NORDITA: Saga Norrænu stofnunarinnar í kennilegri eðlisfræði fyrstu 50 árin

Út er komin bókin Nordita - The Copenhagen Years: A Scrapbook, í ritstjón þeirra Helle Kiilerich, Christophers Pethick, Bens Mottelson og Einars Guðmundssonar. Bókin er 330 síður í stærðinni A4.

Auk ítarlegra inngangsgreina um aðdragandann að stofnun Nordita árið 1957 og þróun stofnunarinnar næstu 50 árin, inniheldur verkið ýmsar skrár og um hundrað stuttar ritgerðir um starfsemina á Kaupmannahafnarárunum. Þar halda á penna ýmsir starfsmenn og gestir, styrkþegar og hollvinir Nordita. Meðal höfunda eru Íslendingarnir Magnús Magnússon, Einar Guðmundsson, Þórður Jónsson, Gunnlaugur Björnsson, Ragnheiður Guðmundsdóttir og Vésteinn Þórsson. Fjöldi mynda prýðir bókina, meðal annars þessar tvær:

Þátttakendur á einum mikilvægasta undirbúningsfundinum að stofnun Nordita. Myndin var tekin í febrúar 1956 við Calsberg heiðurssbústaðinn í Kaupmannahöfn, þar sem Bohr-fjölskyldan bjó þá. – Fyrir framan tröppurnar eru frá vinstri: C. Møller og H. Wergeland. Á neðsta þrepinu: E. Laurila, S. Rozental, O. Klein, C. Thomsen, og G. Funke. Á næsta þrepi: E. Kinnunen, Niels Bohr, og S. Rosseland. Á efsta þrepinu og þar fyrir aftan: M. Jakobsson, I. WallerP. Jauho, Þorbjörn Sigurgeirsson, Aage Bohr, og E. Hylleraas (aftan við Niels Bohr). Á myndina vantar T. Gustafson. Ljósmynd: J. Woldbye.

Stjórn Nordita í Kaupmannahöfn vorið 2003, fjórum árum fyrir flutninginn til Stokkhólms. Sitjandi frá vinstri: G. Einevoll, P. Minnhagen, A. Andersen, og M. Manninen. Standandi frá vinstri: H. Scheibel (lögfræðilegur ráðgjafi stjórnarinnar), M. Larsson, K. Langanke, J. Hertz, Lárus Thorlacius, C. Jarlskog, P. H. Damgaard, C. Lütken og Gunnlaugur Björnsson.

Bókin um Nordita er mikilvægt framlag til sögu kennilegrar eðlisfræði á Norðurlöndum á árunum frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar til upphafs tuttugustu og fyrstu aldar.

Allir, sem lagt hafa til efni í bókina, fá sent eintak. Jafnframt er stefnt að því að birta verkið fljótlega á vef Nordita í Stokkhólmi. Á meðan á biðinni stendur, getur áhugafólk svalað fróðleiksþorstanum með því að kanna eftirfarandi heimildir:

 


 

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Stærðfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta og fyrsta öldin, Tuttugasta öldin. Bókamerkja beinan tengil.