Í tilefni af sextíu ára afmæli NORDITA

Í þessum mánuði eru liðin sextíu ár frá því Nordisk Institut for Teoretisk Atomfysik (NORDITA, nú oftast ritað Nordita) hóf starfsemi sína í Kaupmannahöfn. Íslendingar voru með strax frá upphafi, eins og nánar verður sagt frá hér á eftir. Eftir glæsilega fimmtíu ára dvöl í Kaupmannahöfn var stofnunin flutt til Stokkhólms, af ástæðum sem vikið verður að síðar. Þar starfar hún enn af fullum krafti. Í þessari færslu verður fyrst og fremst rætt um Kaupmannahafnarárin og íslensku aðildina, þótt minnst verði á Stokkhólmsárin rétt í lokin.

Aðdragandinn að stofnun Nordita og starfsemin í Kaupmannahöfn

Niels Bohr, fyrsti stjórnarformaður Nordita, fyrir framan Eðlisfræðistofnun Háskólans (UITF) á Blegdamsvej. Hún er nú við hann kennd og kölluð Niels Bohr Institutet (NBI). Myndin er tekin 1957, árið sem Nordita hóf starfsemi í húsakynnum UITF. Árið 1964 flutti Nordita svo inn í húsið, sem er lengst til vinstri á myndinni og var þar til 2006. Það hýsti áður  Stærðfræðistofnun Kaupmannahafnarháskóla. Konan á myndinni er óþekkt.

Norditahúsið  í Kaupmannahöfn (sjá kort), skömmu áður en stofnunin var flutt til Stokkhólms árið 2007.

Saga Nordita í Kaupmannahöfn hefur ekki enn verið skráð í heild sinni. Hér má þó finna nýlegt og stutt yfirlit. Þeim, sem vilja kynna sér atburðarásina í meiri smáatriðum, má til dæmis benda á ítarlega umfjöllun um aðdragandann, hér og hér. Jafnframt eru ýmsir áhugaverðir þættir úr 50 ára sögu stofnunarinnar í Kaupmannahöfn til umræðu í þessum greinum frá 1962, 19681983, 1996 og 2008.

Skömmu eftir flutninginn til Stokkhólms árið 2007, mynduðu nokkrir velunnarar Nordita lítinn óformlegan hóp til að sjá til þess, að haldið yrði utan um sögu stofnunarinnar í Kaupmannahöfn. Þótt hægt hafi gengið, er þetta nú orðið að sérstöku verkefni innan skjalasafns Niels Bohr stofnunarinnar. Söguverkefninu stýrir Helle Kiilerich, en henni til aðstoðar eru Christopher Pethick (jafnan kallaður Chris), Ben Mottelson og undirritaður.

Eins og nafnið gefur til kynna hafa rannsóknarverkefni við Nordita frá upphafi verið á sviði kennilegrar eðlisfræði. Á íslensku var stofnunin í fyrstu kölluð Atómvísindastofnun Norðurlanda, en í byrjun tíunda áratugarins var nafninu breytt í Norrænu stofnunina í kennilegri eðlisfræði. Það gerðist samhliða breytingu á danska nafninu í Nordisk Institut for Teoretisk Fysik (skammstöfuninni (vörumerkinu) Nordita var þó ekki breytt).

Svona vinna kennilegir eðlisfræðingar, þegar þeir sitja ekki bognir yfir útreikningum eða fyrir framan tölvuskjá. Myndin er tekin á ráðstefnu hjá Nordita snemma á níunda áratugnum. Ég ber ekki kennsl á manninn lengst til vinstri, en næstur í röðinni er Matts Roos, þá kemur Cecillia Jarlskog og loks Finn Ravndal. Þessi þrjú hafa öll haft sterk tengsl við Nordita í gegnum tíðina.

Það væri óðs manns æði að reyna að lýsa þeim aragrúa verkefna sem unnið var að hjá Nordita í Kaupmannahöfn, lýsa starfseminni þar í heild, eða telja upp alla þá vísindamenn sem komu við sögu (sjá þó hið ágæta yfirlit efir Ben Mottelson og Chris Pethick, sem nær fram til ársins 1996).  Í þessari færslu mun ég því láta nægja að segja stuttlega frá persónulegri reynslu minni af Nordita og starfinu þar.

Ad astra

Kynni mín af Nordita hófust fyrir alvöru haustið 1975, þegar ég tók þátt í tveggja vikna norrænum skóla í stjarneðlisfræði, Astrophysics Novemberfest, sem prófessorarnir  Chris Pethick og Bengt Strömgren stóðu að í Kaupmannahöfn.  Þetta var aðeins hin fyrsta af ótalmörgum ráðstefnum, skólum og vinnubúðum, sem ég átti eftir að sækja á vegum Nordita næstu þrjá áratugina eða svo.

Þessar tvær vikur í nóvember 1975 höfðu vægast sagt afgerandi áhrif á líf mitt. Af samræðum við norrænu skólafélagana og alþjóðlegt kennaraliðið gerði ég mér í fyrsta sinn grein fyrir því, hversu stóran skerf Norðurlöndin höfðu lagt til stjarnvísinda í gegnum aldirnar. Jafnframt varð mér ljóst, hversu mikið starf var enn óunnið, ekki síst á Íslandi. Það var þá, sem ég ákvað að leggja fyrir mig stjarneðlisfræði og setti mér það markmið að stuðla að uppbyggingu stjarnvísinda á Íslandi.

Með góðum stuðningi þeirra Magnúsar Magnússonar prófessors við Háskóla Íslands og Leonards Parker, leiðbeinanda mínum í meistaranámi, komst ég að sem styrkþegi (d. stipendiat; e. fellow) í stjarneðlisfræði við Nordita haustið 1978. Það var gæfa mín, að yngsti prófessorinn á staðnum, Chris Pethick, bauð mér strax að vinna með sér og hið sama gerði þáverandi aðstoðarprófessor í stjarneðlisfræði, Richard Epstein. Ég var einnig svo heppinn, að áður en ég fór að vinna fyrir alvöru með þeim Chris og Richard, tókst mér að ljúka við verkefni um áhrif fiseinda á gerð nýfæddra nifteindastjarna í samvinnu við J. Robert Buchler, einn af gestum Nordita, og fá niðurstöðurnar gefnar út.

Magnús Magnússon og Chris Pethick í Kaupmannahöfn vorið eða sumarið 1981. Chris hefur skrifað greinar með fleiri íslenskum eðlisfræðingum en nokkur annar af prófessorum Nordita. Þessir meðhöfundar hans eru: Egill Egilsson, Einar H. Guðmundsson, Jakob Yngvason, Vésteinn Þórsson og Örnólfur E. Rögnvaldsson.

Vinstra megin má sjá Richard Epstein og Chris Pethick, helstu samstarfsmenn mína við Nordita á árunum í kringum 1980. Þeir sitja sitt hvoru megin við Bette, eiginkonu Richards, sem heldur á kornungu barni þeirra hjóna (Rebekah). Myndin til hægri er frá sumrinu 1982. Hún sýnir einn af gestum Nordita sitja sveittan yfir útreikningum á varmafræðilegum eiginleikum nifteindastjarna. Framar má sjá Höllu Kristínu Einarsdóttur, verðandi kvikmyndagerðarkonu, sinna öðrum áhugaverðum verkefnum.

Til gamans sýni ég hér mynd af fólkinu frá Nordita og NBI sem tók á móti mér, þegar ég byrjaði sem styrkþegi á Blegdamsvej 17, haustið 1978:

Myndina má stækka með því að smella hér.  Hún sýnir meirihluta starfsmanna og gesta Nordita og NBI haustið 1978.   Fólk tengt Nordita: Sitjandi í fremstu röð frá vinstri eru Alan Luther (prófessor) nr. 4, Bengt Strömgren (prófessor og fyrrverandi forstöðumaður) nr. 5,  Aage Winther (síðar stjórnarformaður) nr. 7, Ben Mottelson (prófessor og síðar forstöðumaður) nr. 9, Aage Bohr (forstöðumaður og fyrrum stjórnarformaður) nr. 11, Elsebeth Vinther (ritari) nr. 12 og Nils Robert Nilsson (skrifstofustjóri) nr. 17.  Standandi í 2. röð eru Inger Söndergaad (ritari) nr. 1, Grete Möller Nielsen (ritari) nr. 2, Einar H. Guðmundsson (styrkþegi og síðar fulltrúi Íslands í stjórn) nr. 6, J.R. Buchler (gestur) nr. 7, Richard Epstein (aðstoðarprófessor) nr. 8, Chris Pethick (prófessor og síðar forstöðumaður) nr. 9, Petter Minnhagen (styrkþegi og síðar stjórnarformaður og forstöðumaður) nr. 13, Bengt Friman (styrkþegi) nr. 14, Helle Kiilerich (ritari og síðar skrifstofustjóri) nr. 15 og Hanne Bergen (ritari) nr. 16. Í 3. röð er Vivian Clifford (ritari) lengst til hægri. Í 4. röð er Björn S. Nilsson (kerfisstjóri) nr. 15 frá vinstri. Í næst öftustu röðinni er Jon Leinaas (styrkþegi) nr. 14 og í þeirri öftustu Jörgen Randrup (styrkþegi) nr. 8 og Poul Hoyer (styrkþegi og síðar forstöðumaður) nr. 16.  Þeir, sem ekki hafa verið nafngreindir, tengjast flestir NBI með einum eða öðrum hætti, þar á meðal nokkrir fyrrverandi styrkþegar Nordita, t.d. Jens Bang nr. 4 frá hægri í 3. röð, Jörgen Kalckar nr. 3 frá vinstri í 4. röð og Niels Brene nr. 4 frá hægri í öftustu röð. Knútur Árnason, íslenskur nemi við NBI, stendur lengst til hægri í 4. röð. Nokkrir starfsmenn Nordita voru fjarverandi myndatökuna svo sem Gerry Brown (prófessor), Jim Hamilton (prófessor og síðar forstöðumaður), Paolo Di Vecchia (aðstoðarprófessor og síðar prófessor), Jussi Timonen (styrkþegi) og Claas  Fransson (styrkþegi).

Á næstu þremur árum vann ég að viðamiklu rannsóknarverkefni með þeim Chris og Richard um varmafræðilega eiginleika ósegulmagnaðra nifteindastjarna. Því lauk með nokkrum útgefnum greinum og doktorsritgerð, sem ég varði við Háskólann í Kaupmannahöfn haustið 1981.

Að þeim Chris og Richard frátöldum, voru það tveir af vísindamönnum Nordita sem höfðu hvað mest áhrif á viðhorf mín til vísinda og vísindarannsókna. Það voru þeir Gerry Brown og Ben Mottelson, báðir merkir eðlisfræðingar. Einnig eru ýmsir langtímagestir stofnunarinnar mér ógleymanlegir, svo sem Hans Bethe, Gordon Baym, David Schramm, Roger Blandford, Thomas Gold, Katsuhiko SatoLeon Mestel, Charles Alcock, Jesse Greenstein, Alan Lightman og Martin Rees.  Þá er skrifstofustjóri Nordita, Nils Robert Nilsson, mér mjög minnisstæður. Ég hef stundum sagt að styrkþegaárin þrjú á Nordita hafi verið bestu ár ævi minnar.

Eftir heimkomuna til Íslands haustið 1981 tóku við ýmis kennslustörf, en árið 1982 varð ég sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans. Samvinna við Norditamenn, einkum Chris, hélt þó áfram af fullum krafti næstu árin og tengdist aðallega rannsóknum á efni í gríðarlega sterku segulsviði, eins og því sem finna má í nifteindastjörnum. Eftir nokkur ár bættist Jakob Yngvason prófessor í rannsóknarhópinn og síðan smám saman stúdentarnir Örnólfur E. Rögnvaldsson, Aðalbjörn Þórólfsson, Kristinn Johnsen og Óskar Halldórsson Hólm. Þessu fylgdu tíðar heimsóknir til Nordita og eins heimsótti Chris okkur nokkrum sinnum.

Jakob Yngvason heldur fyrirlestur.

Jafnhliða þessum rannsóknum var ég að vinna að verkefnum í heimsfræði, meðal annars í samvinnu við fyrrverandi nemendur mína, Gunnlaug Björnsson og Örnólf E. Rögnvaldsson. Eins og ég, höfðu þeir báðir sterkar tengingar við Nordita, einkum þó Gunnlaugur.

Haustið 1996 fór ég einu sinni sem oftar í rannsóknarleyfi til Nordita og vorið 1997 starfaði ég þar sem gistiprófessor. Í október 1996 var orðið ljóst að Íslendingar myndu innan tíðar gerast þáttakendur í samstarfinu um Norræna stjörnusjónaukann (NOT) á La Palma, þótt enn ætti eftir að ganga frá mörgum formsatriðum. Ég hafði fljótlega samband við einn af styrkþegum Nordita á staðnum, Jens Hjorth,  sem síðar átti eftir að hafa mikil áhrif á þróun stjarnvísinda í Danmörku. Ég óskaði eftir aðstoð hans við að finna verðugt viðfangsefni til stjarnmælinga með NOT og hjálp við að semja ásættanlega umsókn til úthlutunarnefndar sjónaukans. Jens brást drengilega við og aðstoð hans reyndist ómetanleg. Þannig varð fyrsta íslenska umsóknin um rannsóknir (á þyngdarlinsum) með sjónaukanum til undir verndarvæng Nordita á Blegdamsvej. Hún var samþykkt og fyrstu íslensku mælingarnar með NOT urðu að veruleika í október 1997. Þess má einnig geta, að einn af þáverandi prófessorum Nordita, Bernard Pagel, var dyggur stuðningsmaður okkar Íslendinga í öllu því sem sneri að NOT-aðildinni.

Jens Hjorth á styrkþegaárum hans á Nordita.

Í lok febrúar 1997 bárust fréttir af því, að fundist hefðu glæður eftir  gammablossa. Þrátt fyrir, eða kannski einmitt vegna þess að hann var enn styrkþegi Nordita og án fastrar stöðu, tók Jens þá ákvörðun að hella sér út í rannsóknir á glæðum gammablossa. Eftir að hafa rætt við hann um mögulega þátttöku íslenskra stjarnvísindamanna í slíku verkefni, gekk ég á fund helsta gammablossasérfræðings Dana á þeim tíma, Holgers Pedersen. Ásamt Jens drógum við tveir upp áætlun um það, hvernig best væri að tryggja þátttöku Íslendinga á þessum nýja og spennandi vettvangi. Sú áætlun gekk eftir, eins og lesa má um hér. Frá og með þessum tíma hefur Jens Hjorth verið einn helsti samstarfsmaður íslenskra stjarnvísindamanna.

Þau atriði, sem ég hef rætt hér, sýna vel hversu mikinn stuðning stjarneðlisfræði á Íslandi hefur haft af aðild Íslands að Nordita og kynnum af einstaklingum sem þar hafa starfað til lengri eða skemmri tíma. Mönnum eins og Chris Pethick og Jens Hjorth. Óvíst er, hver staða greinarinnar væri á Íslandi í dag, ef Nordita hefði ekki komið þar við sögu.

Frá síðustu árum Nordita í Kaupmannahöfn

Eitt af því sem vísindamenn gleyma stundum að nefna, þegar minnst er á gamla tíma, er sá stuðningur sem þeir hafa notið í starfi sínu hjá riturum og öðru skrifstofufólki. Skrifstofa Nordita á Blegdamsvej var svo sannarlega hjartað í daglegum rekstri stofnunarinnar og án ritaranna hefði verið erfitt að lifa.  Ég hef orðið var við það í gegnum tíðina, að bæði starfsmenn og gestir, sem og makar þeirra, minnast skrifstofufólksins á Nordita með hlýju og þakklæti, jafnvel áratugum eftir dvölina þar.

Oft var glatt á hjalla á kaffistofunni á Blegdamsvej. Hér má sjá fjóra af riturum Nordita örfáum árum áður en starfsemin var lögð niður í Kaupmannahöfn. Frá vinstri eru Ellen Pedersen, Anna-Maria Rey, Helle Kiilerich skrifstofustjóri og Hanne Bergen.

Fundur í stjórn Nordita skömmu fyrir flutninginn til Stokkhólms. Þarna standa m.a. fulltrúi Íslands, Lárus Thorlacius (5. frá vinstri) og varamaður hans, Gunnlaugur Björnsson (lengst til hægri).

Ástæða þess að starfsemi Nordita lagðist af í Kaupmannahöfn var sú, að árið 2003 ákvað Norræna ráðherranefndin, sem frá upphafi hafði séð um fjármögnun Nordita, að gera örlagaríka breytingu. Fjárframlög ráðsins til allra norrænna stofnana yrðu helminguð í áföngum næstu fjögur árin. Norrænir háskólar og aðrir skyldu taka við keflinu og fjármagna það, sem uppá vantaði, til þess að stofnanirnar gætu haldið áfram því sem næst óbreyttri starfsemi. Eftir miklar umræður, meðal annars í öllum rannsóknarráðum Norðurlandanna, var endanlega ákveðið árið 2006, að Nordita yrði flutt til AlbaNova-svæðisins í Stokkhólmi og sett þar undir verndarvæng Konunglega Tækniháskólans (KTH) og Stokkhólmsháskóla (SU). Þessi ákvörðun mæltist illa fyrir meðal margra norrænna eðlisfræðinga, ekki síst í Danmörku, og varð meðal annars tilefni umræðu í fjölmiðlum (sjá t.d. hér). En ekki varð aftur snúið.

Íslenska aðildin að Nordita

Hinn 5. febrúar 1959 birtist eftirfarandi frétt á baksíðu Alþýðublaðsins:

Þetta mun vera fyrsta fréttin sem birtist opinberlega hér á landi um aðild Íslands að Nordita Á vef alþingis má svo finna ræður þeirra Benediks Gröndal og Gylfa Þ. Gíslasonar af þessu tilefni.

Þótt formleg samþykkt alþingis hafi fyrst legið fyrir í ársbyrjun 1959, höfðu Íslendingar átt fulla aðkomu að málinu, að minnsta kosti frá 1956. Í grein um tilurð Nordita segir Thorsten Gustafson meðal annars, að á undirbúningsfundi í Kaupmannahöfn í janúar 1956 hafi fulltrúi Íslands, Þorbjörn Sigurgeirsson, tekið fram að sameiginleg stofnun og skipulögð samvinna á þessu sviði væri Íslendingum ákaflega mikilvæg (bls. 12). Einnig getur Gustafson þess, að fjárlaganefnd Norðurlandaráðs, þar sem Emil Jónsson var fulltrúi Íslands, hafi lagt blessun sína yfir tillöguna um stofnun Nordita, sem ráðið samþykkti svo í febrúar 1957 (bl. 14).

Þegar Nordita tók til starfa í október 1957 varð Þorbjörn Sigurgeirsson fyrsti fulltrúi Íslands í stjórn stofnunarinnar.

Þorbjörn Sigurgeirsson árið 1973.

Til fróðleiks er hér listi yfir alla fulltrúa Íslands í stjórn Nordita á árunum 1957 til 2006:

Þorbjörn Sigurgeirsson (1957-72),  Magnús Magnússon (1972-89; formaður stjórnar 1984-89),  Sigfús J. Johnsen (varamaður 1984-89), Einar H. Guðmundsson (1990-92),  Jakob Yngvason (1990-95), Þórður Jónsson (1993-98),  Viðar Guðmundsson (1996-97 og 1999 -2001; varamaður 1998; formaður stjórnar 1999-2000),  Lárus Thorlacius (2002-06; varamaður 1999-2001),  Gunnlaugur Björnsson (varamaður 2002-06).

Fyrstu árin eftir stofnun Nordita virðist lítið sem ekkert hafa verið fjallað opinberlega um stofnunina hér á landi. Öðru hverju birtust þó í fjölmiðlum auglýsingar, svipaðar þeirri sem hér er sýnd:

Margir ungir íslenskir eðlisfræðingar nýttu sér tækifærið og á Kaupmannahafnarárum Nordita voru þar samtals ekki færri en 13 íslenskir styrkþegar (d. stipendiater; e. fellows). Hér er ekki rúm til að fjalla um feril þeirra allra og því verð ég að láta nægja þennan lista með nöfnum þeirra og árunum sem þeir voru í Kaupmannahöfn: 

Magnús Magnússon (1958-60),  Þorvaldur Búason (1965-67),  Þorsteinn Vilhjálmsson (1967-69),  Egill Egilsson (1973-75),  Einar H. Guðmundsson (1978-81),  Þórður Jónsson (1982-83 og 86-87),  Gunnlaugur Björnsson (1986-89),  Guðmundur I. Þorbergsson (1987-89),   Ragnheiður Guðmundsdóttir (1988-89),  Vésteinn Þórsson (1992-95),  Kristinn Johnsen (1999-2000),  Örnólfur E. Rögnvaldsson (1999 til vors 2001), Kristján R. Kristjánsson (2005 til ársloka 2006; fluttist með Nordita til Stokkhólms og var þar til jan. 2008).

Til viðbótar má nefna, að margir Íslendingar sátu í fagnefndum Nordita á þessu tímabili. Ýmsir íslenskir eðlisfræðingar hafa einnig dvalið sem gestir við stofnunina í lengri eða skemmri tíma og unnið að rannsóknum, eða sótt ráðstefnur og skóla. Með atbeina stofnunarinnar hafa jafnframt margir íslenskir eðlisfræðingar tekið þátt í norrænum samstarfsverkefnum á ýmsum sérsviðum eðlisfræðinnar.

Gestir og ráðstefnur á Íslandi

Haustið 1972 kom Christian Möller prófessor og fyrrum forstöðumaður Nordita í heimsókn til Íslands og hélt hér þrjá fyrirlestra á vegum stofnunarinnar:

Eftir því sem ég best veit, var þetta fyrsta heimsókn erlends fræðimanns til Íslands á vegum Nordita. Síðan þá hefur stofnuninn greitt götu margra annarra erlendra eðlisfræðinga sem hingað hafa komið, ýmist til að halda fyrirlestra eða stunda rannsóknir. Þar hefur bæði verið um að ræða starfsmenn Nordita og aðra erlenda gesti.

Einna mesta athygli vakti heimssókn prófessors Igors Novikov vorið 1994. Hann hélt hér fjölsóttan fyrirlestur um tímaferðalög og viðtal við hann birtist í Morgunblaðinu.

Igor Novikov í Reykjavík vorið 1994.

Nordita hefur einnig styrkt ýmsar ráðstefnur og vinnufundi hér á landi í gegnum tíðina. Í því sambandi má til dæmis nefna alþjóðlega ráðstefnu á Laugarvatni sumarið 1997, sem fjallaði um gasflæði umhverfis svarthol. Þar héldu um stjórnvölinn þeir Gunnlaugur Björnsson og Marek Abramowicz, fyrrum aðstoðarprófessor við Nordita.

Tveir af gestunum á Laugarvatnsráðstefnunni 1997, þeir Mitchel Begelman frá Boulder (til vinstri) og Andrew Fabian frá Cambridge (í miðjunni) sjást hér við Gullfoss í fylgd Gunnlaugs Björnssonar (lengst til hægri).

Önnur alþjóðleg ráðstefna, styrkt að hluta til af Nordita, var haldin á Akureyri haustið 1999. Hún fjallaði um strengjafræði og skammtarúmfræði og skipuleggjendur voru þeir Lárus ThorlaciusÞórður Jónsson og Paolo Di Vecchia frá Nordita.

Þórður Jónsson ræðir við bandaríska eðlisfræðinginn Leonard Susskind á Akureyri haustið 1999.

 

Örfá orð um Nordita í Stokkhólmi

Íslendingar héldu áfram fullri þátttöku í Nordita eftir flutninginn til Stokkhólms árið 2007.  Fjölmargar breytingar voru gerðar á stofnuninni á hinum nýja stað. Ein var sú, að í stað styrkþega (stipendiater eða fellows) var nú farið að tala um nýdoktora (postdocs). Eins og áður sagði fluttist nýdoktorinn, Kristján R. Kristjánsson, með stofnuninni til Stokkhólms og var þar til 2008.

Norditahúsið í Stokkhólmi (sjá kort).

Íslendingurinn Þórður Jónsson var stjórnarformaður frá 2007 til 2013 og Lárus Thorlacius forstöðumaður á árunum 2008 til 2014. Fulltrúi Íslands í stjórninni 2007 til 2010 var Einar H. Guðmundsson. Varamaður hans, Gunnlaugur Björnsson, tók svo við 2010 og sat til 2016, þegar  Valentia Giangreco M. Puletti tók við keflinu (hún hafði áður verið nýdoktor við stofnunina 2009-11). Varamaður Gunnlaugs var Ivan Shelykh, en varamaður Valentínu er Sigurður Örn Stefánsson (nýdoktor við Nordita 2010-12). Að lokum skal þess getið, að stjarneðlisfræðingurinn Guðlaugur Jóhannesson er nú norrænn aðstoðarprófessor við Nordita.

Lárus Thorlacius, forstöðumaður Nordita í Stokkhólmi, heldur ræðu við stjórnarkvöldverð vorið 2014.  Að baki vínglassins sést Gunnlaugur Björnsson, stjórnarfulltrúi Íslands, hlusta af athygli.

Stjórn Nordita í Stokkhólmi árið 2017. Valentina G. M. Puletti er fjórða frá vinstri og Sigurður Örn Stefánsson stendur lengst til hægri.

Frekari upplýsingar um hið nýja Nordita í Stokkhólmi er að finna á heimasíðu stofnunarinnar og í ágætis kynningarbæklingum frá árunum 2012 og 2015.

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta öldin. Bókamerkja beinan tengil.