarnorkunefndin (Atomenergikommissionen) var formlega sett á laggirnar í desember 1955. Jafnframt ákvað danska ríkisstjórnin að reist skyldi sérstök kjarnorkurannsóknarstöð (Atomenergikommisionens Forsøgsanlæg Risø) við Risö.

Niels Bohr var aðalhvatamaðurinn að stofnun kjarnorkustöðvarinnar á Risö. Hann var jafnframt formaður dönsku Kjarnorkunefndarinnar. Myndin sýnir hann kanna framgang byggingaframkvæmda á Risö í nóvember 1957. Hér má svo sjá myndband af vígslu stöðvarinnar 1958.

Í Danmörku var einnig önnur stofnun, sem átti eftir að hafa veruleg áhrif á þróun eðlisfræðirannsókna við háskóla á Norðurlöndum, þar á meðal Íslandi. Það var Norræna stofnunin í kennilegri atómeðlisfræði (NORDITA).

 

Nokkur orð um NORDITA

Eins og sag var frá í kafla IVb, var kennilegur starfshópur CERN til húsa við Eðlisfræðistofnun Kaupmannahafnarháskóla árin 1952 til 1957. Árið 1955 var ákveðið að hópurinn skyldi fluttur til Genfar innan tveggja ára og var starfsemi CERN í Kaupmannahöfn endanlega lögð niður í septemberlok 1957.  Viðbrögðin létu ekki á sér standa, því strax í ársbyrjun 1956 stóð Niels Bohr fyrir því, að kallaður var saman hópur norrænna eðlisfræðinga og ráðamanna á fund í Kaupmannahöfn til að ræða möguleika á norrænni stofnun í kennilegri atómeðlisfræði. Þorbjörn Sigurgeirsson sat fundinn fyrir hönd Íslands. Til að gera langa sögu stutta varð árangur fundarins sá að Norðurlandaráð samþykkti í febrúar 1957, að slík stofnun skyldi sett á fót og að aðsetur hennar yrði í Kaupmannahöfn. NORDITA tók svo til starfa 1. október 1957.

Þátttakendur á einum mikilvægasta undirbúningsfundinum að stofnun NORDITA. Myndin var tekin í febrúar 1956 við Calsberg heiðurssbústaðinn í Kaupmannahöfn, þar sem Bohr-fjölskyldan bjó þá. – Fyrir framan tröppurnar eru frá vinstri: C. Møller og H. Wergeland. Á neðsta þrepinu: E. Laurila, S. Rozental, O. Klein, C. Thomsen, og G. Funke. Á næsta þrepi: E. Kinnunen, Niels Bohr, og S. Rosseland. Á efsta þrepinu og þar fyrir aftan: M. Jakobsson, I. WallerP. Jauho, Þorbjörn Sigurgeirsson, Aage Bohr, og E. Hylleraas (aftan við Niels Bohr). Á myndina vantar T. Gustafson. Ljósmynd: J. Woldbye.

Fyrsti framkvæmdastjóri stofnunarinnar var Christian Møller og fyrsti stjórnarformaður-inn Niels Bohr, enda sveif andi hans enn yfir vötnunum í Kaupmannahöfn. Bohr varð reyndar sjötíu og tveggja ára viku eftir að stofnunin tók til starfa og átti þá aðeins fimm ár efir ólifað.

Sérstakur starfshópur samdi reglugerð fyrir stofnunina og var og var hún samþykkt á stjórnarfundi í júní 1958. Sáttmáli um stofnunina var og samþykktur á þjóðþingum allra Norðurlandanna.

Þorbjörn Sigurgeirsson var fullrúi Íslands í stjórn NORDITA frá upphafi til 1972, þegar Magnús Magnússon tók við. Magnús hafði reyndar verið styrkþegi NORDITA á árunum 1958 til 1960 og unnið þar að rannsóknarverkefni í almennu afstæðiskenningunni í samvinnu vð Christian Møller. Næsti íslenski styrkþeginn kom ekki til NORDITA fyrr en 1965, en síðan þá er fjöldi þeirra kominn vel á annan tuginn. Fullyrða, má að í gegnum árin hafi þessi norræna stofnun veitt kennilegum eðlisfræðingum á Íslandi ómetanlegan stuðning.

Árið 2007 var NORDITA flutt til Stokkhólms og eðli stofnunarinnar breytt í samræmi við þróunina á alþjóðavettvangi.  Allar Norðurlandaþjóðirnar eru enn fullgildir aðilar.

 

***

Eftirmáli B:  Örstutt yfirlit um segulsviðsrannsóknir Þorbjörns Sigurgeirssonar og samstarfsmanna hans 1953 – 1958

Í  kafla IVb var á það minnst, að áhugi Þorbjörns á segulmælingum mun fyrst hafa vaknað á árunum 1950 til 1951, þegar hann sem forstöðumaður Rannsóknarráðs ríkisins, fylgdist með athugunum Jan Hospers á stefnu segulsviðs í misjafnlega gömlum bergsýnum hér á landi. Mælingar Hospers bentu sterklega til þess, að segulsvið jarðar hefði oft snúist við á þeim tíma, sem Ísland var að myndast.

Þessi áhugi Þorbjörns gerði það að verkum, að samhliða hraðlarannsóknum við kennilegu deildina hjá CERN í Kaupmannahöfn, skólaárið 1952 til 1953 (sjá kafla IVb), lagði hann fyrstu drög að hinum þekktu segulsviðsrannsóknunum sínum hér á landi. Eflaust hefur það aukið áhuga hans enn frekar, að haustið 1952 var ákveðið að halda 18 mánaða langt alþjóðlegt jarðeðlisfræðiár á árunum 1957-58. Undirbúningur hófst fljótlega um heim allan, meðal annars hjá dönsku veðurstofunni, þar sem rannsóknir á jarðsegulsviðinu og norðurljósum höfðu lengi verið stundaðar. Stofnunin hafði jafnframt lengi staðið að smíði nákvæmra segulmælingatækja, sem notuð voru víða um heim. Meðal verkefna, sem veðurstofan tók að sér á jarðeðlisfræðiárinu, var að halda utan um segulmælingagögn fyrir alþjóðasamfélagið.

Eftir að hafa ráðfært sig við vísindamenn hjá dönsku veðurstofunni sendi Þorbjörn bréf til Rannsóknarráðs ríkisins í apríl 1953, þar sem hann setti fram nokkrar tillögur um segulmælingar á Íslandi:

Hluti bréfs Þorbjörns til Rannsóknarráðs 22. apríl 1953. Listinn er fengin að láni úr grein Páls Theodórssonar um Þorbjörn frá 1989, bls. 23.

Að auki fékk Þorbjörn að láni hjá dönsku veðurstofunni ýmis tæki og tól, þar á meðal næman segulmæli til að finna heppilegan stað fyrir segulmælingastöð í nágrenni Reykjavíkur. Þá fékk hann því til leiðar komið, að ungur íslenskur eðlisfræðinemi við Kaupmannahafnarháskóla, áðurnefndur Ari Brynjólfsson, fékk það sem lokaverkefni til meistaraprófs 1954, að smíða sérstakan spunasegulmæli byggðan á hugmyndum Þorbjörns, sem einnig mun hafa leiðbeint Ara við verkefnið.

Spunasegulmælir þeirra Ara Brynjólfssonar og Þorbjörns Sigurgeirssonar frá 1954. Mynd og texti úr grein Leós Kristjánssonar frá 1982 (bls. 95).

Fljótlega eftir að heim var komið, haustið 1953, hóf Þorbjörn að leita leiða til að fjármagna smíði og rekstur „sjálfritandi“ segulmælingastöðvar. Það tókst og var stöðinni síðar valinn staður í Leirvogstungu. Meira um það hér á eftir.

Haustið 1953 hóf Þorbjörn jafnframt viðamiklar bergsegulmælingar í samvinnu við fyrrum kennara sinn, stjörnufræðinginn og jarðeðlisfræðinginn Trausta Einarsson. Til að ákvarða segulstefnu í hraunlögum, var þeirra helsta mælitæki einfaldur áttaviti.

Ari Brynjólfsson kom heim, strax að loknu magisterprófi haustið 1954 og vann undir stjórn Þorbjörns hjá Rannsóknarráði ríkisins um tíma, meðal annars að rannsóknum á segulstefnu í nútímahraunum. Árið 1955 fór hann til Göttingen á styrk frá Alexander von Humboldt stofnuninni og vann þar úr segulmælingagögnum sínum. Eftir Þýskalandsdvölina, hóf hann svo störf við kjarnorkurannsóknarstöðina á Risö árið 1957, eins og áður var minnst á.

Athuganir þeirra Þorbjörns, Trausta og Ara á umpólun jarðsegulsviðsins vöktu talsverða athygli á sínum tíma, og eru þær nú taldar eitt merkasta framlagið til slíkra rannsókna á sjötta áratugi tuttugustu aldar.

 

Alþjóða-jarðeðlisfræðiárið 1957-58

Alþjóða-jarðeðlisfræðiárið 1957-58 hófst formlega 1. júlí 1957 og því lauk á gamlársdag 1958. Íslendingar voru meðal þátttakenda eins og lesa má um í ágætu yfirliti Eysteins Tryggvasonar frá 1959.

Sögulega séð, var áhrifamesti atburður jarðeðlisfræðiársins án efa geimskot Sovétmanna hinn 4. október 1957. Færsluhöfundur, sem þá var tíu ára gamall, man vel eftir merkjasendingunum frá Spútnik, sem Útvarp Reykjavík sendi út með fyrstu fréttum af geimskotinu. Geimöld var þar með hafin, með tilheyrandi geimferðakapphlaupi, eins anga hins alltumlykjandi kalda stríðs.

Fyrsta gervitunglið, Спу́тник 1 (Spútnik 1).

 

Segulmælingastöðin í Leirvogi

Á sínum lagði Þorbjörn Sigurgeirsson mikla áherslu á það, að hin „sjálfritandi“ segulmælingastöð Rannsóknarráðs kæmist í gagnið fyrir yfirvofandi jarðeðlisfræðiár. Það tókst, því byrjað var að reisa fyrsta stöðvarhúsið 1956, og fyrstu mælingarnar munu hafa farið fram um mánaðamótin júlí-ágúst 1957.

Þorbjörn (til vinstri) ásamt óþekktum manni (blaðamanni?) fyrir framan fyrsta stöðvarhús segulmælingastöðvarinnar í Leirvogi árið 1957. Mynd úr viðtali við Þorbjörn, 25. ágúst 1957.

Trausti Einarsson (til vinstri) og Þorbjörn Sigurgeirsson við segulmæli í tjaldi við hlið fyrsta stöðvarhússins í Leirvogi. Myndin birtist í viðtali við Þorbjörn, 25. ágúst 1957.

Eins og þegar hefur komið fram, var Þorbjörn skipaður prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands, 1. september 1957. Þegar Eðlisfræðistofnun Háskólans tók til starfa í ársbyrjun 1958, fluttist segulmælingastöðin þangað frá Rannsóknarráði ríkisins. Þorbjörn hafði umsjón með stöðinni til 1963, þegar Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur tók við. Árið 1966 varð Eðlisfræðistofnunin svo hluti af Raunvísindastofnun Háskólans og segulmælingastöðin fylgdi með. Hún starfar enn, og því má með rétti segja, að hún sé elsti hluti Raunvísindastofnunar.

Frekari upplýsingar um segulmælingastöðina í Leirvogi og sögu hennar má finna í eftirfarandi heimildum:

 

***

Heimildaskrár

I. Ýmsar ritsmíðar um sögu Eðlisfræðistofnunar og Raunvísindastofnunar

 

II.Nokkrar blaðagreinar tengdar starfsemi Eðlisfræðistofnunarinnar 1958-1966

 

III. Nokkrar blaðagreinar um aðdragandann að Raunvísindastofnun Háskólans 1961-1966

Til baka í efnisyfirlitið

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Efnafræði, Stærðfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta og fyrsta öldin, Tuttugasta öldin. Bókamerkja beinan tengil.